Hoppa yfir valmynd
25. maí 2006 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 25. maí 2006

Fundargerð

Ár 2006, fimmtudaginn 25. maí, var haldinn fundur í mannanafnanefnd. Fundurinn fór fram í Lögbergi, húsi lagadeildar Háskóla Íslands. Mætt voru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir, Baldur Sigurðsson og Ágústa Þorbergsdóttir.

Eftirfarandi mál voru tekin fyrir:

1.     Mál nr. 32/2006. 1

2.     Mál nr. 33/2006. 2

3.     Mál nr. 34/2006. 2

4.     Afgreiðsla án töluliðar3

5.     Mál nr. 35/2006. 4

6.     Mál nr. 36/2006. 4

7.     Mál nr. 37/2006. 5

8.     Mál nr. 38/2006. 5

9.     Mál nr. 39/2006. 6

10.       Mál nr. 40/2006. 6

11.       Mál nr. 41/2006. 8

12.       Mál nr. 42/2006. 8

13.       Mál nr. 43/2006. 9

 

 

1.           Mál nr. 32/2006

Eiginnafn:      Amlín, millinafn

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Til þess að mögulegt sé að samþykkja nýtt millinafn skal nafnið uppfylla eitthvert af skilyrðum 6. og 7. greinar laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sjá einnig Meginreglur um mannanöfn á vef dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Til að mögulegt sé að samþykkja nýtt almennt millinafn skal nafnið dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Almenn millinöfn eru öllum heimil og eru því skráð í mannanafnaskrá.

Þótt millinafn fullnægi ekki þeim reglum sem gilda um almenn millinöfn er það heimilt sem sérstakt millinafn þegar þannig stendur á að nákominn ættingi þess sem á að bera nafnið (eitthvert alsystkini, foreldri, afi eða amma) ber eða hefur borið það sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn. Enn fremur er leyfilegt að bera ættarnafn maka sem sérstakt millinafn eða eiginnafn foreldris í eignarfalli. Þeir sem bera ættarnafn mega breyta því í millinafn. Sérstök millinöfn eru ekki skráð í mannanafnaskrá.

Millinafnið Amlín er ekki dregið af íslenskum orðstofni og er ekki borið af nægilega mörgum skráðum einstaklingum í þjóðskrá til að uppfylla skilyrði um almenn millinöfn, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn nr. 46/1996. Hins vegar uppfyllir nafnið skilyrði 3. mgr. 6. greinar sömu laga þar sem móðir barnsins og ýmsir aðrir nánir ættingjar bera þetta nafn. Nafnið Amlín er því samþykkt sem sérstakt millinafn en verður ekki fært á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:


Beiðni um millinafnið Amlín er samþykkt sem sérstakt millinafn en verður ekki fært á mannanafnaskrá.

 

 

2.           Mál nr. 33/2006

Eiginnafn:                       Geiri (kk.)

Millinafn:                        Dýrfjörð

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Geiri tekur íslenska eignarfallsendingu (Geira) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Millinafnið Dýrfjörð er skráð sem ættarnafn skv. upplýsingum frá Hagstofu Íslands og kemur t.d. fram í manntalinu 1910. Með vísan til 7. gr. laga nr. 45/1966 um mannanöfn eru ættarnöfn einungis heimil sem millinöfn í þeim tilvikum þegar umsækjandi getur sannað rétt sinn til viðkomandi ættarnafns, þ.e. ef eitthvert alsystkini, foreldri, afi eða amma hafa borið nafnið sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn. Í þessum tilvikum er um sérstök millinöfn að ræða sem ekki eru færð á mannanafnaskrá. Úrskurðarbeiðendum er bent á að snúa sér til Þjóðskrár og leita sér upplýsinga um nafnrétt barnsins.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Geiri er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

3.           Mál nr. 34/2006 

Eiginnafn, nafnbreyting:       Marion

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að sam­þykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Enn fremur segir í 2. mgr. 5. gr. laganna: „Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.“

Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um manna­nöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2004 og sem byggðar eru á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum:

1.      Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.      Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;[1]

b.      Það er nú borið af 10‑14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.      Það er nú borið af 5‑9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.      Það er nú borið af 1‑4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.      Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703‑1910.

Sótt er um nafnbreytingu fyrir karlmann á grundvelli þess að norsk amma nafnbera hafi heitið Marion.

Nafnið Marion er ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá bera átta konur nafnið Marion að fyrra eða síðara nafni. Sú elsta er fædd 1930. Tveir karlar bera nafnið sem síðara nafn.

Nafnið Marion uppfyllir skilyrði 1c í vinnureglum mannanafnanefdar til að teljast hafa áunnið sér hefð sem kvenmannsnafn jafnvel þótt það hafi enn ekki verið fært á mannanafnaskrá. Hafi nafn unnið sér hefð sem eiginnafn karla eða kvenna er það ekki heimilt sem millinafn, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996, og hafi nafn áunnið sér hefð sem kvenmannsnafn er það ekki heimilt sem karlmannsnafn – og gagnkvæmt, sbr. 2. mgr. 5. gr. sömu laga.

Þar sem nafnið Marion hefur áunnið sér hefð sem eiginnafn kvenna verður að líta svo á að það sé hvorki heimilt sem eiginnafn karla, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, né sem millinafn, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga.

Karlmannsnöfnin Marjón og Marijón eru á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Marion (kk.) er hafnað.


 

4.           Afgreiðsla án töluliðar

Millinafn, nafnbreyting:      Dúnhaug

 

Sækja skal til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um nafnbreytingu. Gögn umsækjanda eru hér með framsend til ráðuneytisins en afrit sent úrskurðarbeiðanda.

 

 

5.           Mál nr. 35/2006

Millinafn, nafnbreyting:      Haug

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Til þess að mögulegt sé að samþykkja nýtt millinafn skal nafnið uppfylla eitthvert af skilyrðum 6. og 7. greinar laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sjá einnig Meginreglur um mannanöfn á vef dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Til að mögulegt sé að samþykkja nýtt almennt millinafn skal nafnið dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Almenn millinöfn eru öllum heimil og eru því skráð í mannanafnaskrá.

Þótt millinafn fullnægi ekki þeim reglum sem gilda um almenn millinöfn er það heimilt sem sérstakt millinafn þegar þannig stendur á að nákominn ættingi þess sem á að bera nafnið (eitthvert alsystkini, foreldri, afi eða amma) ber eða hefur borið það sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn. Enn fremur er leyfilegt að bera ættarnafn maka sem sérstakt millinafn eða eiginnafn foreldris í eignarfalli. Þeir sem bera ættarnafn mega breyta því í millinafn. Sérstök millinöfn eru ekki skráð í mannanafnaskrá.

Millinafnið Haug er af erlendum uppruna og miðað við líklegan framburð þess, ‘Hág’, er stafsetning þess ekki í samræmi við íslenska rithefð. Það telst því ekki fullnægja skilyrðum laga um rithátt nafna í íslensku.

Samkvæmt upplýsingum umsækjanda, [...], virðast tengsl við eldri nafnbera í fjölskyldunni ekki fullnægja þeim skilyrðum sem þar eru sett um heimild til sérstakra millinafna innan fjölskyldu, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1996.

Úrskurðarbeiðendur skulu snúa sér til Þjóðskrár til að leita réttar til nafns sem verið hefur í fjölskyldunni, sbr. 3. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1996.

Úrskurðarorð

Málið er vísað frá mannanafnanefnd.

 

 

6.           Mál nr. 36/2006


Eiginnafn:                       Randý (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Randý tekur íslenska eignarfallsendingu, Randýjar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Randý (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

7.           Mál nr. 37/2006

 

Millinafn, nafnbreyting:      Öxdal

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Millinafnið Öxdal er dregið af íslenskum orðstofnum og hefur ekki nefnifallsendingu. Það hefur hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn kvenna né sem eiginnafn karla. Nafnið er ekki heldur ættarnafn í skilningi 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Millinafnið Öxdal uppfyllir þannig ákvæði 6. gr. fyrrnefndra laga.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Öxdal er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

8.           Mál nr. 38/2006

Millinafn, nafnbreyting:      Hernes

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Til þess að mögulegt sé að samþykkja nýtt millinafn skal nafnið uppfylla eitthvert af skilyrðum 6. og 7. greinar laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sjá einnig Meginreglur um mannanöfn á vef dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Til að mögulegt sé að samþykkja nýtt almennt millinafn skal nafnið dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Almenn millinöfn eru öllum heimil og eru því skráð í mannanafnaskrá.

Þótt millinafn fullnægi ekki þeim reglum sem gilda um almenn millinöfn er það heimilt sem sérstakt millinafn þegar þannig stendur á að nákominn ættingi þess sem á að bera nafnið (eitthvert alsystkini, foreldri, afi eða amma) ber eða hefur borið það sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn. Enn fremur er leyfilegt að bera ættarnafn maka eða eiginnafn foreldris í eignarfalli sem sérstakt millinafn. Þeir sem bera ættarnafn mega breyta því í millinafn. Sérstök millinöfn eru ekki skráð í mannanafnaskrá.

Nafnið Hernes uppfyllir skilyrði 3. og 4. mgr. 7. greinar laga nr. 45/1996 um sérstök millinöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Hernes er samþykkt en nafnið verður ekki fært á mannanafnaskrá.

 

 

9.           Mál nr. 39/2006

Eiginnafn:                       Kristin (kvk., ritmynd af Kristín)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands bera sex íslenskar konur eiginnafnið Kristin sem fyrsta, annað eða þriðja nafn og er sú elsta fædd árið 1933. Með íslenskum konum er hér átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi. Eiginnafnið Kristin tekur íslenska eignarfallsendingu, Kristinar, og telst hafa áunnið sér hefð í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og c-lið 1. gr. vinnulagsreglna mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004. Kristin telst vera annar ritháttur eiginnafnsins Kristín og skal fært sem slíkt á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Kristin (kvk.) sem ritháttur af Kristín er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

10.       Mál nr. 40/2006

Eiginnafn, nafnbreyting:    Sævarr (kk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Nafnið Sævarr er forn ritháttur nafnsins Sævar sem þegar er á mannanafnaskrá. Ástæða þess að mannanafnanefnd hefur hingað til hafnað rithættinum Sævarr er sú að nefnifallsendingin –rr er ekki í samræmi við íslenskt málkerfi eins og það er nú. Það uppfyllir því ekki það skilyrði sem tilgreint er í 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Þegar svo háttar að nafn uppfyllir ekki öll skilyrði ofannefndrar 5. greinar er unnt að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá ef það hefur áunnið sér hefð. Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast íslensku málkerfi eða almennum ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni.

Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um manna­nöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2004 og sem byggðar eru á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum:

2.      Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.      Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;[2]

b.      Það er nú borið af 10‑14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.      Það er nú borið af 5‑9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.      Það er nú borið af 1‑4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.      Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703‑1910.

3.      Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningar­helgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

- - - - - - - - - - - - -

Mannanafnanefnd telur að þrátt fyrir nafnið Sævarr uppfylli ekki öll skilyrði 5. greinar til að verða fært á mannanafnaskrá sé rétt að taka málið til endurskoðunar á grundvelli þriggja atriða:

1.      Nafnið Sævarr kemur fyrir í Fornaldarsögum Norðurlanda, þ.e. í Sörla þætti eða Heðins sögu og Högna. Ritháttur þess með –rr er samkvæmt málfræði forn­málsins. Með hliðsjón af vinnureglum mannanafnanefndar þegar um erlend nöfn er að ræða má líta svo á að rithátturinn Sævarr hafi unnið sér menningarhelgi.

2.      Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands bera tveir karlmenn eiginnafnið Sævarr að fyrsta eða öðru eiginnafni, hafa íslenskt ríkisfang og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi. Hinn eldri þeirra er fæddur árið 1941.

3.      Nú eru sex eiginnöfn karla með nefnifallsendingunni –rr á mannanafnaskrá en það eru nöfnin Heiðarr, Hnikarr, Óttarr, Snævarr, Steinarr og Ævarr.

Mörk forníslensku og íslensks nútímamáls eru ekki glögg og þar með er ekki ótvírætt að hafna forníslenskri beygingarmynd nafns sem fyrir kemur í heimildum ef það er ritað í samræmi við ritreglur nútímamáls að öðru leyti. Því hefur mannanafnanefnd ákveðið að láta fyrirliggjandi umsókn njóta nokkurs vafa um þetta atriði og taka tillit til þeirra þriggja atriða sem að ofan eru nefnd. Sú ákvörðun er tekin í ljósi meðalhófsreglu stjórnsýslu­réttarins, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993.

Nafnið Sævarr beygist í aukaföllum eins og Sævar, þ.e.:

Sævarr – Sævar - Sævari - Sævars.

Sævarr telst vera annar ritháttur eiginnafnsins Sævar og skal fært sem slíkt á manna-nafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Sævarr (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsmyndinni Sævars sem ritmynd eiginnafnsins Sævar.

 

 

11.       Mál nr. 41/2006

Eiginnafn:                       Nóa (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Nóa (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Nóu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Nóa (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

12.       Mál nr. 42/2006

Eiginnafn:                       Jovina (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Jovina

Mannanafnanefnd fjallaði um eiginnafnið Jovina (kvk.) á fundi sínum laugardaginn 4. mars sl. að beiðni Hagstofu Íslands fyrir hönd [...] og [...]. Í úrskurði sínum, nr. 12/2006, hafnaði nefndin beiðninni þar sem hún taldi nafnið ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Úrskurðarbeiðendur óska eftir frekari rökstuðningi.

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Ástæður þess að mannanafnanefnd telur eiginnafnið Jovina ekki samræmast íslenskum rithætti eru þessar:

Nafnið Jovina er samsett úr tveimur liðum, Jo- og –vina. Síðari liðurinn er notaður sem síðari liður bæði kvenmannsnafna, t.d. Kristvina og Sigurvina, og karlmannsnafna, t.d. Kristvin og Sigurvin. Fyrri liðurinn Jo- kemur hins vegar ekki fyrir í nöfnum á mannanafnaskrá, hvorki meðal karlmannsnafna né kvenmannsnafna, og hans er heldur ekki getið í bókinni Nöfn Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson. Í íslenskum nöfnum er hins vegar alsiða að nota forliðinn - í þessari stöðu. Á mannanafnaskrá er karlmannsnafnið Jóvin og meðal kvenmannsnafna má finna nöfnin Jódís, Jófríður og Jóhanna.

Eignafnið Jovina telst ekki hafa áunnið sér hefð í málinu.

Millinafnið Maríanna

Úrskurðarbeiðendur óska eftir millinafninu Maríanna. Mannanafnanefnd lítur svo á að hér sé um misskilning að ræða. Kvenmannsnafnið Maríanna er gott og gilt eiginnafn, hvort sem er fyrsta, annað eða þriðja eiginnafn. Því ætti að vera óþarfi að sækja um það sérstaklega sem millinafn, enda eru millinöfn annars eðlis en eiginnöfn, sjá 6. gr. laga nr. 45/1996.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Jovina (kvk.) er hafnað.

 

 

13.       Mál nr. 43/2006

Eiginnafn, nafnbreyting:    Kaktus (kk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Kaktus tekur íslenska eignarfallsendingu (Kaktuss) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Nafnið beygist svo:

Kaktus – Kaktus – Kaktusi – Kaktuss.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Kaktus (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsmynd þess (Kaktuss) en þó ekki fyrr en beiðni um skráningu þess hefur borist Hagstofu Íslands.

 

 

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.

 



[1] Með Íslendingum er átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi.

[2] Með Íslendingum er átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum