Sía árMannanafnanefnd - úrskurðir

19.2.2018

Mál nr. 69/2017 B                 Eiginnafn: Alex

 


Hinn 26. janúar 2018 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 69/2017 en erindið barst nefndinni 23. nóvember 2017. Beiðni úrskurðarbeiðanda lýtur að endurupptöku máls, þ.e. þess er krafist að mannanafnanefnd taki upp eldri úrskurð sinn og samþykki að eiginnafnið Alex verði fært inn á mannanafnaskrá sem kvenmannsnafn. Um rétt aðila máls til endurupptöku fer eftir ákvæðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða óskráðum reglum stjórnsýsluréttar um endurupptöku.

 

Þar sem mál þetta á sér nokkra forsögu er nauðsynlegt að rekja hana.

 

Með beiðni sem barst nefndinni 25. október 2013 var óskað eftir því af hálfu úrskurðarbeiðanda að dóttir hennar fengi að bera kvenmannsnafnið Alex. Þessari beiðni var hafnað með úrskurði nefndarinnar frá 19. desember 2013 í máli nr. 76/2013 (Alex). Í nefndum úrskurði kom m.a. fram að eiginnafnið Alex hafi verið á mannanafnaskrá sem eiginnafn karlmanns þegar við fyrstu útgáfu mannanafnaskrár samkvæmt eldri lögum um mannanöfn nr. 37/1991. Talið var að Alex hefði sterka stöðu sem karlmannsnafn hér á landi og engin hefð væri fyrir því sem kvenmannsnafni. Í ljósi fyrirmæla 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn bæri að hafna nafninu þar eð samkvæmt téðu ákvæði skyldi gefa stúlku kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn. Ítarleg rök voru færð fyrir þessari niðurstöðu nefndarinnar í ljósi þeirrar staðreyndar að sum samhljóma nöfn hafa verið leyfð bæði sem karlmanns- og kvenmannsnöfn.

 

Í fyrirliggjandi beiðni úrskurðarbeiðanda kemur m.a. fram að fordæmi séu fyrir því að nafn geti verið borið bæði af körlum og konum. Dæmi slíkt séu nöfnin Blær, Júní, Auður og nú síðast Aríel. Til þess ber hins vegar að líta að í rökstuðningi nefndarinnar frá 31. október 2017 í máli nr. 45/2017 (Aríel) var talið að notkun nafnsins Aríels sem karlmannsnafns væri ekki reist á langri hefð hér á landi og að erlendis væri nafnið vel þekkt sem kvenmannsnafn. Þannig væri vart hægt að byggja á því með vissu að útilokað væri að nafnið gæti verið notað sem kvenmannsnafn í íslensku máli. Af þessu leiddi að nafnið gæti verið hvorttveggja karlmannsnafn og kvenmannsnafn.

 

Aðstaðan hér er önnur. Alex á sér rótgróna sögu á Íslandi sem karlmannsnafn. Sé nafn þess eðlis að það sé annaðhvort karlmannsnafn eða kvenmannsnafn í íslensku leiðir af fyrrnefndri 2. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn að slíkt nafn megi ekki gefa einstaklingi af gagnstæðu kyni. Fordæmin sem vísað er til í úrskurðarbeiðni eiga ekki við og er að öðru leyti um þetta atriði vísað til áðurnefnds rökstuðnings nefndarinnar í úrskurðinum frá 19. desember 2013 í máli nr. 76/2013 (Alex).

 

Þegar allt áðurrakið er virt í heild sinni er ekkert komið fram sem bendir til þess að úrskurður mannanafnanefndar frá 19. desember 2013 í máli nr. 76/2013 (Alex) hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik né að hann hafi byggst á atvikum sem hafa breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Skilyrði til endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru því ekki fyrir hendi.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann mannanafnanefnd eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Skylda til slíks veltur þó, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Ekkert er fram komið um að slíkur ágalli hafi verið á fyrri úrskurði nefndarinnar. 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um endurupptöku úrskurðar frá 19. desember 2013 í máli nr. 76/2013 er hafnað.