Sía árMannanafnanefnd - úrskurðir

20.6.2017

Mál nr. 20/2017                     Eiginnafn:      Ónarr

 


Hinn 23. maí 2017 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 20/2017 en erindið barst nefndinni 20. janúar 2017:

Mál þetta á sér nokkra forsögu. Hinn 15. desember 2016 barst erindi frá úrskurðarbeiðendum um að eiginnafnið Ónarr (kk.) yrði fært inn á mannanafnaskrá. Með úrskurði mannanafnanefndar frá 6. janúar 2017 í máli nr. 99/2016 var þeirri beiðni hafnað á grundvelli 3. ml. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn en þar segir að eiginnafn skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Mannanafnanefnd féllst hins vegar á ritháttinn Ónar.

Ástæður þess að ekki var fallist á eiginnafnið Ónarr eru raktar rækilega í áðurnefndum úrskurði frá 6. janúar síðastliðnum. Talið var að nafnið væri hvorki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls né hefði það verið hefðað. Niðurstaðan um síðarnefnda atriðið var að hluta til byggð á vinnulagsreglum mannanafnanefndar frá 19. janúar 2015 en þær þjóna aðallega þeim tilgangi að varpa gleggra ljósi á hugtakið hefð í skilningi 3. ml. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Með vísan til vinnulagsreglnanna var talið að ritháttur nafnsins Ónarrs væri vart hefðaður þar sem um hann væru eingöngu dæmi í forníslensku en stafsetning væri með ýmsu móti í fornum ritum og hún væri ekki samræmd eins og nú er.

Úrskurðarbeiðendur fóru fram á það með bréfi, dags. 19. janúar 2017, að málið yrði tekið upp að nýju og lýtur þessi úrskurður að þeirri beiðni en um rétt aðila máls til endurupptöku fer eftir ákvæðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða óskráðum reglum stjórnsýsluréttar um endurupptöku.

Krafa úrskurðarbeiðenda um endurupptöku málsins styðst við þó nokkurn fjölda röksemda og eru þær helstu tíundaðar í sex töluliðum.

Í fyrsta lagi er því mótmælt að Ónarr geti talist tökunafn en beiting áðurnefndra vinnulagsreglna er háð því að nafn sé tökunafn.

Í öðru lagi er bent á að íslenskan sé lifandi mál og ekki eigi að amast við slíkri endurnýjun þess með vísan til hefðar.

Í þriðja lagi er á það bent á að Ónarr falli að íslensku beygingakerfi og sem dæmi vísað til þess að Óttarr sé til. Af þessu leiði að það sé aukaatriði hvort karlmannsnafnið Ónarr sé skráð í manntölum eða hjá Þjóðskrá.

Í fjórða lagi er vikið að hugtakinu menningarhelgi í vinnulagsreglum mannanafnanefndar og að nafnið Ónarr komi fyrir í alþekktum ritum á borð Heimskringlu og Snorra-Eddu.

Í fimmta lagi er bent sérstaklega á það að mannanafnanefnd hafi samþykkt nöfnin Hávarr (71/2009) og Kjárr (7/2010B) á þeirri forsendu að fyrir þeim sé hefð því að þau koma fyrir í alþekktum ritum. Þessi tvö nöfn eru ekki nefnd í úrskurðinum frá 6. janúar síðastliðnum þótt önnur þrjú nöfn (Hnikkarr, Sævarr og Ísarr) séu tíunduð í honum sem dæmi um nöfn sem hafa verið samþykkt í úrskurðum mannanafnanefndar.

Í sjötta lagi er í endurupptökubeiðninni vísað til þess að mörg fleiri nöfn með nefnifallsendinguna -rr séu skráð í Þjóðskrá, svo sem Steinarr, Óttarr og Heiðarr.

Röksemdir úrskurðarbeiðenda verða nú teknar fyrir í þeirri röð sem þær voru settar fram.

Í störfum sínum ber mannanafnanefnd að hlíta fyrirmælum áðurnefndra laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laganna hefur nefndin mótað áðurnefndar vinnulagsreglur til að ná betur utan um hugtakið hefð. Óumdeilt er að stafsetning málsins í nútímanum leiðir til þess að nafn sem endi á -arr sé ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Tökunafn er nafn sem fellur ekki að hefðbundnum reglum íslensks máls. Líta verður því svo á að umbeðið nafn, Ónarr, sé tökunafn í skilningi vinnulagsreglna mannanafnanefndar. Ekki er því hægt að taka upp málið á þessum forsendum.

Þótt íslenskan sé lifandi tungumál þá er það svo að löggjafinn hefur metið það svo að um mannanöfn skuli gilda lög og að eftir þeim lögum beri mannanafnanefnd að fara. Hugtakið hefð felur eðli málsins samkvæmt að ákveðin festa skuli vera til staðar í nafngiftum þegar svo háttar til að nafn uppfylli ekki almennar ritreglur íslensks máls. Þessum röksemdum úrskurðarbeiðenda fyrir endurupptöku málsins er því hafnað. Að breyttu breytanda er  þriðja lið röksemdafærslu úrskurðarbeiðenda einnig hafnað á sömu forsendum. Þýðingarlaust er í þessu samhengi hvort Ónarr falli að íslensku beygingarkerfi þar eð eiginnafn, sem fellur ekki að almennum ritreglum málsins, verður að vera hefðað til að vera tekið inn á mannanafnaskrá.

Liðir fjögur til sex í röksemdafærslu úrskurðarbeiðenda falla að mörgu leyti saman, þ.e. þeir byggjast á því að nafnið Ónarr hafi næga skírskotun til alkunnra fornrita til þess að það teljist varið af menningarhelgi og í ljósi stjórnsýsluframkvæmdar mannanafnanefndar í málum af þessu tagi verði því að telja nafnið hefðað.

Fyrir liggur að nafnið Ónarr komi fyrir í alþekktum íslenskum fornritum, m.a. útgáfum Snorra-Eddu og Eddukvæða. Nafnið kemur einnig fyrir í fornum kvæðum og þá sem heiti á dverg. Við úrlausn málsins þykir rétt að horfa til úrskurðar mannanafnanefndar frá 24. júní 2010 í máli nr. 71/2009 (Hávarr) og annarra sambærilegra mála þar sem nöfn voru leyfð á mannanafnaskrá á þeim forsendum að þau kæmu fyrir í alþekktum útgáfum fornrita.

Með vísan til jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þykir rétt að taka málið fyrir að nýju með þeim hætti að fallist sé á að nafnið Ónarr verði fært inn á mannanafnaskrá.

 


Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Ónarr (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.