Eldri úrskurðir og álit kærunefndar húsnæðismála

A gegn Íbúðalánasjóði

16.11.2001

Föstudaginn 16. nóvember 2001 var á fundi kærunefndar húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 5/2001:

 

A

gegn

Íbúðalánasjóði

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R :

B, hefur fyrir hönd A, með kæru, dags. 21. ágúst 2001, skotið til kærunefndar húsnæðismála synjun starfsmanna Íbúðalánasjóðs um að veita umbjóðanda hans upplýsingar um stöðu á láni sjóðsins til félagsins C, með veði í fasteigninni D. Kærandi er þinglýstur eigandi fasteignarinnar og telur að miklar líkur séu á því að fram þurfi að fara nauðungarsala á eigninni vegna vanskila kaupenda á efndum kaupsamningsins.

 

I. Málsmeðferð

Kærunefnd húsnæðismála leitaði eftir eftirfarandi gögnum: Greinargerð Íbúðalánasjóðs, dags. 13. október 2001. Umboðsmanni kæranda var sent afrit hennar og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir bárust nefndinni 18. október 2001. Einnig liggja fyrir reglur samþykktar á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs 22. júní 2000 um upplýsingagjöf starfsmanna Íbúðalánasjóðs um stöðu lána.

Í málinu liggur einnig fyrir úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 19. september 2001.

Kærunefnd húsnæðismála tók mál þetta fyrir á fundi sínum 3. október og tók það til úrlausnar í dag.

 

II. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi seldi félaginu C fasteignina D, með kaupsamningi, dags. 19. janúar 2001. Í kaupsamningi kemur m.a. fram að félagið hafi tekið lán hjá Íbúðalánasjóði með veði í fasteigninni. Vanskil hafa orðið á efndum kaupsamningsins af hálfu kaupanda og til að gæta hagsmuna kæranda vegna hugsanlegrar nauðungarsölu á fasteigninni óskaði lögmaður kæranda eftir því með bréfi til Íbúðalánasjóðs, dags. 17. ágúst 2001, að fá upplýsingar um stöðu umrædds láns og hugsanleg vanskil þess.

Íbúðalánasjóður synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 20. ágúst 2001. Í bréfinu kemur m.a. fram að skráðar upplýsingar hjá Íbúðalánasjóði falli undir lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Einnig kemur fram að það sé almennt mat Íbúðalánasjóðs, vegna eðlis upplýsinga hjá sjóðnum um fjárhagsmálefni einstaklinga, að þær séu varðar af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Jafnframt er vísað til reglna sem stjórn Íbúðalánasjóðs samþykkti á fundi 22. júní 2000 um upplýsingagjöf starfsmanna um stöðu lána. Þar kemur m.a. fram, að heimilt er að veita upplýsingar um stöðu lána við gerð kröfulýsinga, sem er að jafnaði degi fyrir framhald sölu.

Þessari synjun Íbúðalánasjóðs skaut kærandi bæði til kærunefndar húsnæðismála með bréfi, dags. 21. ágúst 2001 og úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp úrskurð 19. september 2001. Var málinu vísað frá með þeim rökstuðningi að um væri að ræða beiðni um aðgang að upplýsingum, sem eru varðveittar í tölvukerfi Reiknisstofu bankanna, svo og í sérstöku tölvukerfi sjóðsins sjálfs. Talið er að ákveðin afmörkun sé á gildissviði upplýsingalaga nr. 50/1996 og að þau lög eigi einungis við þegar farið er fram á aðgang að upplýsingum, sem eru að finna í afmörkuðum skjölum eða öðrum sambærilegum gögnum, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna. Þar sem þær upplýsingar, sem kærandi hafði óskað eftir aðgangi að, höfðu ekki, samkvæmt umsögn Íbúðalánasjóðs, verið teknar saman í eitt skjal eða sambærilegt gagn hafi lögin ekki átt við í þessu tilfelli.

Lögmaður kæranda sendi kærunefnd húsnæðismála ítrekun á kæru með bréfi, dags. 26. september 2001, og óskaði eftir að upplýsingar um stöðu lána sjóðsins sem eru áhvílandi á fasteigninni að D yrðu veittar umbjóðanda hans.

 

III. Sjónarmið kæranda

Upplýsingar um afstöðu kærenda eru byggðar á kæru, dags. 21. ágúst 2001, og athugasemdum, dags. 18. október 2001. Í kæru kemur m.a. fram að lögmaður kæranda sé með mál á hendur C, vegna vanskila á kaupsamningi og af því tilefni sé nauðsynlegt fyrir umbjóðanda hans að fá núverandi stöðu á láni þeirra hjá Íbúðalánasjóði, en Íbúðalánasjóður er á fyrsta veðrétti á fasteigninni. Allt bendi til þess að fram þurfi að fara nauðungarsala á eigninni og því sé kæranda nauðsynlegt að fá upplýsingar um hvernig lánið standi og hvort það sé í skilum eða ekki svo hann geti undirbúið sig fjárhagslega áður en sala fari fram. Kærandi þurfi að taka ákvarðanir áður en nauðungarsala fari fram á eigninni, m.a. ákveða hvort hann ætli að kaupa húsið til að tryggja hagsmuni sína og ef svo er hvernig hann ætli að fjármagna þau kaup. Einnig þurfi hann að fá upplýsingar um hvort taka megi yfir lánið, hverjar séu mánaðarlegar afborganir af láninu og hver vanskil eru. Það að fá upplýsingar deginum fyrir nauðungarsölu, eins og Íbúðalánasjóður býður, sé augljóslega ekki fullnægjandi þar sem alltof lítill tími sé til stefnu. Kærandi telur furðulegt að hann sem er enn skráður þinglýstur eigandi hússins, þar sem afsal hefur ekki verið gefið út, geti ekki fengið upplýsingar um hvernig lán, sem er með veði í húsi hans, standi.

Í athugasemdum kæranda, dags. 18. október 2001, kemur m.a. fram að hann telji að synjun Íbúðalánasjóðs um upplýsingar sé geðþóttaákvörðun opinberrar stofnunar sem standist ekki og ekki í samræmi við starfsreglur annarra lánastofnanna.

 

IV. Sjónarmið varnaraðila

Kærunefnd húsnæðismála barst greinargerð Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar með bréfi, dags. 13. október 2001. Í greinargerðinni kemur m.a. fram að Íbúðalánasjóður hafi sett reglu um upplýsingar um stöðu lána við nauðungarsölur. Sjónarmið til grundvallar reglunni er vernd lánþega á persónuupplýsingum annars vegar en hins vegar nauðsynleg upplýsingagjöf um stöðu lána við framhald sölu íbúða. Þær upplýsingar takmarkist við gerð kröfulýsinga sjóðsins degi fyrir uppboð en í kröfulýsingu er dregið saman úr skrám sjóðsins heildarkrafa, þ.e. staða lána, vanskil og kostnaður. Það að kröfulýsingar eru ekki unnar fyrr helgist af því að mikill fjöldi uppboðsmála er afturkallaður áður en til framhalds sölu kemur þar sem skuldarar leysi úr málum sínum. Íbúðalánasjóður telji að þrátt fyrir þessa ströngu reglu um upplýsingagjöf geti kærandi farið nokkuð nærri um kröfu sjóðsins, ef til uppboðs kemur, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. kaupsamning aðila frá 19. janúar 2001 og þinglýsingavottorð. Þá sé kæranda kunnugt um að eignin er háð ákvæðum 16. gr. laga um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, sbr. VIII. kafla reglugerðar nr. 458/1999, og þar með takmörkun á heimild til yfirtöku lánsins við eigendaskipti, sbr. 43. gr. reglugerðarinnar. Að lokum kemur fram að þar sem kærandi sé ekki skuldari áhvílandi lána Íbúðalánasjóðs og eigi þar með ekki lögvarinn rétt til upplýsinga um stöðu lánanna. Það er mat sjóðsins að með nefndri reglu geti kærandi, sem og aðrir aðilar sem telja sig eiga hagsmuna að gæta við nauðungarsölur, svo fullnægjandi sé gætt hagsmuna sinna ef til þess kemur að eignin verði seld nauðungarsölu.

 

V. Niðurstaða

Málskotsheimild kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga, nr. 44/1998, um húsnæðismál, sbr. 2. gr. laga nr. 77/2001.

I.

Mál þetta varðar þá kröfu kæranda að Íbúðalánasjóður veiti upplýsingar um tiltekið lán Íbúðalánasjóðs sem hvílir á fasteigninni að D, sem kærandi er þinglýstur eigandi að. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál vísaði kæru sama efnis frá með úrskurði sínum frá 19. september sl., þar sem um upplýsingar í rafrænu formi væru að ræða og ættu því ekki undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996.

II.

Kærandi ritaði bréf til Íbúðalánasjóðs, dags. 17. ágúst 2001, þar sem óskað var eftir að fá stöðu láns með 1. veðrétti í eigninni D. Kærandi er þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Beiðninni var synjað af Íbúðalánasjóði með bréfi, dags. 20. ágúst 2001. Er synjunin m.a. rökstudd með þeim hætti að að upplýsingar sjóðsins um fjárhagsmálefni einstaklinga séu varðar af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 19. september er málinu vísað frá þar sem nefndin taldi upplýsingar eins og þær lágu fyrir, þ.e. í rafrænu formi, ekki eiga undir upplýsingalögin. Einnig var í synjun vísað til reglna um upplýsingagjöf starfsmanna Íbúðalánasjóðs um stöðu lána, sem samþykktar voru á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs 22. júní 2000, en þær fela í sér fyrirmæli um upplýsingagjöf starfsmanna vegna lána á vegum Íbúðalánasjóðs.

Kærunefnd húsnæðismála telur að reglurnar séu óskýrar og erfitt að átta sig á því á hverju þær byggjast. Hér er um að ræða stjórnvaldsfyrirmæli í skilningi stjórnsýsluréttarins þar sem um er að ræða fyrirmæli stjórnar Íbúðalánasjóðs sem beint er til óákveðins fjölda manna eða ótiltekins hóps og felur í sér réttarreglu. Er talið nauðsynlegt að stjórnvaldsfyrirmæli séu skýr og afdráttarlaus þannig að hinn almenni borgari geti áttað sig á rétti sínum. Einnig hefur verið kippt undan stoðum reglnanna með fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Kærunefnd húsnæðismála telur eins og í máli þessu liggur að kærandi hafi beina lögvarða hagsmuni af því að fá þær upplýsingar sem hann óskar eftir um stöðu lánsins, sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar, D. Með vísan til framanritaðs telur kærunefnd húsnæðismála að Íbúðalánasjóði sé ekki heimilt að synja um umbeðnar upplýsingar og telur að Íbúðalánasjóði beri að veita kæranda upplýsingar um stöðu lánsins á 1. veðrétti í fasteigninni að D.

Kærunefnd húsnæðismála telur nauðsynlegt að ofangreindar reglur verði endurskoðaðar hið fyrsta. Við slíka endurskoðun þarf að hafa í huga að þeir sem hafi lögvarða hagsmuni af að fá upplýsingar um stöðu lána, til dæmis þeir sem eru þinglýstir eigendur fasteigna sem lán hvílir á, fái þær upplýsingar frá starfsmönnum Íbúðalánasjóðs. Einnig ber að geta þess að í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 19. september 2001 kemur m.a. fram að ekki er talið að upplýsingar falli undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996, en í reglunum er vísað til upplýsingalaga nr. 50/1996. Þarf að taka tillit til þess við samningu reglnanna.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 

Kærunefnd húsnæðismála telur að Íbúðalánasjóði beri að veita A upplýsingar vegna stöðu láns Íbúðalánasjóðs á 1. veðrétti á fasteigninni, D.

Kærunefnd húsnæðismála beinir því til stjórnar Íbúðalánasjóðs að endurskoða reglur sínar um upplýsingagjöf starfsmanna Íbúðalánasjóðs um stöðu lána, sem samþykktar voru á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs 22. júní 2000.

 

 

Þuríður Jónsdóttir, formaður

 

Ástráður Haraldsson

 

Vífill Oddsson