Eldri álit kærunefndar fjöleignarhúsamála

Álit frá 14. nóvember 2001

14.11.2001

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 33/2001

 

Umferðarréttur.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 23. júlí 2001, beindi A, X nr. 46 A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, X nr. 46, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 2. ágúst 2001. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Athugasemdir gagnaðila hafa ekki borist en frestur var veittur til 1. október 2001. Á fundi nefndarinnar 6. nóvember sl. var ákveðið að leita upplýsinga hvort bílastæði hafi verið samþykkt fyrir framan húsið X nr. 46 A. Á fundi nefndarinnar 14. nóvember 2001 var málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Í álitsbeiðni kemur fram að X nr. 46 A sé bakhús og þurfi íbúar þess og íbúar X nr. 46 B sem einnig sé bakhús að nota aðkomu um innkeyrslu X nr. 46 að húsum sínum. Ágreiningur sé um umferðarrétt.

 

Kærunefnd telur að krafa álitsbeiðanda sé:

Að gagnaðilar virði umferðarrétt álitsbeiðanda að húsi sínu og leggi ekki bifreiðum við austurvegg hússins X nr. 46.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að eina aðkoma bakhúsanna sé um innkeyrslu X nr. 46 og hafi eigendur bakhúsanna tveggja metra breiðan umferðarrétt austast á lóð X nr. 46 að húsum sínum. Gagnaðilar og leigjendur þeirra noti hins vegar innkeyrsluna sem einkabílastæði og hindri með því aðkomu gangandi vegfarenda og bifreiða að bakhúsunum. Álitsbeiðandi bendir á að mjög erfitt sé að koma aðföngum að húsinu og nota bílastæði við X nr. 46 A eins og aðstæður hafi verið síðustu tvö ár.

Samkvæmt þinglýstri yfirlýsingu, dags. 11. júní 1926, hafi íbúar við X nr. 46 A tveggja metra breiðan umferðarrétt austan við húsið á lóðinni við X nr. 46 frá X að mörkum lóðar við X nr. 46A. Þessari kvöð hafi verið þinglýst á eignina X nr. 46. Þá hafi umferðarrétturinn verið áréttaður með þinglýstum yfirlýsingum, dags. 30. september 1943 og 10. maí 1958.

 

III. Forsendur

Gagnaðilar hafa hvorki sent kærunefnd athugasemdir sínar né komið á framfæri sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, þrátt fyrir að þeim hafi verið gefinn kostur á því.

Í málinu liggur fyrir veðbókarvottorð fyrir X nr. 46. Þar kemur fram að þinglýst hafi verið kvöð um umferðarrétt fyrir X nr. 46 A og 46 B. Í þinglýstri yfirlýsingu, dags. 11. júní 1926, segir að eigandi X nr. 46 hafi samþykkt að "húseigninni X nr. 46A tilheyri umferðarréttur um 2ja metra breiðan gang austan af lóðinni X nr. 46 frá X að nefndu húsi X nr. 46A". Í þinglýstri yfirlýsingu, dags. 30. september 1943, stendur að eigendur X nr. 46 leyfi gangrétt yfir lóðina og í yfirlýsingu, dags. 10. maí 1958, stendur að eigendur X nr. 46 staðfesti að umferðarréttur eigenda X nr. 46 A nái einnig til eigenda X nr. 46 B.

Þá liggur fyrir í málinu afrit af undirrituðum samningi milli eigenda X nr. 46, 46 A og 46 B, dags. 11. júlí 2000, þar sem m.a. kemur fram að samkomulag sé meðal þeirra að innkeyrslan að X nr. 46 A og B verði eingöngu notuð fyrir umferð að bílastæðum bak við X nr. 46 og fyrir fermingu og affermingu bifreiða fyrir X nr. 46 A og B.

Fyrir liggur að bílastæði hafa ekki verið samþykkt á lóðum húsanna X nr. 46 og 46 A. Hins vegar er hluti lóða beggja húsanna notaður sem bílastæði í raun. Í málinu er ágreiningslaust að álitsbeiðandi á umferðarrétt að húsi sínu. Sá umferðarréttur verður ekki tryggður miðað við breidd lóðarinnar á umræddu svæði og aðstæðna að öðru leyti sé bifreiðum lagt þar. Þessi niðurstaða á sér enn fremur stoð í samkomulagi aðila frá 11. júlí 2000. Það er því álit kærunefndar að gagnaðilum beri að virða umferðarrétt álitsbeiðanda og tryggja að ekki sé lagt í innkeyrsluna.

Í álitsbeiðni eru settar fram kröfur um að lögregla sjái um að sekta og fjarlægja ökutæki sem lögð eru í innkeyrsluna og að gagnaðilar og leigjendur verði bornir út hið fyrsta verði umferðarrétturinn ekki virtur. Kærunefnd telur að slíkar kröfur verði ekki bornar upp við nefndina og mun því ekki fjalla frekar um þær.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðilum beri að virða umferðarrétt álitsbeiðanda að húsi sínu og leggi ekki bifreiðum við austurvegg hússins X nr. 46.

 

 

Reykjavík, 14. nóvember 2001

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson