Hoppa yfir valmynd
10. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Synjun landlæknis um sérfræðileyfi í upplýsingatækni í sjúkraþjálfun

Föstudaginn 10. september 2010 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 4 maí 2010, kærði A (hér eftir nefndur kærandi), til heilbrigðisráðuneytisins þá ákvörðun landlæknis frá 26. febrúar 2010 að synja kæranda um sérfræðileyfi í upplýsingatækni í sjúkraþjálfun.

Kröfur

Kærandi gerir þá kröfu að henni verði veitt leyfi sem sérfræðingur í upplýsingatækni í sjúkraþjálfun. Kærandi gerir ennfremur þær kröfur að aflað verði rökstuðnings frá þriggja manna sérfræðinefnd og að prófgráður þeirra sjúkraþjálfara, sem nú þegar hafa fengið sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun, verði skoðaðar.

Málsmeðferð ráðuneytisins

Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 11. maí 2010, eftir umsögn landlæknis og gögnum varðandi málið. Umsögn landlæknis ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 27. maí 2010. Kæranda var með bréfi, dags. 1. júní 2010, send umsögn landlæknis ásamt öllum gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum innan þriggja vikna. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu með tölvupósti þann 22. júní sl. Landlækni var með bréfi, dags. 13. júlí 2010, gefinn kostur á að koma að athugasemdum og barst svar landlæknis með bréfi, dags. 3. ágúst 2010, þar sem fram kemur að embættið muni ekki skila frekari athugasemdum í málinu.

Málavextir

Kærandi sótti um sérfræðileyfi í upplýsingatækni í sjúkraþjálfun þann 9. desember 2009. Landlæknir sendi umsóknina ásamt fylgigögnum til umsagnar sérfræðinefndar samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 145/2003, um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun, með bréfi, dags. 6. janúar 2010. Í umsögn sérfræðinefndar, dags. 3. febrúar 2009, segir m.a.:

„[Kærandi] lauk meistaranámi í Upplýsingatækni á heilbrigðissviði frá Læknadeild Háskóla Íslands í júní 2007[...]

Upplýsingatækni í sjúkraþjálfun er ekki tilgreint sem eitt af sérsviðum í sjúkraþjálfun samkvæmt reglugerð nr. 145/2003 um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun. Í 5. gr. reglugerðarinnar er hins vegar gert ráð fyrir að hægt sé að veita sérfræðileyfi á öðrum sérsviðum “mæli sérfræðinefndin , sbr. 3. gr., með því” .“

Niðurstaða umsagnar sérfræðinefndarinnar var sú að hún mælti með veitingu sérfræðileyfis í upplýsingatækni í sjúkraþjálfun, en sú niðurstaða var ekki rökstudd frekar.

Umsögn sérfræðinefndarinnar var send kæranda til kynningar með bréfi landlæknis, dags. 10. febrúar 2010, þar sem fram kemur að landlæknir fái „ekki séð að meistaranám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði geti talist sérfræðimenntun á sviði sjúkraþjálfunar frekar en í öðrum greinum. Námsgráðan gefi því ekki tilefni til að veitt verði sérstök sérfræðiviðurkenning á sviði sjúkraþjálfunar.“ Umsækjanda var gefinn kostur á að koma að frekari gögnum eða athugasemdum áður en landlæknir afgreiddi umsóknina. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2010, barst embættinu bréf kæranda, en þar er einkum gerð grein fyrir námi kæranda í upplýsingatækni á heilbrigðissviði og hvernig kærandi leitaðist við að tengja það nám sjúkraþjálfun. Einnig tiltekur kærandi störf sín eftir að hún lauk meistaranáminu og hvernig þau tengjast sjúkraþjálfun. Að lokum tekur kærandi fram að í reglugerð nr. 145/2003 sé hvorki að finna skilyrði um að sérfræðinefndin rökstyðji niðurstöðu sína né að önnur sérsvið sem sérfræðinefndin mæli með þurfi að vera á klínísku sviði sjúkraþjálfunar.

Landlæknir synjaði kæranda um sérfræðileyfi í upplýsingatækni í sjúkraþjálfun með bréfi, dags. 26. febrúar 2010. Í niðurstöðu synjunar landlæknis kemur fram:

„Samkvæmt upplýsingum á vef Háskóla Íslands er meistaranám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði þverfaglegt nám. Allir sem hafa lokið B.S./B.A, prófi eða jafngildri prófgráðu frá erlendum háskóla geta sótt um nám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði (MHI) við Háskóla Íslands. Engar forkröfur eru gerðar um ákveðið grunnnám. Tilgangur námsins er að veita þverfaglega, hagnýta og fræðilega menntun til starfa á ýmsum sviðum er snerta upplýsingatækni á heilbrigðissviði. Nemendur útskrifast með meistaragráðu í upplýsingatækni á heilbrigðissviði.

Í reglugerð um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun eru talin upp alls 12 svið í klínískri sjúkraþjálfun sem veitt geta sérfræðileyfi. Það er lagt í hendur Landlæknisembættisins að ákvarða um önnur sérfræðileyfi að fenginni umsögn sérfræðinefndar. Að mati landlæknis þurfa sérstök rök að liggja því til grundvallar að veita sérfræðiviðurkenningu í öðrum greinum en taldar eru upp í reglugerðinni. Slíkur rökstuðningur liggur ekki fyrir í þessu máli. Þá þarf að taka mið af orðalagi 4. gr. laga um sjúkraþjálfun sem fjallar um sérfræðiviðurkenningu innan sjúkraþjálfunar en þar er talað um „sérgreinar innan sjúkraþjálfunar“ og „veitingu sérfræðileyfis í sérgreinum sjúkraþjálfunar.“ Með þessu orðalagi er kveðið skýrt á um það að sérfræðileyfi skuli byggja á sérgreinum sjúkraþjálfunar, en ekki almennu viðbótarnámi.

Það er niðurstaða Landlæknisembættisins að meistarapróf í upplýsingatækni á heilbrigðissviði gefi ekki tilefni til að veitt verði sérstök sérfræðiviðurkenning á sviði sjúkraþjálfunar.“

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru er óskað eftir að kæranda verði veitt leyfi sem sérfræðingur í upplýsingatækni í sjúkraþjálfun með hliðsjón af því að aflað verði rökstuðnings frá sérfræðinefndinni og prófgráður þeirra sjúkraþjálfara, sem nú þegar hafa fengið sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun, verði skoðaðar.

Í kæru kemur m.a. fram að kærandi hafi í námi sínu „leitast við að bæta þekkingu og sérhæfa sig í upplýsingatækni á sviði sjúkraþjálfunar sem er sérþekking sem fáir sjúkraþjálfarar hafa og er sérgrein sem er ekki langt á veg komin innan fagsins hvort sem er innanlands eða erlendis.“ Kærandi bendir einnig á að ekki er tiltekið í reglugerð nr. 145/2003 að önnur sérfræðileyfi innan sjúkraþjálfunar sem mælt er með, fyrir utan þau sem talin eru upp í ákvæðinu, þurfi að vera á klínísku sviði sjúkraþjálfunar.

Þá kemur fram í kæru að kærandi hafi haft samband við Félag íslenskra sjúkraþjálfara og óskað eftir upplýsingum um þá sjúkraþjálfara sem fengið hafa sérfræðileyfi. Félagið hafi vísað á landlækni og hafi kærandi óskað eftir þessum upplýsingum, en þær hafi ekki borist kæranda. Kærandi tekur fram að hún viti af sjúkraþjálfurum sem hafi útskrifast með meistaragráðu í heilbrigðisvísindum frá Læknadeild Háskóla Íslands og hlotið hafi sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun, en kærandi fái ekki séð að það nám geti talist sérfræðimenntun á sviði sjúkraþjálfunar frekar en í öðrum greinum.

Kærandi gerir í kæru eftirfarandi athugasemdir: „Landlæknisembættið bað ekki um rökstuðning frá sérfræðinefndinni sem greinilega vantaði að þeirra mati. Ef embættið gerði það þá hefur [kæranda] ekki borist upplýsingar um það.“ Þá gerir kærandi athugasemdir við bréf landlæknis, dags. 10. febrúar 2010. Þar komi m.a. orðrétt fram að: „Landlæknisembættið fær ekki séð að meistaranám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði geti talist sérfræðimenntun á sviði sjúkraþjálfunar frekar en í öðrum greinum. Námsgráðan gefi því ekki tilefni til að veitt verði sérstök sérfræðiviðurkenning á sviði sjúkraþjálfunar.“ Kærandi bendir á að hún útskrifaðist með MHI gráðu frá Læknadeild Háskóla Íslands þar sem sjúkraþjálfun er kennd.

Í andmælabréfi til ráðuneytisins, dags. 22. júní 2010, ítrekar kærandi að í reglugerð, um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun, sé ekki gerð krafa um að rökstuðningur þurfi að fylgja umsögn nefndar um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun. Kærandi bendir á að niðurstaða sérfræðinefndarinnar, um að mæla með því að henni sé veitt sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun, sé skjalfest.

Þá segir í niðurlagi andmælabréfs kæranda:

„[...] að sérfræðileyfi í öldrunarsjúkraþjálfun hafi verið veitt einstaklingi sem lauk meistaranámi í heilbrigðisvísindum við læknadeild Háskóla Íslands. Það nám er þverfaglegt [nám] og grunnur þess er ekki fagið sjúkraþjálfun. [Kæranda] var ekki kunnugt um að meistaranámið í upplýsingatækni á heilbrigðissviði við læknadeild Háskóla Íslands væri ekki metið að sömu verðleikum og meistaranámið í heilbrigðisvísindum við sömu deild og skóla. Ekki er það heldur augljóst á upplýsingum frá Háskóla Íslands. Ef það hefði verið ljóst við ákvörðunina að fara í meistaranám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði þá hefði [kærandi] valið að klára meistaranám í heilbrigðisvísindum við læknadeild Háskóla Íslands með sama lokaverkefni, því það hefði verið hægt.“

Málsástæður og lagarök landlæknis

Í greinargerð landlæknis, dags. 27. maí 2010, er ferill málsins rakinn líkt og gert hefur verið hér að framan. Rökstuðningur í synjunarbréfi landlæknis, dags. 26. febrúar 2010, er endurtekinn og ítrekað að nám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði sé þverfaglegt nám og grunnur þess sé ekki fagið sjúkraþjálfun.

Í greinargerðinni kemur fram, vegna athugasemda kæranda um að ekki hafi verið óskað eftir rökstuðningi sérfræðinefndarinnar, að óformlega hafi starfsmaður embættisins haft samband við formann sérfræðinefndarinnar þann 10. febrúar 2010. Fram hafi komið að „rökstuðningur væri svo sem enginn og nefndin hafi verið í miklum vafa.“ Síðan segir í greinargerðinni:

„Var það mat starfsmanna Landlæknisembættisins að ekki væri þörf á að tefja afgreiðslu málsins frekar með því að óska eftir skriflegum rökstuðningi, annars vegar í ljósi þess að [kærandi] óskaði ekki sérstaklega eftir því að leita yrði rökstuðnings og hins vegar vegna þess að Landlæknisembættið taldi málið nægjanlega upplýst svo taka mætti ákvörðun í því, þar sem fyrir lágu ítarleg gögn um námið bæði frá [kæranda] og Háskóla Íslands.“

Þá komi fram í kæru að kærandi hafi sent inn fyrirspurn í tölvupósti til embættisins og óskað eftir upplýsingum um það hverjir hafi fengið sérfræðiviðurkenningu í sjúkraþjálfun, en ekki fengið nein svör. Hafi það verið kannað og komið í ljós að það hafði misfarist. Upplýsir landlæknir að sex sjúkraþjálfarar hafi fengi sérfræðileyfi frá 1. apríl 2008. Þeir hafi allir fengi sérfræðileyfi á klínískum sérsviðum sjúkraþjálfunar sem talin séu upp í 5. gr. reglugerðar nr. 145/2003, um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun. Einn sjúkraþjálfari hafi fengið sérfræðileyfi í öldrunarsjúkraþjálfun og fimm í greiningu og meðferð á hrygg og útlimaliðum („Manuel Terapy“). Í fylgiskjali með umsögn landlæknis er að finna nöfn þessara sjúkraþjálfara.

Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að synjun landlæknisembættisins um útgáfu sérfræðileyfis í upplýsingatækni í sjúkraþjálfun til handa kæranda, en kærandi lauk meistaranámi í upplýsingatækni á heilbrigðissviði frá Læknadeild Háskóla Íslands þann 16. júní 2007.

Í 4. gr. laga nr. 58/1976, um sjúkraþjálfun, er kveðið á um að enginn megi kalla sig sérfræðing í sérgrein innan sjúkraþjálfunar nema hann hafi fengið til þess leyfi landlæknis. Þá er í 2. mgr. 4. gr. kveðið á um að ráðherra setji reglugerð um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis í sérgreinum sjúkraþjálfunar.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 145/2003, um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun, eru sett fram þau skilyrði sem uppfylla þarf til að sjúkraþjálfari geti átt rétt á sérfræðileyfi á klínískum sérsviðum sjúkraþjálfunar. Í 5. gr. reglugerðarinnar segir að sérfræðileyfi megi veita á eftirfarandi klínískum sérsviðum sjúkraþjálfunar og talin upp tólf svið í klínískri sjúkraþjálfun. Þá segir í 2. mgr. 5. gr. að heimilt sé að tilgreina sérsvið eða sérgrein sem viðkomandi hefur sérhæft sig í innan framangreindra aðalgreina og að leyfilegt sé að veita sérfræðileyfi á öðrum sérsviðum mæli sérfræðinefnd, sbr. 3. gr., með því.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar frá landlækni, sem kærandi hefur fengið, um það hverjir hafi fengið sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun frá 1. apríl 2008 er landlæknir tók við útgáfu starfsleyfa. Í greinargerð landlæknis kemur fram að þeir hafi allir fengið sérfræðileyfi á klínískum sérsviðum sjúkraþjálfunar.

Ráðuneytið hefur skoðað gögn nokkurra sjúkraþjálfara sem fengu sérfræðileyfi fyrir 1. maí 2008 og var þeim öllum veitt sérfræðileyfi á klínískum sérsviðum sjúkraþjálfunar, flestum í greiningu og meðferð á hrygg og útlimaliðum (e Manuel Terapy). Ennfremur hafa verið gefin út sérfræðileyfi í bæklunarsjúkraþjálfun, íþróttasjúkraþjálfun, hjartasjúkraþjálfun, öldrunarsjúkraþjálfun og gjörgæslusjúkraþjálfun samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. hafa verið gefin út sérfræðileyfi í barnasjúkraþjálfun. Af framangreindri upptalningu er ljóst að einungis hafa verið gefin út sérfræðileyfi á klínískum sérsviðum sjúkraþjálfunar.

Af 4. gr. reglugerðar nr. 145/2003 má ráða að til þess að sjúkraþjálfari öðlist sérfræðileyfi á klínísku sérsviði sjúkraþjálfunar þarf hann að uppfylla tilteknar kröfur. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar eru talin upp tólf klínísk sérsvið sjúkraþjálfunar. Í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar er síðan vísað til 1. mgr. með orðalaginu „innan framangreindra aðalgreina“. Af lestri reglugerðarinnar í heild telur ráðuneytið að túlka verði hugtakið „öðrum sérsviðum“ í 2. máls. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar á þann hátt að átt sé við klínísk sérsvið sjúkraþjálfunar.

Er einnig ljóst með vísan til 4. gr. laga um sjúkraþjálfara að sérfræðileyfi eru einungis veitt í sérgreinum sjúkraþjálfunar. Verður að telja að með sérgreinum sjúkraþjálfunar sé átt við klínískar sérgreinar sjúkraþjálfunar. Með vísan til framanritaðs er því einungis heimilt samkvæmt lögum um sjúkraþjálfara og reglugerð nr. 145/2003 að veita sérfræðileyfi á klínískum sérsviðum sjúkraþjálfunar.

Þar sem upplýsingatækni á heilbrigðissviði getur ekki talist klínískt sérsvið sjúkraþjálfunar telur ráðuneytið ekki þörf á að afla rökstuðnings sérfræðinefndar samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 145/2003.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun landlæknis um synjun á útgáfu starfsleyfis sem sérfræðingur í upplýsingatækni í sjúkraþjálfun til handa A er hér með staðfest.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum