Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2010 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Synjun landlæknis um útgáfu starfsleyfis sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi

Miðvikudaginn 27. janúar 2010 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú r s k u r ð u r

Með bréfi dags. 27. ágúst 2009, kærði A (hér eftir nefnd kærandi), til heilbrigðisráðuneytisins þá ákvörðun landlæknis frá 29. júní 2009 að synja kæranda um starfsleyfi sem áfengis og vímuefnaráðgjafi.

Kröfur

Kærandi gerir þær kröfur að ákvörðun landlæknis verði felld úr gildi og teknar verði til skoðunar athugasemdir hans varðandi synjun landlæknis um útgáfu starfsleyfis sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi.

Málsmeðferð ráðuneytisins

Ráðuneytið óskaði, með bréfi dags. 28. ágúst 2009 eftir umsögn landlæknis og gögnum vegna kærunnar. Umsögn landlæknis ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 14. september 2009. Kæranda var með bréfi dags. 22. september 2009 send umsögn landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum fyrir 6. október sl. Óskað var eftir frekari fresti og bárust athugasemdir kæranda með bréfi dags. 19. október 2009. Landlækni var með bréfi dags. 21. október sl. gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Svar landlæknis barst með tölvupósti þann 23. október 2009 og kemur þar fram að hann óski ekki eftir að koma að frekari athugasemdum.

Málavextir

Kærandi sótti um starfsleyfi til landlæknis sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi með bréfi dags. 29. janúar 2009. Landlæknir sendi umsóknina ásamt fylgigögnum til umsagnar til fagráðs, sem skipað er af landlækni til að meta hæfi umsækjenda um starfsleyfi sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar skv. 2. gr. reglugerðar nr. 974/2006 um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Í umsögn fagráðs dags. 18. maí 2009 kemur fram að fagráð telur kæranda hafa aflað sér víðtækrar þekkingar, en ekki sé hægt að sjá af gögnum að hún uppfylli skilyrði reglugerðarinnar. Með bréfi dags. 19. maí 2009 gaf landlæknir kæranda kost á að gera athugasemdir við greinargerð fagráðs. Var gefinn frestur til 9. júní 2009, en engar athugasemdir bárust landlækni frá kæranda.

Landlæknir synjaði kæranda um starfsleyfi með bréfi dags. 29. júní 2009 með vísan til laga nr. 24/1985 um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta og reglugerðar nr. 974/2006 um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuefnaráðgjafa.

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru dags. 27. ágúst 2009 kemur m.a. fram að kærandi hafi fyrst sent inn umsókn um starfsleyfi í byrjun árs 2007 ásamt gögnum sem staðfestu 23ja ára starfsreynslu sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi og nám í Bandaríkjunum og Danmörku. Einnig hafi fylgt umsókninni bók eftir kæranda um upphaf meðferðar á Íslandi, en bókin hafi verið gerð fyrir Áfengisvarnarráð B árið 1990. Umsókninni frá árinu 2007 hafi verið hafnað á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki verið talin uppfylla ákvæði 3. og 5. gr. reglugerðar nr. 974/2006 þar sem staðfestingu á handleiðslu hjá heilbrigðisstarfsmanni og vottorð frá yfirmanni um vinnu á heilbrigðisstofnun í samfellt þrjú ár vantaði.

Þá kemur fram í kæru að með umsókn dags. 29. janúar 2009 hafi verið send þau gögn sem vantaði samkvæmt synjun vegna umsóknar í ársbyrjun 2007, þ.e. staðfesting á námi og starfstíma.

Ennfremur kemur fram í kæru að á fundi með landlæknisembættinu í maí sl. hafi verið farið yfir fyrirliggjandi gögn frá kæranda og þau borin saman við reglugerðina. Óskað hafi verið eftir lista yfir þær námsbækur sem kærandi hefði lesið svo og vottorði um staðfestingu um starfstíma á C. Kærandi hafi haft samband við D lækni, en hann hafi verið yfirlæknir hjá E á árunum 1985-1989. Samkvæmt bréfi D, dags. 26. ágúst 2009, sem lagt hafi verið fram í málinu, komi fram að „meðferðin á F hafi að öllu leyti verið sambærileg við þá meðferð sem þá var veitt á Íslandi á sjúkrastofnunum E enda var um hreina eftirmynd að ræða þar sem dagskráin var meira eða minna þýdd úr íslensku og löguð að B aðstæðum“, með ráðgjöfum, fyrirlestrum, grúppuvinnu/hópvinnu og AA fundum.

Kærandi var samkvæmt gögnum málsins í fullu starfi á Meðferðarstöðinni F í B frá desember 1986 til nóvember 1989 sem ráðgjafi og frá 1993-1996 sem fjölskylduráðgjafi.

Kærandi telur að forsendur fyrir synjun umsóknarinnar séu ekki réttar og segir m.a. í kærunni:

„1. Fræðsla: Ég hef sannanlega aflað mér meiri þekkingar en krafist er í reglugerðinni.

2. Starfstími: Ég hef unnið samfellt í þrjú ár á Heilbrigði Velbasta sem er heilbrigðisstofnun, með læknum og hjúkrunarfólki.

3. Handleiðsla: Ég hef fengið handleiðslu hjá háskólamenntuðum læknum og sálfræðingum þar sem gera má ráð fyrir að viti í hverju fagleg handleiðsla er fólgin.“

Í andmælabréfi kæranda til ráðuneytisins dags. 19. október sl. kemur m.a. fram að byggt sé á því að kærandi uppfylli öll skilyrði laga. Kærandi hafi því þegar við setningu reglugerðarinnar uppfyllt skilyrði laga nr. 24/1985, sem reglugerðin byggir á. Ekki sé hægt að beita reglugerðinni með þeim hætti að hún sé afturvirk og afnemi réttindi sem þegar séu til staðar. Skilningur landlæknis á 3. gr. reglugerðarinnar feli í sér nýja túlkun á lögum nr. 24/1985.

Í andmælabréfi kæranda kemur ennfremur fram að í umsögn landlæknis dags. 14. september 2009 sé hæfi kæranda borið saman við kröfur reglugerðarinnar í fjórum liðum. Gerir kærandi athugasemdir við einstaka liði í umsögn landlæknis.

Fræðsla: Landlæknir byggi á því að kærandi „hafi ekki starfað á heilbrigðisstofnun undanfarin ár” og því hafi ekki verið um skipulagt starfsnám að ræða. Starfsnámið hafi ekki verið í boði þegar kærandi starfaði á heilbrigðisstofnun, „þrátt fyrir það liggi fyrir staðfestingar lækna um að hún hafi hlotið sambærilegt starfsnám.“ Ennfremur komi fram að áherslubreytingar hafi orðið í meðferð áfengis- og vímuefnaráðgjafa.

„Áherslubreytingar eigi sér stað í öllum störfum á sviði heilbrigðismála án þess þó að starfsmenn, sem þegar hafi öðlast réttindi, séu sviptir þeim. Atvinnuréttindi eru lögvarin í Stjórnarskrá og ákvæði í reglugerð breyta engu þar um og þá skipta áherslubreytingar í starfi engu máli.“

Ennfremur segir í bréfinu: „Í erindi landlæknis er miklu fremur vísað til þess að A hafi aflað sér umfangsmeiri fræðslu en nú sé krafist enda bendi öll gögn til þess að svo sé auk þess sem ekkert bendir til annars en að fræðsla A sé mun umfangsmeiri en gert er ráð fyrir, þrátt fyrir að hún sé til komin á löngum tíma. 3. gr. reglugerðar nr. 974/2006 segir ekkert til um tímasetningar í því sambandi.“

Starfstími: „Í synjun sinni segir landlæknisembættið fallast á að A hafi umtalsverða starfsreynslu en uppfylli ekki kröfu um „samfelldan“ tíma á heilbrigðisstofnun eins og 3. gr. reglugerðarinnar gerir ráð fyrir“. Kærandi bendir á að ekki sé í 3. gr. gerð krafa um samfelldan starfstíma einungis „fullt þriggja ára starf undir þverfaglegu teymi og stjórn læknis í fullu starfi.“

Kærandi telur sig uppfylla þau skilyrði, enda hafi hún starfað samtals í 6 ár og 11 mánuði sem sé staðfest af sérfróðum læknum bæði íslenskum og erlendum.

Handleiðsla: Kærandi telur sig uppfylla tímamagn um einkahandleiðslu enda staðfesti landlæknir að gögn bendi til að hún uppfylli þau skilyrði.

Próf: Í andmælabréfi kæranda kemur og fram að landlæknir beri því við að kærandi hafi ekki lokið prófi skv. 3. gr. reglugerðarinnar. Kærandi hafi þó lokið fjölmörgum prófum í faginu. Próf skv. 3. gr. reglugerðarinnar hafi ekki komið til fyrr en eftir setningu reglugerðarinnar árið 2006.

Þá segir í andmælabréfi kæranda til ráðuneytisins: „Fyrir því er víðtæk venja, sem á sér stoð í réttindakafla Stjórnarskrárinnar og lagatúlkun um afturvirkni réttarreglna, að aðilar sem hafa hlotið starfsréttindi haldi þeim nema annað sé skýrlega kveðið á í lögum. A hefur nægar sannanir fyrir því að hún uppfyllir öll skilyrði, aðrar en að hafa lokið prófi sem ekki var til er hún uppfyllti skilyrðin. Þá hafi hún þegar verið viðurkennd af alþjóðlegum aðilum og íslensku fagráði og ávann sér með því lögvarin réttindi sem ekki verða tekin af með reglugerð.“ Ekki er í andmælabréfi nánar tilgreint um hvaða próf er að ræða.

Kærandi telur að landlæknisembættið byggi synjun sína „á ómálefnalegri yfirferð um farsælan feril“. Embættið beiti „röngum skilningi á 3. gr. umræddrar reglugerðar m.a. um „samfellt“ þriggja ára starfsnám.“ Í umfjöllun sinni um mál kæranda hafi fagráðið „alls ekki verið á einu máli um hæfi“ kæranda og segi í áliti sínu að „ekki hafi allir verið sáttir. Niðurstaðan hafi fengist með mjög þröngri túlkun reglugerðarinnar.

Málsástæður og lagarök landlæknis

Ráðuneytið sendi kæruna til landlæknisembættisins til umsagnar með bréfi dags. 28. ágúst 2009. Í umsögn landlæknis dags. 14 september 2009 kemur m.a. fram að umsókn kæranda hafi verið send fagráði til umsagnar skv. 2. gr. reglugerðarinnar og að umsögn fagráðs sé dags. 18. maí 2009 en þar segir m.a.:

„A hefur lagt fram viðbótargögn er varða vinnu hennar með fólk er á við áfengis- og vímuefnavandamál að etja. Fram kemur að A á langa og að því er virðist farsæla starfsæfi að baki og greinilega aflað sér fræðslu víða.“

Þá kemur fram að umsóknin hafi verið yfirfarin, en ekki hafi allir verið á eitt sáttir um að veita undantekningu í máli kæranda, en sameiginleg niðurstaða hafi fengist um „að þrátt fyrir að A hafi sent inn meiri gögn og samkvæmt þeim unnið vel að málefnum þeirra sem eiga við áfengisvanda að etja þá væri reglugerðin skýr og frá henni yrði ekki vikið í þessu einstaka máli, frekar en öðrum áþekkum málum sem fagráð hefur vísað frá.“

Í umsögn fagráðs er farið yfir kröfur 3. gr. reglugerðarinnar og gögn kæranda borin saman við þær. Hvað varðar fræðslu komi fram að kærandi hafi aflað sér víðtækrar fræðslu. Áherslubreytingar hafi hins vegar átt sér stað í meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga á heilbrigðisstofnunum hér á landi. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar séu heilbrigðisstarfsmenn og fræðileg grunnþekking á sviðinu því nauðsynleg. Kærandi hafi ekki starfað á heilbrigðisstofnun undanfarin ár og því ekki hægt að segja að hún hafi fengið skipulagt starfsnám sem áfengisráðgjöfum er ætlað í dag enda ekki í boði þegar hún vann á heilbrigðisstofnunum.

Hvað varðar starfstíma kemur fram að kærandi hafi vottuð skjöl um að hún hafi starfað á ýmsum stofnunum sem koma að málefnum áfengis- og vímuefnasjúklinga, en nái „ekki að uppfylla kröfu um samfelldan tíma á heilbrigðisstofnun eins og 3. gr. reglugerðarinnar gerir ráð fyrir.“

Hvað varðar tímamagn einkahandleiðslu, þá virðist kærandi uppfylla þá kröfu, en ekki sé skilgreint í hverju megináhersla fólst.

Þá er vikið að því að þrátt fyrir að kærandi hafi aflað sér víðtækrar þekkingar sé ekki hægt að sjá af gögnum málsins að kærandi uppfylli skilyrði reglugerðar um að hafa lokið prófum skv. 4. gr.

Landlæknisembættið kemst að þeirri niðurstöðu með hliðsjón af áliti fagráðs að embættið hafi ekki heimild til að víkja frá skýrum skilyrðum reglugerðarinnar. Taka verði mið af þeim kröfum sem gerðar séu til náms á þeim tíma sem ákvörðun um leyfisveitingu er tekin.

Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að synjun landlæknisembættisins um útgáfu á starfsleyfi til handa kæranda sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi. Kærandi gerir þær kröfur að málið verði tekið upp aftur, athugasemdir verði teknar til greina og ákvörðun landlæknis um að synja útgáfu starfsleyfis verði hnekkt.

Lög nr. 24/1985 um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta taka til starfsheita og starfsréttinda þeirra heilbrigðisstétta sem sérlög gilda ekki um og sem ráðherra ákveður hverju sinni að fella undir lögin. Löggilding heilbrigðisstétta fer fram með setningu reglugerðar skv. 2. gr. laganna. Í reglugerð skulu sett nánari ákvæði um nám og menntunarskilyrði fyrir viðkomandi stétt. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar voru löggiltir sem heilbrigðisstétt með reglugerð nr. 974/2006 sem sett er með stoð í fyrrgreindum lögum.

Í 3. gr. reglugerðarinnar segir að menntun og þjálfun umsækjenda skuli að lágmarki uppfylla þær kröfur sem þar eru taldar. Hér er um lágmarkskröfur að ræða og nauðsynlegt að meta hvern umsækjanda fyrir sig. Bera þarf því saman innihald náms og námslengd, starf og starfsvettvang svo og lengd og umfang handleiðslu.

Í gögnum sem kærandi hefur lagt fram í máli þessu liggja fyrir upplýsingar um nám, endurmenntun og störf kæranda allt frá árinu 1986. Hefur kærandi verið í starfi bæði undir handleiðslu og sjálfstætt allt frá árinu 1986. Ennfremur hefur umsækjandi sótt viðhalds- og endurmenntun. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur umsækjandi starfsreynslu sem áfengisráðgjafi og fjölskylduráðgjafi bæði á námstíma og sem starfsmaður á heilbrigðisstofnunum þar sem starfa læknar, sálfræðingar og meðferðarstjórar. Umsækjandi starfrækti eigin meðferðarstofnun á árunum 1996 til 2004. Núverandi starf kæranda er hjá G við atvinnutengda endurhæfingu fyrir óvirka áfengis - og vímuefnaneytendur.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 974/2006 um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuefnaráðgjafa eru settar fram þær kröfur sem umsækjandi um starfsleyfi þarf að uppfylla. Þar segir:

„Menntun og þjálfun umsækjanda skal að lágmarki uppfylla eftirtaldar kröfur:

Fullt þriggja ára starf eða 6000 klukkustundir alls við áfengis- og vímuefnaráðgjöf á heilbrigðisstofnun, þar sem þverfaglegt teymi undir faglegri stjórn læknis í fullu starfi vinnur að áfengis-og vímuefnameðferð.

Umsækjandi skal hafa fengið fræðslu sem nemur 300 klukkustundum.

Fræðsla skal lúta að lyfjafræði vímuefna, vinnutilhögun og faglegri framgöngu í ráðgjafarstarfinu, ásamt hugmyndafræði og siðfræði áfengislækninga.

Umsækjandi skal hafa fengið handleiðslu af þar til bærum heilbrigðisstarfsmanni í hópstarfi, viðtölum og á samráðsfundum, alls 225 klukkustundir.

Þekking umsækjanda þarf að hafa verið sannreynd með prófi sbr. 4. gr. og starfshæfni þeirra vottuð af faglegum yfirmanni heilbrigðisstofnunarinnar þar sem námið fór fram.“

Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar skal landlæknir gera tillögur um nauðsynlega undirbúningsmenntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa og hvernig henni skulið hagað. Heilbrigðisráðuneytið skal staðfesta framangreindar tillögur. Í samráði við SÁÁ og LSH skal ráðuneytið sjá til þess að veitt sé nauðsynleg kennsla á þessu sviði. Framangreindar tillögur landlæknis um nauðsynlega undirbúningsmenntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa voru staðfestar af ráðherra 13. nóvember 2006.

Í umsögn fagráðs dags. 18. maí 2009, kemur m.a. fram að kærandi hafi vottuð skjöl um að hafa starfað á ýmsum stofnunum á sviði áfengis- og vímuefnamála, en uppfylli ekki kröfu um samfellt starf á heilbrigðisstofnun skv. 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er gerð krafa um fullt þriggja ára starf en ekki gerð krafa um að það sé samfellt. Kærandi hefur langa starfsreynslu, þar af mörg ár á heilbrigðisstofnun þar sem starfa læknir, sálfræðingur og aðrir starfsmenn sem koma að meðferð áfengis- og vímuefnaneytenda. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir umsækjandi kröfu 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar um fullt þriggja ára starf.

Í umsögn fagráðs dags. 18. maí 2009, hvað varðar fræðslu og handleiðslu sem kærandi hefur aflað sér, kemur fram að kærandi hafi aflað sér víðtækrar fræðslu, en ekki starfað á heilbrigðisstofnun undanfarin ár. Áherslubreytingar hafi orðið í meðferð áfengis- og vímuefnaráðgjafa og ekki hægt að segja að kærandi hafi fengið skipulagt starfsnám sem áfengisráðgjöfum er ætlað í dag. Samkvæmt umsögn fagráðs virðist kærandi uppfylla kröfu um einkahandleiðslu, en tekið er fram að ekki sé skilgreint í hverju megináherslan fólst.

Ráðuneytið hefur kynnt sér öll fyrirliggjandi gögn varðandi umsókn kæranda um starfsleyfi. Kærandi hefur aflað sér víðtækrar fræðslu og starfsreynslu frá árinu 1986 eða í allt að 23 ár. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur kærandi stundað nám, sótt fjölda námskeiða og ráðstefna og verið í starfi sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi, þannig að ætla má að hún hafi kynnt sér þær áherslubreytingar sem orðið hafa í meðferð áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Af gögnum málsins má ráða að sýnt hafi verið fram á að kærandi uppfylli kröfu 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Ekki kemur fram í 3. mgr. 3. gr. hvenær kærandi þarf að hafa aflað sér þeirrar menntunar sem þar er krafist.

Í umsögn fagráðs hvað varðar kröfu um próf, kemur fram að þrátt fyrir að kærandi hafi aflað sér víðtækrar þekkingar sé ekki hægt að sjá af gögnum málsins að uppfyllt séu skilyrði 5. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar er öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Því frelsi má þó setja skorður með lögum enda krefjist almannahagsmunir þess. Við slíka takmörkun ber að kanna eðli, umfang og markmið hennar svo og að hvort jafnræðis og meðalhófs hafi verið gætt. Með hliðsjón af ákvæði 75. gr., sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, telur ráðuneytið að skýra beri ákvæði 5. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 974/2000 rúmt. Sé um tvær túlkunarleiðir að ræða ber að velja þá sem er kæranda í hag.

Ekki verður af umsögn fagráðs eða landlæknis ráðið að formlega hafi verið borið saman inntak og lengd náms og reynsla kæranda, við kröfur reglugerðarinnar, samkvæmt tillögum landlæknis um tilhögun undirbúningsmenntunar áfengis- og vímuefnaráðgjafa frá 13. nóvember 2006, sem staðfestar eru af ráðherra, og metið hvort löng starfsreynsla og víðtæk menntun sem kærandi hefur aflað sér á 23ja ára starfsferli allt til dagsins í dag geti bætt upp það sem upp á vantar samkvæmt reglugerðinni, einkum hvað varðar kröfu um próf.

Kærandi hefur að hluta aflað sér menntunar í aðildarríki EES-samningsins og fellur því undir ákvæði tilskipunar 92/51/EBE.

Ákvæði tilskipunar 89/48/EBE frá 21. desember 1988, um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár og tilskipunar 92/51/EBE frá 18. júní 1992 um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE, hafa verið innleiddar í löggjöf á Íslandi. Tilskipun 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi er nú hluti af EES-samningnum, sbr. viðauka nr. 7 við EES-samninginn og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007 frá 26. október 2007, en hún mun koma í stað tveggja fyrrgreindra tilskipana þegar innleiðingu er lokið.

Í inngangi tilskipunar 89/48/EBE og tilskipunar 92/51/EBE kemur fram að aðildarríki eigi þess kost að ákveða lágmarkskröfur um menntun og hæfi fyrir starfsgreinar hafi bandalagið ekki gert slíkt, með það að markmiði að tryggja að sem best þjónusta verði veitt á þeirra yfirráðasvæði. Þau geta þó ekki krafist þess að umsækjandi verði sér úti um menntun og hæfi einungis með tilvísan til eigin menntakerfis, hafi umsækjandi þegar öðlast þessa menntun og hæfi í heild eða að hluta í öðru aðildarríki. Ríki sem hafa lögverndað starfsgrein verða af þeim sökum að taka tillit til menntunar og hæfis sem áunnin eru í öðru aðildarríki og ákveða hvort sú menntun og hæfi svari til þess sem þar er krafist.

Ráðuneytið hefur við yfirferð sína á gögnum málsins haft framangreindar reglur tilskipananna í huga og telur að þó kærandi hafi ekki lokið prófi skv. 5. mgr. 3. gr., þá svari sú menntun og starfsreynsla sem kærandi hafi aflað sér fyllilega til þeirra krafna um menntun sem gerðar eru í reglugerðinni.

Við mat á umsókn kæranda ber því að hafa framangreind sjónarmið í huga. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn um formlegt próf, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur kærandi sýnt fram á þekkingu sína og hæfi með sambærilegum/öðrum hætti en niðurstöðu prófs. Vottorð frá fyrrverandi yfirmönnum og handleiðurum staðfesta faglega starfshæfni hennar. Samkvæmt framangreindu telur ráðuneytið að kærandi uppfylli öll skilyrði 5. mgr. 3. gr., sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Með vísan til framanritaðs er synjun landlæknis felld úr gildi og lagt fyrir landlækni að veita kæranda starfsleyfi sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun landlæknis um synjun á útgáfu starfsleyfis til handa A er hér með felld úr gildi og lagt fyrir landlækni að gefa út starfsleyfi til handa A sem áfengis- og vímuefnaráðgjafa.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum