Hoppa yfir valmynd
21. október 2009 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Synjun landlæknis um starfsleyfi sem sjúkraþjálfari

Miðvikudaginn 21. október 2009 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með tölvupósti, dags. 23. júlí 2009, kærði A (hér eftir nefndur kærandi), til heilbrigðisráðuneytisins þá ákvörðun landlæknis frá 7. júlí 2009 að synja kæranda um starfsleyfi sem sjúkraþjálfari.

Kröfur

Kærandi gerir þær kröfur að teknar verði til skoðunar athugasemdir hans varðandi synjun landlæknis á útgáfu starfsleyfis sem sjúkraþjálfari.

Málsmeðferð ráðuneytisins

Ráðuneytið óskaði með bréfi dags. 27. júlí 2009 eftir umsögn landlæknis og gögnum vegna kærunnar. Umsögn landlæknis ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 18. ágúst 2009. Kæranda var með bréfi dags. 20. ágúst 2009 send umsögn landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti dags. 7. september og símbréfi dags. 8. september 2009.

Málavextir

Kærandi sótti um starfsleyfi til landlæknis sem sjúkraþjálfari með bréfi dags. 5. maí 2009. Landlæknir sendi umsóknina ásamt fylgigögnum til umsagnar til sjúkraþjálfunarskorar læknadeildar Háskóla Íslands, skv. 3. gr. laga nr. 58/1976 um sjúkraþjálfun. Í umsögn sjúkraþjálfunarskorar dags. 11. júní 2009 kemur fram að skorin mælir með því að kæranda verði veitt leyfi til að starfa sem sjúkraþjálfari á Íslandi tímabundið til eins árs. Tekið er fram að kærandi hafi lokið námi í sjúkraþjálfun frá Indlandi í apríl 2000.

Landlæknir synjaði kæranda um starfsleyfi með bréfi dags. 7. júlí 2009 með vísan til 3. gr. laga um sjúkraþjálfara.

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru dags. 23. júlí 2009 vísar kærandi til umsagnar sjúkraþjálfunarskorar Háskóla Íslands um að hann uppfylli skilyrði til að fá tímabundið starfsleyfi og andmælir þeim rökum landlæknis að skortur á kunnáttu í íslensku komi í veg fyrir útgáfu starfsleyfis til sín. Í andmælabréfi kæranda dags. 7. og 8. september sl. kemur fram að ef hann fái útgefið tímabundið starfsleyfi til eins árs telji hann sig geta lært íslensku og jafnframt starfað sem sjúkraþjálfari undir handleiðslu sjúkraþjálfara hér á landi.

Málsástæður og lagarök landlæknis

Ráðuneytið sendi kæruna til Landlæknisembættisins til umsagnar með bréfi dags. 27. júlí 2009. Í umsögn landlæknis dags. 18. ágúst 2009 segir m.a.:

„Umsókn A fellur undir 3. gr. laga nr. 58/1976 þar sem hann er indverskur ríkisborgari. Í 3. gr. segir að landlækni sé „heimilt“ að veita umsækjanda ótakmarkað eða tímabundið leyfi til að stunda sjúkraþjálfun enda hafi stjórn námsbrautar í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands mælt með leyfisveitingunni. Það er því lagt í mat Landlæknisembættisins hvort veita skuli starfsleyfi samkvæmt 3. gr. þar sem talað er um að leyfisveiting sé heimil en ekki skylda, en vissulega ber landlækni að gæta jafnræðis við slíkt mat.“

Ennfremur kemur fram:

„Það er stefna Landlæknisembættisins að synja umsóknum um starfsleyfi á grundvelli 3. gr. laga nr. 58/1976 þegar umsækjandi hefur ekki nein tengsl við Ísland og enga þekkingu á íslenskri tungu. Byggist slík afgreiðsla fyrst og fremst á hagsmunum sjúklinga enda er það nauðsynlegt að sjúkraþjálfari geti átt eðlileg tjáskipti við sjúkling sinn. Meðferð verður markvissari og árangursríkari þegar sjúklingur og sjúkraþjálfari skilja hvor annan og minni hætta verður á mistökum. Þá telur Landlæknisembættið það ekki þjóna hagsmunum heilbrigðisþjónustunnar að gefa út starfsleyfi á Íslandi þegar ekki verður séð að umsækjendur hafi í hyggju að starfa hér á landi.“

Í umsögn landlæknis er bent á að ákvæði um tungumálakunnáttu sé að finna í m.a. læknalögum, hjúkrunarlögum, lögum um tannlækna, ljósmæðralögum og lögum um félagsráðgjöf.

Einnig er bent á að í gögnum sem kærandi sendi embættinu með umsókn um starfsleyfi komi ekkert fram um tengsl við Ísland né kunnáttu í íslenskri tungu.

Niðurstaða landlæknisembættisins var því sú með vísan til framanritaðs að synja kæranda um starfsleyfi sem sjúkraþjálfari.

Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að synjun landlæknisembættisins um útgáfu á starfsleyfi til handa kæranda sem sjúkraþjálfari. Hann gerir þær kröfur að athugasemdir hans verði teknar til greina og ákvörðun landlæknis um að synja útgáfu starfsleyfis sem sjúkraþjálfari verði hnekkt. Kærandi vísar til umsagnar sjúkraþjálfunarskorar Háskóla Íslands um að hann uppfylli skilyrði til að fá tímabundið starfsleyfi til eins árs og andmælir þeim rökum landlæknis að skortur á kunnáttu í íslensku komi í veg fyrir útgáfu starfsleyfis sér til handa.

Í 3. gr. laga nr. 58/1976 um sjúkraþjálfara segir:

„Nú uppfyllir maður skilyrði 2. gr. að öðru leyti en að því er varðar ríkisfang í öðru aðildarríki EES-samningsins eða í Sviss og er þá landlækni heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundið leyfi til að stunda sjúkraþjálfun, enda hafi stjórn námsbrautar í sjúkraþjálfun við Háskóli Íslands mælt með leyfisveitingunni“.

Ráðuneytið tekur undir túlkun landlæknis á ákvæði 3. gr. laga um sjúkraþjálfun um að honum sé heimilt en ekki skylt að veita starfsleyfi þegar um ríkisborgara utan EES- samningsins eða í Sviss sé að ræða.

Kærandi uppfyllir kröfur um nám í sjúkraþjálfun samkvæmt umsögn sjúkraþjálfunarskorar læknadeildar Háskóla Íslands. Hins vegar liggja ekki fyrir nein gögn er benda til þess að kærandi hafi sótt um og/eða fengið starf sem sjúkraþjálfari hér á landi eða að sótt hafi verið um atvinnu- og dvalarleyfi. Ráðuneytið telur rökstuðning landlæknis um tungumálakunnáttu og tengsl við landið málefnalega forsendu fyrir synjun. Ráðuneytið telur að ekki sé um brot á jafnræðisreglu að ræða.

Í andmælabréfi kæranda kemur m.a. fram að hann mundi nýta tímabundið starfsleyfi til að læra íslensku og starfa undir handleiðslu sjúkraþjálfara. Leggi kærandi fram fullnægjandi gögn um að hann hafi fengið tilskilin leyfi og starf sem sjúkraþjálfari undir handleiðslu sjúkraþjálfara með ótakmarkað starfsleyfi hér á landi, telur ráðuneytið eðlilegt að hann sæki aftur um starfsleyfi og að landlæknisembættið taki umsókn hans til afgreiðslu á grundvelli nýrra gagna.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun landlæknis frá 7. júní 2009 um synjun á útgáfu starfsleyfis sem sjúkraþjálfari á Íslandi til handa A er hér með staðfest.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum