Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Synjun Vinnumálastofnunar frá 22. apríl 2008 staðfest

Föstudaginn 6. febrúar 2009 var í félags- og tryggingamálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með erindi, dags. 13. maí 2008, kærði A, ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. apríl 2008, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis fyrir B sem er eþíópískur ríkisborgari.

 

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa A í því skyni að ráða til starfa B sem er eþíópískur ríkisborgari. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til þágildandi a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins. Í erindi kæranda kemur fram að umræddur útlendingur hafi fengið tímabundið atvinnuleyfi hjá öðrum atvinnurekanda hér á landi en hafi hætt þar störfum. Enn fremur kemur fram að kærandi hafi mikinn hug á að ráða umræddan útlending til starfa en hann hafi staðið sig mjög vel í vinnu, sé duglegur og samviskusamur. Að sögn kæranda er atvinnuleysi mjög mikið í heimalandi umrædds útlendings og því ekki líklegt að hann geti ráðið sig til starfa þar. Hann hafi jafnframt átt við þrálát veikindi að stríða en hann hafi fengið viðeigandi læknismeðferð hérlendis. Þá kemur fram að eini náni ættingi umrædds útlendings sé systir hans sem búsett sé hér á landi.

Erindi kæranda var sent Vinnumálastofnun til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 28. maí 2008, og barst svarbréf stofnunarinnar 12. júní sama ár. Í umsögn sinni ítrekar Vinnumálastofnun afstöðu sína til málsins sem fram kemur í synjunarbréfi stofnunarinnar, dags. 22. apríl 2008, þess efnis að skv. þágildandi 7. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, sé heimilt að veita leyfi til að ráða útlendinga til starfa hérlendis að uppfylltum tilteknum skilyrðum, svo sem að kunnáttumenn verði ekki fengnir innanlands eða að atvinnuvegi landsins skorti vinnuafl. Enn fremur bendir stofnunin á að skv. viðauka B við aðildarsamning EES sé aðildarríkjum gert að veita ríkisborgurum þeirra aðildarríkja, sem gengu til liðs við Evrópusambandið sem og Evrópska efnahagssvæðið 1. maí 2004, forgang fram yfir ríkisborgara ríkja sem standa utan Evrópska efnahagssvæðisins að því er varðar aðgengi að vinnumörkuðum sínum. Því beri að leita aðstoðar vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu fáist ekki vinnuafl innanlands. Atvinnurekanda beri því að hafa óskað eftir aðstoð Vinnumálastofnunar við leit að vinnuafli áður en stofnunin geti veitt atvinnuleyfi. Að mati stofnunarinnar hafi framangreind skilyrði ekki verið uppfyllt í máli þessu.

Í umsögn Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki óskað eftir aðstoð Eures,vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, við leit að starfsmanni í umrætt starf. Enn fremur kemur fram að vinnumiðlunin telji það ganga vel að finna starfsfólk innan Evrópska efnahagssvæðisins til að gegna ósérhæfðum störfum hér á landi.

Jafnframt bendir stofnunin á að íslensk stjórnvöld hafi áréttað þær skuldbindingar sem felast í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið um forgang ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins umfram ríkisborgara ríkja utan svæðisins til starfa hér á landi. Stofnunin vísar í þessu sambandi til yfirlýsingar félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra frá 7. september 2005 sem og fréttatilkynningar félagsmálaráðherra frá 3. maí 2006. Enn fremur vísar stofnunin til úrskurða félagsmálaráðuneytisins sem kveðnir hafa verið upp frá því í september 2005 þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að kærendur hafi ekki fullreynt að ráða ríkisborgara aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þar með hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn þess að ráða viðkomandi útlendinga til starfa. Telur stofnunin að umræddir úrskurðir hafi fordæmisgildi í því máli sem hér um ræðir.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun að stofnuninni hafi borið að synja um umrætt atvinnuleyfi.

 

Með bréfi, dags. 16. júní 2008, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Vinnumálastofnunar. Frestur til að koma að athugasemdum var veittur til 30. júní 2008 en svarbréf barst ekki frá kæranda. Ráðuneytið sendi því bréf til kæranda, dags. 2. júlí 2008, þar sem upplýst var að ráðuneytið tæki málið til efnislegrar afgreiðslu hefðu athugasemdir hans ekki borist fyrir 11. júlí sama ár. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda og er málið því tekið til efnislegrar afgreiðslu.

 

II. Niðurstaða.

Atvinnuleyfisumsóknin sem um ræðir í máli þessu barst Vinnumálastofnun áður en breytingar á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. lög nr. 78/2008, tóku gildi 1. ágúst 2008 og tók Vinnumálastofnun jafnframt ákvörðun í málinu fyrir þann tíma eða í apríl 2008. Var ákvörðun Vinnumálastofnunar því tekin á grundvelli ákvæða laga um atvinnuréttindi útlendinga sem í gildi voru fyrir gildistöku laga nr. 78/2008.

Í ljósi þessa verður því í úrskurði þessum byggt á ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga sem í gildi voru fyrir gildistöku laga nr. 78/2008 en heimild til að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun atvinnuleyfis til félags- og tryggingamálaráðuneytis, var að finna í þágildandi 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.

Atvinnuleyfi vegna starfa útlendinga eru veitt í samræmi við lög, reglugerðir settar með heimild í þeim og stefnu íslenskra stjórnvalda hverju sinni að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga þeirra. Samkvæmt þágildandi a-lið 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er það gert að skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis að kunnáttumenn verði ekki fengnir innanlands, atvinnuvegi landsins skorti vinnuafl eða aðrar sérstakar ástæður mæli með veitingu atvinnuleyfis. Þá er tekið fram að áður en atvinnuleyfi er veitt beri atvinnurekanda að hafa leitað til svæðisvinnumiðlunar eftir vinnuafli nema slík leit verði fyrirsjáanlega árangurslaus að mati Vinnumálastofnunar.

Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, kemur fram að ákvæðið sé efnislega samhljóða ákvæðum eldri laga. Þessi skilyrði komu inn sem nýmæli í lög nr. 26/1982, um sama efni. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er varð að þeim lögum kemur fram að færa skuli „rök fyrir nauðsyn þess að nota erlent starfsfólk og gera grein fyrir því hvaða tilraunir hafi verið gerðar til þess að ráða innlent starfsfólk í starfið. Gert er ráð fyrir því að vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins kanni síðan sjálfstætt áður en atvinnuleyfi er veitt, hvert atvinnuástand er á viðkomandi stað og leiti til sambanda aðila vinnumarkaðarins um almenna stefnumörkun í innflutningi erlends starfsfólks með sérstöku tilliti til atvinnuástands í landinu og á ákveðnum landssvæðum.“Enn fremur var það talið lögbundið hlutverk vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins að „fylgjast náið með atvinnuástandi í landinu og reyna að koma í veg fyrir atvinnuleysi eftir bestu getu. Rétt þótti því að tengja veitingu atvinnuleyfa vegna erlendra starfsmanna þeim upplýsingum og því starfi sem unnið er á skrifstofunni að öðru leyti hvað varðar atvinnuástand í landinu.“

Verður ekki annað séð en að tilgangur skilyrðis þágildandi a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga hafi verið í meginatriðum sá sami og áður enda ekkert annað komið fram í lögskýringargögnum. Þá var Vinnumálastofnun falið hlutverk vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins með lögum nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir, sbr. einnig lög nr. 55/2006, um sama efni. Með síðarnefndu lögunum voru svæðisvinnumiðlanir lagðar niður en skv. 10. gr. laganna var Vinnumálastofnun falið hlutverk þeirra. Af efni ákvæðis þágildandi a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga má því ráða að mat Vinnumálastofnunar um hvort skilyrði þess fyrir veitingu tímabundinna atvinnuleyfa sé fullnægt skuli aðallega byggjast á aðstæðum á innlendum vinnumarkaði hverju sinni. Þar á meðal er átt við hið lögbundna hlutverk Vinnumálastofnunar að meta hvort leit atvinnurekanda að starfsmanni, sem þegar hefur aðgengi að íslenskum vinnumarkaði, sé fyrirsjáanlega árangurslaus og þar með ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis.

Beiðni um aðstoð Vinnumálastofnunar við leit að starfsfólki sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði er lögbundið skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis enda telji stofnunin leitina ekki fyrirsjáanlega árangurslausa. Í mars 2008 voru að meðaltali 1.674 einstaklingar á atvinnuleysisskrá hér á landi samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun, sbr. skýrslu stofnunarinnar yfir atvinnuástand, nr. 3/2008, en það jafngildir 1,0% af áætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis um mannafla á vinnumarkaði á þeim tíma. Á sama tíma var atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu 0,8 % af áætluðum mannafla sem svarar til 788 einstaklinga að meðaltali.

Við mat á því hvort skilyrðum þágildandi a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga sé fullnægt ber Vinnumálastofnun jafnframt að líta til skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 2. gr. sömu laga, og b-lið 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 339/2005, um atvinnuréttindi útlendinga. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að skapa skilyrði fyrir fulla atvinnu, bætt lífskjör og bætt starfsskilyrði á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. einnig lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum. Ákvæði 28.–30. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið fjalla síðan sérstaklega um frjálsa för launafólks sem nánar eru útfærð í gerðum um þetta efni og hafa verið felldar undir V. viðauka við samninginn. Samkvæmt reglugerð nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, skal sérhver ríkisborgari annars aðildarríkis njóta þeirra réttinda að ráða sig til starfa á yfirráðasvæði annars aðildarríkis með sama forgangsrétti og ríkisborgarar þess ríkis. Er þar jafnframt kveðið á um náið samstarf vinnumiðlana aðildarríkjanna um miðlun lausra starfa innan svæðisins. Það telst því felast í skuldbindingum íslenskra stjórnvalda samkvæmt framangreindum samningi að þau veiti launamönnum sem eru ríkisborgarar annarra aðildarríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins forgang fram yfir ríkisborgara ríkja utan svæðisins að því er varðar aðgengi að lausum störfum á innlendum vinnumarkaði.

Evrópska efnahagssvæðið stækkaði 1. maí 2004 er tíu ríki gerðust aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til viðbótar þeim sem fyrir voru, sbr. aðildarsamning EES. Þessi ríki voru Eistland, Lettland, Litháen, Kýpur, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland. Reglum samningsins er í meginatriðum ætlað að gilda á öllu svæðinu en gerður var fyrirvari um gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum. Samningarnir um inngöngu Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands í Evrópska efnahagssvæðið gerðu því ekki ráð fyrir að þau ákvæði giltu fyrst um sinn að því er varðar frjálsa för ríkisborgara þessara ríkja sem launamanna innan svæðisins. Íslensk stjórnvöld nýttu sér þennan fyrirvara með lögum nr. 19/2004, um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.

Með lögum nr. 21/2006, um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, sem tóku gildi 1. maí 2006 var ríkisborgurum framangreindra ríkja veitt heimild til frjálsrar atvinnuleitar hér á landi og til að ráða sig til starfa án sérstakra atvinnuleyfa. Þar með njóta ríkisborgarar þessara ríkja réttinda til að ráða sig til starfa hér á landi með sama forgangsrétti og íslenskir ríkisborgarar.

Evrópska efnahagssvæðið stækkaði enn frekar 1. ágúst 2007 er Búlgaría og Rúmenía gerðust aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. aðildarsamning EES. Á sama hátt og gert var við fyrri stækkun svæðisins á árinu 2004 var gerður fyrirvari við gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum. Íslensk stjórnvöld nýttu sér þennan fyrirvara með lögum nr. 106/2007, um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu. Þar á meðal var lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, breytt. Þrátt fyrir að sækja þurfi um atvinnuleyfi og dvalarleyfi fyrir ríkisborgara hinna nýju aðildarríkja skuldbundu stjórnvöld sig eigi síður til að veita launamönnum sem eru ríkisborgarar hinna nýju aðildarríkja forgang fram yfir ríkisborgara ríkja utan svæðisins að því er varðar aðgengi að vinnumarkaði sínum á aðlögunartímabilinu, sbr. viðauka B við aðildarsamning EES sem lögfestur var með lögum nr. 106/2007, um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu. Alþingi samþykkti í desember 2008 að nýta áfram til 1. janúar 2012 framangreindan fyrirvara við gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 154/2008.

Stjórnvöld leggja því ríka áherslu á að í þeim tilvikum er vinnuafl skortir á innlendum vinnumarkaði þá leiti atvinnurekendur eftir starfsfólki á hinum sameiginlega vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins áður en leitað er út fyrir svæðið eftir launafólki. Á það ekki síst við í ljósi skuldbindinga stjórnvalda um miðlun lausra starfa innan svæðisins sem og langtímaáhrifa veitingar tímabundinna atvinnuleyfa á innlendan vinnumarkað, sbr. c-lið 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 339/2005, um atvinnuréttindi útlendinga. Það er því niðurstaða ráðuneytisins að það sé nauðsynlegt skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis að umsækjandi hafi áður leitað aðstoðar Vinnumálastofnunar við leit að starfsfólki innan Evrópska efnahagssvæðisins með milligöngu Eures, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, eftir að leit hans innanlands hefur ekki skilað árangri. Jafnframt eru gerðar ríkar kröfur til atvinnurekanda svo talið verði fullreynt að finna starfsfólk með aðstoð Vinnumálastofnunar sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði. Á þetta við hvort sem verið er að sækja um tímabundið atvinnuleyfi fyrir tiltekin útlending í fyrsta skipti eða nýtt tímabundið atvinnuleyfi þar sem að útlendingur er að hefja störf hjá nýjum atvinnurekanda sem rekur starfsemi innan annarrar starfsgreinar en útlendingur starfaði áður við.

Í máli þessu taldi Vinnumálastofnun meginreglu ákvæðis þágildandi a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga eiga við og því nauðsynlegt skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis að umsækjandi hefði áður leitað aðstoðar stofnunarinnar. Í ljósi þess að um ósérhæft starf er að ræða verður ekki annað séð en að mat Vinnumálastofnunar um að kæranda hafi borið að óska eftir aðstoð stofnunarinnar við leit að starfsmanni á innlendum vinnumarkaði hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum þrátt fyrir tiltölulega lítið atvinnuleysi hér á landi í mars 2008. Af umsögn Vinnumálastofnunar má hins vegar ráða að kærandi hafi ekki óskað eftir aðstoð Vinnumálastofnunar við leit að starfsmanni til að gegna umræddu starfi, hvorki innanlands né af Evrópska efnahagssvæðinu með milligöngu Eures, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessu hefur kærandi ekki mótmælt.

Nokkur hreyfanleiki hefur verið meðal ríkisborgara þeirra ríkja sem gerðust aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á árinu 2004 enda hefur atvinnuleysi verið þar nokkuð en fjöldi ríkisborgara þessara ríkja hefur ráðið sig til starfa hér á landi á undanförnum árum. Má þar nefna að á árinu 2005 voru 2.765 launamenn frá þessum aðildarríkjum ráðnir til starfa hjá atvinnurekendum á innlendum vinnumarkaði en á tímabilinu janúar til og með apríl 2006 var um að ræða 2.104 launamenn. Þessi þróun hélt áfram en frá 1. maí 2006 til 30. nóvember 2008 höfðu 14.970 tilkynningar borist til Vinnumálastofnunar um ráðningar ríkisborgara frá þessum aðildarríkjum sem voru nýir á íslenskum vinnumarkaði. Aðstæður á innlendum vinnumarkaði hafa hins vegar breyst verulega á undanförnum mánuðum, meðal annars með auknu atvinnuleysi, en í desember 2008 var skráð atvinnuleysi 4,8% hér á landi samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar, sbr. skýrslu stofnunarinnar yfir atvinnuástand, nr. 12/2008. Þá liggur fyrir að atvinnuleysi hefur aukist enn frekar í janúarmánuði 2009.

Samkvæmt ákvæði þágildandi a-liðar 1. mgr. 7. gr. laganna um atvinnuréttindi útlendinga gátu aðrar sérstakar ástæður en þær sem taldar voru upp í ákvæðinu mælt með leyfisveitingu. Í erindi kæranda kemur fram að eini náni ættingi umrædds útlendings sé systir hans sem búsett er hér á landi. Það er álit ráðuneytisins að fjölskyldutengsl útlendings við fólk sem býr hér á landi verði almennt ekki talin til málefnalegra sjónarmiða sem réttlæta að atvinnurekandi geti haft sérstakan hag af því að ráða tiltekinn útlending til starfa. Sérstök heimild var þó í þágildandi 2. mgr. 7. gr. sömu laga til að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna nánustu aðstandenda útlendings sem fengið höfðu búsetuleyfi og óbundið atvinnuleyfi hér á landi. Skilyrði var að útlendingi þeim, sem sótt var um atvinnuleyfi fyrir, hefði áður verið veitt dvalarleyfi hér á landi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga um dvalarleyfi fyrir aðstandendur. Því skilyrði er ekki fullnægt í máli þessu og kemur því umrædd heimild ekki til álita.

Í gögnum málsins kemur fram að fyrirhuguð dvöl umrædds útlendings hér á landi kunni að hafa góð áhrif á líðan hans þar sem hann hafi átt við veikindi að stríða en hann hafi fengið viðeigandi læknismeðferð hérlendis. Af því tilefni vill ráðuneytið taka fram að ekki voru fyrir hendi heimildir í lögum um atvinnuréttindi útlendinga til handa Vinnumálastofnun eða félags- og tryggingamálaráðuneytinu til að taka afstöðu til aðstæðna er varða heilsu útlendinga sem sótt var um atvinnuleyfi fyrir. Skortir ráðuneytið því heimildir til að fjalla efnislega um þau atriði.

Þegar litið er til núverandi aðstæðna á innlendum vinnumarkaði, skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, þess að umrætt starf hefur hvorki verið auglýst laust til umsóknar á innlendum vinnumarkaði né á Evrópska efnahagssvæðinu sem og gagna málsins í heild, er það mat ráðuneytisins að í máli þessu hafi ekki verið nægjanlega sýnt fram á að fullreynt hafi verið að ráða einstakling í starfið af innlendum vinnumarkaði eða af Evrópska efnahagssvæðinu sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði.

Með vísan til framangreinds er það því niðurstaða ráðuneytisins að þágildandi skilyrðum laga um atvinnuréttindi útlendinga um veitingu tímabundins atvinnuleyfis sé ekki fullnægt í máli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. apríl 2008, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa A í því skyni að ráða til starfa B sem er eþíópískur ríkisborgari, skal standa.

 

 

Fyrir hönd ráðherra

 

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir

Bjarnheiður Gautadóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum