Hoppa yfir valmynd
8. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 60/2014

Mál nr. 60/2014

Fimmtudaginn 8. september 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 28. maí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. maí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 2. júní 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. júní 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. júní 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 28. janúar 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærendur eru hjón, fædd X og X. Þau búa ásamt uppkominni dóttur í eigin húsnæði, X fermetra íbúð að C. Kærandi A er [...] og starfar hjá eigin fyrirtæki. Kærandi B er [...] og starfar hjá D.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 25. júní 2012, eru 67.516.151 króna. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga á árunum 1998 og 2006 til 2009.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til tekjulækkunar, kaupa á [...] og efnahagshrunsins haustið 2008.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. júní 2012 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 4. mars 2014 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og því ætti að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafði staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að miðað við heildartekjur kærenda ættu þau að hafa getað lagt til hliðar í það minnsta 1.319.648 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Sé þá miðað við útreikning á tekjum kæranda A á grundvelli bankayfirlita sem kærendur lögðu fram. Umsjónarmaður kveður kæranda A hafa upplýst að hann hafi ekki greitt sér þau laun sem komi fram í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra vegna slæmrar stöðu fyrirtækis hans. Yfirlit innborgana frá félaginu samkvæmt reikningsyfirlitum gæfu á hinn bóginn rétta mynd af launum hans. Umsjónarmaður telur að væri miðað við upplýsingar úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra ætti sparnaður kærenda að nema 2.997.829 krónum. Hafi hann ítrekað óskað eftir því að kærendur leiðréttu uppgefin laun í staðgreiðsluskrá en án árangurs. Kærendur hafi ekkert lagt til hliðar og einu skýringar þeirra séu að þau hafi keypt sláttuvél fyrir 250.000 krónur en engar kvittanir hafi borist. Einnig kom fram í bréfi umsjónarmanns að kærendur hefðu greitt dóttur sinni 130.000 krónur í greiðsluskjólinu. Telji umsjónarmaður að kærendur hafi með því látið af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla og því hefðu kærendur brugðist skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 8. apríl 2014 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kærenda bárust með tölvupósti 24. apríl 2014.

Með ákvörðun 15. maí 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og c- liða 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera kröfu um að tekið verði tillit til þess að um tíma hafi ekki verið greidd laun úr rekstri annars kæranda.  Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærendur óska eftir því að tekið verði tillit til þess að félag kæranda A hafi ekki getað greitt honum laun á tíma greiðsluskjóls vegna oftekinna launa hans frá 1. janúar 2011 til 25. júní 2012. Laun hafi verið oftekin vegna forsendubrests lána í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og hafi kærendur aðeins átt tvo kosti þegar í greiðsluskjól var komið, annars vegar að E færi í gjaldþrot eða hins vegar að hætta að greiða út laun til að greiða niður skuldir. Óheimilt sé samkvæmt lögum að starfa launalaust við eigin atvinnurekstur og hafi því ávallt þurft að gefa upp reiknað endurgjald. Frá 1. júní 2014 verði laun greidd að fullu auk þess sem annar starfsmaður sé kominn á launaskrá. Framangreint sé ástæða þess að kærendum hafi ekki reynst unnt að leggja til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.

Kærendur vísa til þeirra andmæla, sem þau hafi komið á framfæri við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara, þar sem þau hafi rakið útgjöld á tímabili greiðsluskjóls og tilurð skuldar við dóttur sína sem þau hafi endurgreitt á tímabilinu. Einnig kemur þar fram að þau hafi ekki nein gögn til að sýna fram á útgjöldin og hafi það verið hugsunarleysi hjá þeim að taka ekki kvittanir.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 2. mgr. 12. gr. komi fram að telji umsjónarmaður skuldara hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunar­umleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar komi fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 22 mánuði en miðað sé við tímabilið frá júlí 2012 til mars 2014. Byggt sé á útreikningum umsjónarmanns sem miðist við 18 mánaða tímabil. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. júlí 2012 til 31. mars 2014 að frádregnum skatti 7.141.676
Mánaðarlegar meðaltekjur 396.759

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 396.759 krónur í meðaltekjur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls.

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda, þ.m.t. leigutekjur og bætur hafi greiðslugeta kærenda verið þessi í greiðsluskjóli í krónum samkvæmt útreikningum umsjónarmanns:

Framfærslukostnaður á mánuði 323.446
Heildarframfærslukostnaður á tímabili greiðsluskjóls í 18 mánuði 5.822.028
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 73.313
Samtals greiðslugeta 1.319.648

Tekið er fram af hálfu umboðsmanns skuldara að miðað sé við tekjur kæranda A samkvæmt bankayfirlitum sem sýni millifærslur af reikningi fyrirtækisins E yfir á launareikning hans á 12 mánaða tímabili. Sé tekið mið af staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra ætti sparnaður aftur á móti að nema 2.997.829 krónum.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almennan framfærslukostnað með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður vísi til þess að kærendur kveðist hafi greitt 50.000 krónur vegna kaupa á sláttuvél, 40.000 krónur vegna kaupa á rúmdýnum, 80.000 krónur vegna tauþurrkara og 80.000 krónur vegna sjálfsábyrgðar í kjölfar tjóns á bifreið. Þau hafi ekki lagt fram gögn vegna ofangreindra útgjalda. Kærendur hafi einnig boðist til að selja bifreið, sem þau kveða 750.000 til 900.000 króna virði, og nota söluhagnaðinn til að mæta áætluðum sparnaði. Telur embættið að þótt tekið yrði tillit til söluandvirðis bifreiðar kærenda að fjárhæð 900.000 krónur sé ljóst að sú fjárhæð sé aðeins hluti af þeirri fjárhæð sem þeim hefði átt að vera unnt að leggja til hliðar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist einnig á c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Að sögn kærenda hafi þau endurgreitt dóttur sinni 130.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Við mat á því hvort kærendur hafi sinnt skyldum sínum verði litið til þess að kærendur hafi með þessu látið af hendi verðmæti sem gætu gagnast lánardrottnum sem greiðsla. Telji embættið þá framgöngu brot á c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá segir í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var umsókn kærenda samþykkt af hálfu umboðsmanns skuldara 25. júní 2012 og hófst þá frestun greiðslna. Tóku skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. jafnframt gildi á þeim degi. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar að minnsta kosti 1.319.648 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt sé miðað við tekjur kæranda A samkvæmt yfirlitum bankareikninga. Tekið er fram að yrði miðað við tekjur kæranda A samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra ætti hjálagður sparnaður að vera 2.997.829 krónur, en árangurslaust hafi verið óskað eftir nýjum upplýsingum um tekjur hans af hálfu umsjónarmanns.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júlí 2012 til 31. desember 2012: Sex mánuðir
Nettótekjur A 1.307.083
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 217.847
Nettótekjur B 1.538.302
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 256.384
Nettótekjur alls 2.845.385
Mánaðartekjur alls að meðaltali 474.231
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.533.441
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 211.120
Nettótekjur B 3.207.185
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 267.265
Nettótekjur alls 5.740.626
Mánaðartekjur alls að meðaltali 478.386
Tímabilið 1. janúar 2014 til 30. apríl 2014: Fjórir mánuðir
Nettótekjur A 912.651
Nettó mánaðartekjur Aað meðaltali 228.163
Nettótekjur B 1.118.681
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 279.670
Nettótekjur alls 2.301.332
Mánaðartekjur alls að meðaltali 507.833
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.617.343
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 482.607

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og  upplýsingar úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra um tekjur kærenda var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júlí 2012 til 30. apríl 2014: 22 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.617.343
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 482.607
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 323.446
Greiðslugeta kærenda á mánuði 159.161
Alls sparnaður í 22 mánuði í greiðsluskjóli x 159.161 3.501.542

Kærendur kveðast ekki hafa fengið greitt það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra vegna launa kæranda A og hafa þau lagt fram reikningsyfirlit sem þau telja sýna fram á tekjur hans á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt yfirlitinu hefur fyrirtæki kæranda A greitt honum alls 2.375.000 krónur á tímabilinu. Ekki liggur fyrir hvort greidd hafi verið opinber gjöld.

Kærendur telja að staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra gefi ekki rétta mynd af tekjum kæranda A. Þau hafa þó ekki óskað eftir leiðréttingu á þessu.

Sé miðað við tekjur kæranda A samkvæmt bankayfirliti og tekjur kæranda B samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júlí 2012 til 30. apríl 2014: 22 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli m.v. bankareikning kæranda A 8.239.168
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 374.508
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 323.446
Greiðslugeta kærenda á mánuði 51.062
Alls sparnaður í 22 mánuði í greiðsluskjóli x 51.062 1.123.364

Kærunefndin telur ljóst að hvort sem miðað sé við tekjur kæranda A á grundvelli innborgana fyrirtækis hans á bankareikning eða tekjur hans samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, hefðu kærendur átt að leggja til hliðar minnst 1.123.364 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Þau hafa ekkert lagt fyrir.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Kærendur kveðast ekki hafa lagt til hliðar á tímabilinu en þau hafi orðið fyrir útgjöldum alls að fjárhæð 380.000 krónur á tímabilinu, þ.e. 250.000 krónur vegna óvænts kostnaðar og 130.000 krónur sem þau greiddu til dóttur sinnar vegna endurgreiðslu láns. Kærendur hafa ekki lagt fram gögn sem sýna fram á þessi útgjöld. Getur kærunefndin því ekki tekið tillit til framangreindra útgjalda þegar metið er hvort kærendur hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.  

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt framansögðu hafa kærendur ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara byggir niðurfellingu heimildar kærenda til greiðsluaðlögunar einnig á c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Telur embættið kærendur hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt ákvæðinu með því að hafa endurgreitt dóttur sinni lán á tímabili greiðsluskjóls að fjárhæð 130.000 krónur. Ekki hafa verið lögð fram gögn sem sýna fram á umrædda greiðslu og verður þar af leiðandi ekki byggt á því að kærendur hafi á greiðsluaðlögunartíma ráðstafað fjármunum sem hefðu getað gagnast kröfuhöfum í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bar því að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingavarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum