Hoppa yfir valmynd
8. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 45/2014

Mál nr. 45/2014

Fimmtudaginn 8. september 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 24. apríl 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. mars 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 5. maí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. maí 2014. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 23. maí 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur X. Hann hefur verið búsettur tímabundið í B en á lögheimili á Íslandi.

Kærandi er sjálfstæður atvinnurekandi.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 60.628.335  krónur. Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til starfsmissis.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. maí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 8. janúar 2014 upplýsti umsjónarmaður að kærandi hefði ekki neinar tekjur og óvíst væri hvenær hann fengi þær. Hann fengi senda peninga frá fjölskyldu sinni á Íslandi til þess að framfleyta sér og hann væri einnig með leigutekjur af íbúð sem hann ætti hér á landi. Í ljósi þessarar óvissu hafi umsjónarmaður sent kæranda tölvupóst 19. september 2013 þar sem skorað hafi verið á hann að leggja fram bankayfirlit sem staðfesti mánaðarlegar millifærslur og hverjar væntanlegar mánaðarlegar tekjur hans yrðu. Kærandi hafi sent staðfestingar á millifærslum milli landa, dagsettar í janúar, febrúar og apríl 2013, ásamt bankayfirliti og álagningarseðlum vegna fasteigna-, vatns- og fráveitugjalda. Umsjónarmaður hafi óskað eftir frekari upplýsingum, meðal annars um leigutekjur, og hafi fengið svör við þeim. Í ljósi upplýsinganna hafi umsjónarmaður gert drög að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun kæranda og hafi það verið sent honum til yfirlestrar 12. nóvember 2013. Hafi kæranda verið veittur frestur til þess að koma að athugasemdum til 20. nóvember 2013. Kærandi hafi sent umsjónarmanni athugasemdir við frumvarpið og ýmsar spurningar vegna málsins í nokkrum tölvupóstum. Í tölvupósti 30. nóvember 2013 hafi komið í ljós að óvissa væri með væntanlegar launatekjur kæranda, en þær virtust tengdar mögulegri stofnun hans á fyrirtæki á Íslandi með erlendum fjárfestum sem myndu greiða fyrir eignarhlut kæranda í félaginu. Kærandi hafi einnig upplýst um að væntanlegt fyrirtæki myndi kaupa fasteignir á Íslandi í gegnum þessa erlendu fjárfesta. Umsjónarmaður hafi farið fram á frekari upplýsingar í tölvupósti 3. janúar 2014, meðal annars um hvort og hvenær fyrirtækið yrði stofnað, hvaða fjárfestar myndu greiða fyrir hans hlut, hvers eðlis fyrirtækjareksturinn yrði, verðmæti félagsins og hvenær gera mætti ráð fyrir að hann fengi fyrstu launagreiðslur frá félaginu. Þann 6. janúar 2014 hafi borist svör frá kæranda í tölvupósti þar sem hann hafi upplýst að fyrirtækið yrði stofnað á árinu 2014. Hann hafi ekki að svo stöddu viljað upplýsa hvaða fjárfestar kæmu að greiðslu á hans eignarhlut né eðli fyrirtækjarekstursins. Þá hafi hann ekki getað upplýst um áætlað verðmæti félagsins. Framangreindar upplýsingar hafi hann ekki getað veitt, meðal annars af því að hann væri enn að útfæra smáatriði. Varðandi launagreiðslur hafi hann sagt að þær fylgdu stofnun félagsins og því gæti hann ekki sagt til um það hvenær fyrsta greiðsla ætti sér stað. Í ljósi framangreinds teldi umsjónarmaður að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklings nr. 101/2010 (lge.), og ómögulegt væri að gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun vegna þessarar óvissu. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að koma upplýsingum á framfæri sem gæfi gleggri mynd af stöðu hans en kærandi hafi sagt að hann gæti ekki veitt þær upplýsingar. Með vísan til þess leggi umsjónarmaður því til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda verði felldar niður, sbr. 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 5. febrúar 2014 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Engin svör bárust.

Með ákvörðun 28. mars 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til b-liðar 1. mgr. og f-liðar 2. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans þannig að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi telji fjárhag sinn ekki óljósan og að framfærsla hans sé búin að vera yfir meðallagi á mánuði og hafi hann einnig stuðst við sjóð frá fjölskyldu sinni. Hann geti því greitt af fasteign sinni að C. Einnig sé hann að stofna fyrirtæki sem gæti tekið allt að sex mánuði. Það verði því auðvelt fyrir hann að greiða afborganir af umræddri fasteign.

Kærandi hafi greint umsjónarmanni og starfsmanni umboðsmanns skuldara frá því að upplýsingar um rekstur fyrirtækisins sem hann hygðist stofna væru persónulegar og hann gæti  ekki  gefið þær upp að svo stöddu.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana komi fram að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar með því að afla ekki tekna af fremsta megi. Sé þá vísað til þess að hann hafi ekki leitað eftir atvinnuleysisbótum eða fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Kærandi kveðst ekki  sammála þessu. Hann kveðst ekki sækja um atvinnuleysisbætur eða styrk frá sveitarfélagi þegar hann sé að leita sér að verkefni og sé í samningaviðræðum við kaupendur að hönnun og ráðgjöf.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 6. gr. lge. séu tilteknar þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segi að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Kærandi kveðst tekjulaus, líkt og undanfarin ár, eða frá árinu 2009. Hann hafi fengið leigutekjur vegna útleigu fasteignar sinnar að C en nú búi hann sjálfur í eigninni. Kærandi segi stutt í að hann fari að fá reglulegar tekjur sem launþegi en óljóst sé hversu háar þær tekjur verði. Kveðst hann vera að undirbúa stofnun fyrirtækis, en hafi neitað að gefa upp nánari deili á fyrirhuguðum rekstri, hvers eðlis reksturinn sé og hvert hlutverk hans verði innan fyrirtækisins. Hafi hann þó upplýst að erlendir fjárfestar standi að baki rekstrinum og muni standa straum af öllum útgjöldum við stofnun fyrirtækisins. Einnig að fyrirhugað sé að kaupa fasteignir. Upplýsingar um fyrirhugaða stofnun fyrirtækis af hálfu kæranda verði að telja þess eðlis að það sé einungis á færi kæranda að veita þær. Kærandi hafi ekki svarað fyrirspurnum umsjónarmanns og embættisins nema með óljósum hætti.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé fjallað um þau tilvik þegar skuldari hafi ekki staðið í skilum eftir því sem honum framast hafi verið unnt. Sé þannig kveðið á um það í ákvæðinu að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast hafi verið unnt. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að með því að afla ekki tekna eftir fremsta megni, svo sem að fá atvinnuleysisbætur eða fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi, teljist kærandi hafa látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast hafi verið unnt.

Kærandi hafi dvalið í B í leit að verkefnum frá árinu X til og með loka árs X. Kveðst hann engar tekjur hafa haft utan leigutekna og fjárframlaga frá fjölskyldu sinni. Kærandi kveðst ekki hafa þurft á fjárhagsaðstoð að halda og hafi lagt fram gögn þess efnis að móðir hans hafi styrkt hann fjárhagslega og staðið straum af framfærslukostnaði hans, í það minnsta að einhverju leyti. Þó sé ekki um skýra mynd að ræða af fjárhag hans þar sem hvorki liggi fyrir yfirlit allra reikninga kæranda né sé ljóst hvaða innborganir á reikninga hans séu vegna leigutekna. Auk þess komi hvergi fram hvaða leigugreiðslur kærandi hafi sjálfur innt af hendi í B.

Með því að hafa dvalið erlendis án tekna, utan fjárhagsaðstoðar frá fjölskyldu og leigutekna frá árinu X til og með loka árs X, telji umboðsmaður skuldara kæranda hafa látið undir höfuð leggjast að afla þeirra tekna sem honum hafi verið unnt að afla. Með því að dvelja á Íslandi á umræddu tímabili, í það minnsta eftir að ljóst hafi orðið að ekki hafi verið verkefni að fá erlendis, hefði kærandi í það minnsta getað sótt um atvinnuleysisbætur og/eða fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Þrátt fyrir að móðir kæranda hafi aðstoðað hann fjárhagslega sé ljóst að kærandi hafi ekki reynt eftir fremsta megni að afla tekna til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar.

Enn fremur telji umboðsmaður skuldara vandkvæðum bundið að leita eftir samningi við kröfuhafa á meðan kærandi sé tekjulaus og geti ekki gefið greinarbetri upplýsingar um tekjur sínar til framtíðar. Kærandi hafi ekki talið sér fært að bregðast við upplýsingabeiðnum umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara vegna einkahagsmuna. Eftir sem áður liggi fjárhagur kæranda ekki nægilega ljós fyrir til þess að hægt sé að ganga til samnings við kröfuhafa og leggja heildarmat á fjárhag hans.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. og f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. og f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í 15. gr. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Kærandi kveðst engar tekjur hafa haft utan leigutekna af íbúð sinni og fjárframlaga frá fjölskyldu sinni. Kærandi kveður stutt í að hann fái reglulegar tekjur sem launþegi en óljóst sé hversu háar þær tekjur verði. Þær tekjur muni koma frá fyrirtæki sem hann sé að undirbúa að stofna. Hann hefur neitað að gefa upp nánari deili á fyrirhuguðum rekstri, hvers eðlis reksturinn sé og hvert hlutverk hans verði innan fyrirtækisins. Hefur hann þó upplýst að erlendir fjárfestar standi að baki rekstrinum og muni standa straum af öllum útgjöldum við stofnun fyrirtækisins. Ekki hefur verið sýnt fram á að fyrirtæki þetta hafi verið stofnað og kærandi hefur ekki lengur leigutekjur af íbúð sinni þar sem hann býr í henni.

Í athugasemdum við  b-lið 1. mgr. 6. gr. í frumvarpi til lge. segir að mikilvægt sé að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Ef litið er til þess að kærandi hefur engar upplýsingar veitt um fyrirhugað fyrirtæki og væntanlegar tekjur sínar af starfsemi þess, verður fallist á það með umboðsmanni skuldara að fjárhagur kæranda liggi ekki nægilega ljós fyrir til þess að hægt sé að ganga til samnings við kröfuhafa og leggja heildarmat á fjárhag hans.

Að mati kærunefndarinnar leiðir þessi upplýsingaskortur til þess að fjárhagur kæranda er talinn óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. sem og væntanleg þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Verður því fallist á sjónarmið umboðsmanns skuldara þar að lútandi.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er fjallað um þær aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, en þar segir að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. er meðal þeirra atriða sem upp eru talin í lagaákvæðinu og sem leitt geta til þess að synjað verði um heimild til greiðsluaðlögunar, ef óhæfilegt þykir að veita hana. Synjunarástæður af þessum toga eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefur kærandi brotið gegn framangreindu ákvæði með því að afla ekki þeirra tekna sem honum var unnt að afla til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar. Er þá vísað til þess að hann hafi ekki sótt um atvinnuleysisbætur eða fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi á tímabilinu. Kærandi hefur borið því við að hann sækist ekki eftir atvinnuleysisbótum eða styrkjum frá sveitarfélagi þegar hann sé í verkefnaleit eða standi í samningaviðræðum við kaupendur að hönnun og ráðgjöf.

Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2012 fékk hann 592.419 krónur í atvinnuleysisbætur og 257.400 krónur vegna félagslegrar aðstoðar sveitarfélags árið 2011. Verður því ekki á það fallist að hann hafi með öllu látið undir höfuð leggjast að afla tekna með þessum hætti á tímabili greiðsluskjóls.

Það er mat kærunefndarinnar að ekki liggi fyrir að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Samkvæmt því fellst kærunefndin ekki á það sjónarmið sem lagt er til grundvallar í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hafi brotið gegn ákvæðum f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum