Hoppa yfir valmynd
30. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2014

Mál nr. 23/2014

Fimmtudaginn 30. júní 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 28. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. febrúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 7. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. maí 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. maí 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 30. júní 2014 og voru sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 11. ágúst 2014.

Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst 12. ágúst 2014 og var send kæranda til kynningar með bréfi 19. ágúst 2014. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust 1. september 2014 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur X. Hann er einstæður og býr ásamt syni sínum í eigin X fermetra húsnæði að B. Kærandi er öryrki.  

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 8. janúar 2014 eru 81.495.217 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2008.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til tekjulækkunar, veikinda og ábyrgða sem hann þurfti að taka á sig að kröfu fjármálafyrirtækja.

Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 10. nóvember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. júlí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 26. ágúst 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Að teknu tilliti til námslána og umönnunarbóta á árunum 2011 og 2012 hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar 3.594.528 krónur á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en kærandi hafi ekki lagt neitt fyrir.

Þá telji umsjónarmaður að kærandi hafi með grófri vanrækslu veitt villandi upplýsingar um aðstæður sem mikilsverðar hafi verið í málinu, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge., þar sem hann hafi ekki upplýst um námslán sem hann tók á árunum 2011 og 2012. Með vísan til framangreinds taldi umsjónarmaður að fella bæri niður greiðsluaðlögunarumleitandir kæranda.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 10. janúar 2014 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi andmælti tillögu umsjónarmanns 15. janúar 2014 og lagði fram gögn auk skýringa.

Með ákvörðun 14. febrúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. og d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Fram kemur að kærandi telji ákvörðun umboðsmanns skuldara bæði ómálefnalega og byggða á röngum forsendum. Að mati kæranda samræmist ummæli og aðferðarfræði umboðsmanns skuldara ekki aðferðarfræði stjórnsýsluréttarins. Kærandi telur að ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi ekki verið byggð á réttum gögnum og að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra gagna sem hann hafi lagt fram. Þá hafi umboðsmaður skuldara ekki tekið tillit til aðstæðna kæranda eða alvarlegra veikinda hans. Kærandi kveðst hafa fengið [...] vorið 2010.

Varðandi sparnað hafi kærandi ekki haft getu til að leggja fjármuni til hliðar. Þvert á móti hafi hann þurft að þiggja styrki frá vilhollum aðilum til að ná utan um útgjöld sín. Kærandi telji framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins viðmið um lágmarksframfærslu. Hann telji einnig fullyrðingar umboðsmanns skuldara um óhóf úr lausu lofti gripnar. Embættið hafi ekki tekið tillit til þess að öll útgjöld hans hafi verið nauðsynleg, t.d. teljist tölvur og netaðgangur eðlileg og nauðsynleg nemendum í framhaldsskólum. Þann 10. febrúar 2014 hafi kærandi lagt fram skýringar og gögn um meint óútskýrð útgjöld. Kærandi kveðst hafa sýnt fram á útgjöld að fjárhæð tæpar 6.200.000 króna. Þá telur kærandi  umboðsmann skuldara ekki hafa tekið tillit til hins mikla kostnaðar sem hann hafi orðið fyrir vegna veikinda sinna, þess kostnaðar sem fylgi því að eiga stjúpdóttur erlendis og þess kostnaðar sem fylgi því að vera einstætt foreldri langveiks barns. Kærandi sé öryrki og hann fái bætur sem séu langt undir framfærslumörkum velferðarráðuneytisins.

Kærandi kveðst hafa upplýst um tekjur sínar og fé sem honum hafi verið gert skylt að taka við vegna tannréttinga barns með milligöngu yfirvalda. Kærandi telur að þetta eigi að reikna honum til frádráttar, alls 740.000 krónur. Í þessu tilviki hafi verið um að ræða fé sem kærandi tók við frá barnsmóður sinni fyrir hönd sonar þeirra vegna þátttöku hennar í kostnaði vegna tannréttinga. Þessa fjármuni sem og aðra, sem kærandi hafi fengið fyrir hönd barnsins, sé ekki hægt að líta á sem tekjur til framfærslu kæranda. Þá veiti kærandi sem foreldri viðtöku meðlagsgreiðslum frá barnsmóður sinni en þeir fjármunir séu ætlaðir  til framfærslu barnsins. Það séu ekki heldur tekjur til framfærslu kæranda.

Kærandi bendir á að hann hafi verið með virkan lánasamning hjá LÍN þegar hann sótti um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Kærandi hafi talið að umboðsmanni skuldara væri eða ætti að vera kunnugt um það af þeim gögnum sem kærandi hafi lagt fram með umsókn. Kærandi kveðst hafa stundað nám sitt með sama hætti og aðra endurhæfingu en námið hafi verið hluti endurhæfingarferils kæranda. Kærandi kveðst hafa skilað meistararitgerð í X. Kærandi hafnar því að hann hafi farið leynt með nám sitt eins og umsjónarmaður og umboðsmaður skuldara telji. Kærandi vísar til gagna málsins en hann hafi framvísað öllum upplýsingum sem óskað hafi verið eftir. Kærandi hafi tekið fram í greinargerð með umsókn um greiðsluaðlögun að hann hafi stundað nám frá árinu 2005. Auk þess hafi kærandi tekið fram á fyrsta fundi með umsjónarmanni að hann væri í [...]. Umsjónarmaður hafi ekki talið það skipta máli en kærandi sé óvinnufær til framtíðar og námið muni því ekki nýtast honum til aflahæfis.

Kærandi hafnar því að C hafi verið vinnustaður hans. Um sé að ræða fyrirtæki [...]. Kærandi hafi hins vegar orðið fyrir svörum þegar hringt hafi verið frá umboðsmanni skuldara í fyrirtækið en hann hafi ekki verið starfsmaður þess. Kærandi vísar til gagna málsins og telur þau sýna svo að ekki verði um villst að hann hafi aldrei leynt upplýsingum um nám, lán frá LÍN, heilsu, tekjur eða annað. Þó hafi umboðsmaður haldið þessu fram í hinni kærðu ákvörðun. Kærandi bendir á rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara. Embættinu sé því ekki heimilt að varpa ábyrgðinni einhliða á kæranda ef talið hafi verið að upplýsingar skorti. Umboðsmanni skuldara beri að rannsaka mál og hefði  embættið gert það hefði kærandi veitt skýrar og greinargóðar upplýsingar. Kærandi hafi hins vegar verið grandlaus um misskilning umboðsmanns skuldara að þessu leyti.

Kærandi vísar til þess að ákvörðun umboðmanns skuldara eigi að vera undirrituð af tveimur starfsmönnum embættisins. Hin kærða ákvörðun hafi einungis verið undirrituð af  einum starfsmanni embættisins og undirritunin annars starfsmanns hafi verið ljósrituð. Að mati kæranda beri því að ógilda hina kærðu ákvörðun, enda hafi viðkomandi starfsmaður ekki verið grandsamur um undirskrift hans á hinni kærðu ákvörðun.

Þá telur kærandi að hann eigi ekki að bera hallann af þeim mistökum umboðsmanns skuldara að hafa ekki tekið eftir því að greint hafi verið frá háskólanámi kæranda í greinargerð með umsókn hans um greiðsluaðlögun. Þá hafi kærandi upplýst um öll lán í umsókn sinni.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá segi í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað lánardrottna.

Umsjónarmaður hafi talið að kærandi hefði mögulega brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að taka námslán til framfærslu, þrátt fyrir að hafa á þeim tíma fengið endurhæfingarlífeyri sem hafi nægt honum til framfærslu. Með töku námslánanna hafi kærandi þannig stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður skuldara hafi ekki talið tilefni til að taka afstöðu til þess að svo stöddu hvort kærandi hefði brotið gegn skyldum sínum á þennan hátt þar sem ljóst var að hann stóð straum af leigugreiðslum hluta af námstíma. Auk þess hafi mánaðarleg útgjöld kæranda líklega verið mismunandi eftir tímabilnum með tilliti til búsetu, veikinda og þess háttar. Hafi framfærslukostnaður kæranda því verið breytilegur á hverju tímabili fyrir sig þó að heildarfjárhæð tekna og útgjalda hafi legið fyrir samkvæmt gögnum málsins.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 36 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. desember 2010 til 30. nóvember 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. desember 2010 til 30. nóvember 2013 að frádregnum skatti 6.391564
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2.314.240
Meðlag og barnalífeyrir 2.203.816
Umönnunargreiðslur 539.125
Framfærslulán LÍN* 2.814.635
Húsaleigubætur 407.100
Samtals 14.670.480
Mánaðarlegar meðaltekjur 407.513
Framfærslukostnaður á mánuði 190.625
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 216.888
Samtals greiðslugeta í 36 mánuði 7.807.968

* Lán til framfærslu, ekki lán vegna skólagjalda, bókakaupa og ferðakostnaðar

Samkvæmt framangreindum útreikningum umboðsmanns skuldara væri lagt til grundvallar að kærandi hefði getað lagt til hliðar 7.807.968 krónur á tímabilinu. Að teknu tilliti til skýringa kæranda og leiðréttinga embættisins væri talið að kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar 3.740.385 krónur.

Kærandi hafi mótmælt útreikningum umboðmanns og bent á að húsaleiga á 10 mánaða tímabili hafi átt að vera 185.000 krónur en ekki 180.000 krónur eins og umboðsmaður skuldara gerði ráð fyrir. Þá hafi kærandi talið að kostnaður vegna samgangna hefði verið mun hærri en umboðsmaður skuldara reiknaði með, bæði vegna eldsneytis, rekstrar og viðhalds. Kærandi hafi ekki lagt fram gögn þessu til stuðnings. Kærandi kvaðst hafa keypt tölvubúnað fyrir sig vegna náms, fyrir son sinn og fyrir fósturdóttur á tímabilinu fyrir alls 1.080.000 krónur. Auk þess kvaðst kærandi hafa keypt farsíma fyrir 153.000 krónur. Umboðsmaður skuldara telji fyrst og fremst um óhóflega eyðslu að ræða auk þess sem kærandi hafi ekki lagt fram gögn þessu til stuðnings. Þá kvaðst kærandi hafa varið um 65.000 krónum á hverri önn í kostnað vegna útprentunar, ljósritunar, bókbands verkefna og ritfanga. Kærandi hafi ekki lagt fram gögn þessu til stuðnings en umboðsmaður skuldara telji umræddan kostnað umfram það sem nauðsynlegt væri. Kærandi kveðist hafa greitt hluta skólagjalda sjálfur en hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýnt hafi fram á það. Þá kvaðst kærandi hafa greitt fyrir heimilisþrif á tímabilinu þar sem hann hafi ekki verið fær um að sinna heimilisstörfum vegna veikinda. Einnig hafi kærandi haldið því fram að hann hafi greitt fyrir tómstundir og fatnað sonar síns og borið kostnað vegna framfærslu stjúpdóttur sinnar sem búi í [...]. Kærandi hafi engin gögn lagt fram vegna þessa né sýnt fram á að kostnaður vegna tómstunda og fatakaupa hafi verið umfram framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara, en gert hafi verið ráð fyrir 21.886 krónum vegna tómstunda og 14.499 krónum vegna fatakaupa á mánuði samkvæmt viðmiðunum. Að lokum kvaðst kærandi hafa orðið fyrir kostnaði vegna vatnstjóns á fasteigninni að B. Kærandi hafi hvorki tiltekið fjárhæð þess kostnaðar né lagt fram gögn um tjónið

Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu.

Kærandi hafi ekki upplýst umsjónarmann um [...] sitt en kærandi hafi lokið meistaragráðu í [...] á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Einnig hafi kærandi ekki upplýst umsjónarmann um að hann hefði tekjur vegna námslána á tímabilinu. Upplýsingar um tekjur kæranda verði að telja mikilsverðar upplýsingar sem áhrif hafi á fjárhagsstöðu hans, sbr. 1. mgr. 1. gr. lge., sbr. 4. tl. 1. mgr. 4. gr. lge., og hafi embættið talið ámælisvert að kærandi hafi ekki veitt umsjónarmanni upplýsingar um framangreind námslán, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi hafi ítrekað andmælt því að hafa ekki upplýst umsjónarmann og umboðsmann skuldara um nám sitt og námslán. Kvaðst kærandi hafa greint frá náminu í greinargerð og að upplýsingar um lán frá LÍN hefðu fylgt umsókn hans. Hið rétta sé að í umsókn hafi kærandi greint frá skuld við LÍN en aftur á móti hafi þess ekki verið getið að kærandi þæði námslán á þeim tíma. Samkvæmt greiðsluyfirliti frá LÍN hafi kærandi síðast fengið greitt námslán 22. janúar 2013. Að mati umboðmanns hefði kæranda átt að vera ljóst að greiðslur frá LÍN teldust vera hluti af tekjum þar sem um hafi verið að ræða fjármuni sem hann gat nýtt sér til framfærslu. Kærandi hafi haldið því fram að hann teldi námslánin ekki hafa nægt fyrir kostnaði vegna námsins, þ.e. skólagjöldum, bóka- og ferðakostnaði. Því hafi kærandi ekki talið umrædd lán til tekna. Umboðsmaður skuldara hafi einungis litið til framfærslulána frá LÍN við útreikninga á sparnaði en ekki tekið tillit til lána vegna skólagjalda. Kærandi hafi fengið alls 2.814.635 krónur í lán til framfærslu frá LÍN á tímabilinu.

Þá telji umboðmaður skuldara óljóst hver hafi verið aðkoma kæranda að C. Skýringar kæranda hafi verið mótsagnakenndar og í því ljósi ótrúverðugar. Hringt hafi verið í símanúmer C og kærandi hafi svarað. Upphaflega hafi hann ekkert kannast við C, en síðar sagst vera að aðstoða son sinn sem væri eigandi C.

Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara hafi verið áætlað að kærandi gæti lagt til hliðar 7.807.968 krónur. Kærandi kvaðst hafa staðið straum af auknum kostnaði á tímabili greiðsluskjóls, meðal annars vegna greiðslu húsaleigu, ferðakostnaðar, kostnaðar vegna [...], kostnaðar vegna [...] og ferðakostnaðar umfram framfærsluviðmið. Umboðsmaður skuldara hafi tekið tillit til ofangreinds kostnaðar, samtals að fjárhæð 3.087.235 krónur. Í kjölfar frekari skýringa kæranda hafi embættið talið að þrátt fyrir að tekið yrði tillit til útlagðs kostnaðar vegna samgangna og námsbóka, sem þó hafi ekki verið studdur gögnum og áætlaður að væri 530.114 krónur, stæðu enn eftir 3.740.385 krónur óútskýrðar.

Útskýringar kæranda hafi aðeins veitt upplýsingar um hluta þess fjár sem leggja hefði átt til hliðar, eða  4.720.733 krónum. Það sé um 60% af þeirri fjárhæð sem kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Hafi þá bæði verið tekið tillit til bóka- og ferðakostnaðar samkvæmt áætlun. Kærandi hafi tiltekið margskonar  útgjöld til viðbótar sem honum hafi verið nauðsynlegt að standa straum af á tímabili frestunar greiðslna en það hafi kærandi ekki stutt með fullnægjandi gögnum að mati umboðsmanns skuldara. Kærandi hafi því brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem féllu til umfram framfærslukostnað á tímabili frestunar greiðslna.

Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun, sem nutu frestunar greiðslna hjá umboðsmanni skuldara, hafi verið send bréf 8. apríl 2011 og  27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi einnig verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara www.ums.is. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun sem honum hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi með umsjónarmanni og skuldara. Hafi kæranda því mátt vel vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Umboðsmaður skuldara telji kæranda auk framangreinds hafa brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. með því að hafa vísvitandi og með ráðnum hug greint rangt frá varðandi aðstæður sem voru mikilsverðar í málinu. Kærandi hafi hvorki greint frá tekjum sínum vegna námslána á tímabilinu né hafi hann skýrt tengsl sín við C svo að trúverðugt þyki.  

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi umboðsmaður skuldara fellt niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. a- lið 1. mgr. 12. gr. og d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar til greinargerðar kæranda þar sem greint sé frá því að honum hafi ekki verið veitt færi á að afla gagna til stuðnings andmælum sínum. Við meðferð málsins hafi kæranda verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem þóttu geta leitt til niðurfellingar heimildar til greiðsluaðlögunarumleitana. Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi fengið rúman tíma til að koma andmælum sínum á framfæri, eða tæplega mánuð. Þá hafi kærandi ekki óskað eftir frekari fresti til að leggja fram gögn. Þá greinir umboðsmaður skuldara frá því að fyrir mistök hafi aðeins verið afritaðar í tölvukerfi embættisins tvær blaðsíður af þremur þegar greinargerð kæranda var móttekin. Greinargerðin í heild sinni hafi þó verið varðveitt í máli kæranda á pappír. Embættið telji framangreinda handvömm ekki hafa haft nein efnisleg áhrif á vinnslu eða niðurstöðu málsins.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge með vísan til d-liðar 1. mgr. 6. gr. og a-liðar 1. mgr. 12. gr.

Samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist meðal annars á því að framganga kæranda hafi verið í andstöðu við d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. eru þær að skuldari hafi af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Í greinargerð kæranda til umboðsmanns skuldara greindi hann frá því að hann hefði verið í námi frá árinu 2005. Verður því ekki fallist á að kærandi hafi veitt rangar eða villandi upplýsingar hvað þetta varðar. Hins vegar er ljóst að við meðferð málsins hjá umsjónarmanni upplýsti kærandi ekki um að hann þáði framfærslulán frá LÍN. Þessar upplýsingar vörðuðu þá fjármuni er kærandi hafði til framfærslu sinnar á tímabili greiðsluskjóls. Bar kæranda því skilyrðislaust að leggja þær fram og upplýsa umsjónarmann um þær. Sé litið til þessa verður ekki hjá því komist að telja að kærandi hafi með framgöngu sinni brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggðist einnig á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem honum bar á tímabili greiðsluskjóls samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi átt að leggja til hliðar 7.807.968 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var lögð fram. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi ekkert lagt fyrir á tímabilinu.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2010: einn mánuður
Nettótekjur 208.143
Mánaðartekjur alls að meðaltali 208.143
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.054.948
Mánaðartekjur alls að meðaltali 171.246
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur   2.123.670
Mánaðartekjur alls að meðaltali 176.973
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.211.949
Mánaðartekjur alls að meðaltali 184.329
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. janúar 2014: Einn mánuður
Nettótekjur 187.455
Mánaðartekjur alls að meðaltali 187.455
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 6.786.165
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 178.583

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda, bætur, barnalífeyri og meðlagsgreiðslur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. janúar 2014: 38 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 6.786.165
Bótagreiðslur nettó 2.314.240
Meðlag og barnalífeyrir 2.203.816
[...] 539.125
Húsaleigubætur 407.100
Framfærslulán LÍN 2.814.635
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 15.065.081
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 396.450
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 190.625
Greiðslugeta kæranda á mánuði 205.825
Alls sparnaður í 38 mánuði í greiðsluskjóli x 205.825 7.821.350

 Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda bar að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út eða setur.

Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt við staflið d þar sem fram kemur að eitt hlutverk Embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað.

Hafa verður í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varða eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa. Um er að ræða samninga sem að jafnaði fela í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að það takist er ljóst að skuldari verður að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.

Í málinu liggja fyrir gögn og skýringar kæranda vegna eftirfarandi kostnaðar í krónum:

Húsaleiga                    2.800.000    
Ferðakostnaður vegna umgengni                        482.473    
Tannréttingar                        370.000    
Fermingarkostnaður                        135.000    
Hjól                          19.996    
Samtals:                    3.807.469    

Um er að ræða kostnað til framfærslu kæranda og annan óvæntan kostnað í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og verður hann því dreginn frá reiknaðri fjárhæð sparnaðar kæranda. Kærandi hefur ekki lagt fram kvittanir eða gögn vegna annars kostnaðar sem hann kveðst hafa orðið fyrir og verður því ekki tekið tillit til hans.

Að þessu virtu verður að telja að kærandi hafi átt að geta lagt fyrir 4.013.881 krónu á tímabili greiðsluskjóls (7.821.350 – 3.807.469) en fram hefur komið að hann hafi ekkert lagt fyrir. Samkvæmt þessu hefur kærandi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Athugasemdir kæranda varðandi undirritun ákvörðunar umboðsmanns skuldara valda að mati kærunefndarinnar ekki ógildingu ákvörðunarinnar.

Í ljósi þess sem að framan greinir verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. og a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum