Hoppa yfir valmynd
2. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2014

Mál nr. 34/2014

Fimmtudaginn 2. júní 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 31. mars 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. mars 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 2. apríl 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. maí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 23. maí 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 5. júní 2014. Voru þær sendar Embætti umboðsmanns skuldara með bréfi samdægurs og óskað afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd X. Hún býr ásamt maka og tveimur börnum sínum í eigin X fermetra íbúð að B. Eldra barn hennar er uppkomið en býr hjá henni meðan á háskólanámi stendur.

Kærandi er [...]. Tekjur hennar eftir greiðslu skatta og gjalda eru 232.000 krónur á mánuði og eru að mestu vegna launa en kærandi er einnig að taka út lífeyrissparnað sinn. Tekjur maka kæranda eru 250.000 krónur á mánuði eftir greiðslu skatta og gjalda.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 51.268.996 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árinu 2005.

Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína til íbúðarkaupa árið 2005. Hafi afborganir af íbúðarláninu orðið erfiðar árið 2007 en eftir niðursveifluna árið 2008 hafi afborganir orðið henni ofviða. Hafi hún og maki hennar einnig orðið fyrir tekjuskerðingu, ásamt því að tannlæknakostnaður vegna dóttur hennar hafi reynst mikill.

Kærandi lagði fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 15. nóvember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. júní 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 22. október 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því lagði hann til aðgreiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að kærandi hafi tilkynnt umsjónarmanni að hún hafi ekki getað lagt til hliðar þar sem hún hafi orðið fyrir óvæntum útgjöldum. Undir rekstri málsins hafi verið ljóst að kærandi hafi verið með greiðslugetu að fjárhæð 136.000 krónur umfram framfærslukostnað á mánuði. Hafi kærandi lagt fram kvittanir fyrir ýmsum óvæntum útgjöldum sem hún kvaðst hafa orðið fyrir, meðal annars vegna viðgerða á bifreið hennar, tannréttingum barns og vegna fermingar barns kæranda. Kemur fram í bréfi umsjónarmanns að hluti þessara kvittana sé vegna kostnaðar sem til féll áður en heimild til greiðsluaðlögunar kom til.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 4. febrúar 2014 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara barst svar með bréfi kæranda 14. febrúar 2014.

Með ákvörðun 12. mars 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hennar þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi vísar til 8. gr. lge., en þar er kveðið á um það að tímabil greiðsluaðlögunarumleitana geti orðið allt að þrír mánuðir. Í reynd hafi mál hennar tekið 39 mánuði í meðferð hjá umboðsmanni skuldara og er kærandi ósátt við þessa málsmeðferð. Einnig er hún ósátt við fyrri umsjónarmann sinn, en hann hafi haft málið til meðferðar í 16 mánuði áður en hún hafi fengið nýjan umsjónarmann og virðist henni sá tími hafa verið illa nýttur. Hún hafi óskað eftir fundi með umsjónarmanninum en aldrei fengið.

Kærandi kveðst einnig ósátt við að hafa ekki fengið neinar upplýsingar um gang málsins. Hún hafi verið hvött til þess að sækja um 110% leiðina sem hún hafi gert og hafi fasteignasali skoðað íbúð hennar vegna þess. Bifreið hennar hafi verið tekin, en þrátt fyrir þetta hafi hún ekkert fengið að vita um gang mála sinna gagnvart kröfuhöfum.

Að sögn kæranda hafi henni einungis verið fært að leggja til hliðar rúmar 1.500.000 krónur á tímabili greiðsluaðlögunar, en ekki rúmar 3.000.000 krónur eins og umboðsmaður skuldara telji að hún hafi átt að geta lagt til hliðar. Staða hennar sé nú verri en þegar hún hafi sótt um greiðsluaðlögun þar sem kröfur á hendur henni hafi hækkað. Hún hafi orðið fyrir óvæntum útgjöldum, meðal annars vegna læknisaðgerðar sem hún hafi þurft að fara í og hún hafi þurft að minnka við sig vinnu [...]. Hafi [...] andast og hafi þau farið til C í jarðarför [...]. Auk þess hafi þau [...]. Kærandi hafi einnig orðið fyrir útgjöldum vegna tannréttinga dóttur sinnar. Auk þess hafi umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar ekki tekið tillit til ýmissa hækkana, t.d. hafi hússjóður hækkað úr 10.000 krónum í 17.000 krónur, gjöld til orkuveitu og fasteignagjöld hafi hækkað. Þá hafi framfærsluviðmið umsjónarmanns verið röng að mati kæranda.

Kæranda finnst að henni hafi verið mismunað þar sem hún hafi heyrt af því að sumir hafi komist í gegnum greiðsluaðlögun án þess hafa getað safnað fé.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærandi hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 15. nóvember 2010 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, tekið gildi frá þeim degi. Öllum umsækjendum sem sóttu um greiðsluaðlögun hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 og aftur 27. nóvember 2011 þar sem brýndar voru skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 1. júní 2011 sem henni hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kæranda því mátt vel vera ljóst að hún skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hún hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 37 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. desember 2010 til 31. desember 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. desember 2010 til 31. desember 2013 að frádregnum skatti 8.970.330
Meðlagsgreiðslur* 448.775
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 445.476
Samtals 9.864.581
Mánaðarlegar meðaltekjur 266.610
Framfærslukostnaður á mánuði 168.729
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 97.881
Samtals greiðslugeta í 37 mánuði 3.621.597
Óvæntur kostnaður kæranda -361.528
Samtals greiðslugeta á tímabilinu 3.260.070

*Er miðað við helming meðlagsgreiðslna þar sem reiknað er með að eiginmaður kæranda taki þátt í framfærslu barns og njóti því einnig góðs af meðlagsgreiðslum.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 266.610 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 37 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu byggð á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem skuldarar geti fært sönnur á með haldbærum gögnum.

Samkvæmt þessu sé áætlað að kærandi hefði átt að hafa getað lagt til hliðar 3.260.070 krónur á tímabili greiðslufrestunar. Hafi í þeim útreikningum verið tekið tillit þess kostnaðar sem kærandi kveðst hafa borið straum af á tímabilinu vegna viðhalds og reksturs bifreiðar, læknisþjónustu, fermingar og tannréttinga, samtals að fjárhæð 361.528 krónur. Kærandi hafi lagt fram frekari gögn um útgjöld vegna læknisþjónustu, skólagöngu ungmennis og viðgerða samtals að fjárhæð 215.436 krónur. Einnig hafi verið lögð fram millifærslukvittun 16. desember 2013 fyrir 100.000 krónur vegna lögfræðiþjónustu en ekki liggi fyrir hvers vegna kærandi hafi greitt þá fjárhæð.

Kærandi hafi því aðeins gert grein fyrir hluta þess fjár sem henni hafi borið að leggja til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. eða 576.964 krónum. Þó svo að tekið yrði tillit til allra framlagðra kvittana, þ.e. vegna lögfræðiþjónustu í desember 2013 að fjárhæð 100.000 krónur og reikninga sem falli utan viðmiðunartímabils, að upphæð 96.574 krónur (miðað er við helming útlagðs kostnaðar á móti maka), þá hafi kærandi aðeins gert grein fyrir 773.538 krónum af áætluðum sparnaði. Því sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem féllu til umfram framfærslukostnað á tímabili frestunar greiðslna.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærandi gerir athugasemd við langan málsmeðferðartíma meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum stóð og vísar til 8. gr. lge. Samkvæmt því ákvæði hefst tímabil greiðsluaðlögunumleitanda með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun. Getur það tímabil orðið allt að þrír mánuðir. Ljóst er að málsmeðferðartími í máli kæranda var í raun mun lengri og hafa ástæður þess ekki verið skýrðar að öðru leyti en því að tveir umsjónarmenn hafi komið að málinu og tíminn illa nýttur.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 22. október 2013 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Tilkynnti hann umboðsmanni skuldara að líkur væru á að umræddar upplýsingar hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda 12. mars 2014.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar alla þá fjármuni sem henni hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem hún naut greiðsluskjóls. Kærandi segir að henni hafi einungis verið fært að leggja til hliðar rúmar 1.500.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Hafi hún orðið fyrir ýmsum óvæntum útgjöldum, meðal annars lækniskostnaði, kostnaði vegna andláts og kostnaði vegna tannréttinga dóttur hennar. Þá hafi ekki verið litið til ýmissa kostnaðarliða sem hafi hækkað. Þá sé það mat kæranda að henni hafi verið mismunað því hún hafi heyrt af öðrum sem hafi komist í gegnum greiðsluaðlögun án þess að hafa safnað fé.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi átt að leggja til hliðar 3.260.070 krónur frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. desember 2010 til 31. desember 2013.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2010: Einn mánuður
Nettótekjur 248.606


Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.853.769
Mánaðartekjur alls að meðaltali 237.814
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.874.298
Mánaðartekjur alls að meðaltali 239.525
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. janúar 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.993.657
Mánaðartekjur alls að meðaltali 249.471

 

Tímabilið 1. janúar 2014 til 28. febrúar 2014: Tveir mánuðir
Nettótekjur 534.296
Mánaðartekjur að meðaltali 267.148


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli: 9.504.626
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 243.708

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. desember 2010 til 28. febrúar 2014: 39 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 9.504.626
Meðlag 938.841
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 395.126
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 10.838.593
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 277.913
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns* 178.500
Greiðslugeta kæranda á mánuði 99.413
Alls sparnaður í 39 mánuði í greiðsluskjóli x 99.413 3.877.107

* Miðað er við helming framfærslukostnaðar á móti maka

Að mati umboðsmanns skuldara hefur kærandi gefið skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 576.964 krónur vegna kostnaðar við fermingu, læknisþjónustu, tannréttingar barns, viðgerða á bifreið, skólagöngu ungmennis og viðgerða. Einnig lagði kærandi fram reikning að fjárhæð 96.574 krónur sem að mati umboðsmanns skuldara hafi fallið utan viðmiðunartímabilsins. Þar að auki lagði kærandi fram kvittun vegna lögfræðiþjónustu að fjárhæð 100.000 krónur en tiltók ekki hvers vegna sú fjárhæð hafði verið greidd og því leit umboðsmaður skuldara ekki til þess kostnaðar. Er því ekki hægt að líta til þess að mati kærunefndarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi orðið fyrir óvæntum útgjöldum að fjárhæð 576.964  krónur á tímabili greiðsluskjóls. Þar sem hvorki hafa verið lögð fram frekari gögn né kvittanir vegna annars óvænts kostnaðar kemur ekki hærri fjárhæð til frádráttar við útreikninga á fjárhæð sparnaðar.

Kærandi kveðst hafa lagt til hliðar u.þ.b. 1.500.000 krónur. Hún hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á þann sparnað. Verður því ekki tekið tillit til þess við útreikninga á fjárhæð sparnaðar.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur eins og gerð hefur verið grein fyrir. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að teknu tilliti til óvæntra útgjalda að fjárhæð 576.964 krónur hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 3.300.143 krónur á tímabili greiðsluskjóls, en hún hefur ekki sýnt fram á neinn sparnað á tímabilinu.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þar sem kærandi hefur brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. bar umboðsmanni skuldara að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum