Hoppa yfir valmynd
12. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 16/2014

Mál nr. 16/2014

Fimmtudaginn 12. maí 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 26. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. febrúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 4. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. maí 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 28. ágúst 2014. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd árið 1960. Hún á fjögur börn og býr ásamt þremur þeirra í 296,8 fermetra eigin húsnæði að B í Reykjavík.

Kærandi er í námi við C og fær námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Mánaðarlegar nettótekjur hennar eru 248.050 krónur. Jafnframt fær hún 51.585 krónur í barnabætur og 72.690 krónur í meðlag. Auk þess fær hún 10.269 krónur í mæðralaun. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar eru alls 393.769 krónur.

Að mati kæranda má rekja fjárhagsvandræði hennar til kaupa á fasteign með fyrrverandi sambýlismanni, slita á samvistum, veikinda og tímabundins atvinnuleysis.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 41.805.254 krónur auk ábyrgðarskuldbindinga að fjárhæð 39.060.880 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 og 2006.

Kærandi lagði fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 30. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. apríl 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 3. desember 2012 var tilkynnt að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge. Vísað var til þess að kærandi hafi átt félagið D til helminga á móti fyrrum sambýlismanni. Hann hafi sýnt áhuga á því að kaupa hlut kæranda í félaginu og hafi umsjónarmanni borist tvö tilboð frá honum í hlutinn. Fyrra tilboðið barst umsjónarmanni 12. september 2012 og var að fjárhæð 400.000 krónur. Samhliða því var kæranda send niðurstaða könnunar á virði D sem hafði verið unnin að frumkvæði umsjónarmanns. Kærandi taldi framkomið tilboð of lágt. Hún taldi einnig að könnun á virði félagsins gæfi ekki rétta mynd af stöðu þess, þar sem ætla mætti að hún væri eða kynni að verða mun betri. Umsjónarmaður féllst á sjónarmið kæranda um að virði hlutar hennar væri meira og hafnaði tilboðinu af þeirri ástæðu. Síðara tilboðið barst umsjónarmanni 30. október 2012 og var það að fjárhæð 1.000.000 króna auk eftirgjafar krafna hans á hendur kæranda. Tilboðið var áframsent kæranda til skoðunar en kærandi hafði ekki samband við umsjónarmann vegna þess. Þann 5. nóvember 2012 barst umsjónarmanni afturköllun kröfulýsingar fyrrverandi sambýlismanns kæranda. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að honum hafi þótt undarlegt að það hafi verið gert án þess að gengið hefði verið frá tilboðinu í D, enda var afturköllun krafna hluti af kaupverði tilboðsgjafa samkvæmt tilboðinu. Í kjölfar þess hafði umsjónarmaður samband við kæranda og kvaðst hún þá hafa látið eignarhlut sinn í D af hendi til fyrrum sambýlismanns án frekara endurgjalds. Kærandi hafi ekki borið umrædda ráðstöfun undir umsjónarmann og var hún því gerð án samráðs við og án samþykkis hans. Kærandi kvaðst hafa ráðstafað hlut sínum í félaginu með þessum hætti þar sem hún hafi verið að láta undan þrýstingi tilboðsgjafa og lögmanns síns, að hún hafi metið andlega heilsu framar öðru og viljað losna við frekara áreiti. Þar að auki hafi hún vísað til þess að staða félagsins hefði skýrst frekar og eignarhluti hennar í fyrirtækinu væri verðlaus. Umsjónarmaður taldi með hliðsjón af þessu að rétt væri að fella niður greiðsluaðlögunarumleitandir kæranda þar sem hún hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 7. nóvember 2013 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til c-liðar 12. gr. lge., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., þar sem hún hafði látið af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla, enda hafi hún látið af hendi eignarhluta sinn í félaginu D án frekara endurgjalds.

Umboðsmanni skuldara bárust athugasemdir kæranda með bréfi 25. nóvember 2013. Þar komi fram að hún hafi talið hagsmunum sínum betur borgið gegn því að viðskiptaskuld hennar við D, að fjárhæð rúmar 600.000 krónur, yrði felld niður.

Með ákvörðun 6. febrúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. c- lið 1. mgr. 12. gr. lge.

2. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hennar þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Fram kemur í kæru að kærandi hafi talið 1.000.000 króna tilboð frá fyrrverandi sambýlismanni sínum í 50% eignarhluta hennar í D ógilt þar sem tilboðið hafi hvorki verið formlegt, undirritað né með gildistíma. Þá hafi tilboðið ekki verið gilt samkvæmt áliti lögmanns fyrrverandi sambýlismanns hennar, en lögmaðurinn hafi afturkallað tilboðið.

Á þeim tíma sem tilboðið hafi borist í eignarhlut kæranda í félaginu hafi hún losnað undan ýmsum skuldbindingum. Raðhús, sem hún hafi átt að 40% hluta á móti fyrrverandi sambýlismanni sínum, hafi verið selt og þá hefðu allar veðkröfur kæranda greiðst upp. Þá hafi kærandi talið að með ráðstöfun á eignarhluta sínum í félaginu hefði hún ekki verið að afhenda verðmæti þar sem félagið skuldaði yfir 100.000.000 króna, en það væri langt umfram verðmæti félagsins. Félagið væri því verðlaust.

Að sögn kæranda hafi hún upplifað vantraust gagnvart eigin umsjónarmanni á tímabili greiðsluaðlögunarumleitanna þar sem fyrrverandi sambýlismaður og lögmaður hennar hafi verið í miklum samskiptum við umsjónarmann. Hún hafi vegna þessa óskað eftir nýjum umsjónarmanni, en starfsmaður umboðsmanns skuldara hafi sannfært hana um að halda áfram með sama umsjónarmann þar sem umsókn hennar hefði annars tafist. Umsjónarmaður hafi fengið upplýsingar um þessa kvörtun sem hafi mótað afstöðu hans til kæranda og hafi hún fundið til pirrings og óþolinmæði í sinn garð. Kærandi hafnar því að erfitt hafi verið að ná sambandi við hana en aftur á móti hafi umsjónarmaður oft hunsað fyrirspurnir hennar.

3. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls.

Samkvæmt c-lið 12. gr. lge. skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara kveður að í málinu hafi legið fyrir tilboð sem barst í hlut kæranda í félaginu D. Lokatilboð, sem gert hafi verið í hlut kæranda, hafi verið að fjárhæð 1.000.000 króna auk þess sem fyrrverandi sambýlismaður hennar myndi falla frá kröfum á hendur kæranda.

Þrátt fyrir þetta hafi kærandi afsalað eignarhluta sínum í félaginu til fyrrverandi sambýlismanns síns, án þess að fá greiðslu fyrir aðra en þá að hann félli frá kröfum á hendur henni. Þetta hafi verið gert án samráðs við og án samþykkis umsjónarmanns, en í 13. gr. lge. sé sérstaklega kveðið á um að umsjónarmaður eigi að ákveða hvernig sölu á eignum skuli háttað.

Kærandi hafi tekið fram í bréfi til umboðsmanns skuldara um hugsanlega niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana 25. nóvember 2013 að umrætt tilboð hafi verið dregið til baka en það hafi aðeins verið óformlegt. Þá hafi félagið verið tæknilega gjaldþrota, þ.e. með skuldir langt umfram eignir og félagið því verðlaust. Kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem sýndu fram á afturköllun á umræddu tilboði. Hún hafi aftur á móti lagt fram ársreikning félagsins fyrir árið 2010 og skattframtal þess fyrir árið 2011. Þar að auki  hafi hún lagt fram upplýsingar um skuldir félagsins.

Að mati umsjónarmanns lá fyrir að eignarhlutur kæranda í félaginu D hafði verðgildi í ljósi þess tilboðs sem barst. Önnur lægri tilboð höfðu áður borist frá sama aðila en kærandi hafnaði þeim. Kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn um að tilboðið upp á 1.000.000 krónur, sem barst í eignarhlut hennar í félaginu, hafi ekki verið bindandi en að mati umsjónarmanns hafi tilboðið verið bindandi. Umboðsmaður taki undir mat umsjónarmanns um að umræddur eignarhlutur kæranda í félaginu D hafi haft verðgildi. Því liggi ljóst fyrir að kærandi hafi látið frá sér verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

4. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 3. desember 2012 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður. Í framhaldi þess felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 6. febrúar 2014 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ráðstafað eignarhlut sínum í félaginu D til fyrrverandi sambýlismanns hennar án annars endurgjalds en niðurfellingar 600.000 krónu kröfu hans á hendur henni.  Umsjónarmaður greiðsluaðlögunarumleitana kæranda hafi fengið tilboð í eignarhluta kæranda sem nam 1.000.000 króna en kærandi hafi ekki brugðist við tilboðinu. Fram hefur komið að kærandi hafi talið að fyrrgreint tilboð frá fyrrverandi sambýlismanni sínum hafi verið óformlegt auk þess sem fallið hafi verið frá því. Þá kveðist kærandi hafa talið að hún hafi ekki verið að afhenda verðmæti þar sem umrætt félag hafi verið verðlaust.  

Eins og fram kemur í c-lið 12. gr. lge. er skuldara óheimilt, á sama tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum afsalaði kærandi eignarhlut sínum í D til fyrrverandi sambýlismanns síns gegn niðurfellingu kröfu að fjárhæð 600.000 krónum á hendur henni. Samkvæmt gögnum málsins hafði kæranda þá þegar borist tilboð í eignarhlutann frá sama aðila sem nam 1.000.000 krónum auk niðurfellingar fyrrnefndrar kröfu á hendur henni. Í málinu liggur fyrir að kærandi ráðstafaði eignarhlut sínum í umræddu félagi án samráðs eða samþykkis umsjónarmanns. Kærandi kveður tilboðið sem hún hafi fengið ekki hafa verið bindandi, að eignarhluti hennar hafi verið verðlaus og að fallið hafi verið frá umræddu kauptilboði. Hún hefur þó ekki lagt nein gögn fram í málinu sem sýna fram á að þær staðhæfingar séu réttar. Kærunefndin telur að við úrlausn málsins verði að leggja til grundvallar að kauptilboð, sem barst í eignarhlut kæranda í D 30. október 2012 og nam 1.000.000 krónum auk eftirgjafar krafna fyrrum sambýlismanns á hendur kæranda, hafi verið gilt og því hafi ekki verið sýnt fram á að eignarhluti kæranda hafi verið verðlaus. Því telur kærunefndin liggja fyrir að kærandi hafi látið frá sér verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Þar sem kærandi hefur með vísan til þess sem að framan er rakið brugðist skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi þar með borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er staðfest með vísan til þess.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum