Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2014

Mál nr. 15/2014

Miðvikudaginn 17. febrúar  2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 9. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. janúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 27. febrúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 28. ágúst 2014. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1977 og 1970. Þau búa ásamt fjórum börnum í 284,4 fermetra eigin parhúsi með bílskúr að C.

Kærandi A er [.....] en kærandi B er [.....].

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 95.568.932 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 og 2008.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til launalækkunar, veikinda og hækkunar á framfærslukostnaði.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 28. desember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 22. nóvember 2012 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns væri að kærendur hefðu ekki komið heiðarlega fram. Þannig hafi treglega gengið að fá upplýsingar um raunverulegar tekjur þeirra og ástæður þess að þau hefðu ekki lagt til hliðar tilskilið fé á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Kærendur hefðu einnig haldið því leyndu að þau hefðu leigt út fasteign sína og flutt í annað húsnæði. Hafi þau þannig reynt að bæta fjárhagstöðu sína án þess að upplýsa umsjónarmann um það. Telji umsjónarmaður að með framferði sínu hefðu kærendur brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. með því að hafa af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem teljist mikilsverðar í málinu. Þá hafi kærendur ekki staðið við skyldur sínar um að leggja til hliðar fé á tímabili greiðsluskjóls samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en þau hafi lagt fyrir óverulegar fjárhæðir miðað við greiðslugetu. Miðað með meðaltekjur hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar um 3.500.000 króna en þau hafi aðeins lagt fyrir 1.600.000 krónur. Að sögn kærenda hafi útgjöld þeirra verið meiri en gert hafi verið ráð fyrir en þau hafi ekki framvísað viðhlítandi gögnum því til stuðnings þrátt fyrir ítrekaðar óskir. Sé þetta brot á skyldum kærenda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Einnig telji umsjónarmaður verulegum vafa undirorpið hvort kærendur uppfylli skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Núverandi fjárhagsstaða kærenda gefi til kynna að þau geti samið við kröfuhafa, án þess að til greiðsluaðlögunar eða verulegar niðurfellingar skulda þurfi að koma. Kærendur hafi góðar tekjur og mikla greiðslugetu og ólíklegt sé að þau teljist fyrirsjáanlega ófær um að standa í skilum með fjárhagsskuldbindingar sínar. Með vísan til framangreinds telji umsjónarmaður að fram séu komin atriði sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun samkvæmt lge. sé heimil.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 4. desember 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

Með bréfi til kærenda 28. janúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 6. gr. og a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að kærunefndin hafni staðfestingu á úrskurði umboðsmanns skuldara og að þeim verði veitt áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærendur vísa til þess að umboðsmaður skuldara byggi niðurstöðu sína á því að þau hafi ekki fullnægt skyldu sinni um að leggja fyrir milljónir á tímabili greiðsluskjóls. Skylda kærenda til að leggja fyrir fjármuni með þeim hætti sem umboðsmaður skuldara ætlist til hafi ekki verið kynnt nægjanlega vel fyrir kærendum. Kærendur hafni aðferðum umboðsmanns skuldara hvað þetta varði. Þau telja að viðmið umboðsmanns skuldara um útgjöld fyrir venjulega fjölskyldu séu ekki í samræmi við raunveruleikann. Rangt sé að nota þessar fjárhæðir til að reikna út hvað kærendur hefðu í besta falli átt að leggja fyrir á tímabilinu.

Kærendur hafni því að hafa vísvitandi leynt því fyrir umsjónarmanni að hafa flutt búferlum á tímabilinu. Það hafi þau gert til að spara sér kostnað við húsnæði og bensín í því skyni að reyna að leggja eitthvað af peningum til hliðar.

Í útreikningum sínum hafi umboðsmaður aðeins tekið tillit til hluta kostnaðar kærenda vegna tannréttinga barna en embættið hafi ekki leitast við að afla frekari útskýringa eða gagna vegna þessa.

Kærendur fara fram á að umboðsmaður skuldara sýni með greinargóðum hætti hvernig hann komist að því að kærendur hafi átt að leggja til hliðar 6.125.325 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Krefjast þau þess að fá tækifæri til að andmæla þeim útreikningum áður en málið komi til meðferðar hjá kærunefndinni.

Kærendur gera athugasemd við það að tvisvar hafi verið skipt um umsjónarmann í máli þeirra. Einnig gera þau athugasemdir við vinnubrögð seinni umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara í málinu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá segi í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 28. desember 2010 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafist á þeim degi. Öllum er sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar og nutu greiðsluskjóls hafi verið send bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi einnig verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara www.ums.is. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Hafi kærendum því mátt vel vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 34 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. janúar 2011 til 31. október 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. janúar 2011 til 31. október 2013 að frádregnum skatti 23.848.780
Meðlag, barnalífeyrir, barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 4.162.105
Samtals 28.010.885
Mánaðarlegar meðaltekjur 800.311
Framfærslukostnaður á mánuði 476.443
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 338.521
Samtals greiðslugeta í 34 mánuði 11.509.714

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 800.311 krónur í meðaltekjur á mánuði á 34 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 476.443krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Sé miðað við nýjustu mögulegu framfærsluviðmið kærendum í hag miðað við hjón með fjögur börn. Á þessum grundvelli sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir 11.509.714 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 338.521 krónu á mánuði í 34 mánuði.

Umboðsmaður telur að taka eigi tillit til kostnaðar að fjárhæð 1.540.389 krónur á tímabili frestunar greiðslna sem kærendur hafa gert grein fyrir. Auk þessa kostnaðar hafi kærendur framvísað reikningum vegna kostnaðar við endurmenntun að fjárhæð 800.000 krónur. Reikningarnir hafi verið ritaðir á vinnuveitanda kæranda B og því ekki unnt að taka tillit til þeirra. Þá kveðast kærendur hafa greitt alls 1.394.000 krónur vegna afnota af bifreið á tímabilinu en viðhlítandi gögn því til stuðnings hafi ekki verið lögð fram.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan kærendur séu með í vinnslu umsókn um samningaumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Með vísan til þessa telji embættið að kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir 9.969.325 krónur á tímabilinu. Umsjónarmaður kveði kærendur hafa lagt 1.600.000 krónur til hliðar en engin gögn hafi verið lögð fram því til staðfestingar. Þá komi fram í tölvupóstsamskiptum við kærendur að þetta sé fé sem þau geti nálgast ef þess þurfi og bendi samskipti þeirra til þess að þau hafi í raun ekkert lagt fyrir á tímabilinu.

Rétt sé þó að taka fram að jafnvel þó að tekið sé tillit til allra þeirra útgjalda sem kærendur tiltaki, auk meints sparnaðar, vanti enn 6.125.325 krónur sem kærendur hafi ekki gert grein fyrir.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sé skuldara ekki heimilt að láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Umboðsmaður skuldara telur að með því að greiða 41.000 krónur á mánuði af bílaláni, sem kærendur kveði leigugjald, hafi þau brotið gegn skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Hvorki liggi fyrir gögn um greiðslurnar né lánið en eftir framkomnar athugasemdir kröfuhafa hafi kærendur greint frá því að þau leigðu bílinn af einkaaðila. Hefði kærendum verið í lófa lagið að kaupa hóflega bifreið í samráði við umsjónarmann í stað þess að greiða svo háa fjárhæð mánaðarlega eða alls 1.394.000 krónur á tímabilinu.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. hvíli á umsjónarmanni skylda til samráðs við skuldara við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Sú skylda sem hvíli á skuldara samkvæmt 4. og 5. gr. lge. hljóti því eðli máls samkvæmt að hvíla á skuldara þar til greiðsluaðlögunarsamningur hefur komist á. Eigi það sér í lagi við ef aðstæður breytist eða nýjar upplýsingar um fjárhag skuldara komi fram. Eigi það jafnt við um upplýsingagjöf gagnvart umsjónarmanni og upplýsingargjöf gagnvart umboðsmanni skuldara.

Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu.

Umsjónarmaður telji að kærendur hafa brotið í bága við d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. með því að hafa með vísvitandi hætti og af ráðnum hug greint rangt frá mikilvægum upplýsingum varðandi aðstæður sem teljist mikilsverðar í málinu. Sú háttsemi kærenda að leigja út fasteign sína með hagnaði og flytja í annað húsnæði í öðru bæjarfélagi meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi, án þess að tilkynna umsjónarmanni um breytta hagi, telur umboðsmaður ámælisverða og falla undir ákvæði d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Sérstaklega eigi þetta við í ljósi þess að kærendur hafi lagt hart að umsjónarmanni að fá að halda fasteign sinni. Kærendur hafi greint frá því að það hafi meðal annars verið með hagsmuni barna þeirra í huga svo að börnin þyrftu ekki að skipta um skóla eða þola annað það rask sem hlotist gæti af flutningi á milli hverfa.

Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 2. gr. lge. sé fjallað um hverjir geti leitað greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. lge. geti einstaklingur, sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbingar sínar, leitað greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 2. gr. lge. sé skýrt hvenær einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar samkvæmt lögunum. Í V. hluta almennra athugasemda við greinargerð lge. komi fram að skuldari skuli sýna fram á greiðsluvanda sinn og hafna beri umsókn ef greiðslugeta sé til staðar, enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð. Í athugasemdum greinargerðar við 2. gr. lge. komi fram að skuldari skuli leita annarra leiða til að aðlaga skuldbindingar sínar ef mögulegt sé áður en hann sækir um greiðsluaðlögun.

Samkvæmt gögnum málsins nemi heildarskuldir kærenda alls 86.532.417 krónum, en verðmæti fasteignar þeirra sé 50.350.000 krónur samkvæmt fasteignamati árið 2013. Greiðslugeta kærenda til að standa skil á skuldbindingum sínum sé um það bil 504.216 krónur á mánuði miðað við meðaltekjur kærenda árið 2013 og framfærslukostnað hjóna með þrjú börn, en elsta barn kærenda sé 22 ára gamalt og búi ekki lengur hjá þeim. Mánaðarleg greiðslubyrði fasteignalána kærenda sé 318.463 krónur, greiðslubyrði námslána sé áætluð um 30.000 krónur og greiðslubyrði veðkröfu frá Arion banka um 55.000 krónur. Alls sé því greiðslubyrði kærenda 403.463 krónur. Hafi kærendur samkvæmt þessu um það bil 100.753 krónur til greiðslu annarra samningskrafna í mánuði hverjum. Aðrar samningkröfur nemi um 5.000.000 króna. Gætu kærendur til dæmis óskað eftir því við viðskiptabanka sinn að sameina samningskröfurnar í eitt lán en nær allar samningkröfur þeirra séu hjá Íslandsbanka. Þau gætu einnig sótt um greiðslufrest námslána.

Við vinnslu málsins hafi komið fram að fasteign kærenda að C sé talsvert dýr í rekstri og að fjárhagur þeirra myndi batna verulega við sölu eignarinnar. Gætu þau þá lækkað skuldir sínar í kjölfarið. Umboðsmaður telur líklegt að með sölu fasteignarinnar gætu kærendur greitt áhvílandi veðskuldir innan fasteignamats að mestu eða öllu leyti. Eftir stæðu þá um 11.500.000 króna veðskuldir auk námsskulda að fjárhæð 13.911.821 króna og samningskrafna að fjárhæð 6.821.246 krónur.

Kærendur greiði 212.500 krónur í húsaleigu að D. Umboðsmanni skuldara reiknist svo til að greiðslugeta kærenda yrði um það bil 364.216 krónur á mánuði ef þau seldu fasteign sína og færu á leigumarkað. Sé miðað við að greiðslubyrði námslána yrði um 30.000 krónur á mánuði og greiðslubyrði veðkröfu Arion banka um 55.000 krónur á mánuði ættu kærendur enn um 279.000 krónur til greiðslu annarra skuldbindinga og uppgjörs vanskila. Verði samkvæmt þessu að miða við að kærendur séu ekki í verulegum greiðsluvanda til framtíðar og líkur á að vægara úrræði en greiðsluaðlögun gæti leyst fjárhagsvanda þeirra.

Samkvæmt öllu því er að ofan greinir hafi umboðsmaður skuldara fellt niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 6. gr. og a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að kærunefndin hafni staðfestingu á úrskurði umboðsmanns skuldara og að þeim verði veitt áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram felli kærunefndin hina kærðu ákvörðun úr gildi. Kröfugerð kærenda fyrir kærunefndinni ber því að skilja þannig að þau fari fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 6. gr. og a- og c-liða 1. mgr. 12. gr.

Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá segir í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar sé skuldara ekki heimilt að láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Að því er varðar a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að kærendur séu ekki í verulegum greiðsluvanda til framtíðar og geti fengið lausn á fjármálavanda sínum með öðrum aðferðum en greiðsluaðlögun. Embætti umboðsmanns telur því að kærendur uppfylli ekki skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar. Fyrir kærunefndina hafa ekki verið lögð þau gögn er umboðsmaður byggir á varðandi þetta. Slík gögn væru til dæmis gögn er sýndu allar skuldir kærenda, greiðslubyrði þeirra, skilmála og vanskil. Einnig gögn er sýndu verðmæti fasteignar kærenda og vilja kröfuhafa til að leysa vanda kæranda á þann hátt er umboðsmaður gerir tillögu um. Kærunefndin telur því að ekki liggi fyrir fullnægjandi gögn sem staðfesta að kærendur uppfylli ekki skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Þá byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að framkoma kærenda hafi verið í andstöðu við d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Aðstæður, sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. lge., eru þær að skuldari hafi af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að við meðferð málsins hjá umsjónarmanni hafi kærendur hafnað tillögu hans um að lækka skuldir með því að selja fasteign sína. Að sögn kærenda hafi þau ekki viljað bjóða börnum sínum upp á það rask sem flutningar hefðu í för með sér. Engu að síður liggur fyrir að kærendur leigðu fasteign sína út og fluttu í leiguhúsnæði í öðru sveitarfélagi án þess að upplýsa umsjónarmann um það. Kærendur hafa ekki framvísað viðkomandi leigusamningum þannig að ekki liggur fyrir hvort framangreindar ráðstafanir auka tekjur og/eða lækka kostnað við búsetu kærenda. Af málatilbúnaði kærenda verður þó ekki annað ráðið en að þau hafi haft meira fé til ráðstöfunar eftir flutningana. Með þessari framgöngu hafa kærendur látið hjá líða að veita umsjónarmanni nauðsynlegar upplýsingar og skýringar á breyttum aðstæðum sínum og fjárhag. Upplýsingar um laun og aðrar tekjur eru grundvallarupplýsingar í greiðsluaðlögunarumleitunum. Hið sama á við um breytingar á launum, tekjum, framfærslukostnaði og grundvallaraðstæðum. Þessar upplýsingar eru enn fremur þess eðlis að kærendum bar skilyrðislaust að leggja þær fram og upplýsa umsjónarmann um þær, sérstaklega með tilliti til fyrri yfirlýsinga um búsetu. Sé litið til þessa verður ekki hjá því komist að telja að kærendur hafi með framgöngu sinni brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Einnig byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim bar á tímabili greiðsluskjóls samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur telja að Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki gert þeim nægilega grein fyrir því hversu mikið fé þau skyldu leggja til hliðar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Með gildistöku laga nr. 128/2010 frá 18. október 2010 tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimils og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum sem voru í greiðsluskjóli bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda þess efnis að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma, er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar, voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunarumleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrgðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslukostnaði sínum eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. júlí 2011 þar sem kærendum var veitt heimild til greiðsluaðlögunar var þeim einnig bent á skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. auk þess sem skriflegar leiðbeiningar þar um fylgdu með.

Kærunefndin telur að Embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sótti um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, með skriflegum leiðbeiningum þegar heimild til greiðsluaðlögunar var veitt, í tilkynningum sem sendar voru kærendum á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun. Var um að ræða útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist frá því að umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin þegar frestun greiðslna hefst. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærendum bar því að virða skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 28. desember 2010.

Umboðsmaður skuldara telur að kærendur hafi átt að leggja til hliðar 11.509.714 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram. Kærendur telja að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara sé ekki í samræmi við raunverulegan framfærslukostnað. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur ekkert lagt fyrir á tímabilinu.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur B 5.631.641
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 469.303
Nettótekjur A 1.838.558
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 153.213
Nettótekjur alls 7.470.199
Mánaðartekjur alls að meðaltali 622.517
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur B 6.087.723
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 507.310
Nettótekjur A 1.847.887
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 153.991
Nettótekjur alls 7.935.610
Mánaðartekjur alls að meðaltali 661.301
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur B 7.970.530
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 664.211
Nettótekjur A 1.979.923
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 164.994
Nettótekjur alls 9.950.453
Mánaðartekjur alls að meðaltali 829.204
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 25.356.262
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 704.341

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda, bætur, barnalífeyri og meðlagsgreiðslur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31.desember 2013: 36 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 25.356.262
Fjármagnstekjur nettó 82.522
Bótagreiðslur nettó 814.338
Meðlag og barnalífeyrir 3.460.088
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 29.713.210
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 825.367
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 476.443
Greiðslugeta kærenda á mánuði 348.924
Alls sparnaður í 36 mánuði í greiðsluskjóli x 348.924 12.561.262

Við mat á því hvaða fjárhæð kærendum bar að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út. Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að í 2. mgr. 1. gr. var bætt við staflið d þar sem fram kemur að eitt af hlutverkum Embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Eins og kærendur benda á veitir þetta tiltekna ákvæði út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður, sem 12. gr. lge. varðar, eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa. Um er að ræða samninga sem að jafnaði fela í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að það takist er ljóst að skuldari verður að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.

Kærendur telja að það hafi verið í verkahring umboðsmanns skuldara að kalla eftir frekari útskýringum og gögnum vegna útgjalda þeirra. Í 5. gr. lge. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur hann krafist þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum. Í greinargerð með frumvarpi til lge. kemur fram í athugasemdum við 4. gr. að upptalning 4. gr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir því að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu. Einnig komi fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn og fá yfir hann heildarmynd. Þá segir að eflaust verði ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn og sé það á ábyrgð skuldara að afla þeirra.

Í málinu hafa kærendur lagt fram reikninga vegna tannréttinga að fjárhæð 300.000 krónur. Um er að ræða óvæntan kostnað í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og verður hann því dreginn frá reiknaðri fjárhæð sparnaðar kærenda. Þau hafa einnig lagt fram reikninga vegna viðgerðarkostnaðar að fjárhæð 111.622 krónur og lögmannskostnaðar að fjárhæð 87.453 krónur. Í málinu liggja hvorki fyrir upplýsingar um ástæður viðgerðar né lögmannsþjónustu. Er því ekki unnt að taka tillit til þess kostnaðar við útreikninga á sparnaði kærenda. Þá hafa kærendur lagt fram reikning um endurmenntun kæranda B, samtals að fjárhæð 850.000 krónur. Reikningarnir voru samkvæmt efni sínu greiddir af vinnuveitanda kærandans B og hafa því ekki áhrif á kostnað kærenda á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafa ekki lagt fram kvittanir eða gögn vegna annars kostnaðar sem þau kveðast hafa orðið fyrir og verður því ekki tekið tillit til hans.

Að þessu virtu hafa kærendur átt að geta lagt fyrir 12.261.262 krónur á tímabili greiðsluskjóls (12.561.262 - 300.000) en hafa ekkert lagt fyrir. Samkvæmt þessu hafa kærendur ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að því er varðar c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. liggur fyrir í málinu að kærendur greiddu 41.000 krónur á mánuði til einstaklings vegna leigu á bíl. Í þeim framfærslukostnaði er umboðsmaður skuldara reiknaði út fyrir kærendur, alls 476.443 krónur á mánuði, er gert ráð fyrir 80.030 krónum á mánuði í kostnað vegna reksturs bifreiðar.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem greiðsluaðlögun hefur að jafnaði í för með sér eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Á þessum grunni byggist c-liður 1. mgr. 12. gr. lge. Með því að greiða þriðja aðila mánaðarlega 41.000 krónur fyrir leigu á bíl, til viðbótar við þær 80.030 krónur sem gert var ráð fyrir, hafa kærendur ráðstafað fjármunum sem ella hefðu gagnast til að greiða skuldir í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Í samræmi við það telur kærunefndin að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi þess sem að framan greinir verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. og a- og c- liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum