Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2014

Mál nr. 4/2014

Miðvikudaginn 13. janúar 2016

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 19. janúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. janúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 21. janúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 20. mars 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 23. september 2014. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 25. september 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1955 og 1956. Þau búa ásamt uppkominni dóttur sinni í leiguhúsnæði en um er að ræða 218 fermetra einbýlishús að C í Hafnarfirði.

Kærandi A vinnur hálfan daginn sem [.....]. Kærandi B er [.....].

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 55.343.383 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað vegna íbúðarkaupa árið 2001.

Að sögn kærenda má einkum rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis og verkefnaleysis hjá verktakafyrirtæki þeirra.

Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun barst Embætti umboðsmanns skuldara 4. janúar 2011. Með ákvörðun embættisins 5. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 25. júlí 2013 mæltist umsjónarmaður til þess að heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana yrði felld niður. Umsjónarmaður hafi óskað eftir ýmsum upplýsingum frá kærendum með bréfi 24. júní 2013. Meðal annars hafi þess verið óskað að kærendur veittu upplýsingar um atvinnuhagi sína, tekjur og félag sitt D ehf. Engin gögn hafi borist umsjónarmanni. Af ofangreindum ástæðum hafi umsjónarmaður talið að kærendur uppfylltu ekki lengur skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt 5. mgr. 13. gr. og 12. gr., sbr. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 5. nóvember 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur hefðu framvísað skattframtölum sínum en ekki lagt fram umbeðin gögn að öðru leyti.

Með ákvörðun 6. janúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda  með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveðast hvorki hafa hitt né rætt við skipaðan umsjónarmann sinn. Hafi þau í upphafi verið í sambandi við lögfræðing á lögmannstofu umsjónarmannsins, en þau samskipti hafi þó verið mjög takmörkuð. Að ári liðnu hafi annar lögfræðingur á stofunni tekið við málinu og þá hafi gagnaöflun hafist að nýju.

Að mati kærenda hafi ávallt verið óskað eftir sömu upplýsingunum og lítið hafi verið gert í málinu. Þau óski eftir því að þeim verði skipaður nýr umsjónarmaður.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í 4. gr. lge. eru raktar þær upplýsingar og þau gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt er um heimild til greiðsluaðlögunar. Þá segi í 2. tölulið 1. mgr. 4. gr. lge. að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar sundurliðaðar eignir skuldara séu.

Í 5. gr. lge. sé kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti hann krafist þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum. Í greinargerð með frumvarpi til lge. komi fram í athugasemdum við 4. gr. að upptalning 4. gr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir því að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu. Einnig komi fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn og fá yfir hann heildarmynd. Þó sé ljóst að margir þurfi aðstoð við gagnaöflun og aðstoði umboðsmaður við það auk þess sem embættið geti sjálft aflað upplýsinga með heimild frá skuldara. Þá segi að eflaust verði ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn og sé það á ábyrgð skuldara að afla þeirra.

Kærendur hafi ekki komið öðrum gögnum en skattframtölum til umboðsmanns skuldara. Í bréfi umsjónarmanns komi fram að hann óski eftir gögnum um félagið D ehf., en kærendur séu eigendur félagsins og skipi stjórn þess ásamt öðrum. Þá sé kærandi B skráður framkvæmdastjóri félagsins og kærendur séu bæði með prókúruumboð fyrir félagið. Kærendur hafi hvorki komið upplýsingum um félagið til umsjónarmanns né umboðsmanns skuldara. Félagið sé skráður eigandi að fasteign þeirri sem kærendur búi í og séu þau skuldarar að áhvílandi lánum á eigninni. Kærendur hafi greint frá því að þau greiði ekki leigu til félagsins. Ekkert liggi fyrir um verðmæti félagsins og stöðu þess eða hvort kærendur hafi einhverjar tekjur af rekstri þess.

Umboðsmaður skuldara telur umbeðnar upplýsingar um félagið D ehf. mikilvægar og nauðsynlegar til þess að fá heildarmynd af fjárhag kærenda. Kærendum hafi verið sent ábyrgðarbréf þess efnis 5. nóvember 2013 og þau upplýst um mikilvægi þess að þau gerðu nánari grein fyrir fjárhag sínum og þeim afleiðingum sem vöntun á upplýsingum hefði í för með sér. Kærendur hafi ekki brugðist við bréfinu. Samkvæmt framangreindu verði að telja fjárhag þeirra óglöggan í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. lge.

Í 1. mgr. 16. gr. lge. sé kveðið á um að umsjónarmaður skuli eins og fljótt og auðið er, eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara. Verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann sýni samstarfsvilja.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé það eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi  milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við gerð frumvarpsins. Sérstaklega eigi þetta við þegar óskað sé eftir gögnum frá skuldara sem hann einn geti látið í té eða farið sé fram á afstöðu hans til atriða er varði greiðsluaðlögunarumleitanir. Athafnaskylda kærenda að þessu leyti verði einnig leidd af ákvæði 1. mgr. 16 .gr. lge.

Kærendur hafi ekki veitt skýringar á því hvers vegna umsjónarmanni hafi ekki verið veittar umbeðnar upplýsingar og gögn nema að hluta til. Umboðsmaður skuldara hafi sérstaklega leiðbeint kæranda B um að svara þyrfti öllum þeim atriðum sem umsjónarmaður hafi tilgreint. Kæranda hafi einnig verið leiðbeint um að koma til umboðsmanns skuldara skriflegum skýringum á því hvers vegna kærendur hafi ekki sinnt óskum umsjónarmanns um gögn og skýringar. Það er því mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki staðið við skyldur sínar um samstarf við umsjónarmann samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í 1. mgr. 16. gr. lge. kemur fram að umsjónarmaður skuli, eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skal samið í samráði við skuldara. Í 15. gr. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Mat umboðsmanns skuldara er að þar sem kærendur hafi ekki framvísað umbeðnum gögnum, þar á meðal upplýsingum um félagið D ehf., teljist fjárhagur þeirra óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Einnig hafi skort á samstarf kærenda við vinnslu málsins hjá umsjónarmanni og því hafi framganga kærenda verið andstæð 1. mgr. 16. gr. lge.

Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. laganna er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum með frumvarpi til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal samkvæmt framansögðu veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á það hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Samkvæmt skattframtali kærenda 2013 vegna tekna ársins 2012 hafði kærandi B öll laun sín frá félaginu D ehf. Samkvæmt skattframtali ársins 2012 vegna tekna ársins 2011 fékk kærandi B engar tekjur frá félaginu en hann þáði atvinnuleysisbætur. Samkvæmt skattframtali ársins 2011 vegna ársins 2010 voru laun kæranda B frá E ehf. og F en auk þess þáði hann atvinnuleysisbætur. Laun kæranda A komu frá F öll framangreind ár. Eignarhluti í D ehf. var ekki færður sem eign kærenda á ofangreindum skattframtölum. Kærendur hafa þó ekki borið á móti því að eiga nefnt félag. Félagið hefur ekki verið afskráð, það hefur skilað ársreikningum og er til heimilis á sama stað og kærendur.

Með hliðsjón af framangreindu liggur ekki ljóst fyrir hvort kærendur eiga eignarhlut í nefndu félagi og þá hversu stór sá eignarhluti er. Kærendur hafa ekki veitt upplýsingar um þetta þrátt fyrir beiðnir þar um, en telja verður þetta grundvallarupplýsingar í málinu. Samkvæmt þessu telur kærunefndin að skort hafi á að kærendur hafi lagt fram nauðsynlegar upplýsingar til að fyrir lægi nægilega glögg mynd af fjárhag þeirra í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.  

Í málinu liggur einnig fyrir að kærendur sinntu ekki beiðni umsjónarmanns um upplýsingar, sbr. bréf umsjónarmanns til kærenda 25. júlí 2013. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. verður frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun ekki samið nema í samráði við skuldara og verður að telja að umbeðnar upplýsingar kæranda hafi verið nauðsynlegar til að koma á slíkum samningi. Þegar framanritað er virt verður að telja að skort hafi á samstarfsvilja kærenda í málinu sem var nauðsynlegur til að hægt væri að uppfylla skilyrði 1. mgr. 16. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum