Hoppa yfir valmynd
21. desember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 131/2013

Mál nr. 131/2013

Mánudaginn 21. desember 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. ágúst 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 9. ágúst 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 3. september 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. október 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 30. október 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Tölvupóstur barst frá kærendum 12. mars 2014 þar sem kröfur þeirra voru ítrekaðar.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1963 og 1964. Þau eru gift og búa ásamt syni sínum á unglingsaldri í eigin 189,8 fermetra raðhúsi með bílskúr að C í Hafnarfirði.

Kærandi A er [.....] en kærandi B er [.....]. Tekjur kærenda eru vegna launa og barnabóta.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 71.416.113 krónur.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til þess að þau hafi keypt fasteign árið 2005 áður en þau hafi verið búin að selja fyrri fasteign en það hafi tekið heilt ár. Þá hafi þau orðið fyrir tekjulækkun og afborganir lána hafi hækkað.

Kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með umsókn 26. apríl 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. ágúst 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. júní 2013 kom meðal annars fram að kröfuhafar hefðu mótmælt frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun í veigamiklum atriðum. Umsjónarmaður hefði upplýst kærendur um þetta og greint þeim frá því hvaða möguleikar væru fyrir hendi um framhald málsins við þær aðstæður sem uppi væru. Engin viðbrögð hefðu borist frá kærendum. Hefði umsjónarmaður því leitað til Embættis umboðsmanns skuldara um framhald málsins. Embættið hafi talið rétt að umsjónarmaður tæki ákvörðun um hvort grundvöllur væri fyrir nauðasamningi kærenda samkvæmt 2. mgr. 18. gr. lge. og hafi umsjónarmaður mælt gegn nauðasamningi. Kærendur hefðu kært þá niðurstöðu til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, en nefndin hefði ekki talið skilyrði 2. mgr. 18. gr. lge. fyrir hendi í málinu heldur hefði umsjónarmaður átt að fara með málið samkvæmt 15. gr. lge. Það geri umsjónarmaður nú og leggi til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felldar niður með vísan til 15. gr. lge. Í lagagreininni segi að  komi fram  upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi hafi verið sent kröfuhöfum 17. janúar 2013 og þar hafi verið gert ráð fyrir að mánaðarlegar tekjur kæranda B væru 431.377 krónur samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Kærandi A hafi haldið því fram í tölvupósti 18. janúar 2013 að tekjur kæranda B væru um 290.000 krónur á mánuði en ekki 431.377 krónur eins og gengið hefði verið út frá. Hafi umsjónarmaður óskað upplýsinga frá kærendum varðandi þetta en engar upplýsingar hafi borist. Þá hafi kröfuhafar óskað eftir frekari upplýsingum um tekjur kæranda A en þær upplýsingar hafi ekki fengist. Samkvæmt framangreindu frumvarpi hefði greiðslugeta kærenda verið 222.350 krónur en þau hefðu notið frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, frá apríl 2011. Miðað við hinar nýju upplýsingar kærenda væru forsendur á hinn bóginn brostnar fyrir fyrirliggjandi frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings.

Kærendur hafi einnig greint frá því að þau hafi orðið fyrir auknum kostnaði á tímabili greiðsluskjóls, en þau hafi hvorki gefið fullnægjandi skýringar né lagt fram kvittanir fyrir þeim kostnaði. Þá hafi kærendur greitt mánaðarlega 45.000 krónur af bílasamningi við D í greiðsluskjólinu. Loks hafi kærendur stofnað til nýrra skulda á tímabilinu. Miðað við þetta vanti verulega upp á að kærendur hafi fullnægt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar í greiðsluskjóli það fé sem sé umfram það sem þau þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Einnig hafi kærendur brotið gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem kveði á um að ekki sé heimilt að láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla á tímabili greiðslukjóls. Af þessum ástæðum leggi umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felldar niður.

Umsjónarmaður hafi einnig talið að kærendur þyrftu að selja fasteign sína, en þau hefðu ekki uppfyllt ákvæði 5. mgr. 13. gr. lge. og komið í veg fyrir sölu á eigninni.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 16. júlí 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kæranda kom meðal annars fram að ekki hefði verið tekið tillit til ýmissa kostnaðarliða vegna starfa kæranda A sem [.....].

 Með ákvörðun 9. ágúst 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur leggja til að ákvörðun um synjun greiðsluaðlögunar verði dregin til baka og kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli lge. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felld úr gildi.

Kærendur vísa til þess að kærandi A reki [.....] á heimili kærenda. Það skýri meðal annars hvers vegna tekjur hennar hafi verið lágar og útgjöld mikil. Að mati kærenda geri umboðsmaður skuldara ráð fyrir því að þau geti lagt meira fé til hliðar en þau geti í raun, meðal annars vegna þess að kærendur fái ekki vaxtabætur eins og umboðsmaður geri ranglega ráð fyrir.

Kærendur geri athugasemdir við að umboðsmaður skuldara fjalli lítið um andmæli þeirra. Telja kærendur að umboðsmaður hafi tekið ákvörðun í málinu á forsendum sem ekki standist endurskoðun. Hafi embættið meðal annars brotið á andmælarétti kærenda og rannsóknarreglu 5. gr. lge. Því til stuðnings nefni kærendur að málið hafi ekki verið skoðað að nýju heldur byggt á eldri upplýsingum.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar. Þá segir í 1. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. 13. gr. lge. komi síðan fram að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar með umsókn 26. apríl 2011. Samkvæmt lögum nr. 128/2010 hafi frestun greiðslna gagnvart þeim hafist við móttöku umsóknar. Ákveðnar skyldur hafi jafnframt lagst á kærendur sama dag. Umboðsmaður skuldara telji að kærendum hafi mátt vera það ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu á skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi einnig verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun 15. ágúst 2012 sem þau hafi fengið með ábyrgðarbréfi.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 26 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. maí 2011 til 30. júní 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. maí 2011 til 30. júní 2013 að frádregnum skatti 13.159.970
Tekjur A maí og júní 2013 215.430
Vaxta- og barnabætur á tímabilinu 1.675.826
Samtals 15.105.796
Mánaðarlegar meðaltekjur 580.992
Framfærslukostnaður á mánuði 321.209
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 259.783
Samtals greiðslugeta í 26 mánuði 6.754.358 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 580.922 krónur í meðaltekjur á mánuði á 26 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er þau nutu greiðsluskjóls.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið 321.209 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag og framfærslukostnað júlímánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna með eitt barn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir 6.754.358 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 259.783 krónur á mánuði í 26 mánuði.

Kærendur kveðist hafa greitt alls 1.170.000 krónur af bílasamningi til Lýsingar og orðið fyrir útgjöldum að fjárhæð 292.780 krónur vegna fermingar barns þeirra. Alls nemi þetta 1.462.780 krónum og sé aðeins hluti þess sem kærendur hefðu átt að leggja fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Að öðru leyti hafi kærendur ekki lagt fram nein gögn sem veitt gætu tæmandi skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt fyrir í greiðsluskjóli.

Umboðsmaður skuldara telur að sú háttsemi kærenda að greiða af bílasamningi Lýsingar eins og áður er vikið að hafi falið í sér brot á skyldum skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem umræddir fjármunir hefðu getað gagnast lánardrottnum sem greiðsla.

Að því er varði fasteign kærenda sé það mat umsjónarmanns að óraunhæft sé að þau geti staðið í skilum með afborganir af 189 fermetra fasteign sinni að C í Hafnarfirði. Með hliðsjón af mótmælum kröfuhafa telji umsjónarmaður að koma þurfi til sölu eignarinnar, en kærendur hafi ekki verið tilbúin til viðræðna um þetta atriði. Samkvæmt þessu sé það mat bæði umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara að selja þurfi fasteign kærenda. Munu greiðsluaðlögunarumleitanir ekki geta haldið áfram þar sem kærendur hafi ekki samþykkt sölu eignarinnar með því að taka ekki afstöðu til tillögu umsjónarmanns.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur telja málsmeðferð umboðsmanns skuldara ekki samrýmast meginreglum stjórnsýsluréttar, einkum rannsóknar- og andmælareglum.

Rannsóknarregla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvaldi er nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál. Í rannsóknarreglunni felist þó ekki að stjórnvaldi beri sjálfu að afla allra upplýsinga, en stjórnvald getur beint þeim tilmælum til aðila að hann veiti tilteknar upplýsingar eða leggi fram gögn.

Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn meginþáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna greiðslubyrði, fjárhæðir skulda og greiðslugetu viðkomandi skuldara.

Kærendur telja umboðsmann skuldara hafa átt að vinna mál þeirra aftur frá grunni. Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að sú skoðun þeirra byggist á skýringum sem þau hafi fært fram fyrir umsjónarmann. Á þennan skilning kæranda á rannsóknarreglunni getur kærunefndin ekki fallist. Eins og rakið hefur verið varðar rannsóknarreglan öflun nauðsynlegra upplýsinga um atvik máls áður en ákvörðun er tekin í því. Á öllum stigum málsins hafa kærendur haft tök á því að styðja fullyrðingar sínar haldbærum gögnum en það hafa þau ekki gert. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn vegna umsóknar um greiðsluaðlögun, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fengin verði yfir hann heildarmynd. Eflaust sé ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn og sé þá á ábyrgð skuldarans að afla þeirra. Samkvæmt þessu var það í verkahring kærenda að afla gagna sem styddu fullyrðingar þeirra um breyttar aðstæður og umboðsmaður skuldara gaf þeim færi á að afla með bréfi 16. júlí 2013. Kemur því að mati kærunefndarinnar ekki til þess að umboðsmaður skuldara beri sönnunarbyrði fyrir óstaðfestum staðhæfingum kærenda. Hlutverk umboðsmanns skuldara að þessu leyti er samkvæmt lge. að leggja mat á þau gögn sem kærendur hafa lagt fram, eftir atvikum að beiðni eða samkvæmt áskorun umboðsmanns. Þar sem kærendur öfluðu samkvæmt framansögðu ekki viðeigandi gagna voru engin efni til að vinna mál þeirra að nýju. Það er því mat kærunefndarinnar að meðferð málsins hafi verið í samræmi við rannsóknarreglu 5. gr. lge.

Að því er varðar andmælarétt kærenda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi skylda varðar eingöngu upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins svo sem við mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru. Andmælareglu stjórnsýslulaga er ætlað að veita aðila máls rétt til að hafa áhrif við úrlausn málsins og gæta hagsmuna sinna. Virði stjórnvald þennan rétt hefur það þar með veitt aðila lögbundinn andmælarétt. Það er þá undir málsaðila sjálfum komið að nýta sér þennan rétt.

Sem áður segir liggur fyrir í málinu bréf umboðsmanns skuldara til kæranda 16. júlí 2013 þar sem þeim var gefið tækifæri til þess að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings innan tilskilins frests. Í svari kærenda kom meðal annars fram að ekki hefði verið tekið tillit til þess að kærandi A starfræki [.....] á heimili kærenda og hafi þurft að standa undir ýmsum kostnaði vegna þessa. Skýri þetta lágar tekjur og aukin útgjöld kærenda að hluta. Einnig hafi verið litið fram hjá því að kærendur sjái fyrir uppkomnum börnum sínum á meðan þau búi á heimili þeirra. Í þessu ljósi hafi umboðsmaður skuldara látið hjá líða að gera nýja úttekt á stöðu kærenda svo sem hvort tekjur hafi hækkað eða lækkað. Kærendur lögðu ekki fram nein gögn máli sínu til stuðnings, þrátt fyrir að þeim hafi verið veitt tækifæri til þess en um var að ræða gögn sem ekki var á færi annarra en kærenda sjálfra að afla. Með vísan til þessa telur kærunefndin að umboðsmaður skuldara hafi virt andmælarétt kærenda við meðferð málsins.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. júní 2013 var lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður þar sem kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki fyrir í greiðsluskjóli og 5. mgr. 13. gr. lge. með því að koma í veg fyrir sölu á fasteign sinni. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 9. ágúst 2013. Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari  ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Hin kærða ákvörðun er byggð á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Kærendur kveðast hafa orðið fyrir auknum kostnaði á tímabilinu. Einnig liggur fyrir að þau hafa greitt mánaðarlega 45.000 krónur til D vegna bílasamnings á tímabili greiðsluskjóls.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 6.754.358 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. maí 2011 til 31. desember 2011: Átta mánuðir
Nettótekjur A 861.720
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 107.715
Nettótekjur B 2.476.440
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 309.555
Nettótekjur alls 3.338.160
Mánaðartekjur alls að meðaltali 417.270
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 1.292.580
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 107.715
Nettótekjur B 5.270.983
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 439.249
Nettótekjur alls 6.563.563
Mánaðartekjur alls að meðaltali 546.964
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. júlí 2013: Sjö mánuðir
Nettótekjur A 0
Nettótekjur B 3.072.273
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 438.896
Nettótekjur alls 3.072.273
Mánaðartekjur alls að meðaltali 438.896
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 12.973.996
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 480.518 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta þeirra þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. maí 2011 til 31. desember 2013: 27 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 12.973.996
Bótagreiðslur 2011 og 2012 1.823.940
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 14.797.936
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 548.072
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 321.209
Greiðslugeta kærenda á mánuði 226.863
Alls sparnaður í 27 mánuði í greiðsluskjóli x 226.863 6.125.293 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Kærendur hafa hvorki gefið fullnægjandi skýringar né lagt fram kvittanir fyrir þeim kostnaði sem þau kveðast hafa orðið fyrir. Telur kærunefndin því að líta verði svo á að kærendur hafi ekki lagt fyrir svo sem þeim bar að gera á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt því er það mat kærunefndarinnar að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á þeim tíma er þau nutu greiðsluskjóls.

Að því er varðar c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðast kærendur hafa greitt alls 1.170.000 krónur af bílasamningi til D á tímabili greiðsluskjóls. Þar með hafa þau ráðstafað fjármunum sem ella hefðu gagnast lánardrottnum sem greiðsla þegar kæmi að greiðsluaðlögunarsamningi. Með þessu telur kærunefndin að kærendur hafi brotið gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Loks telur umboðsmaður skuldara að kærendur hafi komið í veg fyrir sölu á fasteign sinni og þar með brotið gegn ákvæðum 5. mgr. 13. gr. lge. Kærendur telja þetta byggt á gömlum gögnum. Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. júní 2013 kemur fram að kærendur hafi ekki verið til viðræðu um að selja fasteign sína, en greiðslubyrði af veðlánum vegna eignarinnar sé mjög há. Umboðsmaður skuldara tók undir þetta mat umsjónarmanns. Í málatilbúnaði kærenda kemur fram að þau vilji halda húsnæði sínu.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má, að mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. í frumvarpi til þeirra laga segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Eins og fram er komið var meðalgreiðslugeta kærenda á mánuði 226.863 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt upplýsingum úr Fasteignaskrá er íbúð kærenda að C í Hafnarfirði samtals 189,8 fermetrar að stærð. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá var hæfileg leiga á sambærilegri eign á almennum markaði á umræddu tímabili 188.282 krónur til 296.088 krónur á mánuði. Er því ekki útilokað að kærendur hefðu haft bolmagn til að greiða af eigninni. Í málinu telur kærunefndin einnig rétt að líta til þess að annar kærenda hefur atvinnu sína í eigninni. Þá benda gögn málsins ekki til þess að umsjónarmaður hafi farið með málið svo sem 1. mgr. 13. gr. lge. mælir fyrir um. Því hefur í raun ekki verið látið á það reyna hvort kærendur hafi komið í veg fyrir sölu á eigninni í skilningi 5. mgr. 13. gr. lge. Það er því álit kærunefndarinnar að ekki hafi verið í ljós leitt að kærendur hefðu brotið gegn ákvæðum 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið bar umboðsmanni skuldara að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum