Hoppa yfir valmynd
10. desember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 186/2013

Mál nr. 186/2013

Fimmtudaginn 10. desember 2015

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. desember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 9. desember 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 6. janúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1974. Hún býr ásamt þremur börnum sínum, þar af einu uppkomnu, í eigin 86,3 fermetra einbýlishúsi að B.

Kærandi þiggur framfærslustyrk frá sveitarfélagi sínu. Hún fær einnig meðlag, barna- og vaxtabætur.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 20.433.569 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 og 2010.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til [.............].

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. apríl 2013 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 26. ágúst 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. og 21. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Í bréfinu kemur fram að greiðslugeta kæranda væri aðeins 8.586 krónur á mánuði en afborganir áhvílandi veðlána af fasteign væru 85.762 krónur. Í ljósi þessa hefði umsjónarmaður strax á fyrsta fundi með kæranda nefnt hvort ekki væri nauðsynlegt fyrir kæranda að selja fasteign sína. Kæranda hafi verið gerði grein fyrir skilyrðum þess að hún gæti haldið fasteign í greiðsluaðlögun og ákvæði 1. mgr. 13. gr. lge. þar sem segi að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í kjölfarið hafi verið óskað eftir afstöðu kæranda til sölu fasteignar hennar en kærandi hafi ekki talið sér fært að taka ákvörðun þegar í stað. Hafi hún því fengið frest til að taka ákvörðun. Umsjónarmaður hafi þó strax gert kæranda ljóst að það væri afstaða hans að mæla fyrir um sölu eignarinnar, sérstaklega í ljósi þess að greiðslugeta kæranda væri langt frá því að geta staðið undir afborgunum fasteignaveðkrafna innan matsverðs eignar og/eða hæfilegum leigugreiðslum fyrir eignina. Þá hafi umsjónarmaður ekki talið líklegt að greiðslugeta kæranda myndi aukast á næstu misserum. Að loknum fresti hafi kærandi hafnað því að selja fasteignina.

Verði að líta þannig á að með því hafi kærandi komið í veg fyrir áframhaldandi vinnslu málsins og sölu eignarinnar í skilningi 5. mgr. 13. gr. lge. en þar segi að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns um sölu eigna eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 15. nóvember 2013 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Engin svör hafi borist frá kæranda.

Með ákvörðun 9. desember 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar þess að mál hennar verði tekið upp aftur. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst vilja vinna með Embætti umboðsmanns skuldara að þeirri ákvörðun sem liggi fyrir í málinu um að selja fasteign hennar. Kærandi kveðst ekki hafa haft tök á því að vinna að málinu innan þess frests sem henni hafi áður verið gefinn.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Samkvæmt gögnum málsins sé greiðslugeta kæranda ekki nægileg til þess að greiða af veðkröfum innan matsverðs fasteignar í mánuði hverjum. Því sé ljóst að ekki verði komist hjá sölu fasteignar í greiðsluaðlögunarferli. Kærandi hafi ekki samþykkt sölu fasteignar þrátt fyrir ákvörðun umsjónarmanns þar um.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má, að mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils, sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Eins og áður hefur komið fram gerði umsjónarmaður ráð fyrir sölu á fasteign kæranda að B. Var það mat umsjónarmanns að kærandi hefði ekki svigrúm til að greiða fastar mánaðargreiðslur af veðkröfum innan matsverðs eignarinnar.

Í málinu liggur fyrir að mánaðarleg greiðslugeta kæranda er 7.528 krónur sé miðað við nóvembermánuð 2013 og því ljóst að kærandi hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að greiða af veðkröfum innan matsverðs fasteignarinnar. Þrátt fyrir það andmælti kærandi því að eignin yrði seld og sendi umsjónarmaður málið þá til umboðsmanns skuldara til niðurfellingar.

Nú liggur fyrir að kærandi er reiðubúin til samstarfs um sölu á fasteign sinni. Eru því ekki lengur fyrir hendi þær ástæður sem leiddu til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður, en forsendur málsins eru breyttar á þann hátt að nauðsynlegt er að láta á það reyna hvort nú verði talin skilyrði til að leita áfram greiðsluaðlögunar. Endurskoðun æðra stjórnvalds á ákvörðunum lægra setts stjórnvalds á grundvelli stjórnsýslukæru tekur til allra þátta ákvörðunarinnar. Breyttar aðstæður eftir að umboðsmaður skuldara hefur tekið ákvörðun kunna því eftir atvikum að vera tilefni til þess að kærunefnd komist að annarri niðurstöðu en umboðsmaður skuldara. Kærandi samþykkti ekki sölu fasteignar sinnar á því átta mánaða tímabili sem mál hennar var til meðferðar hjá umsjónarmanni og umboðsmanni skuldara. Þrátt fyrir það telur kærunefndin að um svo mikilsvert málefni sé að ræða fyrir kæranda að rétt þyki að umboðsmaður skuldara meti að nýju hvort fyrir hendi séu skilyrði til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndarinnar að óhjákvæmilegt sé að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana kæranda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. er samkvæmt framansögðu felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum