Hoppa yfir valmynd
29. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 24/2015

Fimmtudaginn 29. október 2015



A og B

gegn

skipuðum umsjónarmanni D

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 16. september 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, D lögfræðings, sem tilkynnt var með bréfi 4. september 2015, þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. nóvember 2012 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda 20. janúar 2014 en D tók við störfum hans 4. nóvember 2014. Skuldir kærenda samkvæmt ákvörðun umsjónarmanns eru alls 56.222.691 króna, þar af eru veðkröfur 54.509.055 krónur áhvílandi á fasteign kærenda að E götu nr. 24 í sveitarfélaginu F.

Frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun var sent kröfuhöfum og þeim veittur frestur frá 1. júní 2014 til og með 22. júní 2014 til að taka afstöðu til þess. Í frumvarpinu var kveðið á um að reynt yrði að selja fasteign kærenda að E götu nr. 24 í sex mánuði, niðurfellingu allra samningskrafna og einnig þeirra veðkrafna sem myndu standa eftir við sölu fasteignarinnar. Andmæli bárust frá Landsbankanum 9. júlí 2014. Bankinn vildi aðeins samþykkja frumvarpið með því skilyrði að seldist fasteign kærenda ekki á sex mánuðum myndi bankinn taka eignina yfir á verði samkvæmt verðmati sem gert yrði. Kærendur voru andvíg þessu þar sem þau töldu óljóst á hvaða verði bankinn myndi yfirtaka fasteignina. Umsjónarmaður óskaði eftir frekari upplýsingum frá Landsbankanum um mögulegt verðmat. Í svari Landsbankans kom fram að fasteignasali, sem yrði valinn af handahófi, myndi gera verðmatið. Þá upplýsti Landsbankinn að kærendur gætu leigt fasteignina á 276.291 krónu á mánuði, en bankinn gæti einnig veitt þeim fjögurra til sex vikna frest til að rýma eignina eftir yfirtöku. Kærendur samþykktu ekki skilyrði Landbankans og var annar umsjónarmaður skipaður í máli kærenda.

Umsjónarmaður óskaði frekari skýringa frá Landsbankanum á mögulegri yfirtöku á fasteign kærenda. Í svörum bankans kom fram að bankinn féllist á að gera verðmat á eigninni strax en þar sem fasteignin hefði verið til sölu í meira en sex mánuði frá því að frumvarp var sent kröfuhöfum, færi Landsbankinn fram á að yfirtaka eignina áður en greiðsluaðlögunarsamningur kæmist á. Kærendur lýstu því yfir að þau vildu hvorki gangast við skilyrðum Landsbankans fyrir greiðsluaðlögunarsamningi né afturkalla umsókn um greiðsluaðlögun. Umsjónaramaður bauð kærendum að leita nauðasamnings á grundvelli 18. gr. lge., en ekkert svar barst frá kærendum.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 6. febrúar 2015 tilkynnti umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli 5. mgr. 13. gr. lge., sbr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara hafnaði tillögu umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda þar sem kærendur hefðu ekki samþykkt fyrirliggjandi greiðsluaðlögunarsamning. Þá hafi kærendur ekki óskað eftir því að leita nauðasamnings. Með vísan til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 106/2012 væri það mat umboðsmanns skuldara að atvik málsins leiddu ekki til niðurfellingar samkvæmt 15. gr. lge. Á hinn bóginn væri ljóst að greiðsluaðlögunarsamningar næðust ekki og kærendur vildu ekki leita nauðasamnings. Samkvæmt þessu væri greiðsluaðlögunarumleitunum lokið, án samnings. Málinu var því aftur vísað til umsjónarmanns.

Umsjónarmaður bauð kærendum aftur að leita nauðasamnings samkvæmt 18. gr. lge. 18. ágúst 2015. Í svari  kærenda 25. ágúst 2015 lýstu þau því yfir að þau vildu leita nauðasamnings.

Umsjónarmaður tilkynnti kærendum með bréfi 4. september 2015 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar á grundvelli 18. gr. lge.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að lýsi skuldari því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings samkvæmt 18. gr. lge., skuli umsjónarmaður innan tveggja vikna taka rökstudda ákvörðun til þess í skriflegri greinargerð hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignveðkrafna komist á.

Umsjónarmaður vísar til þess að skulda- og eignastaða kærenda sé eftirfarandi í krónum:

Eignir  
 Skuldir  
Sparnaður*     1.350.881    
Veðkröfur      54.509.055    
Bifreið        800.000    
Samningskröfur        1.713.636    
Fasteign    54.000.000    
Samtals:      56.222.691    
Samtals:    56.150.881    
 

* Sparnaður kærenda 2. september 2015.

Samkvæmt ofangreindu séu samningskröfur 1.716.636 krónur. Sparnaður kærenda sé 1.350.881 króna og verðmat bifreiðar 800.000 krónur en áhvílandi sé veðkrafa Lýsingar sem nam 540.947 krónum við kröfulýsingu 18. desember 2013. Sparnaður kæranda að viðbættri  bifreið þeirra sé um 2.100.000 krónur. Kærendur eigi því fjármuni til að greiða upp allar sínar samningskröfur. Af þeim sökum telur umsjónarmaður ekki grundvöll fyrir því að mæla með að nauðasamningur fyrir samningskröfur komist á fyrir kærendur.

Um veðkröfur fari eftir lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna nr. 50/2009. Í 3. málslið 1. mgr. 4. gr. þeirra laga komi fram að héraðsdómari hafni beiðni um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna sé fjárhagur skuldara slíkur að annað hvort megi honum vera kleift að standa í fullum skilum án greiðsluaðlögunar, meðal annars með því að nýta sér önnur tiltæk greiðsluerfiðleikaúrræði, eða ljóst verði að telja að honum yrði ófært að standa undir lágmarksfjárhæð fastrar mánaðargreiðslu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna.

Í 1. mgr. 5. gr. segi svo að fastar mánaðargreiðslur af fasteigninni megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi, samkvæmt mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður sé umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri húsaleigu.

Fasteign kærenda að E götu nr. 24 í sveitarfélaginu F sé 189,5 fermetra, fimm herbergja raðhús. Fasteignin sé til sölu hjá fasteignasölunni Eignaborg. Ásett verð sé 54.000.000 króna. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá 19. ágúst 2015 sé meðalleiguverð fyrir fjögurra til fimm herbergja íbúð í sveitarfélaginu F 1.544 krónur á fermetra. Miðað við fasteign kærenda ætti meðalleiguverð að vera um 292.588 krónur.

Greiðslugeta kærenda, samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara, sé 77.000 krónur mánaðarlega. Ljóst sé að kærendur uppfylli ekki skilyrði laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna til að leggja fram beiðni um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og geti umsjónarmaður því ekki mælt með því að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á í máli kærenda.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum 2. september 2015 nemi veðkröfur bankans sem hvíli á 1., 2. og 3. veðrétti á fasteign kærenda 41.288.003 krónum að meðtöldum vanskilum. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka 26. ágúst 2015 séu veðkröfur bankans sem hvíli á 4. og 5. veðrétti á fasteign kærenda að fjárhæð 13.221.052 krónur með vanskilum. Þær veðkröfur sem hvíli á fasteign kærenda séu því samtals 54.509.055 krónur og sé fasteignin því aðeins lítillega yfirveðsett hvað varði skuldir þeirra. Að auki hvíli á fasteign kærenda lánsveð að fjárhæð 9.262.136 krónur sem tilkomið sé vegna tryggingarbréfs Steinfangs ehf., en félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota.

Að mati umsjónarmanns hefðu kærendur getað samþykkt samninginn um greiðsluaðlögun, sem kvað á um 100% eftirgjöf allra samningskrafna og allra eftirstæðra krafna eftir sölu eða yfirtöku á fasteign kærenda, og hefði sá samningur að fullu leyst greiðsluvanda þeirra. Það hafi kærendur aftur á móti ekki viljað og því hafi þau ekki fullnægt skyldu sinni um að fá lausn á skuldavanda sínum.

Með vísan til framangreinds hafi umsjónarmaður ekki séð annað fært en að mæla gegn nauðsamningi, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kærenda

Kærð er sú ákvörðun að kærendur fái ekki nauðasamning eða aðra löglega og sanngjarna meðferð. Einnig sé kært að greiðsluaðlögunarumleitanir hafi verið felldar úr gildi og þess krafist að greiðsluaðlögun verði lokið lögum samkvæmt. Þá er þess krafist að umboðsmanni skuldara verði gert að veita kærendum greiðsluaðlögun sem henti fjölskyldu þeirra, heimili og fjárhag en ekki samkvæmt órökstuddu, óhugsuðu og órannsökuðu huglægu mati umsjónarmanns.

Að mati kærenda hefði umsjónarmaður ekki haft tíma eða áhuga á að sinna máli þeirra þar sem hann hafi einungis fengið greidda ákveðna upphæð sem ekki hafi gefið kost á vönduðum og réttlátum vinnubrögðum. Frá því að þeim var skipaður umsjónarmaður og þau hófu greiðsluaðlögunarferlið kveðast kærendur í raun aldrei hafa vitað hvar þau stæðu, hvert þau stefndu eða hvar þau myndu búa. Kærendur rökstyðja kröfur sínar meðal annars með vísun til markmiðs lge. sem fram komi í 1. gr. laganna og þess að umboðsmaður skuldara hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni í málinu í samræmi við 5. gr. lge. Í stað þess að sinna skyldum sínum hafi embættinu legið á að láta kærendur selja heimili sitt, þrátt fyrir að bent hafi verið á að það hefði í för með sér að kærendur þyrftu að leigja húsnæði á almennum markaði sem væri dýrara en ef þau fengju að halda heimili sínu. Til dæmis hefðu kærendur bent á að til viðbótar við sparnað sinn hefðu þau getað leigt syni sínum og sex manna fjölskyldu hans hluta af húsinu á 240.000 krónur. Fjölskylda sonarins búi hvort sem er hjá kærendum og hafi ekki í önnur hús að venda. Þessa lausn hafi fulltrúi umboðsmanns skuldara ekki viljað skoða, en þetta hefði þýtt að kærendur hefðu getað farið leið greiðsluaðlögunar í stað nauðasamnings.   

Þá hafi kærendur ítrekað bent á ólögmæti lánsveða á 2. og 3. veðrétti fasteignar þeirra. Umboðsmaður skuldara hafi ekkert gert til að kanna hvort lánsveðin væru ólögmæt, sbr. skyldu embættisins samkvæmt 5. gr. lge. Kærendur kveðast hafa leitað til lögmanns til að kanna lánsveðin og bíði niðurstöðu hans í málinu. Kærendur vísa einnig til 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem fjalli um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds. Telja kærendur að embættið hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni í málinu og að umsjónarmenn þeirra hafi nánast ekkert haft kærendur með í ráðum, leyft þeim að fylgjast með eða hlustað á tillögur þeirra. Þá hafi umsjónarmaður margoft reynt að fá kærendur til að hætta við greiðsluaðlögun í stað þess að vinna greiðsluaðlögunina á réttan og löglegan hátt. Að mati kærenda hafi það verið óásættanlegt að umsjónarmaður hefði viljað ljúka málinu á sem skemmstan og einfaldastan hátt. Kærendur hafi viljað ljúka við greiðsluaðlögun á þann hátt að kannað væri hvort skuldir, skuldbindingar og lánsveð hafi verið lögleg og að því loknu hefði verið fundin leið til að kærendur gætu búið í fasteign sinni.

Kærendur telja að umsjónarmenn hafi gert mörg mistök við meðferð málsins. Fyrir utan að kanna ekki lögmæti lánsveða þá sé fjárhæð skulda þeirra hjá Lýsingu ekki rétt þar sem umsjónarmaður hefði ekki haft fyrir því að láta fyrirtækið endurreikna lán þeirra. Kærendur hafi sjálf aflað réttra útreikninga frá Lýsingu og samkvæmt þeim muni um nokkur hundruð þúsund krónur, kærendum í hag.

Kærendur benda á að samkvæmt 34. gr. lge. sé kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þessi reglugerð hafi ekki verið sett og því sé umboðsmaður skuldara ekki að vinna eftir reglugerð eða löglegum verklagsreglum. Telja kærendur að huglægt mat sé lagt á hvert mál fyrir sig. Þetta huglæga mat sé misjafnt eftir því hvaða starfsmaður fari með mál viðkomandi. Þessi vinnubrögð séu ólíðandi og sé þess krafist að tekið sé á þessari brotalöm í starfsemi umboðsmanns skuldara áður en dæmt verði í þeirra máli, þannig að starfað sé eftir lögunum þegar mál þeirra verði tekið fyrir. Kærendur telja að leið greiðsluaðlögunar hafi ekki verið fullreynd.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun umsjónarmanns þess efnis að mæla ekki með nauðasamningi. Einnig er kært að greiðsluaðlögunarumleitanir hafi verið felldar úr gildi og þess krafist að greiðsluaðlögun verði lokið lögum samkvæmt. Loks er þess krafist að umboðsmanni skuldara verði gert að veita kærendum greiðsluaðlögun.

Mæli umsjónarmaður gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 2. mgr. 18. gr. lge. Staðfesti nefndin ákvörðun umsjónarmanns lýkur greiðsluaðlögunarumleitunum þá þegar. Hrindi kærunefndin hinni kærðu ákvörðun, ber umsjónarmanni að útbúa og leggja fyrir kröfuhafa frumvarp til nauðsamnings til greiðsluaðlögunar og/eða frumvarp til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. 19. og 20. gr. lge. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála mæli með samningum eða ljúki við greiðsluaðlögunarferli. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli hina kærðu ákvörðun úr gildi, fallist hún á kröfur kærenda í málinu. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærendur telja hvorki umboðsmann skuldara né skipaðan umsjónarmann hafa kannað lögmæti veðlána eða lánsveða á fasteign kærenda og þar með hafi mál þeirra ekki verið rannsakað í samræmi við 5. gr. lge. sem fjallar um rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara.  

Hlutverk greiðsluaðlögunar er samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Úrvinnsla greiðsluaðlögunarmáls fer eðli málsins samkvæmt fram miðað við stöðu skuldara á þeim tíma er hann sækir um greiðsluaðlögun. Eftir að sótt er um greiðsluaðlögun fer um málið samkvæmt ákvæðum lge. Kærunefndin telur að það sé hvorki  hlutverk umboðsmanns skuldara né skipaðs umsjónarmanns samkvæmt lge. að hlutast til um að kanna lögmæti einstakra lána eða endurútreikning þeirra. Rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara ber að skýra með hliðsjón af þessu. Að því gættu verður ekki talið að ágalli hafi verið á málsmeðferðinni að þessu leyti af hálfu umboðsmanns skuldara.

Einnig telja kærendur að umsjónarmaður hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu stjórnvalds samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kærendur hafi ekki verið hafðir með í ráðum, þeim hafi ekki verið leyft að fylgjast með og ekki hafi verið hlustað á tillögur þeirra.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar og komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Samkvæmt lge. er það hlutverk umsjónarmanns með greiðsluaðlöguninni að semja frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í samráði við skuldara samkvæmt IV. kafla lge. eða leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt V. kafla laganna. Málatilbúnaður kærenda hvað varðar skort á leiðbeiningum er óljós, en að mati kærunefndarinnar verður ekki annað séð af gögnum málsins en að umsjónarmaður hafi sinnt leiðbeiningarskyldum sínum samkvæmt áskilnaði lge. og stjórnsýslulaga.

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með því að samningur komist á, skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að mæla verði gegn því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komist á þar sem samningskröfur nemi 1.716.636 krónum en sparnaður kærenda, að viðbættu verðmæti í bifreið, dugi til að kærendur geti greitt upp allar samningskröfur. Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að sparnaður kærenda sé 1.350.881 króna og verðmat bifreiðar 800.000 krónur en áhvílandi sé veðkrafa Lýsingar sem nam 540.947 krónum við kröfulýsingu 18. desember 2013.

Samkvæmt framangreindum forsendum umsjónarmanns er sparnaður kærenda 1.350.881 króna og eign kærenda í bifreið 259.053 krónur, samtals 1.609.934 krónur. Sparnaður að viðbættum eignarhluta í bifreið þeirra dugar því ekki til greiðslu allra samningskrafna og munar 106.702 krónum. Þrátt fyrir að samningskröfur kærenda nemi hærri fjárhæð en samanlagt mat á eign þeirra í bifreið og sparnaði, verður að fallast á þá niðurstöðu umsjónarmanns að ekki sé grundvöllur fyrir nauðasamningi hvað varðar greiðsluaðlögun, enda yrði ávinningur kærenda af slíkum samningi mjög takmarkaður í ljósi markmiðs lge., sbr. 1. mgr. 1. gr. lge.

Í ákvörðun umsjónarmanns er einnig mælt gegn því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna komist á með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði þar sem greiðslugeta kærenda sé minni en 60% af hæfilegri húsaleigu.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna skal umsjónarmaður á grundvelli upplýsinga frá skuldara og fyrirliggjandi gagna svo og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra eðlilegra útgjalda skuldarans, reikna hvað honum sé kleift að greiða þegar í stað af skuldum sem greiðsluaðlögunin tæki til og síðan með föstum mánaðargreiðslum á því tímabili sem hún stæði yfir. Fastar mánaðargreiðslur af veðkröfum mega þó ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má, samkvæmt mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun veðkrafna varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri húsaleigu. Fastar mánaðargreiðslur skulu bundnar launavísitölu frá þeim tíma sem beiðni um greiðsluaðlögun var tekin til greina.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, tekur héraðsdómari afstöðu til beiðni um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkafana samkvæmt 3. gr. laganna með úrskurði. Héraðsdómari hafnar beiðni sé fjárhagur skuldara slíkur að annaðhvort megi honum vera kleift að standa í fullum skilum án greiðsluaðlögunar, meðal annars með því að nýta sér önnur tiltæk greiðsluerfiðleikaúrræði, eða ljóst verði að telja að honum yrði ófært að standa undir lágmarksfjárhæð fastrar mánaðargreiðslu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sömu laga.

Í tillögu umsjónarmanns að greiðsluaðlögunarsamningi kemur fram að mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda séu 345.688 krónur en framfærslukostnaður sé 268.667 krónur á mánuði. Greiðslugeta kærenda á mánuði sé því 77.021 króna. Fasteign kærenda er 189,5 fermetra fimm herbergja raðhús. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá 21. október 2015 var meðalleiguverð fjögurra til fimm herbergja íbúð í sveitarfélaginu F 1.660 krónur á fermetra í september 2015. Miðað við fasteign kærenda ætti meðalleiguverð hennar að vera 314.570 krónur á mánuði. Miðað við þessar forsendur má greiðslugeta kærenda ekki vera minni en 188.742 krónur á mánuði til þess að héraðsdómari samþykki greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Verður því fallist á mat umsjónarmanns að mæla ekki með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna komist á.

Í málinu hefur ekki þýðingu að reglugerðarheimild 34. gr. lge. hefur ekki verið nýtt, enda fer um málsmeðferð samkvæmt lge. og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Með vísan til alls þessa og samkvæmt 18. gr. lge. er hin kærða ákvörðun umsjónarmanns staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, D um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á í máli A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum