Hoppa yfir valmynd
1. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 62/2013

Fimmtudaginn 1. október 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 6. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. mars 2013 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað. Frekari rökstuðningur við kæru barst með bréfi kæranda 13. maí 2013.

Með bréfi 15. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. júní 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 19. júlí 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send kæranda 22. ágúst 2013. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1964. Hann er einstæður tveggja barna faðir og er með lögheimili að B götu nr. 45 í sveitarfélaginu C.  

Kærandi er menntaður fiskieldislíffræðingur. Hann starfar sem eldisstjóri hjá X ehf. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda eru 846.814 krónur á mánuði miðað við meðaltal launa og aðrar tekjur að frádregnum sköttum og gjöldum á tímabilinu nóvember 2012 til janúar 2013.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til fjárfestinga í atvinnurekstri og tekjuskerðingar vegna atvinnumissis og skilnaðar.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 112.503.739 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærandi er auk þess í ábyrgð vegna atvinnurekstrar, upphaflega að fjárhæð 22.200.000 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 og 2008. Til helstu ábyrgðarskuldbindinga var stofnað á árunum 2005 og 2007.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 28. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. mars 2013 var umsókninni hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og umboðsmanni skuldara gert að taka málið afgreiðslu lögum samkvæmt. Kærandi mótmælir því harðlega að skilyrði hafi verið fyrir hendi til að synja umsókn hans, þá sérstaklega skilyrði b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi kveður stöðu sína vera um margt sérstaka. Einkum vegna þess að stór hluti krafna sé í svokölluðum erlendum lánum sem teljast ólögmæt og ekki liggi fyrir endanlegur útreikningur á þeim. Jafnframt hafi kærandi verið atvinnulaus að mestu á tímabilinu frá vormánuðum 2006 til haustsins 2008. Síðan þá hafi hagur kæranda vænkast og staða hans gerbreyst. Kærandi kveðst vera í traustri, vel launaðri vinnu sem geri honum kleift að standa undir öllum eðlilegum kröfum sem kunni á hann að vera lagðar.

Þrátt fyrir að kærandi hafi gengist í ábyrgðir á því tímabili þegar tekjur hans voru litlar, þá hafi framtíðarhorfur réttlætt aukna skuldasöfnun. Þá sé alkunna að það taki tíma að byggja upp fyrirtæki og réttlæti slíkt alltaf útgjöld.

Kærandi mótmælir því harðlega sem röngu er fram komi í synjun umboðsmanns skuldara að einungis 35.358.014 krónur af heildarskuldum kæranda séu veðskuldir. Hið rétta sé að fyrir liggi tryggingarbréf vegna langstærsta hluta umræddra krafna.

Þá hafi skuldir kæranda lækkað verulega frá því að erindi um greiðsluaðlögun var sent umboðsmanni skuldara. VBS fjárfestingarbanki hafi afskrifað allar kröfur sínar á hendur kæranda að fjárhæð 75.404.944 krónur og sé því harðlega mótmælt að sú krafa

sé talin með skuldum kæranda. Þá sé raunstaða krafna á hendur kæranda mun lægri en yfirlit lánastofnanna bendi til enda hafi þær dráttarvaxtarreiknað allar kröfur frá því að greiðsluskjól var virkt, en slíkt sé ekki heimilt lögum samkvæmt.

Þá muni krafa vegna sjálfskuldarábyrgðar við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis (SPRON), upphaflega að fjárhæð 3.425.634 krónur, falla niður fyrir skuldajöfnuð við kæranda.

Kærandi kveðst hafa átt miklar eignir þegar stofnað var til umræddra skuldbindinga eins og fram komi í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Þessar eignir og aðrar tryggingar, sem hafi verið fyrir hendi vegna persónulegra krafna og ábyrgðarskuldbindinga, hafi gert það að verkum að ekki verði talið að skuldasöfnun hafi verið óhæfileg. Þvert á móti hafi umræddar eignir og tryggingar réttlætt slík lán og ábyrgðir. Því sé ljóst að einungis óverulegar ef einhverjar skuldir muni lenda á kæranda sökum ábyrgða vegna atvinnurekstrar og fjárfestinga.

Þá sé því mótmælt, sem fram komi í ákvörðun umboðsmanns skuldara, að yfirdráttarheimild hjá Glitni, nú Íslandsbanka, hafi verið nýtt til fjárfestinga og liggi ekkert fyrir um slíkt. Hið rétta sé að fjármunirnir hafi verið nýttir til framfærslu og til afborgunar lána.

Himinn og haf sé á milli þess sem umboðsmaður skuldara telji kæranda skulda og raunveruleika þess máls. Jafnframt sæti undrun hve viljugur umboðsmaður skuldara sé að álykta um forsendur og ástæður skuldasöfnunar og reiðubúinn til að færa allt á versta veg. Hið rétta sé að eftir slæmt tímabil þá hafi kærandi rétt úr kútnum, ekki einvörðungu vegna skulda sem hafi lækkað verulega vegna afskrifta og leiðréttingar lána, heldur einnig vegna aukinna tekna. Þá megi gera ráð fyrir frekari lækkun skulda og ábyrgða, en skuldir hafi ekki verið endurútreiknaðar í samræmi við nýjustu dóma, og jafnframt eigi eftir að ganga frekari dómar.

Kærandi andmælir því sérstaklega að hann uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðsluaðlögun. Hann sé kominn með öruggar tekjur og skuldir verði innan viðráðanlegra marka þegar endurútreikningar og skuldajöfnun hafi farið fram.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt b-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt d-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Þá komi fram meðal annars í almennum athugasemdum við frumvarp til lge. að það sé ekki vilji löggjafans að einstaklingar, sem fyrst og fremst eigi við vanda vegna atvinnurekstrar, nýti sér þetta úrræði.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi gengist í eftirtaldar skuldbindingar á árunum 2004 og 2006–2008 sem varði b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.:

Þann 28. júlí 2004 hafi kærandi gefið út veðskuldabréf í erlendri mynt við Íslandsbanka hf. með veði í eignarhluta sínum í B götu nr. 45 í sveitarfélaginu C, upphaflega að fjárhæð 17.865.058 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hafi veðlánið verið tekið til uppgreiðslu áhvílandi lána hjá Íbúðalánasjóði, 8.800.000 krónur, Lífeyrissjóði verkfræðinga 3.500.000 krónur og Frjálsa fjárfestingarbankanum 2.600.000 krónur, eða samtals 14.900.000 krónur. Afganginn hafi kærandi fengið til eigin ráðstöfunar. Samkvæmt upplýsingum kæranda sjálfs kveðst hann hafa notað hluta af andvirði húsnæðisláns þessa til kaupa á hlutabréfum fyrir 20.000.000 króna í eigin fyrirtæki, H ehf., sem hafi orðið gjaldþrota árið 2006. Þann 7. desember 2011 hafi áðurgreint lán verið endurreiknað í 35.358.014 íslenskar krónur.

Þann 19. júní 2006 hafi kærandi gefið út skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð við Íslandsbanka, upphaflega að fjárhæð 2.091.089 krónur, í vanskilum frá 20. desember 2007. Staða lánsins samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé 4.737.551 króna.

Þann 13. nóvember 2007 hafi kærandi gefið út skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð við SPRON, nú Arion hf., upphaflega að fjárhæð 3.425.634 krónur. Lánið hafi verið endurútreiknað 19. júlí 2011. Staða lánsins samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé 4.139.495 krónur.

Þann 28. september 2007 hafi yfirdráttarheimild kæranda fallið á tékkareikningi við Íslandsbanka. Staða yfirdráttar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé 12.232.569 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá útibúi Íslandsbanka í Hafnarfirði hafi yfirdráttarheimildin að mestu leyti verið notuð til fjárfestinga.

Þá hafi kreditkortaskuld kæranda við Íslandsbanka hf. fallið í gjalddaga 5. ágúst 2008 vegna úttektartímabilsins frá 18. mars 2008 til 17. júní 2008. Upphafleg fjárhæð hafi verið 1.804.756 krónur, staða samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé 3.180.562 krónur.

Vegna vanskila á áðurgreindu veðskuldabréfi við Íslandsbanka hf., útgefnu 28. júlí 2004, hafi verið gefin út samtals 15 eftirtalin skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð: Þann 8. júlí 2008 voru gefin út sex skuldabréf; þann 17. júlí 2008 voru gefin út átta skuldabréf og þann 8. apríl 2008 var gefið út eitt skuldabréf. Samanlagt séu skuldabréfin að upphaflegri fjárhæð 21.899.103 krónur, staða samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé 38.006.167 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hafi ekki verið tekið tillit til greindra skuldabréfa við endurútreikning veðskuldabréfsins yfir í íslenskar krónur 7. desember 2011.

Samanlögð staða vegna persónulegra skuldbindinga kæranda á framangreindu tímabili hafi verið 97.654.358 krónur samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Hafi þá ekki verið tekið tillit til síðari lántöku kæranda, einkum á árinu 2011.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi gengist í eftirtaldar ábyrgðarskuldbindingar vegna atvinnurekstrar sem varði c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.:

Kærandi hafi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar sem tilkomnar hafi verið vegna Hafnarbúða ehf., þar sem hann hafi gegnt stöðu stjórnarmanns, og Y ehf., þar sem hann hafi gegnt stöðu stjórnarmanns með prókúru. Með úrskurði 16. september 2008 hafi bú Y ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafi skiptalok farið fram 1. júlí 2009.

Samkvæmt niðurstöðu úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011 frá 13. apríl 2011 verði ábyrgðarskuldbindingar vegna þriðja aðila ekki lagðar að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til að leita greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Í úrskurði nefndarinnar komi fram að sá sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þurfi vissulega að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum, að hluta eða í heild, þótt ekki verði gengið svo langt að gera þá kröfu að ábyrgðaraðili gangi fortakslaust út frá því að hann muni á endanum þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hafi ábyrgst efndir á. Verði því að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Kærandi hafi gengist undir ábyrgðarskuldbindingar vegna atvinnurekstrar á árunum 2005 og 2007 í krónum:

 

Skuldari Vegna Tegund Upphafleg staða Staða nú
Y ehf. tékkareiknings sólidarísk sjálfsk.áb. 10.000.000 17.320.664
Z ehf. láns sólidarísk sjálfsk.áb. 8.700.000 9.968.075
Z ehf. láns Fasteignaveð 3.500.000 5.233.022
Samtals 22.200.000 32.521.761

 

Þann 3. nóvember 2005 hafi kærandi gengist í sólidaríska ábyrgð, ásamt D, vegna tékkareiknings Y ehf. við Íslandsbanka. Upphafleg fjárhæð ábyrgðar hafi verið 10.000.000 króna, gjaldfelld upphæð og í vanskilum frá 11. ágúst 2008 hafi numið 17.320.664 krónum.

Þann 28. mars 2007 hafi kærandi tekist á hendur ábyrgðir vegna tveggja lána Hafnarbúða ehf. við Landsbanka Íslands. Annars vegar hafi kærandi gengist í sólidaríska sjálfskuldarábyrgð, ásamt D, vegna lánasamnings sem hafi upphaflega verið að fjárhæð 8.700.000 krónur en standi í 9.968.075 krónum. Hins vegar hafi kærandi gefið út tryggingarbréf tryggt með veði í eignarhluta hans að B götu nr. 45 í sveitarf, upphaflega 3.500.000 krónur en standi í 5.233.022 krónum. Samanlögð staða persónulegra ábyrgða vegna atvinnurekstrar kæranda á árunum 2005 og 2007 standi í 32.521.761 krónu, að veðsetningu á íbúðarhúsnæði meðtalinni.

Við mat á því hvort beita skuli ákvæði lge. um heimild til að synja umsókn um greiðsluaðlögun á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. verði að líta til samspils tekna, eigna og skuldasöfnunar kæranda á því tímabili sem sé til skoðunar, í tilviki kæranda einkum áranna 2007 og 2008. Gögn málsins beri með sér að kærandi hafi haft stopular tekjur á þeim tíma þegar stofnað var til skuldbindinga á árunum 2007 og 2008.

Samkvæmt skattframtali ársins 2008 hafi fjárhagur kæranda verið eftirfarandi í lok árs 2007 í krónum:

 

Tekjuár* 2007
Framfærslutekjur alls á mán. 345.236
Eignir 92.536.101
B gata nr. 45 (fasteignamat) 41.530.000
Bifreið 2.600.000
Hlutabréf (nafnvirði í tólf félögum)** 48.406.101
Skuldir 137.848.824
Skuldir vegna íbúðarhúsnæðis 16.321.714
Aðrar skuldir og vaxtagjöld*** 123.159.281
Nettóeignastaða -45.312.723

*Samanlagðar eignir, skuldir og mánaðarlegar tekjur kæranda og maka eftir frádrátt skatts.

**Kærandi fjárfesti árið 2007 í hlutbréfum fyrir 26.071.172 krónur. Tap á hlutabréfaviðskiptunum nam 175.458 krónum á árinu 2007.
***Þar af voru eftirstöðvar skuldar vegna VBS vörslureiknings 75.404.944 krónur

 

Mánaðarleg greiðslugeta kæranda hafi verið áætluð 146.801 króna árið 2007 að teknu tilliti til framfærslukostnaðar samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara og öðrum uppgefnum kostnaði uppreiknuðum miðað við neysluvísitölu í júní 2007. Gert hafi verið ráð fyrir kostnaði vegna matar- og fatakaupa, tómstunda, læknisþjónustu og rekstri bifreiðar. Ekki hafi verið tekið tillit til annarra kostnaðarliða svo sem trygginga, fasteignagjalda, samskiptakostnaðar eða annarra útgjaldaliða.

Félagið Z ehf. hafi ekki skilað ársreikningi fyrir rekstrarárið 2007 og hafi ársreikningum ekki verið skilað frá árinu 2005. Ekki hafi því verið unnt að leggja mat á fjárhagsstöðu fyrirtækisins á þeim tíma þegar kærandi tókst á hendur ábyrgðir fyrir skuldbindingum félagsins. Kærandi hafi frá stofnun félagsins árið 2005 sjálfur verið stjórnarformaður og jafnframt einn af stofnendum þess.

Til þess verði að líta að þegar kærandi tókst á hendur ábyrgðir fyrir Z ehf. 28. mars 2008, hafi félagið þegar verið komið í vanskil vegna tékkareiknings Hafnarbúða ehf. við Íslandsbanka. Umræddur tékkareikningur hafi verið í vanskilum frá og með 12. febrúar 2007 og hafi yfirdrátturinn þá numið 3.774.927 krónum, staða yfirdráttar sé nú 8.156.417 krónur. Þyki þetta benda til þess að staða félagsins hafi verið ótrygg þegar kærandi stofnaði til ábyrgðarskuldbindinga vegna félagins í marsmánuði 2007.

Samkvæmt uppgefnum tekjum kæranda og maka hans hafi þær rétt nægt fyrir framfærslukostnaði og öðrum kostnaði á árunum 2007 og 2008, hvað þá fyrir nýjum skuldbindingum kæranda. Þyki því aðstæður, sem lýst sé í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge., vera til staðar í málinu. Til viðbótar því verði ekki séð að fjárhagur kæranda, þegar hann stofnaði til áðurnefndra ábyrgðarskuldbindinga, hafi verið slíkur að hann réttlætti svo umfangmiklar ábyrgðarskuldir vegna atvinnurekstrar. Þyki því þær aðstæður, sem lýst sé í c-lið 2. mgr. 6. gr., vera til staðar í málinu.

Samkvæmt hreyfingayfirliti tollstjóra 5. desember 2011 hafi áætluð vanskil opinberra gjalda á eigin kennitölu kæranda, sem stofnað hafi verið til á árunum 2009 til 2011, verið eftirfarandi í krónum:

 

Vegna Vanskil
Staðgreiðsla opinberra gjalda 1.290.839
Virðisaukaskattur 1.861.411
Samtals 3.152.250

 

Umboðsmaður skuldara hafi tilkynnt kæranda með bréfi 19. janúar 2012 að á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. væri embættinu heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Jafnframt hafi verið áréttað að í 40. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt komi m.a. fram að refsing geti legið við því að skila ekki virðisaukaskatti á lögmæltum tíma.

Í tilefni bréfs umboðsmanns skuldara hafi kærandi lagt fram greiðsluáætlun vegna vangreiddra opinberra gjalda við tollstjóra frá 22. febrúar 2013. Þar á meðal hafi verið skuld vegna virðisaukaskatts, samtals 1.900.236 krónur, en áætlunin hafi ekki tekið til áætlaðra vanskila vegna staðgreiðslu reiknaðra launa. Í greiðsluáætluninni segi „[u]ndirritaður viðurkennir skuldina og er samþykkur ofangreindum skilmálum. Jafnframt er undirrituðum ljóst að nýr fjögurra ára fyrningarfrestur hefst frá undirritun“. Þar sem fyrir liggi viðurkenning kæranda á umræddri skattaskuld verði að líta á skuldina sem áfallna skattaskuld sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Samkvæmt greiðsluáætluninni hafi kæranda borið að greiða 50.000 krónur mánaðarlega í alls fimm skipti á tímabilinu 5. mars 2012 til 15. júlí 2012. Þann 31. júlí hafi kærandi gert nýja greiðsluáætlun við tollstjóra um mánaðarlegar 50.000 króna greiðslur á tímabilinu 1. ágúst 2012 til 15. júní 2013. Með tölvupósti 19. september 2012 hafi tollstjóri staðfest að kærandi hefði innt af hendi umsamdar greiðslur samkvæmt greiðsluáætlun. Í málinu liggi því fyrir að greiðslur kæranda til tollstjóra hafi farið fram eftir að hann sótti um greiðsluaðlögun 28. júní 2011. Telja verði að með því að inna af hendi áðurnefndar greiðslur til tollstjóra á tímabili greiðsluaðlögunar hafi kærandi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 12. gr. lge. þar sem segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.

Með vísan til þess sem að framan greinir sé ljóst að fjárhagsstaða kæranda sé þröng. Eftirstöðvar af kröfu tollstjóra vegna vangoldins virðisaukaskatts, sem hann beri persónulega ábyrgð á, nemi samtals 1.630.122 krónum samkvæmt hreyfingayfirliti 20. september 2012. Hafi þá verið tekið tillit til greiðslna kæranda á tímabili greiðsluskjóls, í trássi við skyldur kæranda samkvæmt d-lið 12. gr. lge. Ótalin séu þá vanskil kæranda á opinberum gjöldum sem byggðust á áætlun. Verði ekki séð, eftir mat á fjárhagslegri stöðu kæranda, að umræddar skuldir teljist smávægilegar. Þær aðstæður sem lýst sé í d-lið 2. mgr. 6. gr., sbr. 12. gr. lge., þyki því vera til staðar í málinu.

Með hliðsjón af öllu framangreindu, launatekjum og eiginfjárstöðu kæranda á framangreindum tíma sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hann hafi verið greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verði að telja að kærandi hafi tekið talsverða áhættu þegar hann féllst á að taka á sig framangreindar ábyrgðarskuldbindingar vegna Hafnarbúða ehf. og Y ehf., enda fjárhæð þeirra töluvert há. Verði ekki séð að kærandi hefði getað staðið skil á ábyrgðarskuldbindingum þessum, ef á reyndi.

Að öllu ofangreindu virtu hafi þótt óhæfilegt að veita kæranda samþykki til greiðsluaðlögunar og var umsókn hans því synjað á grundvelli b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til b-, c- og d-liða.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtölum var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2006 til 2011 í krónum:

 


2006 2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 450.168    106.437    49.213    299.456    476.374    570.912   
Eignir alls 43.667.565    92.536.101    68.691.288    50.670.968    44.816.545    24.682.607   
· B gata nr. 45 37.550.000    41.530.000    41.530.000    43.550.000    38.500.000    21.325.000   
· Bifreið 200.000    2.600.000    2.340.000    2.106.000    1.895.400    0   
· Hlutabréf og önnur verðbréf 5.917.565    48.406.101    24.420.273    3.516.008    3.433.297    3.348.313   
· Bankainnstæður 0    0    401.015    1.498.960    987.848    9.294   
Skuldir alls 138.160.514    137.848.824    136.189.561    138.921.947    73.137.714    152.112.802   
Nettó eignastaða -94.492.949    -45.312.723    -67.498.273    -88.250.979    -28.321.169    -127.430.195   

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda, samkvæmt gögnum málsins, eru þessar í krónum:

Kröfuhafi Útgefið Tegund Upphafleg Fjárhæð Skuldari



fjárhæð

Íslandsbanki hf. 2005 Sjálfskuldarábyrgð 10.000.000 17.320.664 Y ehf.
Landsbanki hf. 2007 Sjálfskuldarábyrgð 8.700.000 9.968.075 Z ehf.
Landsbanki hf. 2007 Veð í fasteign 3.500.000 5.233.022 Z ehf.
 
Alls 22.200.000 32.521.761  

 

Samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti umboðsmanns skuldara frá 8. mars 2013 eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

 

Kröfuhafi Tegund Upphafleg Staða
    fjárhæð 2012
Lánasjóður íslenskra námsmanna Námslán   2.779.312   
Arion banki hf. Skuldabréf 3.425.634    4.139.495   
Íslandsbanki hf. Skuldabréf 2.091.089    4.737.551   
Íslandsbanki hf. Kreditkort   3.180.562   
Tollstjórinn í Reykjavík Opinber gjöld   5.827.761   
Vodafone Annað 13.158    104.326   
Vodafone Annað 288.253    425.568   
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda Annað 120.000    214.548   
Krýna Annað   132.691   
Landsbanki hf. Bílasamningur 4.446.503    5.350.442   
Landsbanki hf. Yfirdráttur   12.232.569   
Íslandsbanki hf. Veðkrafa 32.480.431    35.358.014   
Réttingaverkstæði Þórarins Annað 10.470    14.733   
Íslandsbanki hf. Skuldabréf 21.899.103    38.006.167   
 
Alls 112.503.739   

 

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin þau atriði sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c- liðir 2. mgr. 6. gr. lge., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Samkvæmt gögnum málsins var eignastaða kæranda í lok árs 2006 neikvæð um 94.492.949 krónur. Í lok árs 2007 var eignastaða kæranda neikvæð um 45.312.723 krónur. Á sama tíma og eignastaða kæranda var neikvæð stofnaði hann til nýrrar skuldbindingar árið 2007 með útgáfu skuldabréfs við SPRON (Arion banki hf.) upphaflega að fjárhæð 3.425.634 krónur. Staða lánsins, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, er 4.139.495 krónur. Sama ár gekkst kærandi einnig í ábyrgð fyrir lánum til Hafnarbúða ehf., annars vegar sjálfskuldarábyrgð vegna láns frá Landsbanka Íslands hf. upphaflega að fjárhæð 8.700.000 krónur, 9.968.075 þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara lá fyrir, og hins vegar ábyrgðist kærandi lán til Hafnarbúða ehf. með veði í eignarhluta fasteignar hans að B götu nr. 45 upphaflega að fjárhæð 3.500.000 krónur. Staða lánsins, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, er 5.233.022 krónur.

Að mati kærunefndarinnar gáfu hvorki tekjur kæranda þessum tíma né eignastaða honum tilefni til að ætla að hann gæti staðið undir framangreindum skuldbindingum. Í ofangreindu ljósi telur kærunefndin að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. kemur fram að séu þær aðstæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. fyrir hendi geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika er hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það mat kærunefndarinnar að fjárhagsstaða kæranda hafi verið með þeim hætti að með því að takast á hendur fyrrnefndar skuldbindingar á árinu 2007 hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma. Kærunefndin telur samkvæmt þessu að með því að gangast í framangreindar skuldbindingar hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist einnig á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem  kveðið er á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara voru áætluð vanskil kæranda vegna opinberra gjalda á eigin kennitölu staðgreiðsla reiknaðra launa 1.290.839 krónur og vegna virðisaukaskatts 1.861.411 krónur. Samtals námu vanskilin 3.152.250 krónum og var stofnað til þeirra á árunum 2009 til 2011. Fyrir liggur að kærandi gerði samkomulag við Embætti tollstjóra um greiðslu vangreiddra opinberra gjalda 22. febrúar 2012 og 31. júlí 2012. Kærandi stóð við fyrra samkomulagið en ekki hið síðara og var það ógilt í kjölfarið.

Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóraembættinu, sem kærunefndin aflaði við meðferð málsins, skuldar kærandi enn virðisaukaskatt frá árunum 2009 og 2010 samtals 2.195.187 krónur og þing- og sveitarsjóðsgjöld 833.471 krónur frá árinu 2010. Skuldin nemur því samtals 3.028.658 krónum ásamt vöxtum.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu.

Eins og sjá má af framangreindu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði við um kæranda.

Að því er varðar ofangreindar virðisaukaskattskuldir verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Samkvæmt gögnum málsins eru vörsluskattskuldir kæranda alls 2.195.187 krónur með vöxtum. Með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.  Í því sambandi bætir það ekki málstað kæranda þótt hann hafi greitt 400.000 krónur til Embættis tollstjóra vegna skattaskulda eftir að sótt var um heimild til greiðsluaðlögunar en það var honum óheimilt að gera. Með því ráðstafaði hann fjármunum, sem honum bar að leggja til hliðar á meðan hann var í greiðsluskjóli, og hefur hann með þessu skaðað hagsmuni lánardrottna í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.   

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats, að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu.

Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um 109.704.636 krónur að teknu tilliti til núverandi stöðu opinberra gjalda. Tekjur kæranda nema 846.814 krónum á mánuði að meðaltali. Skuld, sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi, nemur 2.195.187 krónum með vöxtum eða 2% af heildarskuldum kærenda. Þetta er skuld sem telja verður allháa en hún fellur ekki undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í ofangreindu dómsmáli var skuldin vegna persónulegrar starfsemi skuldarans.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að teljast verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt framangreindu telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að kæranda hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum