Hoppa yfir valmynd
17. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 110/2013

Fimmtudaginn 17. september 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 12. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 19. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. ágúst 2013. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 15. ágúst 2013 þar sem henni var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina.

Greinargerð kæranda barst 28. mars 2014. Var hún send umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 31. mars 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Með tölvupósti 3. apríl 2014 tilkynnti umboðsmaður að embættið myndi ekki aðhafast frekar í málinu.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1943 og er menntuð tónlistarkennari. Hún býr í eigin húsnæði að B götu nr. 14 í sveitarfélaginu C. Ráðstöfunartekjur kæranda eru samtals að meðaltali 255.624 krónur á mánuði eftir frádrátt skatts vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum og frá Vinnumálastofnun.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til ársins 2007 er hún keypti fasteignina að B götu nr. 14. Síðan þá hafi öll lán vegna fasteignakaupanna hækkað til muna ásamt því sem kærandi hafi misst atvinnuna, sem hafi svo valdið því að hún hafi ekki lengur ráðið við afborganir af lánum.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt gögnum málsins, eru 47.388.228 krónur en þar af falla 40.525.421 króna innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2007 vegna kaupa kæranda á íbúð að B götu nr. 14.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. júlí 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum. Við vinnslu málsins hjá umsjónarmanni kom á daginn að kærandi hefði ekki greiðslugetu til að halda fasteign sinni og bifreið. Lagði umsjónarmaður fyrst til að bifreiðin yrði seld vegna þessa. Kærandi lagðist gegn því og lagði fram læknisvottorð er staðfesti að henni væri nauðsynlegt að hafa bifreið til umráða af heilsufarsástæðum. Lagði umsjónarmaður í kjölfarið til að fasteign kæranda yrði seld í stað bifreiðarinnar, en kærandi féllst ekki á það. Með bréfi 13. júní 2012 lagði umsjónarmaður til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. sömu laga. Hinn 20. júní 2012 lagði kærandi fram ódagsetta yfirlýsingu atvinnurekanda um að hún hefði verið ráðin til vinnu við tilfallandi verkefni, með 86.000 krónur í heildarlaun á mánuði. Með bréfi umboðsmanns skuldara 11. september 2012 var kæranda gefinn annar kostur á andmælum við fyrirhugaðri niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana, en engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. júní 2013 voru greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda felldar niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. sömu laga.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Í kæru segir kærandi ljóst að málið snúist einvörðungu um bifreið hennar. Kveðst kærandi bíða svara varðandi störf sem hún hafi sótt um og þurfi hún því einungis lengri frest. Telur kærandi sig engu að síður geta rekið bifreiðina að öllu óbreyttu þar sem hún hafi aðgang að styrkjum Öryrkjabandalagsins. Þá hvíli á bifreiðinni lán sem kærandi telji að verði endurútreiknuð og vísar þar í lög um neytendalán frá 1994.

Í framhaldsgreinargerð til kærunefndarinnar kveðst kærandi vona að sættir takist  varðandi bifreiðina og að hún fái að semja um afborganir af íbúð sinni. Henni hafi ekki enn tekist að fá atvinnu þrátt fyrir mikla leit en hún hafi fengið nokkur verkefni og haft af því einhverjar tekjur. Þá sé kærandi að kanna möguleika á aðstoð frá Tryggingastofnun með aðstoð heimilislæknis síns.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. laganna að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns, samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins, er síðar varð að lge., segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar skuldara samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfi, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun ljúki. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar, þyki honum ástæða til.

Í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. segi að haldi skuldari eftir eignum, sem veðkröfur á hendur honum hvíli á, skuli hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem séu innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Þessar greiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem umsjónarmaður ætli að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varði, nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Umsjónarmanni sé þá heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslur, en þó aldrei lægri en 60% af hæfilegri leigu.

Að mati embættisins sé ekki um óhóflega fasteign að ræða í tilviki kæranda. Hins vegar sé ljóst að tekjur kæranda nægi ekki til að standa undir mánaðarlegum greiðslum fasteignaveðlána sem á fasteigninni hvíli. Meðaltekjur kæranda þá 29 mánuði sem hún hafi notið frestunar greiðslna hafi verið 217.072 krónur á mánuði. Framfærslukostnaður hennar, samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara, hafi á sama tímabili verið að jafnaði 183.083 krónur á mánuði miðað við framfærslu einstaklings. Greiðslugeta kæranda sé því 33.989 krónur á mánuði samkvæmt greiðsluáætlun.

Fasteignamat eignar kæranda að B götu nr. 14 í sveitarfélaginu C sé 21.650.000 krónur. Á eigninni hvíli veðkröfur frá Íbúðalánasjóði að fjárhæð um 18.800.000 krónur og sé mánaðarleg greiðslubyrði þeirra lána 89.423 krónur. Þá hvíli á eigninni lán frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að fjárhæð 4.601.247 krónur og sé mánaðarleg greiðslubyrði þess láns 21.750 krónur. Liggi því ljóst fyrir að kærandi geti ekki staðið undir mánaðarlegum greiðslum fasteignaveðlána sem á fasteign hennar hvíli og ætla megi að séu innan matsverðs eignarinnar.

Kærandi hafi ekki sýnt fram á þær breytingar á tekjum sínum sem hún hafi átt von á. Þá sé ekki hægt að taka tillit til óska kæranda um að halda eftir fasteigninni nema hún hafi nægilega greiðslugetu til þess að standa undir mánaðarlegum greiðslum veðkrafna, sbr. 1. mgr. 13. gr. lge. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verði að slá því föstu að kærandi hafi ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge., sbr. 5. mgr. sömu greinar.

Að þessu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins var heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana felld niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. sömu laga.

Vegna andmæla kæranda, er lúta fyrst og fremst að sölu bifreiðar hennar, ítrekar umboðsmaður skuldara í greinargerð til kærunefndarinnar að fallist hefði verið á að kærandi fengi að halda bifreið sinni eftir að hún framvísaði læknisvottorði er staðfesti að hún þyrfti á bifreiðinni að halda af heilsufarsástæðum. Umsjónarmaður hafi þá hins vegar lagt til að fasteign kæranda yrði seld þar sem hún hefði ekki greiðslugetu til að halda hvoru tveggja. Á þetta hafi kærandi ekki fallist en hefði í staðinn leitað leiða til þess að auka greiðslugetu sína, m.a. með því að óska eftir fresti þar eð hún ætti von á svörum vegna hugsanlegrar atvinnu. Tekjur kæranda hafi hins vegar ekki aukist og sé greiðslugeta því ekki næg til þess að kærandi haldi eftir eignum sínum.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að ef komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Eins og fram hefur komið tilkynnti umsjónarmaður umboðsmanni skuldara með bréfi 13. júní 2012 að þar sem kærandi hefði ekki samþykkt sölu fasteignar sinnar, þrátt fyrir að hafa ekki greiðslugetu til að halda eigninni, teldi umsjónarmaðurinn rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður, sbr. 15. gr. lge. Með bréfi 11. september 2012 var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. 13. gr. lge. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. laganna.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það teljist ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án.

Þegar skuldari heldur eftir eignum, sem veðkröfur á hendur honum hvíla á, skal hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum eins og mælt er fyrir um í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Fastar mánaðargreiðslur mega samkvæmt lagaákvæðinu ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar, nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu. Þessar kröfur falla ekki niður þegar greiðsluaðlögun lýkur.

Í athugasemdum við 13. gr. í frumvarpi til lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunar­tímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt er. Í málinu liggur fyrir greiðsluáætlun, sem byggð er á framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara, og hefur henni ekki verið mótmælt af hálfu kæranda. Samkvæmt áætluninni er greiðslugeta kæranda 33.989 krónur á mánuði þegar framfærslukostnaður hefur verið greiddur miðað við að hún haldi bifreið sinni. Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum eins og því sem hér um ræðir að selja þá eign sem veðsett er, enda ljóst að kærandi getur ekki staðið undir greiðslum af veðkröfum samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge., jafnvel þó miðað yrði við að sérstakar og tímabundnar ástæður væru fyrir hendi.

Sem fyrr segir hefur kærandi lýst yfir þeirri afstöðu sinni að hún vilji ekki að fasteign hennar verð seld og hefur hún þess í stað leitast við að auka greiðslugetu sína án þess að það hafi tekist. Hefur kærandi því ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge., sbr. 5. mgr. sömu greinar. Bar umboðsmanni því samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunar­umleitanir kæranda niður.  

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.  


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum