Hoppa yfir valmynd
3. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 127/2013

Fimmtudaginn 3. september 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. ágúst 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem tilkynnt var með bréfi 9. ágúst 2013, þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 27. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 30. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 6. september 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust ekki.


I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1968 og 1966. Þau búa ásamt tveimur börnum sínum í 277,2 fermetra einbýlishúsi að C götu nr. 17 í sveitarfélaginu D. Einbýlishúsið er í eigu kæranda A. Ráðstöfunartekjur kærenda nema 420.192 krónum á mánuði að meðtöldum barnabótum.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis og tekjulækkunar.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda alls 89.467.235 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Meiri hluti skuldanna tengist fjármögnun á fasteign kæranda A.

Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara 11. janúar 2012. Umsókninni var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 9. ágúst 2013 með vísan til e- og f- liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að umboðsmaður skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála komi að málum þeirra gagnvart Landsbankanum til að leita lausnar. Verður að skilja þetta svo að kærendur fari fram á að kærunefndin felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi.

Kærendur vísa til þess að öll lán þeirra nema tvö lán hjá Landsbanka séu í skilum en kærendur kveði vanda sinn fyrst og fremst vera vegna þessara lána. Þetta séu upphaflega erlend lán sem séu í frystingu en beðið sé eftir leiðréttingu þeirra. Fjárhæð lánanna sé um 77.200.000 krónur og mánaðarleg afborgun um 750.000 krónur. Samkvæmt dómum sem gengið hafi um erlend lán eigi fjárhæð lánanna að vera um 50.000.000 króna.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lge. segi að ástæðurnar sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Með tölvupósti 19. júní 2012 hafi starfsmaður umboðsmanns skuldara óskað eftir upplýsingum um tilteknar fjárhagslegar ráðstafanir sem fram komi í skattframtölum kærenda. Meðal annars hafi verið óskað eftir skýringum á því hvers vegna innstæður á bankareikningum kærenda hefðu minnkað verulega á árinu 2011. Með tölvupóstum 11. og 25. júlí 2012 hafi kærendur gefið þær skýringar að þau hafi veitt X ehf. lán að fjárhæð 20.000.000 króna. Kærendur hafi framvísað gögnum varðandi lánveitinguna, meðal annars skjali með fyrirsögninni „Lánasamningur“. Skjalið sé dagsett 20. apríl 2011 og samkvæmt því viðurkenni X ehf. að skulda kæranda A 20.000.000 króna. Fjárhæðina, ásamt vöxtum, skuli endurgreiða með einni greiðslu 20. apríl 2016. Skjalið hafi kærandi A undirritað fyrir hönd X ehf. sem lántaka og fyrir sína eigin hönd sem lánveitanda. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá 25. júlí 2012 sé kærandi A stjórnarmaður í félaginu, í framkvæmdastjórn þess og með prókúruumboð. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2011 séu kærendur eigendur alls hlutafjár í félaginu. Krafa kærenda á hendur félaginu samkvæmt nefndu skjali sé ekki talin meðal eigna kærenda á skattframtölum áranna 2012 og 2013.

Við skoðun á gögnum með láni kærenda hjá Landsbankanum sé ljóst að ekki hafi verið greiddar afborganir af þeim frá 3. nóvember 2008. Þá og fram til ársins 2011 hafi verið gerðar ýmsar skilmálabreytingar þannig að lánin hafi þrátt fyrir þetta verið í skilum. Vanskil hafi orðið á greiðslu lánanna á árinu 2011. Þannig hafi kærendur verið í vanskilum með skuldbindingar sínar þegar þau hafi lánað X ehf. verulega fjárhæð sem ekki hafi átt að endurgreiða fyrr en að nokkrum árum liðnum.

Samkvæmt ársreikningi X ehf. hafi skuldir félagsins við eigendur þess aukist úr 4.274.714 krónum í árslok 2010 í 18.139.845 krónur í árslok 2011 eða um 13.865.131 krónu. Þannig hafi hækkun skulda félagsins við kærendur samkvæmt ársreikningum verið 6.134.869 krónum minni en fjárhæð lánsins samkvæmt lánasamningnum. Óupplýst sé hvernig þeirri fjárhæð hafi verið ráðstafað. Ekki verði annað ályktað en að afhending fjármuna til X ehf. hafi verið ráðstöfun sem rýrt hafi lausafjárstöðu kærenda verulega. Miðað við fyrirliggjandi gögn verði að telja að með ráðstöfun innstæðu á bankareikningi hafi kærendur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim framast hafi verið unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með fyrrnefndum tölvupósti starfsmanns umboðsmanns skuldara 19. júní 2012 hafi enn fremur verið óskað skýringa á ráðstöfun bifreiðarinnar Y. Fyrir liggi að bifreiðin hafi verið seld á 7.000.000 króna 20. mars 2011 og að lánssamningur við SP fjármögnun að fjárhæð 2.525.425 krónur hafi verið greiddur upp í tengslum við söluna. Í svari kærenda 11. júní 2012 hafi komið fram að mismunurinn um 4.500.000 króna hafi verið nýttur til framfærslu. Sé miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara og útgjöld vegna veitukostnaðar, fasteignagjalda, trygginga og fleira nemi hóflegur framfærslu­kostnaður hjóna með tvö börn 316.002 krónum á mánuði. Þannig myndu 4.500.000 krónur duga til framfærslu í rúmlega 14 mánuði. Tekjur kærenda hefðu á þessum tíma átt að nægja fyrir hóflegum framfærslukostnaði. Kærendur hafi ekki greitt af lánum á þessum tíma og því verði ekki annað ályktað, miðað við fyrirliggjandi gögn, en að með ráðstöfun þessara fjármuna hafi kærendur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeir hafi framast verið unnt. Falli þessi háttsemi kærenda því að mati umboðsmanns skuldara undir f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Við skoðun á því hvort ráðstöfun fjár af bankareikningum kærenda myndi teljast riftanleg við gjaldþrotaskipti samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. verði að líta til riftunarreglna laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.). Í 141. gr. laganna segi: „Krefjast má riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.“

Miðað við fyrirliggjandi gögn verði ekki annað séð en að ráðstöfunin hafi leitt til þess að eignir kærenda, þ.e. verulegar innstæður á bankareikningum, urðu ekki til fullnustu fyrir kröfuhafa. Sá sem hag hafi haft af ráðstöfuninni, X ehf., sé í eigu kærenda, og hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þeirra og aðstæður sem hafi leitt til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

Með bréfi til kærenda 28. júní 2013 hafi ofangreindum málsatvikum verið lýst og kærendur upplýst um að miðað við það sem þar kæmi fram þætti óhæfilegt að veita þeim greiðsluaðlögun. Með bréfinu hafi kærendur verið ítarlega upplýst um hvaða þættir kæmu til skoðunar auk þess sem ráðgjafi hjá embættinu hafi leiðbeint þeim um efni bréfsins. Í ljósi þessa verði að telja að kærendur hafi notið andmælaréttar lögum samkvæmt en kærendur hafi komið andmælum sínum á framfæri með tölvupósti 8. ágúst 2013. Þar hafi kærendur ekki fjallað um þau málsatvik, sem lýst sé í fyrrnefndu bréfi frá 28. júní, heldur farið yfir skuldastöðu sínar og gert athugasemdir við uppgjör erlendra lána. Meðal annars í ljósi fjárhæða fyrrgreindra ráðstafana kærenda, sem hafi verið til skoðunar í málinu, verði ekki séð að athugasemdir kærenda breyti mati umboðsmanns skuldara um að óhæfilegt þyki að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Að lokum vísi umboðsmaður til þess að heimild til samningaumleitana um greiðsluaðlögun sé háð því að skuldarar uppfylli skilyrði til greiðsluaðlögunar. Þar sem kærendur uppfylli ekki skilyrði laganna komi ekki til slíkra samningaumleitana í tilviki þeirra.

Það er mat umboðsmanns skuldara að vegna ofangreindra ráðstafana séu uppi í málinu atvik sem lýst sé í e- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Það sé heildstætt mat embættisins að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar og hafi umsókn þeirra af þeim sökum verið synjað.

Með vísan til forsendna sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun fer umboðsmaður fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á e- og f- liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Af fyrirliggjandi skattframtölum má sjá að fjárhagsstaða kærenda var eftirfarandi árin 2009 til 2012 í krónum:

 

  2009 2010 2011 2012
Meðaltekjur* pr. mán. (nettó) 582.331 522.800 454.088 454.422
Eignir alls 96.561.193 87.623.888 66.339.418 69.376.975
· C gata nr. 17 55.500.000 47.500.000 55.500.000 59.350.000
· Bifreiðin Y 3.300.000 2.997.000 0 0
· Bifreiðin Z 7.128.000 6.415.200 5.773.680 5.196.312
· Aðrar bifreiðar 692.555 0 0 0
· Önnur ökutæki 500.000 500.000 500.000 500.000
· Hlutir í X ehf. 500.000 500.000 500.000 500.000
· Hlutir í öðrum einkahlutafélögum 1.397.700 1.397.700 1.397.700 1.397.700
· Bankainnstæður 27.542.938 28.313.988 2.668.038 2.432.963
Skuldir 118.753.654 114.722.603 88.937.556 102.302.025
Nettó eignastaða -22.192.461 -27.098.715 -22.598.138 -32.925.050

*Tekjur kærenda, þ.m.t. fjármagnstekjur.

 

Í neðangreindri töflu má sjá skuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins í krónum:

 

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2013 Frá
Landsbankinn 2005 Erlent lán 30.000.000 54.825.860 2011
Landsbankinn 2007 Bílasamningur 6.600.025 3.610.911 Í skilum
Landsbankinn 2008 Erlent lán 20.713.431 26.299.387 2011
Alm. lífeyrissjóðurinn* 2008 Veðskuldabréf 4.000.000 4.707.427 Í skilum
Íslandsbanki   Greiðslukort   23.650 Í skilum
    Alls 61.313.456 89.467.235  

*Fjárhæð frá 2012.

 

Ákvörðun umboðsmanns skuldara er í fyrsta lagi byggð á því að með því að lána X ehf. 20.000.000 króna 20. apríl 2011 hafi kærendur gert ráðstöfun sem riftanleg væri við gjaldþrotaskipti samkvæmt 141. gr. gþl. og þar með brotið gegn e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Með sömu ráðstöfun hafi þau á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim framast var unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í öðru lagi byggist hin kærða ákvörðun á því að með því að ráðstafa nettóandvirði bifreiðarinnar Y, um 4.500.000 krónum, í eigin þágu hafi þau einnnig á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim framast var unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en á þessum tíma hafi tekjur þeirra átt að duga fyrir hóflegum kostnaði við framfærslu.

Ákvæði 141. gr. gþl. er svohljóðandi: „Krefjast má riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.”

Regla 141. gr. gþl. er nefnd almenna riftunarreglan enda er beiting hennar hvorki bundin við tilteknar ráðstafanir né fresti miðað við frestdag. Miðað við skilyrði reglunnar þurfa ráðstafanir þrotamanns ekki að vera kröfuhöfum til hagsbóta en þar gæti verið um að ræða gjafir eða örlætisgerninga sem beint væri til annarra en kröfuhafa. Í því sambandi er vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 427/2009.

Lánasamningur á milli kæranda A sem lánveitanda og X ehf. sem lántaka var undirritaður 20. apríl 2011. Umsókn kærenda um heimild til greiðsluaðlögunar barst umboðsmanni skuldara 11. janúar 2012 eða rúmum átta mánuðum síðar. Eignastaða kærenda hefur verið neikvæð að minnsta kosti frá árinu 2009 þrátt fyrir umtalsverðar bankainnstæður til ársins 2011 og fyrir liggur að stærstur hluti lána þeirra hefur verið í vanskilum frá 2011.

Erlendum lánum kærenda var skilmálabreytt alls fimm sinnum, hvoru láni frá útgáfu til mars 2011. Erlendu láni frá árinu 2005 var fyrst skilmálabreytt í október 2008, síðan í janúar 2009, í mars 2009 og í ágúst 2009. Í þessum tilvikum var greiðslum lánsins, ýmist vaxtagreiðslum, afborgunum eða hvoru tveggja, frestað um nokkra mánuði í hvert skipti. Síðasta skilmálabreytingin var gerð í mars 2011 og þá var lánið endurreiknað í íslenskar krónur. Lánið er í vanskilum frá 1. júlí 2011.

Erlendu láni, sem veitt var árið 2008, var fyrst skilmálabreytt í október 2008, svo í janúar 2009, í mars 2009 og í ágúst 2009. Í þessum tilvikum var greiðslum lánsins, ýmist vaxtagreiðslum, afborgunum eða hvoru tveggja, frestað um nokkra mánuði í hvert skipti. Síðasta skilmálabreytingin var gerð í mars 2011 og þá var lánið endurreiknað í íslenskar krónur. Lánið er í vanskilum frá 1. apríl 2011.

Þykja kærunefndinni skilmálabreytingar þessar eindregið benda til þess að kærendur hafi ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að greiða af þessum lánum frá seinni hluta ársins 2008.

Á því tímabili sem hér er til skoðunar áttu kærendur allt hlutafé í X ehf. Að mati kærunefndarinnar er það engum vafa undirorpið að 20.000.000 króna lán kæranda A til X ehf. varð til þess að féð var ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum við samninga til greiðsluaðlögunar. Kærunefndin telur þessu skilyrði 141. gr. gþl. því fullnægt.

Það er ávallt skilyrði fyrir beitingu reglunnar í 141. gr. gþl. að þrotamaður sé ógjaldfær, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 320/2012, 151/2011 og 537/2012. Vangeta skuldara til að standa við skuldbindingar sínar getur verið vegna þess að skuldir hans eru meiri en eignir en líka vegna ógreiðslufærni. Síðarnefnda hugtakið veit að framtíðinni, þ.e. hvort skuldari muni geta staðið í skilum þegar kröfur á hendur honum falla í gjalddaga og hvort telja megi að greiðsluerfiðleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.

Til þess verður að líta að tilgangur lge. er meðal annars sá að skuldari, sem er eða verður um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, fái heimild til að leita greiðsluaðlögunar með samningi við kröfuhafa að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Takist slíkir samningar ekki hefur skuldari möguleika á því að óska eftir nauðasamningi við kröfuhafa á grundvelli lge. Þannig er grundvöllur lge. byggður á ógjaldfærni skuldarans og samningsumleitunum hans til að aðlaga skuldir að greiðslugetu, eftir atvikum með því að fá skuldir að öllu leyti eða að hluta til felldar niður. Þegar litið er á ítrekaðar skilmálabreytingar á lánum kærenda og neikvæða eignastöðu þeirra í ofangreindu ljósi telur kærunefndin að kærendur hafi verið ógjaldfær á þeim tíma er þau lánuðu X ehf. umræddar 20.000.000 króna. Er því að mati kærunefndarinnar uppfyllt skilyrði 141. gr. gþl. um ógjaldfærni og fallist á mat umboðsmanns skuldara um að háttsemi kærenda hafi verið í andstöðu við e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Þá byggir umboðsmaður skuldara á því að kærendur hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim framast var unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í fyrsta lagi hafi kærendur sýnt þessa háttsemi með því að lána X ehf. 20.000.000 króna í apríl 2011 eins og að framan er rakið. Í öðru lagi hafi þau selt bifreiðina Y í mars 2011 og nýtt nettóeign sína í bifreiðinni að fjárhæð um 4.500.000 króna í eigin þágu á þeim tíma er laun þeirra nægðu til framfærslu.

Samkvæmt framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara var framfærslukostnaður kærenda 316.002 krónur sé miðað við júní 2013. Á árinu 2011 voru nettótekjur kærenda alls 454.088 krónur á mánuði að meðaltali. Í málinu liggur ekki fyrir hvert var framfærsluviðmið kærenda á þeim tíma er þau seldu bifreiðina en gera verður ráð fyrir að það hafi verið lægra en 316.002 krónur. Liggur samkvæmt þessu fyrir að kærendur höfðu nægilegt fé til framfærslu á þeim tíma er þau seldu bílinn og því svigrúm til að greiða af skuldbindingum sínum að einhverju marki. Engu að síður létu þau hjá líða að greiða af eða inn á erlend lán sín en þau eru eins og fram hefur komið í vanskilum frá apríl og júlí 2011.

Með vísan til ofangreinds telur kærunefndin að háttsemi kærenda hafi verið í andstöðu við f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Er þá annars vegar vísað til þess sem segir um lán kæranda A til X ehf. og hins vegar til ráðstöfunar þeirra á 4.500.000 krónum sem þau fengu fyrir bifreiðina Y.

Í ljósi alls þessa, sem hér greinir, telur kærunefnd að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli e- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum