Hoppa yfir valmynd
3. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 55/2013

Fimmtudaginn 3. september 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 4. apríl 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 21. mars 2013 þar sem  greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 8. apríl 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. apríl 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. apríl 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 2. maí 2013.Voru þær sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 7. maí 2013 og óskað afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er sálfræðingur en er atvinnulaus og fær greiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 141.967 krónur á mánuði. Að auki fær hún vaxtabætur, sérstaka vaxtaniðurgreiðslu og leigutekjur.

Heildarskuldir kæranda og sambýlismanns hennar, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 40.690.720 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 til 2008.

Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína og sambýlismanns síns til íbúðarkaupa, atvinnuleysis og tekjulækkunar.

Kærandi og sambýlismaður hennar lögðu fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 27. janúar 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. september 2011 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge. Þann 11. júní 2012 féll sambýlismaður kæranda frá umsókn sinni um greiðsluaðlögun sem umboðsmaður skuldara staðfesti sama dag.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. janúar 2013 var tilkynnt að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil þar sem kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) um að leggja til hliðar fé á tímabili frestunar greiðslna, svokölluðu greiðsluskjóli.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að samkvæmt upplýsingum frá kæranda hefði hún  ekki lagt neitt fyrir. Kærandi hafði notið greiðsluskjólsins í 22 mánuði og með hliðsjón af tekjum hennar og framfærslukostnaði hefði henni átt að vera mögulegt að leggja fyrir sem næmi 3.692.840 krónum á þeim tíma sem frestun greiðslna stóð.

Undir rekstri málsins hafi kærandi upplýst að hún hafi ekki verið í sambúð stærstan hluta greiðsluaðlögunartímabilsins og hefði ein staðið undir rekstri heimilisins. Í framfærsluviðmiði hafi verið gert ráð fyrir helmingshlutdeild kæranda í framfærslukostnaði á móti sambýlismanni hennar. Taldi umsjónarmaður að þessi frásögn kæranda væri í andstöðu við gögn málsins. Umsjónarmaður taldi kæranda margsaga um atvik málsins og að þetta gæti leitt til þess að málið yrði fellt niður samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Hafi umsjónarmaður óskað eftir frekari gögnum frá kæranda um að hún hefði búið ein á þessum tíma. Kærandi hafi lagt fram óundirritaða vottun eiganda fasteignar sem kærandi kvaðst hafa leigt stóran hluta tímabils greiðsluskjóls. Mat umsjónarmaður það svo að þetta sýndi ekki fram á að þær staðreyndir sem komið hefðu fram í málinu væru rangar.

Engu að síður tók umsjónarmaður saman hvaða áhrif það hefði haft á framfærslukostnað kæranda byggi hún ein. Hefði það hækkað framfærslukostnaðinn um 94.446 krónur á mánuði þá 19 mánuði sem kærandi kvaðst hafa búið ein af þeim 22 mánuðum sem hún hafi verið í greiðsluskjóli. Niðurstaðan hafi verið sú að framfærslukostnaður kæranda hefði verið 1.794.474 krónum hærri, sem leiddi til þess að kærandi hefði átt að leggja fyrir 1.898.366 krónur í stað 3.692.840 krónur.

Þar að auki hefði kærandi ekki tilgreint nema hluta af þeim leigutekjum sem hún hafi sagst fá á skattframtölum sínum. Þannig hafi skráðar leigutekjur á skattframtali 2011 vegna ársins 2010 verið um 180.000 krónur, en kærandi hafi sagt að eignin hefði verið í útleigu allt árið. Engar leigutekjur hafi verið gefnar upp á skattframtali 2012.

Í ljósi framangreinds hafi umsjónarmaður talið að ekki væri hjá því komist að fara þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þar að auki taldi umsjónarmaður að kærandi væri margsaga um atvik málsins og taldi að það gæti leitt til niðurfellingar þess samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 28. febrúar 2013 var kærandi upplýst um afstöðu umsjónarmanns. Var henni gefinn kostur á að gæta andmælaréttar síns, láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana. Umboðsmanni skuldara bárust athugasemdir kæranda með bréfi 5. mars 2013. Þar greindi kærandi frá því að hún væri ósátt við þann tíma sem málið hefði tekið hjá umboðsmanni skuldara. Hún sagði rangt að hún hefði verið skráð í sambúð á umræddu tímabili. Hún kvaðst  hafa lagt fram fullnægjandi gögn um að hún hefði búið ein á tímabilinu. Kærandi lagði ekki fram frekari gögn máli sínu til stuðnings.

Með bréfi til kæranda 21. mars 2011 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- lið 1. mgr. 12. gr. og d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfu í málinu en skilja verður kæru hennar þannig að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveður umboðsmann skuldara ekki hafa upplýst hana um skyldur hennar meðan á greiðsluskjóli stæði. Þá hefði kærandi ekki verið í sambúð á tímabilinu gagnstætt því sem umboðsmaður skuldara héldi fram.

Kærandi fer fram á að fá lækkun skulda sinna sem hún telur að hafi hækkað um nálægt 5.000.000 króna vegna seinagangs umboðsmanns skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Í 12. gr. lge. séu tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun á meðan frestun greiðslna standi yfir. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð.

Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, verði að leggja þær skyldur á kæranda að hún upplýsi um allt það sem mikilsvert sé í málinu og gæti haft áhrif á fjárhagstöðu hennar.

Að því er varðar d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. bendir umboðsmaður á að samkvæmt skattframtölum hafi bæði kærandi og núverandi sambýlismaður hennar verið skráð til heimilis að B götu nr. 25 í febrúar árið 2010. Í febrúar 2011 hafi þau bæði verið skráð til heimilis að D götu nr. 15 en í febrúar 2012 hafi þau verið skráð með búsetu á sitt hvorum staðnum, annað þeirra að D götu nr. 15, sveitarfélaginu G og hitt að F götu nr. 4, sveitarfélaginu G. Á fundi með umsjónarmanni 4. janúar 2013 kváðust umsækjandi og sambýlismaður hennar búa saman að F götu nr. 4 í sveitarfélaginu G. Í samtölum kæranda við umsjónarmann hafi hún greint frá því að þau hafi haldið tvö heimili þar til þau fluttu saman í íbúð hennar að F götu nr. 4 í sveitarfélaginu G í september 2012. Kærandi hefði sagst hafa búið í leiguíbúð að D götu nr. 15 í sveitarfélaginu G en skráður sambýlismaður hennar hafi á þeim tíma starfað sem húsvörður að B götu nr. 25 í sveitarfélaginu C og búið þar í húsvarðaríbúð. Samkvæmt gögnum málsins hafi hann þó einungis þegið laun frá húsfélaginu í B götu nr. til ársloka 2010.

Framangreindar upplýsingar um búsetu hafi fyrst komið fram á fundi með umsjónarmanni 4. janúar 2013 eftir að komið hafði í ljós að kærandi hafði ekki lagt fé til hliðar í greiðsluskjólinu.

Í sérstökum athugasemdum við d-lið 1. mgr. 6. gr. í frumvarpi því er síðar varð að lge., segi meðal annars að hafna skuli umsókn ef ætla megi að tilgangur þess að leggja fram rangar upplýsingar sé sá að umsækjandi virðist uppfylla skilyrði greiðsluaðlögunar. Telur umboðsmaður skuldara að þessi sjónarmið eigi við þegar umsækjandi breyti upplýsingum sem nauðsynlegar séu til að leggja mat á mikilvæg atriði svo sem við hvað skuli miða þegar framfærsla sé reiknuð. Þessar sömu upplýsingar hafi jafnframt áhrif á mat á skyldum umsækjanda samkvæmt 12. gr. lge.

Þá telur umboðsmaður skuldara að leggja verði þær skyldur á kæranda að hún sýni samstarfsvilja og upplýsi um þær aðstæður sem skipti máli við samningu frumvarps til greiðsluaðlögunar. Álítur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi af ráðnum hug veitt rangar eða villandi upplýsingar um sambúð sína en það séu mikilsverðar upplýsingar í málinu.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. beri skuldara í greiðsluskjóli að legga fyrir fé. Þegar metnar séu skyldur skuldara til þess að leggja fé til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. sé tekið mið af framfærslukostnaði eftir fjölskyldugerð og stærð. Kærandi hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 27. janúar 2011 og hafi frestun greiðsla, svokallað greiðsluskjól, tekið gildi frá þeim degi. Öllum umsækjendum, sem sótt hafi um greiðsluaðlögun, hafi verið kynntar skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. við umsókn. Þá hafi þeim sem nutu greiðsluskjóls hjá umboðsmanni skuldara verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem enn hafi verið brýndar fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi öllum umsækjendum verið sent bréf 27. nóvember 2012, þar sem skyldur skuldara hafi verið ítrekaðar. Þar að auki hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 1. september 2011 sem henni hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Loks hafi umræddar upplýsingar einnig verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara.  Hafi kæranda því vel mátt vera ljóst að hún skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hún hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Kærandi hafi sótt um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. ásamt þáverandi sambýlismanni sínum í lok janúar 2011. Á fundum með umsjónarmanni hafi þau upplýst um að þau hafi skráð sig í sambúð til þess að geta sótt sameiginlega um greiðsluaðlögun svo að tryggja mætti næga greiðslugetu til þess að greiða af fasteign. Sambýlismaðurinn hafi afturkallað umsókn sína 11. júní 2012. Umsjónarmaður telur að þau hafi haldið heimili saman allan þann tíma sem greiðsluskjól hafi staðið yfir.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 24 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. febrúar 2011 til 31. janúar 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. febrúar 2011 til 31. janúar 2013 að frádregnum skatti 5.242.285
Bætur 2011 441.453
Álögð gjöld 2012 -1.979
Leigutekjur 2.250.000
Samtals 7.931.759
Mánaðarlegar meðaltekjur 330.490
Framfærslukostnaður á mánuði 209.093
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 121.397
Samtals greiðslugeta í 24 mánuði 2.913.527

 

Samkvæmt þessu hafi kærandi haft 330.490 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 24 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefði greiðslugeta kæranda verið eftirfarandi hefði hún haldið ein heimili:

 

Launatekjur 1. febrúar 2011 til 31. janúar 2013 að frádregnum skatti 5.242.285
Bætur 2011 441.453
Álögð gjöld 2012 -1.979
Leigutekjur 2.250.000
Samtals 7.931.759
Mánaðarlegar meðaltekjur 330.490
Framfærslukostnaður á mánuði að meðaltali 283.093
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 47.397
Samtals greiðslugeta í 24 mánuði 1.137.528

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. beri umsjónarmanni að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggðust á hlutlægum viðmiðum um almennan framfærslukostnað með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé umsækjanda jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem skuldari geti fært sönnur á með haldbærum gögnum.

Miðað við fyrirliggjandi gögn og framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 209.093 krónur á meðan hún hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 2.913.527 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 121.397 krónur á mánuði í 24 mánuði. Sé miðað við að kærandi hafi ein haldið heimili verði að ganga út frá því að hún hafi haft getu til þess að leggja fyrir um 1.137.528 krónur á fyrrnefndu tímabili þegar miðað sé við meðal greiðslugetu að fjárhæð 47.397 krónur á mánuði í 24 mánuði.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi fer fram á að fá lækkun skulda sinna sem hún telur að hafi hækkað um nálægt 5.000.000 króna vegna seinagangs umboðsmanns skuldara. Ef umboðsmaður skuldara fellir niður greiðsluaðlögunarumleitanir getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. lge má með greiðsluaðlögun kveða á um lækkun eða jafnvel eftirgjöf krafna. Samkvæmt lge. er það hlutverk umsjónarmanns með greiðsluaðlöguninni að semja frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í samráði við skuldara samkvæmt IV. kafla lge. eða nauðasamning til greiðsluaðlögunar samkvæmt V. kafla laganna. Þar af leiðandi er það hlutverk umsjónarmanns að leita samninga við kröfuhafa um lækkun krafna. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki lækkun á skuldum kæranda. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin staðfesti eða felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 1. mgr. 6. gr. og a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til  greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist annars vegar á því að fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar þar sem kærandi hefði gefið rangar upplýsingar um sambúðarstöðu sína í andstöðu við d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Hins vegar er byggt á því að kærandi hafi ekki lagt fyrir í greiðsluskjóli í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara kom fram að umboðsmaður teldi ólíklegt að kærandi og sambýlismaður hennar hefðu haldið tvö heimili þar sem þetta hafi aðeins komið fram eftir að í ljós kom að kærandi hefði ekki lagt til hliðar fé í greiðsluskjóli. Þar að auki hafi kæranda ítrekað verið gefið tækifæri undir meðferð málsins til að gera athugasemdir og leggja fram gögn til þess að koma í veg fyrir synjun í málinu.

Við úrlausn málsins ber, að mati kærunefndarinnar, meðal annars að líta til fyrirliggjandi gagna, misræmis í frásögn kæranda og misvísandi upplýsinga hennar. Einnig þess að kæranda var ítrekað gefið færi á að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings án þess að hún gæti með haldbærum hætti sýnt fram á að hún væri ekki í sambúð á tímabili greiðsluaðlögunar. Verður að telja að upplýsingar um hvort kærandi hafi verið í sambúð séu mikilsverðar í málinu í skilningi d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í öðru lagi byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. beri skuldara að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar alla þá fjármuni sem henni hafi verið unnt á því tímabili sem hún naut greiðsluskjóls.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið ítarlega upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi ekki lagt neitt fé til hliðar. Að mati umboðsmanns skulda hefði sparnaður kæranda átt að vera í það minnsta 2.913.527 krónur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 27. janúar 2011. Einnig kemur fram hjá umboðsmanni skuldara að hefði kærandi ein rekið heimili þá hefði hún engu að síður átt að geta lagt hliðar fjárhæð sem næmi um 1.137.537 krónum í greiðsluskjóli.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. febrúar 2011 til 31. desember 2011: 11 mánuðir
Nettótekjur 1.898.287
Mánaðartekjur alls að meðaltali 172.572


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.922.447
Mánaðartekjur alls að meðaltali 243.537


Tímabilið 1. janúar 2013 til 28. febrúar 2013: Tveir mánuðir
Nettótekjur 639.255
Mánaðartekjur alls að meðaltali 319.628


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.459.989
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 218.400

 

Sé miðað við framfærslukostnað, samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. febrúar 2011 til 28. febrúar 2013: 25 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.459.989
Bótagreiðslur 2011 474.190
Álögð gjöld 2012 -1.979
Leigutekjur 2.160.000
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 8.149.463
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 325.979
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 209.093
Greiðslugeta kæranda á mánuði 116.886
Alls sparnaður í 25 mánuði í greiðsluskjóli x 116.886 2.864.875

 

Þegar miðað er við framfærslu einstaklings, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta hennar þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. febrúar 2011 til 28. febrúar 2013: 25 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.459.989
Bótagreiðslur 2011 441.453
Álögð gjöld 2012 -1.979
Leigutekjur 2.160.000
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 8.092.200
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 323.688
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 278.582
Greiðslugeta kæranda á mánuði 45.106
Alls sparnaður í 25 mánuði í greiðsluskjóli x 47.397 1.127.650

 

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur ekki lagt neina fjármuni til hliðar á greiðsluaðlögunartímanum. Kærunefndin telur að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara, að henni hafi verið skylt að leggja til hliðar þá fjármuni sem hafi verið umfram framfærslukostnað samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Hvort sem miðað er við að kærandi hafi verið ein í heimili eða í sambúð má af framangreindu sjá að hún hefur haft aflögu fjármuni til að leggja til hliðar í greiðsluskjólinu. Fellst kærunefndin því á niðurstöðu umboðsmanns skuldara um að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. og a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum