Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 153/2013

Fimmtudaginn 27. ágúst 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 3. október 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. nóvember 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. nóvember 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1970. Hún er einstæð móðir með þrjú börn. Börnin eru með lögheimili hjá kæranda en dvelja óreglulega hjá föður. Kærandi býr í eigin 152 fermetra einbýlishúsi að B götu nr. 35 í sveitarfélaginu C.

Kærandi hefur lokið meistaranámi í F mennt frá Háskóla Íslands en starfar nú sem framhaldsskólakennari. Auk launa fékk hún greiddar barnabætur, mæðralaun, vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu á greiðsluaðlögunartímanum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 27. júní 2011 eru 50.106.651 króna.

Að mati kæranda má rekja fjárhagsvandræði hennar til almennra hækkana á fjárskuldbindingum hennar í kjölfar efnahagshrunsins og þeirra erfiðleika sem fylgja því að vera einstæð móðir þriggja barna.

Kærandi lagði fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 13. desember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. júní 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.)

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 5. júní 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Taldi umsjónarmaður að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni á meðan frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefði staðið yfir. Að mati umsjónarmanns hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 3.541.620 krónur á tímabilinu en hún hefði ekkert lagt fyrir.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 3. september 2013 var kæranda gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi sendi andmæli með tölvupósti 11. september 2013. Í svari kæranda kom fram að hún ætti ekki kvittanir vegna þeirra fjármuna sem hún hefði ráðstafað í greiðsluskjólinu en þeir hefðu verið nýttir til að framfæra fjölskylduna, greiða ýmsan kostnað vegna barna hennar, greiða fyrir fermingu sonar síns og útskriftarveislu dóttur sinnar.

Með bréfi til kæranda 20. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Kærandi gerir athugasemd við að umboðsmaður skuldara hafi vísað henni og þremur börnum hennar úr greiðsluaðlögun og þar með því skjóli sem það veiti þeim sem skuldurum. Þar sem hvorki sé fyrir hendi reglugerð né löglegar verklagsreglur hjá embætti umboðsmanns skuldara hafi kærandi það á tilfinningunni að það hugalæga mat sem lagt sé á hvert mál fyrir sig breytist frá einum starfsmanni til annars og frá einum skjólstæðingi til þess næsta. Séu þetta vinnubrögð sem ekki eigi að líðast og því vilji kærandi að tekið verði á þessari brotalöm í starfsemi umboðsmanns skuldara áður en dæmt verði í máli hennar.

Kærandi telur að hún hafi ekki getað lagt neitt fyrir á greiðsluaðlögunartímanum þar sem allar hennar tekjur hafi farið í rekstur heimilisins og kostnað vegna barna hennar. Kærandi kveðst hafa reynt að útskýra hvers vegna hún hafi ekki getað lagt neitt fé til hliðar á þeim tíma er mál hennar var til meðferðar, en það hafi verið án árangurs. Mánaðarleg laun hennar hrökkvi varla til að reka heimilið og greiða kostnað vegna tannlæknis, íþrótta, tómstunda, heimilistækja og annars sem teljist nauðsynlegt til að reka heimili. Hún hafi keypt sófa og tvö reiðhjól fyrir um 60.000 krónur. Kærandi eigi ekki kvittanir vegna þessara útgjalda. Kærandi sé láglaunamanneskja sem lifi reglusömu lífi og haldi mjög í við sig varðandi innkaup og skemmtanir. Einnig telji kærandi að þau framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara hafi notað í hennar tilviki séu röng. Notast eigi við framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins.

Þar sem markmiðið með stofnun embættis umboðsmanns skuldara hafi verið að gæta hagsmuna og réttinda skuldara finnist kæranda ótækt að embættið líti svo á að 12. gr. lge. sé megingrein laganna þegar hinar 35 greinar laganna snúi að því að skýra hvernig embættið skuli aðstoða skuldara.

Í huga kæranda flokkist það undir velferðarmissi ef kærunefndin leyfi embætti umboðsmanns að vísa henni úr greiðsluaðlögun vegna þess að hún hafi ekki dregið saman í útgjöldum sem ekki hafi verið hægt að komast hjá eða fresta.

Kærandi er afar ósátt við framkomu embættis umboðsmanns skuldara í hennar garð.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærandi hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 13. desember 2010 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, tekið gildi frá þeim degi.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 32 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. janúar 2011 til 31. ágúst 2013.

Samkvæmt því sem fram kemur af hálfu umboðsmanns skuldara hefur kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. janúar 2011 til 31. ágúst 2013 að frádregnum skatti 6.285.541
Barnabætur , vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2.814.582
Námslán 2.472.204
Samtals 13.370.261
Mánaðarlegar meðaltekjur 417.821
Framfærslukostnaður á mánuði 337.686
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 84.084
Samtals greiðslugeta í 32 mánuði 2.690.688

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 417.821 krónu í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 32 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt útreikningum embættisins sé áætlað að kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar 2.690.688 krónur. Kærandi kveðist hafa keypt sófa og tvö reiðhjól fyrir 60.000 krónur. Einnig hafi hún haldið fermingarveislu og útskriftarveislu á tímabili greiðsluskjóls. Auk þess sem hún hefði staðið straum af framfærslukostnaði fjölskyldunnar, tannlækna-, fata- og íþróttakostnaði sem væri að hennar mati mun hærri en gert væri ráð fyrir í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara.

Umsjónarmaður skuli miða við þau framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji við mat og útreikninga á greiðslugetu skuldara. Sé embættinu skylt að gæta jafnræðis og nota sömu viðmið að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna og sérþarfa. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir umsækjendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggðust á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort umsækjendur hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 337.686 krónur á meðan frestun greiðslna hefur staðið yfir. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum ágústmánaðar 2013 fyrir einstakling með þrjú börn á framfæri. Gengið sé út frá því að kærandi hefði að öllu óbreyttu átt að hafa getu til að leggja fyrir um 2.690.688 krónur ef miðað sé við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 84.084 krónur á mánuði.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta, sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi gerir athugasemd við að embætti umboðsmanns skuldara vísi henni úr greiðsluaðlögun og því skjóli sem það veiti henni sem skuldara. Kærunefndin vísar í þessu sambandi til 1. mgr. 11. gr. lge. Þar kemur fram að þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabundin frestun greiðslna. Í bráðabirgðaákvæði II við lge., sbr. lög nr. 128/2010, kemur fram að frá gildistöku laganna og til 1. júlí 2011 hefjist tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður hefur móttekið umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þessu geta skuldarar átt rétt til greiðsluskjóls við tvenns konar aðstæður. Í fyrsta lagi þegar umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt. Í öðru lagi við móttöku umsóknar um greiðsluaðlögun hafi umsóknin verið móttekin fyrir 1. júlí 2011. Samkvæmt 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis II við lge. fellur greiðsluskjólið niður að loknum kærufresti samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar. Kæri skuldari synjun umboðsmanns skuldara framlengist greiðsluskjól þar til niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála liggur fyrir. Staðfesti kærunefnd greiðsluaðlögunarmála niðurstöðu umboðsmanns skuldara fellur greiðsluskjólið þá þegar niður. Skortir samkvæmt framansögðu lagaskilyrði til að kærunefndin geti hlutast til um greiðsluskjól kæranda að öðru leyti en því að verði fallist á kröfu kæranda í málinu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir af því að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda halda áfram.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 5. júní 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Taldi umsjónarmaður að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni á meðan frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefði staðið yfir. Að mati umsjónarmanns hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 3.541.620 krónur á tímabilinu en hún hefði ekkert lagt fyrir. Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með greindu bréfi til umboðsmanns skuldara að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærandi hefði brugðist skyldum sínum með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Tilkynnti hann umboðsmanni skuldara að líkur væru á að umræddar upplýsingar hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 20. september 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem henni hafi verið skylt á því tímabili sem hún naut greiðsluskjóls. Kærandi kveðst ekki hafa haft tök á því að leggja fyrir þar sem laun hennar hafi naumlega dugað til að reka heimili með þrjú börn.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn.

Á þeim tíma er umsókn kæranda var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í upplýsingaskjalinu var einnig greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimils og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum, sem voru í greiðsluskjóli, bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærandi sótti um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunar-umleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

 „Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur að kæranda hafi mátt vera ljóst að henni bar að haga framfærslu sinni eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar hún sótti um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is“.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. júní 2011 þar sem henni var veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 2.690.688 krónur frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. janúar 2011 til 31. ágúst 2013. Af hálfu umboðsmanns skuldara kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi að meðaltali verið 84.084 krónur á mánuði í greiðsluskjóli.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindum tímabilum:

 

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur 1.227.056
Mánaðartekjur alls að meðaltali 102.255


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 3.307.934
Mánaðartekjur alls að meðaltali 275.661


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. ágúst 2013: Átta mánuðir
Nettótekjur 2.007.517
Mánaðartekjur alls að meðaltali 250.940


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 6.542.507
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 204.453

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. ágúst 2013: 32 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 6.542.507
Bótagreiðslur 2.665.532
Námslán 2.472.204
Meðlag 1.593.615
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 13.273.858
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 414.808
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 337.686
Greiðslugeta kæranda á mánuði 77.122
Alls sparnaður í 32 mánuði í greiðsluskjóli x 77.122 2.467.906

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Samkvæmt útreikningum hér að framan hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 2.467.906 krónur á tímabili greiðsluskjóls en hún hefur ekkert lagt fyrir.

Í málinu hefur ekki þýðingu að reglugerðarheimild 34. gr. lge. hefur ekki verið nýtt enda fer um málsmeðferð samkvæmt lge. og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þar sem kærandi hefur brugðist skyldum sínum samkvæmt framangreindu verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum