Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 67/2013

Fimmtudaginn 13. ágúst 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 14. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 29. apríl 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 16. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara. Greinargerðin barst með bréfi 30. maí 2013.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 3. júní 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með tölvupósti 4. september 2013.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1965 og 1972. Þau eru í hjúskap og búa ásamt fjórum börnum sínum í eigin 177,8 fermetra einbýlishúsi að C götu nr. 5 sveitarfélaginu D. Kærendur starfa bæði sem verslunarstjórar en hvort hjá sinni versluninni. Til ráðstöfunar hafa kærendur 477.592 krónur á mánuði.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til ábyrgðarskuldbindinga og vankunnáttu í fjármálum.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 78.881.318 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árið 2007.

Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun er dagsett 13. maí 2010 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. mars 2011 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 13. desember 2012 var óskað eftir afstöðu embættisins til þess hvort áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir væru heimilar með vísan til 2. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Komið hafi í ljós að kærendur kynnu að hafa vanefnt skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að hafa stofnað til skulda á meðan greiðsluaðlögunar var leitað. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu D hafi kærendur ekki staðið skil á greiðslum fasteignagjalda að fjárhæð 538.640 krónur auk vaxta á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 26. febrúar 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur settu fram andmæli með tölvupósti 5. mars 2013. Þar kom meðal annars fram að kærendur hafi samið við lögmannsstofuna sem innheimti fasteignagjöld og hefðu greitt af þeim 41.900 krónur á mánuði um tveggja mánaða skeið.

Með bréfi til kærenda 29. apríl 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur vísa til þess að skuldir þeirra við sveitarfélagið D séu í greiðsluferli en þau telja sig ekki vera í vanskilum vegna þeirrar skuldar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. megi skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að samkvæmt yfirliti frá sveitarfélaginu D hafi kærendur lengi vanrækt greiðslu fasteignagjalda þrátt fyrir að hafa haft getu til að greiða. Þann 13. desember 2012 hafi ógreidd gjöld vegna eignarinnar C götu nr. 5 sveitarfélaginu D verið 1.057.937 krónur og hafi 538.568 krónur fallið í gjalddaga á meðan greiðsluaðlögunar var leitað eða frá 1. nóvember 2010 til 1. nóvember 2012.

Kærendur hafi borið því við að þau hefðu gert samning við lögmannstofuna sem hafi séð um innheimtu fasteignagjaldanna fyrir sveitarfélagið og væru þau að greiða 41.900 krónur á mánuði samkvæmt þeim samningi.

Þrátt fyrir að kærendur hafi gert samning um greiðslu fasteignagjalda við innheimtuaðila telji umboðsmaður skuldara að ekki sé hægt að líta fram hjá því að fasteignagjöldin væru ekki komin í skil enda hafa kærendur einungis greitt þrisvar samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi. Heildarskuld kærenda við sveitarfélagið vegna ógreiddra fasteignagjalda sé nú 539.531 króna og falli sú skuld utan greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Með nýrri skuldasöfnun hafi kærendur því skaðað hagsmuni annarra kröfuhafa samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Samkvæmt ákvæðinu er skuldara við greiðsluaðlögun óheimilt að stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Það gerði hann með bréfi 13. desember 2012.

Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun er dagsett 13. maí 2010. Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram sú meginregla að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Með setningu laga nr. 128/2010, sem tóku gildi 18. október 2010, var lögfest bráðabirgðaákvæði II lge. þess efnis að tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. mundi hefjast við móttöku umsókna sem bærust umboðsmanni skuldara fyrir 1. júlí 2011. Frestunin skyldi einnig gilda um umsóknir sem umboðsmaður skuldara hafði móttekið fyrir gildistöku laganna en í þeim tilvikum hófst greiðslufrestun við gildistöku laganna 18. október 2010. Fram kemur í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn og frestun greiðslna hafist.

Í tilefni af gildistöku laga nr. 128/2010 sendi umboðsmaður skuldara kærendum sérstakt upplýsingaskjal 18. október 2010 þar sem greint var frá skyldum þeirra í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að kærendur mættu ekki stofna til nýrra skulda á meðan þau leituðu greiðsluaðlögunar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að væri þessum skyldum ekki fylgt gæti það valdið synjun greiðsluaðlögunar á síðari stigum. Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum og greiðsluáætlun sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. mars 2011 þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Þá sendi umboðsmaður skuldara kærendum bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 en á þeim tíma voru þau í greiðsluskjóli. Í bréfunum var meðal annars minnt á skyldur þeirra stofna ekki til nýrra skulda samkvæmt 12. gr. lge.

Kærunefndin telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu ítarlega upplýst kærendur um skyldu þeirra til stofna ekki til nýrra skulda í greiðsluskjóli í samræmi við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. mars 2011.

Samkvæmt gögnum málsins greiddu kærendur ekki fasteignagjöld af fasteign sinni að höfuðstólsfjárhæð 495.036 krónur frá því að þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar 29. mars 2011 til 31. mars 2013 eins og þeim var skylt að gera samkvæmt d-lið 12. gr. lge. Í greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara sem fylgdi ákvörðun embættisins um heimild til greiðsluaðlögunar var þó gert ráð fyrir að fasteignagjöld að fjárhæð 27.000 krónur á mánuði væru meðal útgjalda kærenda á umræddu tímabili enda nær frestun greiðslna ekki til krafna sem verða til eftir að greiðsluskjól kemst á eða eftir atvikum að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. og 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis II sömu laga.

Hafa kærendur í máli þessu borið fyrir sig að þau hafi gert samning við lögmannstofuna sem sá um innheimtu fasteignagjalda fyrir sveitarfélagið. Fellst kærunefndin á það með umboðsmanni skuldara að þrátt fyrir að hafa gert umræddan samning sé ekki hægt að líta framhjá því að fasteignagjöldin voru ekki greidd á tímabilinu. Með umræddri skuldasöfnun verður því að telja að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr.

Í ljósi þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þessa staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum