Hoppa yfir valmynd
15. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 179/2013

Mánudaginn 15. júní 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. desember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 25. nóvember 2013 þar sem heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana var felld niður.

Með bréfi 29. janúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 5. mars 2014. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 14. mars 2014 og henni gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Ítrekun var send 28. ágúst 2014. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1953. Hún býr í eigin húsnæði að B götu nr. 1 í sveitarfélaginu C sem er 101,8 fermetra íbúð. Kærandi er öryrki og atvinnulaus. Mánaðarlega hefur hún til ráðstöfunar 187.133 krónur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði verzlunarmanna.

Heildarskuldir kæranda nema 20.439.032 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara.

Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína einkum til þess að bætur hennar hafi verið skertar og afborganir lána hafi hækkað.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 21. mars 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. júní 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Umsjónarmaður sendi umboðsmanni skuldara bréfi 5. júlí 2013. Þar kom fram að greiðslugeta kæranda væri 15.308 krónur og þá ætti eftir að taka tillit til húsnæðiskostnaðar. Kærandi væri eldri öryrki og með mjög takmarkaða möguleika til að auka við tekjur sínar. Því gæti umsjónarmaður ekki séð að kærandi gæti staðið skil á afborgunum innan matsverðs af fasteign sinni til frambúðar. Því hafi það verið mat umsjónarmanns að nauðsynlegt væri að selja fasteignina til að greiðsluaðlögun næði fram að ganga. Kæranda hafi verið gerð grein fyrir þessu en hún hafi ekki fallist á sölu fasteignarinnar. Með vísan til þessa hafi umsjónarmaður ekki séð sér annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara um að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda ábyrgðarbréf 5. nóvember 2013 þar sem henni var tilkynnt um hugsanlega niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana, henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn í málinu. Engin svör bárust frá kæranda. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. nóvember 2013 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda felldar niður.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu. Hún hefur ekki fært fram lagarök eða málsástæður máli sínu til stuðnings. Kæru hennar verður þó að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska eftir því við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunar-umleitanir verði felldar niður, sbr. 15. gr. lge.

Samkvæmt gögnum málsins sé greiðslugeta kæranda um 15.000 krónur á mánuði en afborganir innan matsverðs fasteignar hennar séu rúmlega 140.000 krónur á mánuði. Þar af leiðandi verði ekki komist hjá því að selja eignina í greiðsluaðlögunarferli. Kærandi hafi ekki samþykkt sölu eignarinnar þrátt fyrir ákvörðun umsjónarmanns þar um.

Að þessu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að ákvörðunin verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda er byggð á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Ef umsjónarmanni þykir ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin. Framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara, í samræmi við 5. mgr. 13. gr. lge., að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunar-umleitana getur skuldari kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.

Í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils verður að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt er, svo sem fram kemur í athugasemdum við 13. gr. lge. í frumvarpi til laganna. Í 13. gr. laganna er umsjónarmanni veitt heimild til þess, að vel athuguðu máli, að krefja skuldara um að afhenda til sölu þær eignir sem umsjónarmaður telur af sanngirnisástæðum, með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum, að skuldari geti verið án. Í máli þessu hefur kærandi lagst gegn sölu fasteignar sinnar þrátt fyrir tilmæli umsjónarmanns þar að lútandi.

Í athugasemdum við 13. gr. í frumvarpi til lge. segir að við mat á því hvort íbúð skuldara skuli seld skuli umsjónarmaður meðal annars líta til þess að hve miklu leyti íbúðin sé veðsett. Við þær aðstæður þar sem veðskuldir eru undir matsverði íbúðarinnar megi ætla að til álita komi að íbúðin verði seld, að því gefnu að tryggt sé að söluandvirðinu, að frádreginni greiðslu veðskulda, megi ráðstafa bæði til kaupa eða leigu á nýrri íbúð fyrir skuldara og til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Litið skal í þessu sambandi til fjölskylduaðstæðna skuldara.

Skuldari geti hins vegar verið í þeirri aðstöðu að íbúðarhúsnæði hans sé veðsett fyrir fullu verði eða jafnvel hærri fjárhæð. Undir þeim kringumstæðum hafi lánardrottnar almennt engan hag af því að húsnæðið sé selt og skuli því almennt ekki gera ráð fyrir sölu þeirrar íbúðar. Þó skal litið til þess hvort íbúðarhúsnæðið sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfir auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur.

Í a-lið 1. mgr. 21. lge. segir enn fremur að haldi skuldari eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíli á skuli hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum. Slíkar fastar mánaðargreiðslur mega ekki nema lægri fjárhæð en sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu. Samkvæmt skattframtali kæranda 2013 vegna tekjuársins 2012 var fasteignamat á fasteign hennar 19.500.000 krónur á sama tíma og veðskuldir vegna eignarinnar námu 18.105.633 krónum. Verður því að gera ráð fyrir að öll áhvílandi lán séu innan matsverðs fasteignarinnar samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Greiðslubyrði þeirra lána sem hvíla á eigninni er ríflega 133.000 krónur á mánuði. Í lok nóvember 2013 var framfærslukostnaður kæranda 173.817 krónur. Tekjur hennar á árinu 2013 voru að meðaltali 203.642 krónur á mánuði. Hafði kærandi samkvæmt því 29.825 krónur aflögu á mánuði til að greiða afborganir af þeim lánum sem hvíldu á fasteign hennar og voru samkvæmt framansögðu innan matsverðs fasteignarinnar. Ljóst er því að kærandi getur ekki greitt af þeim lánum sem hvíla á eigninni og eru innan matsverðs hennar.

Ekki verður séð að fjárhagsaðstæður kæranda séu tímabundnar en tekjur hennar hafa verið svipaðar undanfarin ár. Telur kærunefndin því að undantekningarákvæði 2. málsl. a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge. um sérstakar og tímabundnar ástæður eigi ekki við í málinu. Samkvæmt framansögðu eru ekki fyrir hendi skilyrði til að kærandi geti haldið fasteign sinni.

Í ljósi þess sem rakið hefur verið verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum