Hoppa yfir valmynd
11. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 113/2013

Fimmtudaginn 11. júní 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. júlí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 25. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 30. ágúst 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 10. september 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 13. september 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Viðbótargögn frá kærendum bárust með bréfi 11. október 2013 en þau voru send embætti umboðsmanns skuldara 15. október 2013. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1971 og 1968. Þau eru í hjúskap og búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin 223 fermetra parhúsi að C götu nr. 2 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A starfar við efnalaug sem er í eigu kærenda. Kærandi B starfar hjá X Mánaðarlegar nettótekjur kærenda eru 436.136 krónur vegna launa, barna- og vaxtabóta.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 77.680.666 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til efnahagshrunsins haustið 2008 og óvæntra útgjalda við rekstur á efnalaug þeirra.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 31. mars 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. nóvember 2011 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 13. maí 2013 var óskað eftir afstöðu embættisins til þess hvort áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda væru heimilar með tilliti til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að kærendur hefðu notið frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, frá 31. mars 2011. Með bréfi 9. apríl 2013 hafi umsjónarmaður óskað upplýsinga frá kærendum um sparnað þeirra í greiðsluskjólinu. Komið hafi í ljós að kærendur höfðu ekkert lagt til hliðar svo sem þeim hafi verið skylt að gera samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kveða kærendur það vera vegna umtalsverðra og óhjákvæmilegra viðgerða á fasteign þeirra. Einnig hafi kærendur stofnað til nýrra samninga á tímabilinu en þau hafi tekið bifreið á leigu.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 13. júní 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svar kærenda barst með ódagsettu bréfi. Þar kom fram að rekstur á fasteign þeirra væri mjög óhagkvæmur og rekstrarkostnaður hár. Til dæmis væri kostnaður við rafmagnsnotkun og fasteignagjöld 15.000 krónum hærri á mánuði en viðmið gerðu ráð fyrir. Annar rekstrarkostnaður væri hliðstæður. Þá hafi þurft að gera við eignina þar sem hún hafi legið undir skemmdum. Kærendur telji að selja hefði átt fasteignina í byrjun tímabilsins en þau hafi ekki leitað til fasteignasala þar sem þau hafi talið óheimilt að selja eignir. Að því er varði leigu á bifreið hafi kærendur orðið að skila bifreið sem þau hafi átt í byrjun greiðsluskjólsins. Gert sé ráð fyrir bifreið í öllum framfærsluviðmiðum. Ekki sé hægt að vera með tvö ung börn án bifreiðar í nútímaþjóðfélagi.

Með bréfinu lögðu kærendur fram reikning frá Málningu hf. að fjárhæð 129.623 krónur, yfirlit yfir fasteignagjöld og reikningsyfirlit frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Með bréfi til kærenda 8. júlí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur mótmæla þeirri niðurstöðu umboðsmanns skuldara að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur greina frá því að tímabilið frá efnahagshruni og þar til þau hafi leitað til umboðsmanns skuldara hafi verið þeim erfitt. Hafi foreldrar kæranda A lánað þeim fé til framfærslu. Eftir að í greiðsluskjól var komið hafi kærendur talið sér heimilt að endurgreiða eitthvað af láninu þar sem ekki hafi verið um bankalán að ræða. Hluta fjárins hafi þau greitt með millifærslum og hluta með peningum. Hafi foreldrar annars þeirra geymt þessar greiðslur. Kærendur kveðast hafa lagt fé til hliðar á tímabili greiðsluskjóls og greitt það fé inn á bankareikning foreldra kæranda A en þau hafi ekki treyst bönkum til að varðveita fyrir sig fjármuni til lengri tíma.

Það hafi alltaf legið fyrir að ofangreindir fjármunir hafi verið til staðar. Kærendur álíta að embætti umboðsmanns skuldara hafi gert það að ásteytingarsteini að nefndir fjármunir væru ekki inni á bankareikningum í nafni kærenda. Kærendur telja það ekki skipta máli fyrir kröfuhafa á hvaða nafni bankareikningur sem geymi peningana sé. Umboðsmaður hafi byggt á því að kærendur gætu ekki sýnt fram á hluta millifærslna. Þetta sé ekki rétt því að kærendur hafi nú framvísað reikningsyfirliti yfir bankareikning móður kæranda A, þar sem greiðslurnar séu færðar.

Embætti umboðsmanns skuldara telji að misræmi hafi verið í málflutningi kærenda varðandi sparnað þeirra, annars vegar gagnvart umsjónarmanni og hins vegar gagnvart umboðsmanni skuldara. Kærendur segja að alltaf hafi komið skýrt fram að fé hafi ekki verið inni á bankareikningi þeirra. Það hafi ekki verið fyrr en seint í ferlinu að gerð hafi verið grein fyrir því að þeir fjármunir sem kærendur hafi sparað væru til á bankareikningi foreldra kæranda A. Kærendur segjast hvorki hafa haft mikil samskipti við umsjónarmann né embætti umboðsmanns skuldara á tímabilinu. Hafi mál ekki verið skýrð nægjanlega og upplýsingar um staðreyndir því litlar.

Loks mótmæla kærendur því að þau hafi átt að leggja fyrir peninga frá því að þau lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun. Frá því að kærendur hafi lagt fram umsókn sína og þar til embætti umboðsmanns skuldara samþykkti umsóknina hafi liðið um það bil tíu mánuðir. Þeim hafi verið gert að leggja til hliðar í þessa tíu mánuði en það fái ekki staðist.

Kærendur eru ekki sátt við málsmeðferð embættis umboðsmanns skuldara og telja sig hafa mætt neikvæðu viðhorfi starfsmanna þar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar [24.] nóvember 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 31. mars 2011 og hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Greiðsluskjól kærenda hafi samkvæmt því staðið yfir í 25 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. apríl 2011 til aprílloka 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. apríl 2011 til 30. apríl 2013 að frádregnum skatti 10.518.932
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 1.292.024
Samtals 11.810.956
Mánaðarlegar meðaltekjur 472.438
Framfærslukostnaður á mánuði 382.022
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 90.416
Samtals greiðslugeta í 25 mánuði 2.260.406

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim er jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur hafi greint frá því að þau hafi ekkert lagt fyrir á tímabilinu meðal annars vegna þess að nauðsynlegt hafi verið að ráðast í kostnaðarsama viðgerð á fasteign þeirra. Hafi þau lagt fram fimm kvittanir frá Málningu hf. vegna efniskaupa og nemi samanlögð fjárhæð þeirra 250.587 krónum. Þá hafi kærendur greint frá því að þau hafi endurgreitt ættingjum lán á tímabili greiðsluskjóls og hafi það haft áhrif á getu þeirra til að leggja til hliðar fé. Kærendur hafi talið mögulegt að ættingjar greiddu fjárhæðina til baka. Hafi umboðsmaður farið fram á að kærendur sýndu fram á að þau hefðu endurgreitt fé til ættingja sinna, til dæmis með bankamillifærslum. Hafi kærendum ekki reynst unnt að sýna fram á þetta. Þau hafi gefið þær skýringar að aðeins hluti fjárhæðarinnar hefði verið greiddur með millifærslum en einnig hefði verið endurgreitt með peningum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 382.022 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað júnímánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna og tvö börn auk annars kostnaðar samkvæmt upplýsingum kærenda sjálfra. Tekið hafi verið tillit til hærri framfærslukostnaðar samkvæmt gögnum sem kærendur hafi lagt fram. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 2.260.406 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðaltekjur að fjárhæð 472.438 krónur á mánuði í 25 mánuði. Sé tekið tillit til framlagðra reikninga hefði sparnaður kærenda átt að nema 2.009.819 krónum á tímabilinu.

Umboðsmaður skuldara bendi á að í sambærilegum málum hafi kærunefnd greiðsluaðlögunarmála lagt áherslu á það í úrskurðum sínum að einungis sé heimilt að víkja frá því að leggja til hliðar fé sé það nauðsynlegt til framfærslu, sbr. úrskurð í máli nr. 37/2013.

Í kæru sinni hafi kærendur greint frá því að þau hefðu lagt fé til hliðar á tímabili greiðsluskjóls en þar sem þau treysti ekki bönkunum hafi foreldrar annars þeirra geymt sparnaðinn. Einnig komi fram í kæru að kærendur hafi endurgreitt foreldrum annars þeirra peningalán á tímabili greiðsluskjóls en foreldrarnir hafi geymt greiðslurnar og séu þær nú tiltækar. Kæru hafi fylgt reikningsyfirlit sem sýndi að móðir annars kærenda hefði lagt 800.000 krónur inn á reikning föður sama kæranda 8. júlí 2013 og að innstæða á reikningnum hafi numið 1.568.224 krónum á þeim tíma.

Kærendur hafi greint umsjónarmanni með greiðsluaðlögunarumleitunum frá því að þau hafi ekki lagt neina fjármuni til hliðar í greiðsluskjóli. Á þeim forsendum hafi umsjónarmaður lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður. Í samtali við starfsmann umboðsmanns skuldara 3. júlí 2013 hafi einnig komið fram að enginn sparnaður væri til staðar. Það hafi svo fyrst verið í símtali við starfsmann embættisins 5. júlí 2013 sem fram hafi komið að ástæða þess að sparnaður væri ekki til staðar væri sú að kærendur hefðu fengið peningalán frá foreldrum annars þeirra sem þau hefðu endurgreitt á tíma greiðsluskjóls. Í sama símtali hafi einnig komið fram að foreldrarnir gætu mögulega endurgreitt fjárhæðina sem væri um 1.500.000 til 1.600.000 krónur. Kærendur hafi þá verið upplýst um að ef þau gætu sýnt fram á endurgreiðslur til foreldra sinna og ef fjárhæðin væri greidd inn á bankareikning kærenda yrði málið tekið til frekari skoðunar. Hafi kærendum verið veittur frestur til 8. júlí 2013 til að sýna fram á þetta. Í símtali þann dag hafi komið fram að kærendur gætu ekki lagt fram umbeðin gögn. Á þeim forsendum hafi verið ákveðið að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar.

Af framangreindu megi sjá að kærendur hafi verið tvísaga um sparnað sinn í greiðsluskjóli. Einnig megi líta til þess að með því að endurgreiða foreldrum peningalán á tímabili greiðsluskjóls hafi kærendur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þau hafi ráðstafað fjármunum sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla. Þar sem upplýsingar um nefnda endurgreiðslu láns hafi ekki legið fyrir á meðan umsjónarmaður hafi verið með mál kærenda til meðferðar hafi ekki verið farið fram á skýringar kærenda vegna þessa og niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana ekki byggð á c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Eins og fram sé komið hafi faðir annars kærenda lagt fram reikningsyfirlit af bankareikningi sínum til staðfestingar á sparnaði kærenda í greiðsluskjóli. Ekkert sé fram komið í málinu sem renni stoðum undir að þetta fé sé frá kærendum komið eða að þau hafi umráð fjárins. Ekki sé hægt að byggja á því að fé sem liggi inni á bankareikningi þriðja manns sýni að skuldari hafi sinnt skyldu sinni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Bent sé á úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 48/2013 þessu til stuðnings.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið var kærendum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Með bréfi 13. maí 2013 óskaði umsjónarmaður meðal annars eftir afstöðu embættis umboðsmanns skuldara til þess hvort áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda væru heimilar með tilliti til a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 8. júlí 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga, sbr. lög nr. 28/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur átt að leggja til hliðar 2.009.819 krónur frá 1. apríl 2011 til 30. apríl 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum er gert ráð fyrir að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 90.416 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi aðeins lagt fram reikningsyfirlit af bankareikningi foreldra kæranda A þar sem innstæða hafi verið 1.568.224 krónur, en engin gögn er sýni eigin sparnað kærenda.

Kærendur kveðast á hinn bóginn hafa lagt fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en peningarnir hafi verið lagðir inn á bankareikninga foreldra kæranda A. Þá hafi þau orðið fyrir kostnaði við viðhald fasteignar sinnar og við leigu á bíl en enn fremur hafi fasteignagjöld og rafmagnskostnaður verið hærri en framfærsluviðmið geri ráð fyrir.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindum tímabilum:

 

Tímabilið 1. apríl 2011 til 31. desember 2011: Níu mánuðir
Nettótekjur A 0
Nettótekjur B 3.446.906
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 382.990
Nettótekjur alls 3.446.906
Mánaðartekjur alls að meðaltali 382.990


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 0
Nettótekjur B 5.513.154
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 459.430
Nettótekjur alls 5.513.154
Mánaðartekjur alls að meðaltali 459.430


Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. júní 2013: Sex mánuðir
Nettótekjur A 195.564
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 32.594
Nettótekjur B 2.516.003
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 419.334
Nettótekjur alls 2.711.567
Mánaðartekjur alls að meðaltali 451.928


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.671.627
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 432.282

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. apríl 2011 til 30. júní 2013: 27 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.671.627
Bótagreiðslur 1.292.024
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 12.963.651
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 480.135
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 382.022
Greiðslugeta kæranda á mánuði 98.113
Alls sparnaður í 27 mánuði í greiðsluskjóli x 98.113 2.649.057

 

Umboðsmaður gerir ráð fyrir að framfærslukostnaður kærenda sé 382.022 krónur á mánuði. Hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar við bifreið, hærri fasteignagjalda og aukins kostnaðar við rafmagn og hita. Kostnaður sem umboðsmaður skuldara gerir ráð fyrir vegna rafmagns og hita er 25.055 krónur á mánuði en framlögð reikningsyfirlit kærenda sýna að þessi kostnaður hefur verið 27.040 krónur á mánuði. Mismunurinn er 2.155 krónur á mánuði eða alls 58.185 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærunefndin telur því rétt að draga síðastnefnda fjárhæð frá því sem kærendur hefðu átt að leggja til hliðar í greiðsluskjóli. Þá hafa kærendur lagt fram reikning vegna kostnaðar við viðhald fasteignar sinnar að fjárhæð 129.623 krónur og verður sú fjárhæð einnig dregin frá þeirri fjárhæð sem miðað er við þegar sparnaður kærenda er reiknaður út. Samkvæmt því ætti sparnaður kærenda að vera 2.461.249 krónur.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum svo sem gert hefur verið.

Frásögn kærenda að því er varðar sparnað þeirra hefur ekki verið á einn veg. Í tölvupósti kærenda til umsjónarmanns 13. apríl 2013 segir: „Ekki hefur tekist að leggja fyrir sparnað í greiðsluaðlögunartímabilinu m.a. vegna uppáfallandi áfalla s.s. viðgerð á [húsi] vegna skemmda sem komu fram í múr og leka við glugga á húsi einnig varð að mála húsið að utan þar sem það lá undir skemmdum.“

Eins og áður er fram komið sendi embætti umboðsmanns skuldara bréf til kærenda 13. júní 2013 þar sem þeim var boðið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og leggja fram gögn. Með tölvupósti embættis umboðsmanns skuldara 19. júní 2013 fengu kærendur frest til að svara bréfinu. Í þeim tölvupósti var lögð áhersla á að kærendur framvísuðu gögnum máli sínu til stuðnings. Með tölvupósti embættisins 5. júlí 2013 var enn lögð áhersla á að kærendur sýndu fram á að þau hefðu lagt peninga til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Nánar tiltekið kom fram að þau þyrftu að sýna fram á fjárhæðina á eigin bankareikningi.

Fyrir kærunefndina hafa kærendur lagt fram yfirlit yfir bankareikning foreldra kæranda A og kveða bæði sparnað sinn og fjármuni vegna láns sem þau hefðu endurgreitt foreldrunum inni á þeim bankareikningi. Þau hafa á hinn bóginn hvorki lagt fram yfirlit yfir eigin bankareikninga né hafa þau sýnt fram á að þau eigi þá fjármuni sem liggja inni á bankareikningi foreldra kæranda A. Að mati kærunefndarinnar hafa kærendur því ekki sýnt fram á að þau hafi lagt fé til hliðar í greiðsluskjóli.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum