Hoppa yfir valmynd
28. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 97/2013

Fimmtudaginn 28. maí 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 21. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 1. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara. Greinargerðin barst með bréfi 4. júlí 2013. Athugasemdir bárust frá kærendum með tölvupósti 3. júlí 2013. Voru þær sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 6. ágúst 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 22. júlí 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1972 og 1978 og eru í sambúð. Þau búa ásamt þremur börnum sínum í eigin 96,3 fermetra íbúð að C götu nr. 46 í sveitarfélaginu D. Kærandi A er án atvinnu en kærandi B er öryrki. Til ráðstöfunar hafa kærendur 510.284 krónur á mánuði að meðtöldum barnalífeyri, barnabótum og umönnunargreiðslum.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt greiðsluyfirliti umboðsmanns skuldara eru 20.928.269 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til tekjulækkunar og atvinnuleysis. Einnig hafi öll þrjú börn þeirra verið greind með langtímasjúkdóma, tvö með einhverfu og eitt með ADHD.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. mars 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. janúar 2013 kom fram að samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. beri skuldara að leggja fyrir í greiðsluskjóli. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbindingar sem stofnað er til séu nauðsynlegar til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Kærendur hafi ekki lagt fyrir í greiðsluskjólinu og að auki hefðu þau stofnað til nýrra skulda á tímabilinu. Hefðu þau fengið 413.002 krónur að láni frá húsfélaginu C götu nr. 46 og skuldbundið sig til að greiða lánið til baka með vaxtalausum afborgunum frá maí til desember 2012. Hafi lánið verið tekið vegna nauðsynlegra viðgerða á sameign til að hindra frekari skemmdir á húsinu. Hafi umsjónarmaður með greiðsluaðlögunum samþykkt að veita kærendum heimild til að ráðstafa hluta af fjármunum sínum til uppgreiðslu á kröfunni þar sem um væri að ræða nauðsynleg útgjöld á greiðsluaðlögunartímabili. Síðar hafi komið í ljós að kærendur hafi ekki greitt af kröfunni þrátt fyrir að umsjónarmaður hafi veitt þeim ítrekaða fresti til að koma henni í skil. Auk þess hafi kærendur vanrækt greiðslu á nýjum lögveðskröfum að fjárhæð um 100.000 krónur og með því stofnað til nýrra skulda. Hafi umsjónarmaður metið það svo að ekki séu forsendur fyrir áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitunum.

Kærendur hafi hvorki upplýst um ástæður þess að þau hafi ekki lagt fyrir í greiðsluskjóli né hvers vegna ekki hafi verið staðið í skilum með kröfu húsfélagsins. Var því ekki hjá því komist að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Með ábyrgðarbréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 24. apríl 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Engin svör hafi borist við bréfinu frá kærendum þrátt fyrir ítrekaða fresti og áminningar.

Með bréfi til kærenda 6. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur mótmæla því að umönnunargreiðslur sem þau hafi fengið teljist til tekna enda eigi fötluð börn kærenda ekki að borga skuldir þeirra. Þá séu þetta greiðslur sem lækki frá ári til árs.

Að því er varði skuld við húsfélag greina kærendur frá því að kærandi A hafi verið boðaður á fund í húsfélaginu þar sem rætt hafi verið um að leita eftir tilboðum í viðgerð á þaki hússins. Hafi kærandi strax gert grein fyrir því að hann mætti ekki stofna til nýrra skulda þar sem hann væri í greiðsluskjóli. Aðrir íbúar hússins hafi fengið kæranda til að undirrita skjal sem hann hafi talið að væri heimild til að leita tilboða í verkið. Áður en hann hafi vitað hafi verið búið að þinglýsa skjalinu og krafa gerð um greiðslu skuldar vegna þakviðgerðar.

Kærandi A sé búinn að vera atvinnulaus í tvö og hálft ár. Kærandi B glími við veikindi sem séu meðal annars félagsfælni, veikindi vegna svartmyglusvepps í íbúð kærenda og álag sem þessu fylgi. Sé hún mjög illa farin bæði andlega og líkamlega en það gæti stafað af því að hún hafi eytt miklum tíma í eldhúsinu við matargerð og þrifnað. Þá séu börnin alltaf lasin.

Kærendur kveðast mjög ósátt við þá meðferð sem mál þeirra hafi fengið, bæði hjá umsjónarmanni og umboðsmanni skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. séu útskýrðar fyrir skuldurum þegar þeir leggi fram umsókn um greiðsluaðlögun. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið á heimasíðu embættisins. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 27. mars 2012 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Einnig hafi skyldurnar verið útskýrðar aftur og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og kærenda 23. apríl 2012. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim væri óheimilt að stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna þeirra þar til að því kæmi að gengið yrði til samninga við kröfuhafa.

Fyrir liggi að kærendur hafi óskað eftir greiðsluaðlögun 28. júní 2011 og hafi frestun greiðslna hafist þann dag. Greiðsluskjól kærenda hafi því staðið yfir í rúman 21 mánuð miðað við tímabilið frá 1. júlí 2011 til 31. mars 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. júlí 2011 til 31. mars 2013 að frádregnum skatti 7.249.342
Barnalífeyrir og umönnunargreiðslur 4.801.664
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 597.724
Samtals 12.648.730
Mánaðarlegar meðaltekjur 602.320
Framfærslukostnaður á mánuði 376.426
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 225.894
Samtals greiðslugeta í 21 mánuð 4.743.784

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 602.320 krónur í meðaltekjur á mánuði á 21 mánaðar tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur hafi notið greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 376.426 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við framfærslukostnað maímánaðar 2013 fyrir hjón með þrjú börn auk annars framfærslukostnaðar samkvæmt upplýsingum kærenda sjálfra. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 4.743.784 krónur á fyrrnefndu tímabili.

Komið hafi fram hjá kærendum að þau séu ósátt við að umönnunnargreiðslur séu taldar hluti af framfærslutekjum. Umönnunnargreiðslur kærenda nemi 174.353 krónum á mánuði. Í framlögðu bréfi frá félagsráðgjafa Tryggingastofnunar ríkisins sé handskrifaður texti þar sem segi að umönnunnargreiðslur séu greiðslur fyrir útlögðum kostnaði vegna barna og að greiðslurnar teljist ekki til hefðbundinna tekna eða starfslauna foreldra. Kærendum hafi ítrekað verið bent á að leggja fram kvittanir fyrir útlögðum kostnaði vegna barna sinna á tímabili greiðsluskjóls svo gera megi ráð fyrir hærri framfærslukostnaði og þar með minni sparnaði. Hafi kærendum verið leiðbeint um hvernig þau gætu nálgast yfirlit yfir þennan kostnað. Engin gögn hafi borist frá kærendum sem sýni fram á aukin útgjöld vegna framfærslu.

Við mat á greiðslugetu, og þar með þeirri fjárhæð sem kærendur hefðu átt að geta sparað á tímabili greiðsluskjóls, sé tekið mið af öllum tekjum og greiðslum til kærenda, sbr. 4. mgr. 4. gr. lge. Á móti sé tekið tillit til nauðsynlegs kostnaðar sem kærendur hafi orðið fyrir og sé umfram áætlaðan framfærslukostnað. Hafi ekki verið gerð grein fyrir þessum kostnaði sé ekki unnt að taka tillit til hans við útreikning sparnaðar. Jafnvel þótt ekki sé gert ráð fyrir umönnunnargreiðslum sem hluta framfærslukostnaðar hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 1.089.784 krónur í greiðsluskjóli. Kærendur hafi ekki sýnt fram á neinn sparnað á tímabilinu.

Við vinnslu málsins hafi komið í ljós að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda í greiðsluskjóli. Hafi þau fengið lán frá húsfélaginu C götu nr. 46 í desember 2011 vegna nauðsynlegra viðgerða á húseigninni. Kærendur hafi samið við húsfélagið um að greiða sinn hluta kostnaðarins, alls 413.000 krónur með átta jöfnum greiðslum á tímabilinu 1. maí 2012 til 1. desember 2012. Umsjónarmaður hafi samþykkt að veita kærendum heimild til að ráðstafa hluta af greiðslugetu sinni til uppgreiðslu á kröfunni. Síðar hafi komið í ljós að kærendur hafi ekki greitt af skuldinni og hafi þeim verið birt stefna vegna þessa í október 2012. Umsjónarmaður hafi veitt kærendum ítrekaðan frest til að koma kröfunni í skil svo unnt væri að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum. Það hafi ekki verið gert og meti umsjónarmaður það svo að ekki séu forsendur fyrir áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitunum.

Kærendur hafi hvorki veitt skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt til hliðar né hvers vegna þau hafi ekki staðið í skilum með fyrrnefndar greiðslur til húsfélagsins.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 18. janúar 2013 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 6. júní 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist annars vegar á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Hins vegar byggist ákvörðunin á því að kærendur hafi látið hjá líða að greiða nýjar lögveðskröfur og þannig stofnað til skulda.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 4.743.784 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 28. júní 2011 til 31. mars 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum er byggt á því að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 225.894 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi ekkert lagt til hliðar og að auki stofnað til skuldar á tímabilinu. Hafi engin gögn verið lögð fram þessu til skýringa en kærendur mótmæli því að umönnunargreiðslur sem þau hafi fengið teljist til tekna í skilningi 4. mgr. 4. gr. lge.

Kærendur mótmæla því að umönnunarbætur sem þau hafa fengið greiddar frá Tryggingastofnun ríkisins verði taldar til launa og annarra tekna. Þá verður að skilja málatilbúnað þeirra þannig að þau telji sig ekki hafa gert sér grein fyrir því að þau væru að takast á hendur nýja skuld vegna kostnaðar við þakviðgerð á vegum húsfélags á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum, gögnum frá Tryggingastofnun ríkisins og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur A 1.403.334
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 233.889
Nettótekjur B 943.742
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 157.290
Nettótekjur alls 2.347.076
Mánaðartekjur alls að meðaltali 391.179


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.041.382
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 170.115
Nettótekjur B 1.875.915
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 156.326
Nettótekjur alls 3.917.297
Mánaðartekjur alls að meðaltali 326.441


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. maí 2013: Fimm mánuðir
Nettótekjur A 831.270
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 166.254
Nettótekjur B 811.866
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 162.373
Nettótekjur alls 1.643.136
Mánaðartekjur alls að meðaltali 328.627


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 7.907.509
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 272.673

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda, bætur, barnalífeyri og umönnunargreiðslur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. maí 2013: 23 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 7.907.509
Bótagreiðslur júlí−des. 2011 300.365
Bótagreiðslur 2012 413.444
Umönnunargreiðslur og barnalífeyrir 5.108.418
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 13.729.736
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 596.945
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 376.426
Greiðslugeta kærenda á mánuði 220.519
Alls sparnaður í 23 mánuði í greiðsluskjóli x 220.519 5.071.938

 

Kærendur hafa ekki gefið skýringar á því hvers vegna þau hafa ekki lagt fyrir í greiðsluskjóli að öðru leyti en því að þau telja að umönnunargreiðslur skuli ekki teljast til launa.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er Tryggingastofnun heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi, allt að 96.978 krónur á mánuði og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Heimilt er að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna má við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna má við geðræna sjúkdóma. Samkvæmt 3. mgr. lagaákvæðisins metur Tryggingastofnun ríkisins þörf samkvæmt lagagreininni en í gögnum málsins kemur fram að umönnunargreiðslur til kærenda hafi numið 174.353 krónum á mánuði á árinu 2013.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna nr. 504/1997 með síðari breytingum, er heimilt að meta til hækkunar greiðslna ef um sannanleg tilfinnanleg útgjöld er að ræða til dæmis vegna ferða- eða dvalarkostnaðar vegna læknismeðferðar.

Á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að umönnunargreiðslur eru fjárhagsleg aðstoð til foreldra sem eiga börn sem glíma við fötlun eða alvarleg veikindi. Um er að ræða félagslega aðstoð sem veitt er þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar er orðinn umtalsverður og því tilfinnanlegur fyrir foreldra. Þegar sótt er um umönnunargreiðslur skal meðal annars gera grein fyrir útgjöldum vegna heilsuvanda og meðferðar barns. Við ákvörðun umönnunargreiðslu er meðal annars tekið mið af þeim útgjöldum sem fallið hafa til vegna barnsins. Virðist þannig vera gert ráð fyrir staðfestum útlögðum kostnaði í þeim greiðslum. Þetta hefur umboðsmaður skuldara hvorki staðreynt né rannsakað með fullnægjandi hætti. Eins og mál þetta liggur fyrir er því ekki hægt að leggja mat á það að hvaða marki umönnunargreiðslur ættu að teljast til tekna samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Þar með er ekki unnt að taka tillit til þeirra þegar reiknað er út hvað kærendur áttu að leggja til hliðar á tímabilinu.

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda, bætur og barnalífeyri en að frádregnum umönnunargreiðslum var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. maí 2013: 23 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 7.907.509
Bótagreiðslur júlí−des. 2011 300.365
Bótagreiðslur 2012 413.444
Barnalífeyrir samkvæmt áætlun TR 1.671.303
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 10.292.621
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 447.505
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 376.426
Greiðslugeta kærenda á mánuði 71.079
Alls sparnaður í 23 mánuði í greiðsluskjóli x 71.079 1.634.823

 

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu á umsóknareyðublaði, á vefsíðu embættis umboðsmanns skuldara og fylgiskjala sem þau fengu í hendur með ákvörðun umboðsmanns skuldara, þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli í a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Samkvæmt því hefðu kærendur að lágmarki átt að geta lagt til hliðar 1.634.823 krónur á tímabili greiðsluskjóls en þau hafa ekkert lagt fyrir.

Jafnframt byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda í greiðsluskjóli í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Af gögnum málsins, meðal annars fundargerðum húsfélags kærenda, verður ráðið að húsfélagið hafi ráðist í nauðsynlega þakviðgerð á tímabili greiðsluskjóls. Aðrir íbúar hússins greiddu hlut kærenda í viðgerðinni en kærendur skuldbundu sig til að greiða sinn hluta kostnaðarins, alls 413.002 krónur, með afborgunum á tímabilinu 1. maí til 1. desember 2012. Umsjónarmaður samþykkti að veita kærendum heimild til að ráðstafa hluta af sparnaði sínum með þessum hætti. Kærendur hafa hvorki greitt af skuldinni né lagt samsvarandi fjárhæð fyrir. Verður að telja þessa háttsemi kærenda brjóta gegn skyldum skuldara samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Fellst kærunefndin því á þá ályktun umboðsmanns skuldara að kærendur hafi á þennan hátt ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum