Hoppa yfir valmynd
21. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 63/2013

Fimmtudagur 21. maí 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 8. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. maí 2013 þar sem umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var synjað.

Með bréfi 14. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. maí 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 3. júní 2012 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 22. ágúst 2013. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1949 og 1954. Þau búa í eigin 173,3 fermetra einbýlishúsi að C götu nr. 47 sveitarfélaginu D. Kærandi A er rannsóknarmaður hjá X og kærandi B er sjúkraliði. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur þeirra eru 608.235 krónur að meðaltali.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika nokkur ár aftur í tímann. Þau hafi byggt sér hús í sveitarfélaginu E árið 1982 en það hafi ekki reynst góður tími sökum mikillar verðbólgu og verðtryggingar lánsfjár. Einnig hafi stór barnahópur haft áhrif. Kærendur kveðast oft hafa hlaupið undir bagga með uppkomnum börnum sínum með tilheyrandi kostnaði. Kærendur telja að sín mestu mistök hafi verið að flytja íbúðarlán sín frá Landsbankanum til Kaupþings.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kærenda 39.499.301 króna og falla þær allar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skulda var stofnað á árunum 2004 og 2005.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 20. nóvember 2012 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. maí 2013 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til e- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur fara fram á að embætti umboðsmanns skuldara endurskoði synjun á beiðni þeirra og niðurstöðuna og veiti þeim það skjól sem embættið eigi að stuðla að. Skilja verður þetta svo að kærendur krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveða kæru sína snúa að því að umboðsmaður skuldara hafi hafnað umsókn þeirra um greiðsluaðlögun og því skjóli sem það veiti þeim sem skuldurum. Þau skuldi verðtryggð lán sem allt eins sé líklegt að verði dæmd ólögmæt en beðið sé dóms þar að lútandi. Þegar niðurstaða sé komin í því máli geri þau ráð fyrir að eiga fyrir skuldum. Sé það mat kærenda að umboðsmaður skuldara eigi að láta skuldara njóta vafans í málum sem þessum. Þau telja líklegt að umhverfi skuldara breytist mjög ef gefin kosningaloforð standi.

Kærendur spyrja hvað umboðsmaður skuldara muni gera þegar í ljós komi að hann hafi hent fjölmörgum fjölskyldum út af heimilum sínum á röngum forsendum í stað þess að veita þeim skjól.

Kærendur bendi á 34. gr. lge. þar sem segi: „Ráðherra setur að fenginni umsögn umboðsmanns skuldara reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem m.a. skal kveða á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar.“ Þau viti að engin reglugerð hafi verið sett og spyrji eftir hvaða reglum embætti umboðsmanns skuldara vinni. Þau hafi það á tilfinningunni að huglægt mat sé lagt á hvert mál fyrir sig en það breytist frá einum starfsmanni embættisins til þess næsta og frá einum skjólstæðingi til þess næsta. Séu þessi vinnubrögð ekki líðandi og vilji þau að tekið sé á þessari brotalöm í starfseminni áður en dæmt verði í málinu þannig að unnið sé samkvæmt lögum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri honum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Að því er varði riftanlega ráðstöfun í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. bendi umboðsmaður á 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.) en þar sé fjallað um gjafagerninga. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segi að krefjast megi riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. gþl. teljist frestdagur vera sá dagur sem héraðsdómara berist beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða berist krafa um gjaldþrotaskipti svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum gþl. Samkvæmt þessu þyki rétt að líta svo á að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl. Frestdagur í máli kærenda sé samkvæmt því 20. nóvember 2012 þegar umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið móttekin hjá umboðsmanni skuldara.

Samkvæmt gögnum málsins hafi orðið eigendaskipti á bifreiðinni Z en F hafi keypt bifreiðina af kæranda B 19. október 2012. Síðasta afborgun á láni vegna bifreiðarinnar hafi verið 18. október sama ár. Embætti umboðsmanns skuldara hafi sent kærendum fyrirspurn vegna eigendaskiptanna. Í svari kærenda hafi komið fram að bifreiðin hefði verið seld fyrir 350.000 krónur og hefði andvirðið verið nýtt til að greiða upp skuldir. Uppgefið kaupverð sé töluvert lægra en matsverð bifreiðarinnar samkvæmt upplýsingum Bílgreinasambandsins en það sé 708.000 krónur. Af þeim sökum og þar sem engin gögn hafi fengist sem sýni að greiðsla hafi átt sér stað hafi verið talið að kærendur hefðu hugsanlega gert riftanlega ráðstöfun í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kærendum verið sent bréf 20. mars 2013. Þar hafi verið vísað til þessa og þeim tilkynnt um hugsanlega synjun á grundvelli e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í svari kærenda hafi þau greint frá því að bifreiðin hafi verið seld þar sem þau hafi skort lausafé til að gera við hana. Þau hafi ekki látið verðmeta bifreiðina en verið fegin að fá fyrir hana 350.000 krónur í peningum. Þau hafi engin gögn til að leggja fram þar sem þau hafi ekki gert sér grein fyrir að þau þyrftu hugsanlega að gera grein fyrir þessum viðskiptum.

Þrátt fyrir að fallist yrði á þá skýringu kærenda að 350.000 krónur hefði verið ásættanlegt verð fyrir bifreiðina verði að gera þá kröfu til þeirra að þau sýni fram á að þau hafi raunverulega fengið greiðslu fyrir hana. Það hafi þau ekki gert. Einnig sé til þess að líta að einungis einn mánuður hafi liðið frá sölu bifreiðarinnar og þar til kærendur sóttu um greiðsluaðlögun. Af þeim sökum sé mun mikilvægara að kærendur upplýsi um söluna með fullnægjandi hætti, sýni fram á raunverulegar greiðslur fyrir bifreiðina og að söluverð hafi verið eðlilegt. Þar sem engin gögn sýni fram á þetta sé það mat embættisins að kærendur hafi gert riftanlega ráðstöfun í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt gögnum málsins hafi greiðslufall orðið á lánum kærenda um mitt ár 2010 þrátt fyrir góða greiðslugetu þeirra. Samkvæmt skattframtali kærenda 2011 fyrir tekjuárið 2010 hafi eigna- og greiðslustaða þeirra verið eftirfarandi:

 

Tekjuár 2010
Eignir 23.766.326
Skuldir 35.245.877
Nettóeignastaða -11.479.551
   
Ráðstöfunartekjur á mánuði 572.909
Framfærslukostnaður* 211.895
Greiðslugeta 361.014
   
Mánaðarlegar afborganir** 229.000
Til greiðslu annarra skulda 132.014

*Framfærslukostnaður, annar kostnaður og rekstur einnar bifreiðar á mánuði.

**Íbúðarlán og tvö bílalán kærenda.

 

Ekki verði því annað séð en að kærendur hafi getað greitt mánaðarlegar afborganir íbúðarlána með tekjum sínum.

Með fyrrnefndu bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 20. mars 2013 hafi meðal annars verið vísað til ofangreinds og þeim tilkynnt um hugsanlega synjun á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Af skriflegu svari kærenda hafi mátt ráða að þau hafi ekki getað staðið skil á íbúðarlánum þar sem þau hafi stutt fjárhagslega við börn sín. Með bréfinu hafi fylgt yfirlit yfir bankareikning kæranda A frá 29. ágúst 2010 til 27. mars 2013 sem sýnt hafi margar úttektir af reikningnum og inn á reikninga barna kærenda alls að fjárhæð 1.141.400 krónur. Á þessum tíma hafi börn kærenda verið uppkomin en einnig beri að líta til þess að greiðslufall kærenda verði ekki rakið til ytri aðstæðna heldur ákvörðunar þeirra sjálfra um að nota fé sitt til annars en að leggja fyrir eða greiða skuldir.

Bendi því gögn málsins til þess að kærendur hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og þeim hafi verið unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Af framangreindu virtu og að teknu sérstöku tilliti til f- og e-liða 2. mgr. 6. gr. lge. sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt hafi verið að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar byggist á e- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Regla e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vísar um efni sitt til riftunarreglna gjaldþrotaréttar en þær eru í XX. kafla gþl. Varða þau sjónarmið sem þar búa að baki jafnræði kröfuhafa en eitt af þeim skilyrðum sem eru fyrir riftun er að möguleiki kröfuhafa á fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þarf hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi (hér kröfuhöfum kærenda) til tjóns.

Að því er varðar mál þetta kemur 131. gr. gþl. til skoðunar, en í henni koma fram reglur um riftun gjafagerninga. Undir hugtakið gjafagerning falla einnig svokallaðir örlætisgerningar, þ.e. þegar verulegur munur er á því verðmæti sem afhent er og endurgjaldinu sem skuldarinn fær. Riftunar má krefjast á ráðstöfunum sem gerðar voru allt að 24 mánuðum fyrir frestdag þegar um er að ræða menn nákomna skuldaranum.

Í 131. gr. gþl. er að finna takmörkun á því að menn gefi verðmæti í sinni eigu ef gjöf er að einhverju leyti eða öllu á kostnað kröfuhafa gefandans. Meðal þeirra skilyrða sem þurfa að vera uppfyllt er að gjöfin skerði eignir skuldarans og auðgi móttakandann. Einnig skiptir máli á hvaða tíma ráðstöfunin er gerð miðað við frestdag. Í þessu tilviki verður að miða við að frestdagur sé sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram.

Í málinu liggur fyrir að frá árinu 2005 var kærandi B umráðamaður bifreiðarinnar Z, sem er Toyota Yaris árgerð 2005, á grundvelli bílasamnings við Lýsingu hf. Samningurinn var greiddur upp 18. október 2012 og afsalaði Lýsing hf. bifreiðinni til kæranda B sama dag. Daginn eftir, 19. október 2012, afsalaði þessi kærandi bifreiðinni til F. Hún kveðst hafa fengið fyrir hana 350.000 krónur í peningum en engin gögn styðja þá fullyrðingu. Kærendur óskuðu greiðsluaðlögunar einum mánuði síðar eða 20. nóvember 2012. Í svari kæranda B við fyrirspurn umboðsmanns skuldara um hvernig kaupverðinu var ráðstafað kom fram að hún hefði fengið sér reiðhjól og farið í aðgerð. Þá greindi hún frá því að bifreiðin hefði verið seld þar sem kærendur skorti lausafé til að geta staðið straum af nauðsynlegum viðgerðum. Bifreiðin hefði ekki verið verðmetin við söluna en kærendur hafi verið fegin að fá fyrir hana 350.000 krónur í peningum.

Þótt umboðsmanni skuldara beri skylda til að afla frekari upplýsinga eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram samkvæmt rannsóknarskyldu 5. gr. lge. verður einnig að líta til þess að skuldara ber að taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við vinnslu máls. Með vísan til þessa telur kærunefndin að kærendum hafi borið að sýna fram á að þau hafi fengið eðlilegt markaðsverð fyrir bifreiðina og að greiðsla fyrir hana hafi í raun og veru verið innt af hendi. Það hafa þau ekki gert þrátt fyrir beiðni umboðsmanns skuldara þar um og telur kærunefndin því að ráðstöfun á veðbandalausri bifreiðinni hafi verið gjafagerningur og kröfuhöfum kærenda til tjóns. Í ljósi alls þessa telur kærunefndin að með því að afsala nefndri bifreið hafi kærendur gert ráðstöfun sem riftanleg væri við gjaldþrotaskipti í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að kærendur hafi látið hjá líða að greiða mánaðarlegar afborganir íbúðarlána á árinu 2010 þótt greiðslugeta þeirra væri næg. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda alls 572.909 krónur að meðaltali á árinu 2010. Mánaðarlegur framfærslukostnaður þeirra samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara var 211.895 krónur og greiðslugeta þeirra því 361.013 krónur á mánuði.

Af gögnum málsins má sjá að kærendur skilmálabreyttu íbúðarlánum sínum ítrekað. Voru þannig gerðar skilmálabreytingar við tvö af þremur íbúðarlánum þeirra árin 2008, 2009 og 2010. Þriðja íbúðarláninu var skilmálabreytt árið 2009. Þannig liggur fyrir að vanskil kærenda voru viðvarandi á þessu tímabili. Í gögnum málsins er þó ekki að finna upplýsingar um greiðslubyrði allra lána kærenda árið 2010. Af þeim sökum skortir forsendur til að meta hvaða fjárhæð kærendur höfðu aflögu þegar þau höfðu greitt af íbúðarlánum sínum. Samkvæmt þessu getur kærunefndin ekki staðfest þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að framganga kærenda hafi verið í andstöðu við f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Hins vegar telur kærunefndin að öllu ofangreindu virtu að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum