Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 68/2013

Þriðjudaginn 28. apríl 2015


A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 17. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 25. mars 2013 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 30. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 25. júní 2013. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. júlí 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 22. ágúst 2013. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1961. Hann er einhleypur og býr í 72 fermetra leiguíbúð að B götu nr. 1 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er örorkulífeyrisþegi. Hann fær tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins og greiðslustofu lífeyrissjóða. Mánaðarlegar nettótekjur hans eru 187.067 krónur en að auki fær hann húsaleigubætur að fjárhæð 18.000 krónur á mánuði.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 18.101.002 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) nema skuld að fjárhæð 31.771 króna.

Ástæður skuldasöfnunar eru að mati kæranda verðfall fasteigna og kaup hans á sumarbústað árið 2009.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 6. janúar 2012 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. mars 2013 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst vera 75% öryrki og verði óvinnufær um alla framtíð að mati lækna.

Að því er varði bílalán hjá Lýsingu hafi kærandi greitt af því þar til hann hafi selt bílinn 1. maí 2011. Lánið hafi verið í skilum við eigendaskiptin en kaupandi hafi ekki fengið að yfirtaka lánið.

Kærandi mótmælir því að lán vegna kaupa hans á sumarbústað teljist fjárhagsleg áhætta. Hafi röð tilviljana og jafnvel svika orðið til þess að hann hafi farið illa út úr kaupunum. Kærandi telji að kaupin hafi verið með öllu áhættulaus og hafi átt að koma honum úr skuldavandanum. Þess í stað hafi hann tapað öllu.

 

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2010 vegna tekjuársins 2009 hafi fjárhagur kæranda verið eftirfarandi í krónum:

 

Tekjuár 2009
Mánaðartekjur 211.681
Framfærslukostnaður á mánuði* 89.533
Húsaleiga 32.000
Greiðslubyrði bílaláns frá 28. jan. 2009 42.000
Yfirdráttarskuld 8.070.734

*Áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara. Miðað er við framfærslukostnað einstaklings.

 

Á árinu 2009 hafi kærandi þurft að greiða meðlag með tveimur börnum sínum til viðbótar við ofangreind útgjöld. Fyrrgreind yfirdráttarskuld kæranda sé að hans sögn vegna kaupa hans á sumarbústað árið 2009. Samkvæmt ofangreindu sé ekki að sjá að kærandi hafi verið fær um að standa við yfirdráttarskuldina þegar hann hafi stofnað til hennar og um hafi verið að ræða fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma, sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda ábyrgðarbréf í ljósi þessa þar sem honum hafi verið gefinn kostur á því að leggja fram frekari gögn og láta álit sitt í ljós. Kærandi hafi ekki vitjað bréfsins. Hafi honum þá verið sent bréfið með tölvupósti. Kærandi hafi svarað tölvupóstinum en í svari hans hafi komið fram að röð tilviljana og jafnvel svika hafi leitt til þess að nettó eign hans í sumarbústaðnum sé engin. Því geti skuld vegna bústaðarins ekki talist fjárhagsleg áhætta. Kærandi telji áhvílandi lán á sumarbústaðnum sér óviðkomandi þar sem veðlán þriðja aðila hafi verið færð inn á eign hans í bústaðnum. Honum hafi ekki tekist að fá veðunum aflétt og undirbúi málssókn vegna þessa.

Þrátt fyrir þetta og þá mögulegu óvissu sem ríki um gildi umræddrar veðsetningar sé það mat embættis umboðsmanns skuldara að kærandi hafi hagað fjármálum sínum með verulega ámælisverðum hætti, greinilega verið ófær um að standa við skuldbindinguna og tekið fjárhagslega áhættu í skilningi b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. með því að takast á hendur skuld vegna sumarbústaðakaupa á þeim tíma er tekjur hans hafi verið lágar og eignir óverulegar.

Með hliðsjón af þessu, eðli og fjárhæðum skulda kæranda og með vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge. sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b- og c- liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtölum var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2008 til 2010 í krónum:

 

  2008 2009 2010
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 176.642 211.681 174.946
Eignir alls 1.345 6.308.941 6.183.975
· Sumarhús 0 5.507.500 5.392.500
· Bifreið 0 100.000 90.000
· Bifhjól 0 700.000 700.000
· Bankainnstæður 1.345 1.441 1.475
Skuldir 0 19.513.177 14.985.163
Nettó eignastaða 1.345 -13.204.236 -8.801.188

 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

 

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Innheimtustofnun sveitarfélaga 1996 Meðlag 1.631.680 1.790.386 1996
Lýsing 2009 Bílasamningur 2.064.092 1.935.967 2011
Landsbankinn 2009 Yfirdráttur 8.869.357 11.559.970 2010
Íslandsbanki 2009 Yfirdráttur   1.579.348  
Íslandsbanki   Greiðslukort   432.488  
Tollstjóri 2009-2011 Opinber gjöld 83.433 99.186 2009-2011
Tryggingamiðstöðin 2010-2011 Tryggingar 387.501 703.657 2010-2011
    Alls 13.036.063 18.101.002  

 

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c- liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Í greinargerð kæranda til umboðsmanns skuldara kemur fram að hann hafi keypt ósamsettan sumarbústað fyrir 5.000.000 króna í ágúst 2009. Hafi hann látið reisa bústaðinn á leigulandi. Hann hafi greitt 1.500.000 króna við kaupsamning og fjármagnað það með greiðslukorti og yfirdráttarláni en einnig hafi hann tekið yfirdráttarlán til að reisa bústaðinn. Eftirstöðvarnar, 3.500.000 krónur, hafi hann átt að greiða í júní 2010. Kærandi kveðst hafa ætlað að taka lán út á bústaðinn þegar hann yrði fokheldur. Gögn málsins sýna að á árinu 2009 tók kærandi lán að fjárhæð tæplega 11.000.000 króna. Þar af var yfirdráttur tæpar 8.900.000 króna en hann var með gjalddaga árið 2010. Þessar skuldir komu til viðbótar við meðlagsskuldir kæranda á þeim tíma en af gögnum málsins verður ráðið að kærandi skuldar meðlag frá árinu 1999. Á þessu sama ári hafði kærandi að meðaltali 211.681 krónu til ráðstöfunar á mánuði. Framfærslukostnaður kæranda á mánuði miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara var 89.533 krónur fyrir utan húsaleigu. Þannig var greiðslugeta hans 122.148 krónur eftir greiðslu framfærslukostnaðar. Átti kærandi þá eftir að greiða af bílaláni en mánaðarleg greiðslubyrði þess var 42.313 krónur. Þannig stóðu eftir 79.835 krónur til greiðslu húsaleigu og meðlagsskuldar. Ekki liggja fyrir gögn um fjárhæð húsaleigu en samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara nam hún um 32.000 krónum á mánuði. Sú fjárhæð er óumdeild og verður því við hana miðað við úrlausn málsins. Samkvæmt þessu átti kærandi því eftir 47.835 krónur á mánuði til að greiða af meðlagsskuld sem nam alls 2.321.106 krónum í júlí 2009. Einnig átti hann eftir að standa undir vaxtakostnaði við yfirdráttarlán.

Að mati kærunefndarinnar gáfu hvorki tekjur kæranda né eignastaða honum tilefni til að ætla að hann gæti staðið undir greiðslu yfirdráttarlánsins. Í ofangreindu ljósi telur kærunefndin að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. kemur fram að séu þær aðstæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. fyrir hendi geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika er hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það mat kærunefndarinnar að fjárhagsstaða kæranda hafi verið með þeim hætti að með því að takast á hendur fyrrnefndar skuldbindingar á árinu 2009 hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma. Er þá sérstaklega horft til þess að kærandi tók yfirdráttarlán á árinu 2009 að eigin sögn til þess að byggja sumarhús til endursölu. Verður að líta svo á að kærandi hafi gert ráð fyrir að greiða yfirdráttarlánið með hagnaði sem kynni að verða af sölu sumarhússins. Kærunefndin telur samkvæmt þessu að með töku nefndrar yfirdráttarskuldar hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum