Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2013

Þriðjudaginn 21. apríl 2015

 

 A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 1. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. febrúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 19. mars 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. mars 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 25. mars 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru hjón fædd 1962 og 1964. Þau búa í 176,2 fermetra eigin húsnæði að C götu nr. 55 í sveitarfélaginu D. Kærendur eiga alls sex börn og þar af eru þrjú uppkomin. Fimm þeirra búa hjá kærendum. Eitt uppkomið barn kærenda er fjölfatlað og býr á sambýli en gistir reglulega á heimili þeirra.

Kærandi B starfar við umönnun og kærandi A starfar sem bifvélavirki. Tekjur kærenda eftir greiðslu skatta eru samtals 557.418 krónur á mánuði. Að auki fá þau barnabætur sem nema 23.398 krónum á mánuði.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 49.608.074 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga 101/2010 (lge.). Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árin 2005-2009.

Kærendur telja greiðsluerfiðleika sína að rekja til hækkunar veðlána, aukins kostnaðar við framfærslu og stöðnunar launakjara.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 19. apríl 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. apríl 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 4. október 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því væri það mat hans að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að á fundi með kærendum 1. ágúst 2012 hafi verið farið yfir helstu atriði greiðsluaðlögunar og gögn kærenda. Á fundinum hafi umsjónarmaður óskað eftir upplýsingum um hvort og þá hve mikið kærendum hefði tekist að leggja til hliðar af fjármunum í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur hafi greint frá því að þeim hafi ekki verið ljóst að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar fjármuni. Aðspurð hafi kærendur upplýst að þau hafi lagt 600.000 til 800.000 krónur í viðhald á fasteign þeirra. Kærendur hafi svo upplýst 26. september 2012 að þau hefðu lagt til hliðar 300.000 krónur og 1. október 2012 hafi kærendur framvísað reikningum og kvittunum að fjárhæð 257.968 krónur vegna viðgerða á fasteign þeirra. Í bréfi umsjónarmanns kemur einnig fram að kærendur hafi verið í greiðsluskjóli frá 19. apríl 2011 og hafi greiðslugeta þeirra verið um 90.000 krónur á mánuði frá þeim tíma. Samkvæmt því hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir um 1.500.000 krónur í greiðsluskjóli. Kærendur hafi aðeins sýnt fram á gögn til staðfestingar á kostnaði að fjárhæð 257.968 krónur auk þess sem þau hafi lagt til hliðar um 300.000 krónur.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 15. október 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur höfðu samband við embætti umboðsmanns skuldara símleiðis 22. október 2012 og sama dag barst embættinu tölvupóstur þar sem fram koma að þau vildu leggja fram frekari kvittanir vegna fjárútláta. Jafnframt kom fram að kærendur hefðu lagt til hliðar 500.000 krónur. Í kjölfarið lögðu kærendur fram kvittanir. Umboðsmaður skuldara hafði þá fengið kvittanir fyrir fjárútlánum kærenda sem námu 333.080 krónum. Embættið óskaði eftir upplýsingum um sparnað kærenda með tölvupósti 1. febrúar 2013. Þann 4. febrúar 2013 upplýstu kærendur að sparnaður þeirra næmi 650.000 krónum en hann væri ekki inn á bankareikningum þeirra.

Með bréfi til kærenda 15. febrúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveðast hafa keypt fasteign árið 2006 og hafi veðhlutfall verið undir 80%. Veðlán hafi hækkað og hafi kærendur ekki getað staðið í skilum með áhvílandi lán. Kærendur hafi fengið greiðsluaðlögun hjá Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2009. Þau hafi verið í greiðslustöðvun í þrjú ár og þegar veðlán komu úr frystingu hafi þau verið reiknuð upp að fullu og rúmlega það. Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar hjá embætti umboðsmanns skuldara 19. apríl 2011 og farið í greiðsluskjól. Ári seinna eða 3. apríl 2012 hafi umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verið samþykkt. Í júní eða júlí 2012 hafi verið haft samband við kærendur og spurt hvernig gengi að safna fé án þess að þau fengju frekari skýringar. Á fundi í ágúst 2012 hafi kærendum verið tilkynnt að sennilegast yrði heimild til greiðsluaðlögunar felld niður þar sem þau hefðu ekki lagt fyrir. Kærendur kveðast ekki hafa haft hugmynd um að þau ættu að leggja fyrir fjármuni fyrr en þá. Þau hefðu örugglega gert það ef þau hefðu vitað það.

Kærendur vísa til þess að umboðsmaður skuldara telji framfærslu kærenda og barna þeirra vera um 430.000 krónur á mánuði. Kærendur benda á að „allar tölur annarsstaðar [þ.e. önnur framfærsluviðmið]“ geri ráð fyrir um 530.000 krónum til 655.000 krónum á mánuði.

Kærendur kvarta meðal annars undan löngum málsmeðferðartíma og ósanngjörnum útreikningum á framfærsluviðmiðum. Með kæru lögðu kærendur fram útreikninga á framfærslu sinni samkvæmt framfærsluviðmiðum Velferðarráðuneytisins. Samkvæmt þeim væri framfærsla þriggja fullorðinna og þriggja barna 655.098 krónur á mánuði.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Upplýsingar um skyldur umsækjenda um greiðsluaðlögun sem nutu frestunar greiðslna hjá umboðsmanni skuldara hafi verið á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 3. apríl 2012 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 19. apríl 2011 og hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Einnig hafi skyldur skuldara tekið gildi á þeim degi. Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 21 mánuð en miðað sé við tímabilið frá 1. maí 2011 til 31. janúar 2013.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur frá byrjun maí 2011 og út janúarmánuð 2013 í krónum:

 

Launatekjur 1. maí 2011 til 31. janúar 2013 að frádregnum skatti 11.135.967
Vaxtabætur, barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 1.099.352
Barnabætur 2012 229.114
Samtals 12.464.163
Mánaðarlegar meðaltekjur 593.532
Framfærslukostnaður á mánuði 429.761
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 163.771
Samtals greiðslugeta í 21 mánuð 3.439.191

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 593.532 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 429.761 króna á mánuði á meðan þau nutu greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað febrúarmánaðar 2013 fyrir hjón og framfærslu þriggja barna. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 3.439.191 krónu á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 163.771 krónu á mánuði í 21 mánuð.

Að sögn kærenda höfðu þau lagt til hliðar 650.000 krónur 3. febrúar 2013. Þrátt fyrir að kærendur hafi lagt til hliðar umrædda fjárhæð þá skýri hún aðeins að hluta skort á hjálögðu fé sem kærendum hafi átt að vera kleift að leggja til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Einnig verði að telja að skýringar kærenda vegna viðhalds og viðgerðar á fasteign þeirra, samtals að fjárhæð 330.080 krónur, skýri ekki vöntun á sparnaði

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og upplýst þau um skyldur þeirra við greiðsluaðlögunarumleitanir þegar sótt var um heimild til greiðsluaðlögunar 4. apríl 2011. Í kæru kemur fram að kærendum hafi ekki verið ljóst að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar fjármuni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. fyrr en á fundi með umsjónarmanni í ágúst 2012.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Með setningu laga nr. 128/2010 15. október 2010 tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal  var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þurfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimils og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðsla stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum sem voru í greiðsluskjóli bréf 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunarumleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslu sinni eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint í umsóknareyðblaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is

Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. apríl 2012 þar sem kærendum var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir framfærslu tiltekin 217.303 krónur.

Kærunefndin telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningu sem send var kærendum á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun. Var um að ræða útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefst frá því að umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin þegar frestun greiðslna hefst. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 19. apríl 2011.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 4. október 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Taldi hann því rétt að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 15. febrúar 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 3.439.191 krónu frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. maí 2011 til 31. janúar 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 163.771 króna á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi lagt fram skýringar vegna kostnaðar í greiðsluskjóli, samtals að fjárhæð 333.080 krónur, auk þess sem þau segist hafa lagt 650.000 krónur inn á bankareikning.

Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem framfærslukostnaður þeirra sé hærri en viðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Þá kveðast kærendur ekki hafa verið upplýst um skyldu þeirra til að leggja til hliðar fjármuni í greiðsluskjóli fyrr en á fundi með umsjónarmanni í ágúst 2012 en þá höfðu kærendur verið í greiðsluskjóli í samtals 14 mánuði.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. maí 2011 til 31. desember 2011: Átta mánuðir
Nettótekjur B 1.107.601
Nettó mánaðartekjur Bað meðaltali 138.450
Nettótekjur A 2.986.592
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 373.324
Nettótekjur alls 4.094.193
Mánaðartekjur alls að meðaltali 511.774

 

Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur B 1.886.298
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 157.192
Nettótekjur A 4.771.354
Nettó mánaðartekjur Aað meðaltali 397.613
Nettótekjur alls 6.657.652
Mánaðartekjur alls að meðaltali 554.804

 

Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. janúar 2013: Einn mánuður
Nettótekjur B 158.682
Nettótekjur A 383.852
Nettótekjur alls 542.534

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. maí 2011 til 31. janúar 2013: 21 mánuður
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.751.845
Bótagreiðslur 1.328.466
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 12.080.311
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 575.253
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 429.761
Greiðslugeta kærenda á mánuði 145.492
Alls sparnaður í 21 mánuð í greiðsluskjóli x 145.492 3.055.330

 

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur gefið skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 333.080 krónur. Er það í samræmi við fyrirliggjandi gögn og verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Kærendur hafa ekki sýnt fram á 650.000 króna inneign á bankareikningi og er því ekki unnt að taka tillit til þess.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að teknu tilliti til óvæntra útgjalda að fjárhæð 333.080 krónur hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 2.722.250 krónur á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan þau nutu greiðsluskjóls.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum