Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 51/2013

Fimmtudaginn 16. apríl 2015


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 26. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. mars 2013 þar sem heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana var felld niður.

Með bréfi 9. apríl 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. maí 2013. Greinargerð umboðsmanns var send kærendum með bréfi 8. maí 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina.

Greinargerð kærenda barst 1. október 2013. Var greinargerðin send umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 4. október 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Engar frekari athugasemdir bárust.


I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1966 og 1968. Þau búa ásamt þremur börnum sínum í eigin húsnæði að C götu nr. 7 í sveitarfélaginu D. Að sögn kærenda rak kærandi B verktakafyrirtæki ásamt bróður sínum frá árinu 1992 til loka árs 2008 en hefur verið skráður atvinnulaus frá árinu 2010. Hann fær atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Kærandi A rak tískuvöruverslun frá 2001 til ársins 2010 en hefur verið skráð atvinnulaus frá árinu 2010 og fær hún endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Heildarskuldir kærenda nema 68.735.242 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara auk ábyrgðarskuldbindinga að fjárhæð 9.152.468 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2006 þegar kærendur festu kaup á fasteign sinni að C götu nr. 7 í sveitarfélaginu D. Nemur skuld kærenda vegna fasteignarinnar 60.920.350 krónum. Aðrar skuldir eru einkum vegna atvinnurekstrar kæranda A.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. apríl 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum þeirra. Umsjónarmaður hóf vinnu við drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunar en lauk ekki við frumvarpið þar sem í ljós kom að kærendur lögðust eindregið gegn sölu fasteignar sinnar en að mati umsjónarmanns var sala hennar nauðsynleg. Með bréfi 11. október 2012 tilkynnti umsjónarmaður til umboðsmanns skuldara að þar sem kærendur hefðu lagst gegn sölu fasteignar samkvæmt ákvæði 1. mgr. 13. gr. lge. teldi hann rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Umboðsmaður skuldara sendi kærendum því ábyrgðarbréf 8. nóvember 2012, þar sem þeim var tilkynnt um hugsanlega niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana og þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn í málinu. Svar barst frá kærendum með bréfi 11. desember 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. mars 2013 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda felldar niður.


II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera kröfu um að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar að nýju.

Krafan er byggð á því að enn ríki óvissa um greiðsluskyldu þeirra vegna veðlána er hvíli á fasteign þeirra að C götu nr. 7 í sveitarfélaginu D og því sé óvíst hvort þau muni ráða við afborganir eftir að endurútreikningi lánanna verði lokið. Vísa kærendur til þess að enn séu rekin mál fyrir dómstólum þar sem tekið sé á óvissuatriðum vegna gengistryggðra lána og lána í erlendri mynt. Á meðan sé ekki mögulegt að slá því föstu hverjar skuldbindingar þeirra séu vegna fasteignarinnar eða hvort greiðslugeta þeirra nægi til að standa undir þeim. Þá hafi kærendur gert grein fyrir því að tekjur þeirra séu tímabundið óvissar vegna eigin rekstrar og því þurfi þau fyrst og fremst á tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna að halda, en takmarkað hafi verið unnið að því meðan á greiðsluaðlögun stóð.

Kærendur telja að í greiðsluaðlögunarferlinu hefði átt að leita samninga við veðhafa í fasteigninni, bæði um endurútreikning lána og þær leiðir sem hefðu getað gert þeim kleift að búa áfram í eigninni, en þessu hafi ekki verið sinnt. Þá byggja kærendur á því að greiðsluvanda þeirra megi einkum rekja til ofreiknings áhvílandi veðlána vegna ólöglegra gengisviðmiðana og því hafi ekki verið um offjárfestingu að ræða á sínum tíma. Hafi kærendur enda haft ágætar tekjur í upphafi og átt vænan eignarhlut, sem þau hafi nú tapað.

Kærendur leggja megináherslu á að þeim sé með greiðsluaðlögun gert mögulegt að halda íbúðarhúsnæði sínu, að minnsta kosti tímabundið, þar sem þau glími við tímabundna tekjuskerðingu og séu með barn á grunnskólaaldri sem þau vilji gera kleift að ljúka skólagöngu í sama skóla. Missi kærendur fasteignina sé líklegt að þau þurfi að flytja úr hverfinu, sem muni raska skólagöngu og persónulegum högum barnsins að óþörfu. Þá geti kærendur enda ekki staðið undir leigugreiðslum á almennum markaði við óbreyttar aðstæður þar sem lægri mánaðargreiðslur en þau fái að greiða í greiðsluaðlögun sé ekki að finna á almennum leigumarkaði.

Kærendur hefðu viljað að umsjónarmaður hefði fyrir þeirra hafi hönd farið fram á leiðréttingu á útreikningi lánsins hjá kröfuhafa og leitað eftir afstöðu hans til þess að kærendur fengju að halda eigninni, eða gefa kærendum svigrúm til þess að gera það sjálf. Umsjónarmaður hafi ekki orðið við því heldur hafi hann tekið einhliða ákvörðun um sölu eignarinnar án þess að leita eftir afstöðu kröfuhafa og þar með hætt vinnslu í máli kærenda. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja þær eignir skuldara sem umsjónarmaðurinn telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í lögunum sé kveðið á um að umsjónarmaður geti leitað afstöðu lánardrottna áður en hann tekur ákvörðun um slíka sölu eigna. Engir samningar við kröfuhafa hafi hins vegar verið reyndir af hálfu umsjónarmanns heldur hafi hann ákveðið einhliða að kærendur skyldu selja eignina.

Að því er varðar stærð á fasteign kærenda komi fram hjá umboðsmani skuldara að fasteignin að C götu nr. 7 sé skráð átta herbergja. Samkvæmt teikningum séu fjögur svefnherbergi í eigninni, þ.e. sá fjöldi herbergja er hæfi fjölskyldunni, hjónum með þrjú börn. Kærendur taka fram að fasteignin sé 280,1 fermetrar að stærð en þar af sé bifreiðageymsla rúmir 50 fermetrar.

Kærendur séu nú að byggja upp nýtt fyrirtæki sem veita muni þeim báðum vinnu og góðar tekjur. Kærendur vonist til að fyrirtækið verði komið á skrið árið 2015 og þá muni kærendur geta hafið eðlilegar afborganir af lánum sínum að nýju.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska eftir því við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður, sbr. 15. gr. lge.  

Í sérstökum athugasemdum við 13. gr. frumvarps til lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar skuldara samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfi, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt er með sölu fasteignar, þyki honum ástæða til.

Í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. segi að haldi skuldari eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíli á skuli hann greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum, sem séu  innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Segir enn fremur að fastar mánaðargreiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður sé umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu, en þó aldrei lægri en 60% af hæfilegu leiguverði fyrir sambærilega fasteign. Ljóst sé að slík ráðstöfun yrði aðeins til örfárra mánaða, með fyrirvara um fyrirsjáanlega hækkun á tekjum kærenda.

Að mati embættis umboðsmanns skuldara þyki liggja ljóst fyrir að kærendum hafi verið gerð fullnægjandi grein fyrir þýðingu 13. gr. lge. og þeim skilyrðum sem þurfi að vera fyrir hendi varðandi eignarhald á fasteign í greiðsluaðlögunarumleitunum.

Þá liggi fyrir að stærð fasteignarinnar að C götu nr. 7 sé 280,1 fermetrar og nemi fasteignamat hennar 57.600.000 krónum. Fasteignin sé skráð átta herbergja. Að mati umboðsmanns skuldara verði að ætla að umrætt íbúðarhúsnæði hljóti því að vera umfram þá stærð sem nauðsynleg sé þörfum kærenda, þ.e. hjóna með þrjú börn, sérstaklega að teknu tilliti til verðmætis fasteignarinnar.

Ljóst þyki af gögnum málsins og þeim upplýsingum er fyrir liggi um tekjur kærenda að núverandi tekjur þeirra dugi ekki til að greiða af fasteignaveðlánum þeim er á fasteigninni hvíli innan matsverðs, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns sé greiðslugeta þeirra 115.428 krónur. Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara, miðað við tekjur kærenda síðustu mánuði og framfærsluviðmið embættisins, sé greiðslugeta þeirra 21.425 krónur á mánuði.

Kærendur hafi ekki sýnt fram á fyrirsjáanlegar breytingar á reglulegum tekjum sínum þótt vonir þeirra standi til þess að rekstur þeirra taki brátt við sér. Þrátt fyrir það hafi kærendur lagst gegn ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignar þeirra.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að ákvörðunin verði staðfest.


IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda er byggð á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Ef umsjónarmanni þykir ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin. Framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara, í samræmi við 5. mgr. 13. gr. lge., að greiðsluaðlögunar­umleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunar­umleitana getur skuldari kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.

Í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils þykir rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt er, svo sem fram kemur í athugasemdum við 13. gr. lge. í frumvarpi til laganna. Í 13. gr. laganna er umsjónarmanni veitt heimild til þess, að vel athuguðu máli, að krefja skuldara um að afhenda til sölu þær eignir sem umsjónarmaður telur af sanngirnisástæðum, með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum, að skuldari geti verið án.

Í athugasemdum við 13. gr. í frumvarpi til lge. segir að við mat á því hvort íbúð skuldara skuli seld skuli umsjónarmaður meðal annars líta til þess að hve miklu leyti íbúðin sé veðsett. Við þær aðstæður þar sem veðskuldir eru undir matsverði íbúðarinnar megi ætla að til álita komi að íbúðin verði seld, að því gefnu að tryggt sé að söluandvirðinu, að frádreginni greiðslu veðskulda, megi ráðstafa bæði til kaupa eða leigu á nýrri íbúð fyrir skuldara og til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Litið skal í þessu sambandi til fjölskylduhaga skuldara.

Skuldari getur hins vegar verið í þeirri aðstöðu að íbúðarhúsnæði hans sé veðsett fyrir fullu verði eða jafnvel hærri fjárhæð. Undir þeim kringumstæðum hafa lánardrottnar almennt engan hag af því að húsnæðið sé selt og skal því almennt ekki gera ráð fyrir sölu þeirrar íbúðar. Þó skal litið til þess hvort íbúðarhúsnæðið sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfir auk þess sem miklar líkur þurfa að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur.

Samkvæmt skattframtali kærenda 2012 vegna tekjuársins 2011 var fasteign þeirra metin á 52.650.000 krónur á sama tíma og veðskuld þeirra við Frjálsa Fjárfestingabankann hf. stóð í 60.920.350 krónum. Er því ljóst að fasteignin var á þeim tíma yfirveðsett. Fjölskylda kærenda er fimm manna, þ.e. þau hjón og þrjú börn þeirra, þar af er elsta dóttir kærenda fædd árið 1992 og því ekki á framfæri kærenda samkvæmt lögum. Um 280 fermetra einbýlishús er að ræða. Telja verður að svo stór eign sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem kærendum og fjölskyldu þeirra hæfir, auk þess sem telja verður mikinn vafa leika á því hvort kærendur muni geta greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur, en kærendur hafa bæði verið atvinnulaus frá árinu 2010 svo sem fram hefur komið.

Í a-lið 1. mgr. 21. lge. segir enn fremur að haldi skuldari eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíli á skuli hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum. Slíkar fastar mánaðargreiðslur mega ekki nema lægri fjárhæð en sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu.

Í máli þessu er ekki  deilt um fjárhæð ráðstöfunartekna kærenda en gengið er út frá því að þau hafi að jafnaði 420.338 krónur í tekjur á mánuði, svo sem fram kemur í greiðsluáætlun þeirri er hin kærða ákvörðun byggist á. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns með greiðsluaðlögunarumleitunum er greiðslugeta kærenda 115.428 krónur á mánuði en engir útreikningar eða gögn liggja fyrir í málinu til stuðnings þeim útreikningum. Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara sem byggðir eru á fyrirliggjandi skattframtölum og framburði kærenda og framfærsluviðmiði embættisins er greiðslugeta kærenda 21.425 krónur á mánuði.

Samkvæmt upplýsingum sem umsjónarmaður aflaði frá kröfuhafa er mánaðarleg greiðslubyrði af veðkröfum er hvíla á fasteigninni um 400.000 krónur. Í kæru er byggt á því að endurútreikningi á fasteignaláninu sé ekki lokið og megi gera ráð fyrir að lánið og afborganir af því muni lækka talsvert að loknum þeim útreikningum. Í málinu liggur ekkert fyrir um hvort og þá hve mikið umrætt lán kynni að lækka vegna endurútreiknings. Er því ekki unnt að miða við aðra greiðslubyrði en greinir í gögnum málsins. Miðað við upplýsingar úr leigugagnagrunni Þjóðskrár má gera ráð fyrir að leiguverð fyrir sambærilega eign á almennum markaði væri ekki undir 300.000 krónum á mánuði. Hvort sem miðað er við útreikninga umsjónarmanns, umboðsmanns skuldara eða önnur fyrirliggjandi gögn í málinu um tekjur kærenda, er ljóst að greiðslugeta kærenda er umtalsvert lægri en ætla má að leiguverð á sambærilegri eign væri. Jafnvel þó miðað væri við 60% af hæfilegri leigu myndu tekjur kærenda ekki duga til að greiða þá fjárhæð eins og kveðið er á um í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge.

Af gögnum málsins verður því hvorki séð að kærendur geti staðið undir afborgunum af íbúðarlánum sínum né leiguverði af fasteigninni samkvæmt 21. gr. lge. auk þess sem telja verður ljóst að stærð eignarinnar sé talsvert umfram þarfir fimm manna fjölskyldu. Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum