Hoppa yfir valmynd
19. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 60/2013

Fimmtudaginn 19. mars 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 3. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. febrúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 28. júní 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 11. júlí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. júlí 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust kærunefndinni.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1972 og býr ásamt dóttur sinni á heimili móður sinnar að B götu nr. 32 í sveitarfélaginu C.

Kærandi starfar á X. Ráðstöfunartekjur hans nema 150.154 krónum á mánuði og eru vegna launa, meðlags og barnabóta.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til ársins 2007 er hann réðst í fjárfestingar á atvinnuhúsnæði og sumarhúsi. Hafi fjárfestingarnar snúist í höndunum á honum í kjölfar efnahagshrunsins þar sem hann hafi hvorki náð að selja eignirnar né leigja þær út.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 4.870.783 krónur og falla 30.250 krónur þar af utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara um ábyrgðarskuldbindingar hefur kærandi gengist í ábyrgðarskuldbindingar fyrir félag sitt Y ehf. og nema þær 14.000.000 króna.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. október 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Fram kemur í gögnum málsins að í upphafi greiðsluaðlögunarumleitana hafi kærandi fengið frest til að reyna samninga við Lýsingu hf. um mögulega endurgreiðslu í kjölfar endurútreiknings á láni. Umsjónarmaður vísar til þess að þegar ljóst varð að samningar myndu ekki takast hafi orðið að halda greiðsluaðlögunarumleitunum áfram. Til að það væri hægt hefði verið nauðsynlegt að selja tvær fasteignir kæranda en kærandi hafi ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum umsjónarmanns þar að lútandi. Umsjónarmaður kveði það ófrávíkjanlega forsendu að samvinna sé á milli umsjónarmanns og skuldara við greiðsluaðlögunarumleitanir en því hafi ekki verið fyrir að fara í málinu. Þá sé það ekki í samræmi við markmið lge. að skuldari fái notið greiðsluskjóls vegna greiðsluaðlögunarumleitana án þess að sýna nokkurn vilja til að ljúka málinu með samningi við kröfuhafa. Lagði umsjónarmaður það því til við umboðsmann skuldara með bréfi 1. október 2012 að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 12. október 2012 var kæranda kynnt framkomið bréf umsjónarmanns og honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Með tölvupósti til umboðsmanns skuldara 25. október 2012 gerði kærandi grein fyrir vilja sínum til samstarfs við umsjónarmann. Ítrekaði hann þetta með tölvupósti 2. nóvember sama ár. Með bréfi umboðsmanns skuldara til umsjónarmanns 5. nóvember 2012 kom fram að embættið hefði veitt kæranda heimild til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana á grundvelli nýrrar afstöðu kæranda og tók umsjónarmaður þá við málinu á ný.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 22. janúar 2013 greindi umsjónarmaður frá því að hann hefði sett sig í samband við kæranda á ný eftir að áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir voru heimilaðar. Hafi kærandi ýmist látið hjá líða að svara símtölum og tölvupóstum umsjónarmanns eða svarað seint og illa. Umsjónarmaður hafi svo falið fasteignasala 16. nóvember 2012 að verðmeta landareignir kæranda í sveitarfélaginu D og annast sölu í kjölfarið. Í tvígang hefði kærandi boðað komu sína á fund fasteignasalans en hafi í hvorugt skiptið mætt. Því hefði ekki tekist að verðmeta eignirnar. Umsjónarmaður sjái sig af framangreindum ástæðum knúinn til að leggja á ný til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda verði felldar niður á sömu forsendum og fyrr.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 7. febrúar 2013 var kæranda kynnt að umsjónarmaður hefði öðru sinni sent umboðsmanni bréf um að hann teldi að fella bæri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda þar sem hann hefði ekki sinnt skyldum sínum um samvinnu samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. Í bréfi umboðsmanns hafi einnig verið gerð grein fyrir 1. og 5. mgr. 13. gr. lge. um sölu á eignum skuldara. Hafi komið fram í bréfinu að miðað við tregðu kæranda til að mæta á fund fasteignasala megi ætla að kærandi hafi ekki hug á að selja umræddar eignir. Með því að mæta ekki á fund fasteignasalans sé kærandi að reyna að koma í veg fyrir sölu eignanna. Hafi kæranda verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Í bréfinu hafi verið tekið fram að ef engin svör bærust innan tiltekins frests gæti það leitt til niðurfellingar á greiðsluaðlögunar­umleitunum kæranda. Kærandi hafi tekið á móti bréfinu 11. febrúar 2013 en svör hafi ekki borist.

Með bréfi til kæranda 19. febrúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu. Kæra hans er hvorki studd rökum, málsástæðum né athugasemdum. Verður að skilja kæruna sem slíka á þann veg að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans verði felld úr gildi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 1. mgr. 16. gr. lge. segi að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að ef skuldari framfylgi ekki ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignar hans samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir að sala nái fram að ganga skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í máli þessu hafi kærandi í tvígang mælt sér mót við fasteignasala svo unnt yrði að verðmeta fasteignir hans en hvorki komið á fundina né gefið skýringar á fjarveru sinni. Verði að leggja þær skyldur á kæranda að hann sýni samstarfsvilja og veiti aðgang að eignum sem selja þurfi vegna greiðsluaðlögunarumleitana hans.

Verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í 1. mgr. 16. gr. lge. segir að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara.

Í 1. mgr. 13. gr. lge. kemur fram að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að eignir skuli selja með þeim hætti að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær. Umsjónarmaður ákveði hvernig sala fer fram og annast söluna sjálfur nema hann feli það öðrum. Þá greinir í 5. gr. 13. gr. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í máli þessu greinir umsjónarmaður frá því að kærandi hafi ekki verið til samstarfs varðandi sölu á fasteignum sínum. Í fyrsta lagi hafi kærandi ekki svarað fyrirspurnum umsjónarmanns um afstöðu sína til sölu eignanna. Hafi þetta verið í september 2012. Með bréfi 1. október 2012 hafi umsjónarmaður því lagt til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður. Eftir að kærandi hafi fullvissað umboðsmann skuldara um að hann myndi sýna umsjónarmanni samstarfsvilja hafi umboðsmaður veitt kæranda áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar og falið umsjónarmanni málið á ný. Í kjölfarið hafi umsjónarmaður reynt að ná sambandi við kæranda en án árangurs. Þá hafi kærandi tvívegis látið hjá líða að mæta á fund fasteignasala til að unnt væri að verðmeta nefndar fasteignir. Hafi umsjónarmaður því á ný beint því til umboðsmanns skuldara að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda. Umboðsmaður skuldara hafi síðan fellt niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með ákvörðun 19. febrúar 2013.

Meðal þess sem umsjónarmanni ber að gera við upphaf greiðsluaðlögunarumleitana er að taka ákvörðun um sölu á eignum skuldara samkvæmt 13. gr. lge. Hafi umsjónarmaður ákveðið að selja eignir skuldara fara sölutilraunir fram samhliða greiðsluaðlögunarumleitunum að öðru leyti, þar með talin gerð frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun.

Í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun skal tiltaka allar verðmætar eignir sem skal selja eða halda eftir og verðmæti þeirra, sbr. 13. og 14. gr. Þá skal koma fram í frumvarpinu sá frestur sem lánardrottnar hafa til að taka afstöðu til þess. Samkvæmt þeim gögnum er liggja fyrir hefur umsjónarmaður ekki gert frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings þar sem hann kveður að skort hafi á samvinnu kæranda. Í fyrrgreindum bréfum umsjónarmanns frá 1. október 2012 og 22. janúar 2013 kemur ekki annað fram en að tregða skuldara til samstarfs snúi eingöngu að sölu eigna hans. Hefði umsjónarmanni því verið rétt að leggja til niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana skuldara með vísan til 1. og 5. mgr. 13. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir. Umboðsmaður skuldara hefði sömuleiðis átt að byggja ákvörðun sína á þeim lagaákvæðum í stað þess að vísa einungis til þeirra í forsendum ákvörðunarinnar. Fyrir liggur þó að andmælaréttur kæranda var virtur að því er varðar 1. og 5. mgr. 13. gr. lge. svo sem sjá má í bréfi umboðsmanns skuldara frá 7. febrúar 2013.

Þegar öll atvik málsins eru virt verður að telja að rétt hafi verið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir A niður en það hefði átt að gera með vísan til 1. mgr. og 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. 1ge. Þykir þessi annmarki á málsmeðferðinni þó ekki hafa haft slík áhrif á niðurstöðu málsins að það sæti ógildingu ákvörðunar. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum