Hoppa yfir valmynd
12. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2013

Fimmtudaginn 12. mars 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 25. febrúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. janúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 27. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. mars 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 25. mars 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 4. apríl 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 10. apríl 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Viðbótargögn bárust frá kæranda með bréfi 10. apríl 2013 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara sama dag og á ný var óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1960. Hann er fráskilinn og á þrjú börn, þar af tvö uppkomin. Hann býr í 93 fermetra eigin íbúð að B götu nr. 4 í sveitarfélaginu D.

Kærandi er löggiltur fasteignasali og starfar hjá X ehf. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans eru 320.319 krónur en hann fær einnig vaxtabætur að fjárhæð 20.579 krónur.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til kaupa á íbúðarhúsnæði á árinu 2006. Á þeim tíma hafi hann slitið sambúð og afsalað sér eignarhluta sínum í húsnæði sem hann átti með fyrrum sambýliskonu. Um áramótin 2007/2008 hafi tekjur hans minnkað vegna samdráttar á fasteignamarkaði. Hann hafi getað staðið við skuldbindingar sínar fram til ársins 2008 en um mitt árið hafi fasteignaviðskipti nánast stöðvast. Tekjur hans hafi aðeins dugað fyrir nauðsynjum sem hafi orðið til þess að hann lenti meðal annars í vanskilum vegna íbúðar- og bílalána.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 48.889.535 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) nema skuldir að fjárhæð 2.683.676 krónur.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. maí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 7. júní 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að uppi væru þær aðstæður sem hindra myndu að greiðsluaðlögun yrði samþykkt. Skuldari hefði ekki staðið skil á virðisaukaskatti en skuldin næmi 2.490.047 krónum. Samkvæmt lge. félli krafa um vangoldinn virðisaukaskatt utan greiðsluaðlögunar. Þar sem kærandi hafi ekki greitt virðisaukaskattskuldina telji umsjónarmaður að komið sé upp tilvik sem við nánari skoðun leiði til þess að kærandi uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar, sbr. 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 28. ágúst 2012 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi svaraði umboðsmanni með bréfi 7. september 2012. Þar greindi kærandi frá því að honum hafi borist tilkynning um skipun umsjónarmanns í júní 2011. Skömmu síðar hafi hann verið boðaður á skrifstofu umsjónarmannsins. Þar hafi verið farið gaumgæfilega yfir fyrirliggjandi gögn og framhald málsins. Ekki hafi verið greint frá því að fyrir hendi væru skuldir sem kæmu í veg fyrir greiðsluaðlögun en bent á að til staðar væru skattakröfur sem þyrfti að greiða. Kærandi hafi síðan fengið tilkynningu um nýjan umsjónarmann í september 2012. Hafi kærandi ekki verið boðaður til fundar við hann en talað tvisvar við hann í síma. Hafi umsjónarmaður bent kæranda á að greiða þyrfti upp virðisaukaskattskuld hið fyrsta en kærandi hafi greint frá því að hann hefði ekki peninga til þess. Í ágúst 2012 hafi kærandi fengið framangreint bréf frá umboðsmanni skuldara. Hafi það komið honum í opna skjöldu þar sem um 16 mánaða skeið hafi hann verið í góðri trú um að mál hans væri í einhvers konar vinnslu og ekkert væri óeðlilegt við málið. Virðisaukaskattskuld kæranda hafi stofnast á árunum 2008 til 2010 en á þeim tíma hafi kærandi haft innan við 200.000 krónur í mánaðarlaun. Hafi hann verið þvingaður til að standa skil á láni frá Íslandsbanka ella yrði gengið að aldraðri móður hans sem ábyrgðarmanni. Hafi þessi greiðsla numið 90.000 krónum á mánuði.

Með bréfi til kæranda 28. ágúst 2012 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir hans niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hans þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst skulda vörsluskatta vegna áranna 2007 til 2010 en umboðsmaður skuldara hafi hafnað honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar vegna þessa. Kærandi hafi skilað skattframtali þessi ár og því sé ekki um skattundanskot að ræða.

Umboðsmaður leggi ríka áherslu á að vanskil vörsluskatta séu refsiverð háttsemi sem verði til þess að ekki náist samningar um greiðsluaðlögun. Kærandi hafi nú greitt inn á virðisaukaskattskuld sína og samið við Embætti tollstjóra án vandkvæða. Mótmæli hann því að ekki hafi verið unnt að halda greiðsluaðlögunarumleitunum áfram. Á stuttum fundi sem kærandi hafi átt með starfsmanni umboðsmanns vegna málsins hafi ekki verið að merkja að áhugi eða vilji væri fyrir hendi til að hjálpa kæranda við að finna lausn á málinu.

Kærandi hafi gert umboðsmanni skuldara grein fyrir því að hann hafi greitt það tvennt sem honum hafi verið brýnast að greiða, auk þess að draga fram lífið, fremur en að greiða virðisaukaskatt. Í fyrsta lagi hafi kærandi verið að verja eignarhluta sinn í bifreið með því að greiða af láni til Avant sem hafi haft uppi sífelldar hótanir um vörslusviptingar. Í öðru lagi hafi verið um að ræða skuldabréf við Íslandsbanka, þar sem öldruð móðir hans og systir væru ábyrgðarmenn. Kærandi hafi ekki viljað láta ganga að ábyrgðarmönnum. Síðar hafi komið í ljós að ábyrgðin var óréttmæt, sbr. yfirlýsingu bankans þar um. Greiðslur þessar hafi numið að meðaltali um 75.000 krónum á mánuði á meðan kærandi hafi haft 150.000 krónur í mánaðarlaun.

Sem fasteignasali hafi kærandi verið atvinnulaus en án bótaréttar þar sem hann hafi verið verktaki.

Kærandi telji það ábyrgðarhluta af hálfu umboðsmanns skuldara að viðhafa þau vinnubrögð sem hafi verið í málinu. Um það leyti sem heimild kæranda til greiðsluaðlögunar hafi verið samþykkt hafi eignarhluti kæranda í fyrrnefndri bifreið verið 1.600.000 krónur og sú fjárhæð hefði farið langt með að greiða virðisaukaskattskuldina. Nú sé eignarhlutinn uppurinn þar sem ekki hafi mátt greiða af áhvílandi láni auk þess sem bílverð hafi fallið.

Kærandi vísar til stjórnarskrárbundins réttar síns til að eiga í sig og á en hann hafi lagt fram gögn því til stuðnings að hann hafi einungis haft fé til að framfleyta sér og greiða af tveimur fyrrnefndum skuldum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort greiðsluaðlögun sé heimil beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir það, sbr. 6. gr. lge.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt d-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geti til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 en þar segi orðrétt: „Framangreint ákvæði lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaganna, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei.“ Niðurstaða úrskurðarins hafi verið á þá leið að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til vörsluskattskulda gjaldþrota einkahlutafélaga sem kærandi hafði veitt fyrirsvar hafi verið staðfest en talið hafi verið að um umtalsverðar skuldir væri að ræða, meðal annars með hliðsjón af fjárhag kæranda.

Í málinu liggi fyrir að kærandi skuldi virðisaukaskatt vegna áranna 2007, 2008, 2009, 2010 og 2012. Samkvæmt gögnum frá Tollstjóra nemi skuldin 2.490.047 krónum. Samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 geti sá sem ekki hafi staðið skil á virðisaukaskatti þurft að sæta refsingu. Um sé að ræða kröfur byggðar á skýrslum til Tollstjóra og sé því um rétta álagningu að ræða.

Greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lge. sé tiltölulega nýtt úrræði og því hafi ýmsir þættir þess skýrst eftir því sem meðferð mála hjá umboðsmanni skuldara og umsjónarmönnum með greiðsluaðlögunarumleitunum hafi undið fram. Þannig þyki nú ljóst að Tollstjóri telji sér að mestu leyti óheimilt að semja um eftirgjöf skulda vegna vangoldins virðisaukaskatts í tengslum við greiðsluaðlögunarumleitanir. Þessi afstaða Tollstjóra hafi ekki legið fyrir með jafn skýrum hætti við meðferð embættisins á máli kæranda. Við töku ákvörðunar um heimild til greiðsluaðlögunar hafi heldur ekki legið fyrir ofangreindur skilningur kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, sbr. mál kærunefndarinnar nr. 17/2011 um túlkun f-liðar 3. gr. lge. til samræmis við d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar.

Kæranda hafi verið sent bréf 28. ágúst 2012 þar sem honum hafi verið boðið að leggja fram frekari gögn og láta álit sitt í ljós. Í bréfinu hafi verið vísað til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vegna vangoldins virðisaukaskatts. Í svari kæranda hafi komið fram að virðisaukaskattskuld hans hefði legið fyrir þegar hann hafi sótt um greiðsluaðlögun. Hann hefði ekki lagt fram nein viðbótargögn en í febrúar 2012 hafi hann samið um greiðslu skuldarinnar og greitt inn á hana.

Það sé heildstætt mat umboðsmanns skuldara með vísan til þess sem komið hafi fram og með hliðsjón af gögnum málsins að ekki verði hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar á grundvelli 15. gr. og d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 1. mgr. 15. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Þær skuldbindingar sem umboðsmaður vísar til í sambandi við d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eru vörsluskattskuldir, þ.e. skuldir vegna virðisaukaskatts kæranda. Ekki er ágreiningur um fjárhæðir í málinu en skuld kæranda var eftirfarandi í krónum 31. janúar 2013:

 

Gjöld Ár Höfuðstóll Fjárhæð
      samtals 2013
Virðisaukaskattur 2007 73.591 435.535
Virðisaukaskattur 2008 441.000 722.645
Virðisaukaskattur 2009 441.000 681.711
Virðisaukaskattur 2010 382.500 561.911
Virðisaukaskattur 2012 255.000 298.379
  Samtals 1.593.091 2.700.181

 

Í málinu liggur fyrir að kærandi greiddi 1.300.000 krónur inn á vörsluskattskuld sína skömmu eftir að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara lá fyrir eða 22. febrúar 2013. Eftir þá greiðslu nam skuld hans vegna virðisaukaskatts 1.400.181 krónu en síðar hafa frekari vörsluskattskuldir kæranda hlaðist upp.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem skattskyldan aðila.

Að því er varðar ofangreindar vörsluskattskuldir verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Samkvæmt gögnum málsins var höfuðstóll vörsluskattskuldar kæranda vegna áranna 2007 til 2010 og 2012 alls 1.593.091 króna þegar umboðsmaður skuldara tók hina kærðu ákvörðun og nam heildarskuldin 2.700.181 krónu með vöxtum. Með greiðslu 22. febrúar 2013 greiddi kærandi inn á skuldina eins og rakið er að framan og nam hún þá 1.400.181 krónu. Það skiptir þó ekki máli varðandi þá úrlausn sem hér um ræðir. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um rúmlega 28.500.000 krónur og launatekjur hans nema 320.319 krónum á mánuði að meðaltali. Skuldir sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi vegna áranna 2007 til 2010 og 2012 nema 1.400.181 krónu með vöxtum en telja verður þá fjárhæð út af fyrir sig allháa. Nemur hún 2,78% af heildarskuldum kæranda. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er getur varðað refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur, sem teldist allhá fjárhæð, en hún nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Eins og fram hefur komið fer fram heildstætt mat á fjárhag skuldara þegar d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. kemur til skoðunar og er þar meðal annars tekið mið af eignastöðu skuldarans, tekjum, greiðslugetu og fjárhæð vörsluskattskuldar. Eins og fram er komið er ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og telur kærunefndin dóminn af þeim sökum hafa tiltekið fordæmisgildi að því er varðar túlkun á lge.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að hann uppfylli ekki skilyrði til að geta leitað greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A með vísan til 15. gr. og d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum