Hoppa yfir valmynd
5. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 26/2013

Fimmtudaginn 5. mars 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 18. febrúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. janúar 2013, þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 19. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. mars 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 15. mars 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1977 og 1976. Þau búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin 219,3 fermetra íbúð að D götu nr. 29 í sveitarfélaginu E. Kærandi A er kennari og kærandi B starfar sem smiður. Mánaðarlegar meðaltekjur kærenda eru 571.662 krónur vegna launtekna og barnabóta.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til tekjulækkunar og hækkunar á greiðslubyrði miðað við tekjur.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 52.772.598 krónur og falla þar af 45.642.114 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 til 2008.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 6. mars 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með greinargerð 4. október 2012 að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge. Í frumvarpsdrögum til greiðsluaðlögunarsamnings hafi verið gerð grein fyrir því að mánaðarleg greiðslugeta kærenda væri 126.516 krónur. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana hafi staðið yfir í 11 mánuði. Miðað við reiknaða greiðslugetu hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 1.391.676 krónur í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt upplýsingum frá kærendum hafi þau lagt fyrir 300.000 krónur á tímabilinu en kærendur fullyrtu að þeim hafi verið heimilt að ráðstafa þeirri fjárhæð til endurbóta á fasteign þeirra. Þá hafi kærendur tilkynnt um óvænt útgjöld á tímabilinu vegna kaupa á bakarofni og viðgerðar á fasteigninni. Kostnaður vegna þessa hafi að sögn kærenda numið 200.000 krónum en kærendur lögðu ekki fram reikninga eða önnur gögn því til staðfestingar. Að sögn kærenda höfðu þau heimild frá umboðsmanni skuldara fyrir ráðstöfun fjárins. Þessu til stuðnings hafi kærendur framsent umsjónarmanni tölvupóst frá embætti umboðsmanns skuldara. Mat umsjónarmanns hafi verið að kærendum hefði verið veitt heimild til kaupa á bakarofni og til viðgerða á fasteign. Í tölvupósti embættisins hafi einnig komið fram að varhugavert væri fyrir kærendur að efna til skuldbindinga vegna klæðningar á fasteign þeirra Samtals hafi kærendur því gert grein fyrir 500.000 krónum á tímabilinu. Enn vanti því töluvert upp á þá fjárhæð sem reiknuð greiðslugeta gerði ráð fyrir að hægt væri að leggja til hliðar á tímabilinu. Kærendur hafa skýrt þennan mun þannig að tekjur þeirra hafi verið lægri á tímabilinu þar sem starfshlutfall kæranda B hafi ekki verið 100%. Umsjónarmaður hafi ekki fengið nánari upplýsingar frá kærendum. Fram kemur að umsjónarmaður hafi kallað eftir frekari skýringum og upplýsingum frá kærendum en tilraunir um samráð við kærendur um gerð frumvarps samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. hafi hins vegar ekki verið fullnægjandi.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 22. október 2012 var þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Kærendur svöruðu bréfi umboðsmanns skuldara 30. nóvember 2012 með skýringum og gögnum. Í bréfi kærenda kemur fram að þau hafi ráðstafað fjármunum með eftirfarandi hætti á tímabilinu í krónum:

 


Fjárhæð
Tæknifrjóvgun 191.158
Kírópraktor 24.100
Dekk 76.617
Lækniskostnaður kæranda A 32.740
Lækniskostnaður kæranda B 16.665
Ofn og innrétting 200.000
Rafgeymir í bifreið 24.420
Samtals 565.700

 

Þá sé innstæða kæranda A á sparisjóðsreikningi 1.080.748 krónur. Einnig eigi kærendur 700.000 krónur vegna leiðréttingar á tekjuskatti en sýslumaðurinn á Selfossi haldi þeim fjármunum vegna skuldar á skipulagsgjaldi.

Með ákvörðun 29. janúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði hrundið og embættinu gert að taka beiðni kærenda um greiðsluaðlögun til greina.

Kærendur telja að ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist annars vegar á því að kærendur hafi verið ósamstarfsfúsir og hins vegar að þau hafi ekki lagt fyrir fjármuni frá því heimild til greiðsluaðlögunar var veitt.

Eftir að heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið veitt 6. mars 2012 hafi kærendur verið boðuð á fund umsjónarmanns. Að mati kærenda hafi umsjónarmaður ekki unnið að lausn málsins. Hafi kærendur því leitað til ráðgjafa hjá embætti umboðsmanns skuldara sem hafi ráðlagt þeim að óska eftir því að nýr umsjónarmaður yrði skipaður til að fara með mál þeirra. Jafnframt hafi starfsmaður umboðsmanns skuldara ráðlagt kærendum að hafa ekki samband við umsjónarmann og bíða þess að annar umsjónarmanns yrði skipaður. Hið næsta sem gerst hafi í máli þeirra hafi verið að bréf hafi borist frá umboðsmanni skuldara 22. október 2012 þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða niðurfellingu málsins. Kærendur kveðast strax hafa haft samband við starfsmann embættisins sem hafi óskað þess að kærendur svöruðu bréfi umboðsmanns og kæmu sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærendur hafi svarað bréfinu og síðar haft samband við starfsmann umboðsmanns skuldara sem hafi talið skýringar og gögn kærenda fullnægjandi. Í ljósi framangreinds sé ákvörðun umboðsmanns skuldara óskiljanleg.

Kærendur vísa því á bug að þau hafi ekki lagt fyrir hluta launa sinna. Það hafi þau gert samviskusamlega í samræmi við áætlun sem hafi verið lögð fyrir þau. Eins og fram komi í greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara hafi verið gert ráð fyrir að þau gætu lagt fyrir 126.260 krónur af launum sínum á mánuði en 334.960 krónur fari til heimilisreksturs. Þessa fjárhæð hafi kærendur lagt fyrir mánaðarlega.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé miðað við allt aðrar fjárhæðir og málið lagt út á versta veg fyrir kærendur, þar með talið að þau hefðu átt að leggja til hliðar barnabætur, vaxtabætur og allar auknar tekjur umfram það sem gert hafi verið ráð fyrir í greiðsluáætluninni. Telja kærendur að þetta hafi ekki verið það sem rætt hafi verið um við umboðsmann eða umsjónarmann. Þá hafi umboðsmaður eða umsjónarmaður veitt kærendum heimild til að kaupa bakarofn, greiða læknisþjónustu o.fl. Að öðru leyti sé enn á bankabók kærenda það sem lagt hafi verið upp með.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 30. júní 2011 og þá hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hafist auk þess sem skyldur samkvæmt 12. gr. hafi einnig tekið gildi frá þeim degi. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kærendum því mátt vel vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 16 mánuði en miðað sé við tímabilið 1. júlí 2011 til 31. október 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem séu meðal gagna málsins, hafi mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Launatekjur 1. júlí 2011–31. október 2012 að frádregnum skatti 8.910.803
Vaxtabætur, barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 og 2012 813.202
Samtals 9.724.005
Mánaðarlegar meðaltekjur 607.750
Framfærslukostnaður á mánuði -400.022
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 207.728
Samtals greiðslugeta í 16 mánuði 3.323.648

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 607.750 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 16 mánaða tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 400.022 krónur á mánuði á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað janúarmánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna og tvö börn. Heildarframfærslukostnaður kærenda hafi því verið 6.400.352 krónur. Með tilliti til fyrrnefndra útreikninga hafi verið gengið út frá því að kærendur hefðu að öllu óbreyttu átt að hafa haft getu til að leggja fyrir sem nemi um 3.323.648 krónum, sé miðað við mánaðarlega meðalgreiðslugetu að fjárhæð 207.728 krónur í 16 mánuði.

Að sögn kærenda og samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur lagt til hliðar 1.080.748 krónur. Þrátt fyrir að kærendur hafi lagt til hliðar umrædda fjárhæð þá skýri hún skort á hjálögðu fé aðeins að hluta eða því sem nemi 32,5% af þeirri fjárhæð sem kærendum hefði átt að hafa verið kleift að leggja til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Að mati umboðsmanns skuldara verði einnig að telja að úrskýringar kærenda vegna ráðstöfunar á 513.700 krónum skýri ekki skort á sparnaði kærenda. Þó tekið yrði tillit til útskýringa kærenda samkvæmt framlögðum gögnum sé ljóst að sá kostnaður nemi ekki nema 15% af þeirri fjárhæð sem kærendum hefði alla jafna átt að vera kleift að leggja til hliðar.

Með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur haldi því fram að í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi verið miðað við aðrar fjárhæðir en þær sem umsjónarmaður hafi upphaflega lagt til grundvallar. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kærendum gefist færi á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn í samræmi við andmælarétt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 22. október 2012 hafi verið áréttuð sú meginregla að skuldarar skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem þeir þurfi til að sjá sér og fjölskyldum sínum farborða. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. janúar 2013 séu einnig færð ítarleg rök fyrir því að kærendum hefði átt að vera ljóst að þau hefðu átt að halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þar til að því kæmi að gengið yrði að samningum við kröfuhafa. Í umræddu bréfi frá 22. október 2012 hafi verið byggt á útreikningum frá umsjónarmanni. Við frekari vinnslu málsins hafi komið í ljós að þeir útreikningar hafi verið of lágir. Þrátt fyrir að umsjónarmaður hafi þannig vanáætlað þá fjárhæð sem kærendum hafi verið skylt að leggja til hliðar hefði þeim samt sem áður mátt vera ljóst að ef tekjur þeirra væru hærri en gert hafi verið ráð fyrir í greiðsluáætlun umsjónarmanns þá skyldu þau leggja það fyrir sem umfram var, sbr. meginreglu 12. gr. lge. Með nefndu bréfi umboðsmanns skuldara hafi kærendum annars vegar verið gefinn kostur á því að leggja fram gögn sem sýndu fram á að þau hefðu staðið við skyldur sínar samkvæmt meginreglu 12. gr. lge. og hins vegar að andmæla fullyrðingum umsjónarmanns sem leiddu til þess að máli þeirra var vísað til umboðsmanns skuldara á grundvelli 15. gr. lge.

Kærendur hafi lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála upplýsingar. Umræddar upplýsingar hafi ekki legið fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar og hafi því ekki áhrif á gildi hennar með afturvirkum hætti. Ekki þyki fært að miða tekjur og útgjöld kærenda við aðrar fjárhæðir en þær sem séu studdar gögnum og byggist á framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Ekki verði heldur séð að þær upplýsingar sem kærendur hafi lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og umboðsmanni skuldara gert að taka beiðni þeirra um greiðsluaðlögun til greina.

Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunar­umleitanir kærenda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kærenda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kærenda þess efnis að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verði samþykkt á því ekki við um málið eins og það liggur fyrir. Kröfugerð kærenda fyrir kærunefndinni ber að túlka í samræmi við þetta.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með greinargerð til umboðsmanns skuldara 4. október 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Fór hann þess á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 4. febrúar 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt á tímabili frestunar greiðslna.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar í samræmi 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 3.323.648 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 30. júní 2011 til 31. október 2012. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 207.728 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Að teknu tilliti til óvænts útlagðs kostnaðar að fjárhæð 513.700 krónur og sparnaðar að fjárhæð 1.080.748 krónur hafi kærendur ekki veitt haldbærar skýringar á ráðstöfun 1.729.200 króna.

Kærendur kveðast hafa lagt fyrir fjármuni eins lagt hafi verið fyrir þau að gera með greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara. Með tilliti til óvænts kostnaðar á tímabilinu og sparnaði þeirra hafi þau staðið við skyldu sína samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: 6 mánuðir
Nettótekjur A 1.434.885
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 239.148
Nettótekjur B 1.812.868
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 302.145
Nettótekjur alls 3.247.753
Mánaðartekjur alls að meðaltali 541.292

 

Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.078.925
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 256.577
Nettótekjur B 3.887.938
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 323.995
Nettótekjur alls 6.966.863
Mánaðartekjur alls að meðaltali 580.572

 

Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.214.616
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 567.479

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2012: 18 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.214.616
Bætur og vaxtaniðurgreiðsla í greiðsluskjóli 813.202
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 11.027.818
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 612.657
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 400.022
Greiðslugeta kærenda á mánuði 212.635
Alls sparnaður í 18 mánuði í greiðsluskjóli x 212.635 3.827.422

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærendur lögðu fram skýringar og gögn vegna óvænts kostnaðar að fjárhæð 565.700 krónur. Þá kveðast kærendur hafa lagt til hliðar 1.080.748 krónur á sparisjóðsbók en hafa ekki lagt fram staðfestingu á því. Í hinni kærðu ákvörðun er þó lagt til grundvallar að kærendur hafi lagt þessa fjárhæð til hliðar.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun. Áætlun sem umboðsmaður skuldara lætur kærendum almennt í té við upphaf greiðsluaðlögunarumleitana er áætlun sem miðast við stöðu kærenda á þeim tíma er embættið veitir heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt þeirri áætlun var greiðslugeta kærenda 236.660 krónur á mánuði.

Samkvæmt upplýsingum um tekjur kærenda frá ríkisskattstjóra á tímabilinu 1. júlí 2011 til 31. desember 2012 auk upplýsinga um vaxtabætur, barnabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu var greiðslugeta kærenda 212.635 krónur á mánuði að teknu tilliti til áætlaðs framfærslukostnaðar frá því að þau lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 og þar til greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður 29. janúar 2013.

Að teknu tilliti til sparnaðar að fjárhæð 1.080.748 króna og óvænts kostnaðar að fjárhæð 565.700 króna skortir á sparnað kærenda alls 2.180.974 krónur.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum