Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2013

Fimmtudaginn 26. febrúar 2015


A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 15. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. janúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 31. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 14. febrúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 21. febrúar 2013 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1966. Hann er fráskilinn og býr á heimili móður sinnar að B götu nr. 48 í sveitarfélaginu D. Kærandi á eina uppkomna dóttur og einn son, sem bæði búa hjá móður sinni. Mánaðarlegar tekjur kæranda að meðtöldum leigutekjum og vaxtabótum eru að meðaltali 454.368 krónur.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 45.136.849 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) fyrir utan kröfu vegna meðlags að fjárhæð 131.641 króna.

Að sögn kæranda eru ástæður fyrir skuldasöfnun hans fasteignakaup og veikindi kæranda og barna hans. Veikindi og erfiðleikar barnanna hafi verið kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans bæði kostnaðarsamar og tímafrekar, með tilheyrandi fjarveru þeirra beggja frá vinnu og tekjutapi. Þá hafi þessir erfiðleikar haft áhrif á heilsu kæranda, sem greindur hafi verið með kvíðaröskun. Erfiðleikarnir urðu til þess að upp úr hjónabandi kæranda slitnaði í lok árs 2009. Þá hafi kærandi enn fremur orðið atvinnulaus um mitt ár 2010. Kærandi starfi nú sem sjómaður og séu tekjur hans afar ótryggar og óstöðugar.

Umsókn kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar var samþykkt 9. júní 2011 og var kæranda skipaður umsjónarmaður í kjölfarið. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Við meðferð málsins hjá umsjónarmanni komu í ljós atvik sem þóttu geta leitt til niðurfellingar á heimild til greiðsluaðlögunar. Í fyrsta lagi taldi umsjónarmaður að kærandi hefði ekki lagt til hliðar í samræmi við fyrirmæli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þrátt fyrir jákvæða greiðslugetu á meðan frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, stóð yfir. Í öðru lagi hefði kærandi greitt einum lánardrottni í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. og í þriðja lagi hafi kærandi ekki gefið umsjónarmanni réttar upplýsingar um tekjur sínar. Með bréfi til umboðsmanns skuldara 8. júní 2012 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 27. júní 2012 var kæranda veitt tækifæri til að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn. Svar kæranda ásamt gögnum barst með bréfi 6. júlí 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. janúar 2013 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda felldar niður.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hans á þann veg að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa reynt að leggja fyrir en alltaf hafi þurft að greiða einhvern kostnað, til dæmis vegna vetrardekkja, tímareimar í bifreið og bilun í ísskáp. Endurnýja hafi þurft sjónvarp, stól, föt o.fl. hjá föður kæranda og einnig hjá fjölskyldu kæranda. Þá hafi kærandi nauðsynlega þurft á bifreið að halda vegna langveiks sonar hans.

Læknar hafi mælst til þess að kærandi og maki hans stæðu saman að uppeldi sonar þeirra og þess vegna hafi kærandi þurft að láta af starfi til sjós og fengið sér starf í landi.

Kærandi kveðst ekki hafa óskað eftir því að allar skuldbindingar hans yrðu felldar niður heldur að honum yrði gert kleift að greiða af lánum miðað við tekjur.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna stendur yfir. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.

Kærandi hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 16. nóvember 2010 og hófst frestun greiðslna frá þeim degi.

Umboðsmaður skuldara bendir sérstaklega á að öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem nutu frestunar greiðslna hjá embættinu hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsækjanda með umsjónarmanni. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 10. október 2011 sem kæranda hafi borist með ábyrgðarbréfi. Kæranda hafi því mátt vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að gengið yrði að samningum við kröfuhafa.

Kæranda hafi því sannarlega verið kunnugt um að honum hafi verið óheimilt að greiða inn á eldri skuldir á meðan frestun greiðslna stóð. Vísar umboðsmaður skuldara til a-liðar 1. mgr. 11. gr. lge. þar sem fram komi að lánardrottnum sé óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum á meðan tímabundinni frestun greiðslna standi. Kærandi hafi upplýst embættið um að hann hafi greitt föður sínum ótilgreinda fjárhæð upp í 1.000.000 króna lán. Við mat á því hvort kærandi hafi sinnt skyldum sínum verði ekki horft framhjá greiðslu sem þessari sem feli í sér meiriháttar brot á skyldum kæranda við greiðsluaðlögun samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með greiðslu inn á eldri skuld til eins kröfuhafa á kostnað annarra hafi kærandi mismunað kröfuhöfum á meðan frestun greiðslna stóð.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúmlega 25 mánuði en miðað sé við tímabilið frá byrjun desembermánaðar 2010 til desemberloka 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á framangreindu tímabili í krónum:

Launatekjur 1. desember 2010–31. desember 2012 að frádregnum skatti 9.174.113
Vaxtabætur, barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2010, 2011 og 2012 605.044
Leigutekjur 2010 og 2011 1.580.000
Samtals 11.359.187
Mánaðarlegar meðaltekjur 454.368
Framfærslukostnaður á mánuði -291.389
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 162.979
Samtals greiðslugeta í 25 mánuði 4.074.475


Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 291.389 krónur á meðan frestun greiðsla stóð yfir. Tekið hafi verið mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum desembermánaðar 2012 fyrir einn fullorðinn einstakling, greiðslu meðlags tveggja barna og framfærslukostnað eins barns af tveimur vegna skiptingar á umönnunartíma foreldra. Miðað hafi verið við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að veita kæranda svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Heildarframfærslukostnaður kæranda á umræddu tímabili greiðsluaðlögunar hafi því verið 7.284.725 krónur. Með tilliti til fyrrnefndra atriða hefði kærandi að öllu óbreyttu átt að geta lagt fyrir 4.074.475 krónur, sé miðað við mánaðarlega meðalgreiðslugetu að fjárhæð 162.979 krónur í 25 mánuði. Fyrir hafi legið upplýsingar um aukaútgjöld vegna lyfjakaupa sökum veikinda sonar kæranda að fjárhæð 93.027 krónur. Þær útskýringar kæranda skýrðu skort á sparnaði aðeins að hluta og hafi hann aðeins lagt til hliðar 2,3% af þeirri fjárhæð sem hann hefði alla jafna átt að getað lagt til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Við töku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fært að byggja á öðru en því sem liggi fyrir í málinu á þeim tíma sem ákvörðun er tekin. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kæranda gefist færi á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn í samræmi við skyldu stjórnvalds til að veita andmælarétt við töku stjórnvaldsákvörðunar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarumála upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir í málinu þegar ákvörðun var tekin. Umræddar upplýsingar hafi ekki legið fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar og hafi því ekki áhrif á gildi hennar með afturvirkum hætti. Ekki þyki fært að miða útgjöld kæranda við hærri fjárhæðir en þær sem byggðust á gögnum og framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Þá verði ekki séð að þær upplýsingar sem kærandi hafi lagt fyrir kærunefndina hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu. Frásögn kæranda um aukin útgjöld sé auk þess ekki studd gögnum.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. skal skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Með bréfi til umboðsmanns skuldara 8. júní 2012 lagði umsjónarmaður kæranda til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar fjármuni í samræmi við skyldu skuldara í greiðsluaðlögun, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Tímabundin frestun greiðslna kæranda hófst 16. nóvember 2010 og bar kærandi skyldur samkvæmt 12. gr. lge. frá þeim tíma, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis II lge. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ítarlega upplýstur um skyldur sínar á meðan leitað var greiðsluaðlögunar.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. júní 2011 þar sem kæranda var veitt heimild til greiðsluaðlögunarumleitana fylgdi greiðsluáætlun þar sem greiðslugeta kæranda á þeim tíma var talin vera 70.894 krónur á mánuði.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. janúar 2013 um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana fylgdi greiðsluáætlun en þar kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi verið 162.979 krónur á mánuði. Byggjast útreikningar umboðsmanns skuldara á greiðslugetu kæranda á tekjum hans frá byrjun desember 2010 til og með desember 2012. Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara námu tekjur kæranda ásamt leigutekjum og bótum að meðaltali 454.368 krónum á mánuði. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara í desember 2012 var áætlaður framfærslukostnaður kæranda 291.389 krónur. Meðalgreiðslugeta kæranda nam samkvæmt því 162.979 krónum á mánuði í 25 mánuði eða 4.074.475 krónum á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa tekjur kæranda verið eftirfarandi á tímabili greiðsluskjóls í krónum:

Tímabilið 16. nóvember 2010 til 31. desember 2010: 1 mánuður
Nettótekjur kæranda 298.688
Nettómánaðartekjur kæranda að meðaltali 298.688
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur kæranda 3.620.184
Nettómánaðartekjur kæranda að meðaltali 301.682
Tímabilið 1. janúar 2012 til 4. janúar 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur kæranda 5.255.241
Nettómánaðartekjur kæranda að meðaltali 437.937



 

Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 9.174.113
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 366.965

 


Tímabilið 16. nóvember 2010 til 4. janúar 2013: 25 mánuðir

Nettótekjur í greiðsluskjóli 9.174.113
Leigutekjur (brúttó) 1.580.000
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.754.113
Bætur og vaxtaniðurgreiðsla í greiðsluskjóli 509.638
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 11.263.751
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 450.550
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 291.389
Greiðslugeta kæranda á mánuði 159.161
Alls sparnaður í 25 mánuði greiðsluskjóli x 159.161 3.979.026

 

Fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara að kærandi hafi enga fjármuni lagt fyrir á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Þessu til réttlætingar hefur kærandi tiltekið ýmsan óvæntan kostnað sem fallið hafi til á tímabili greiðsluaðlögunar en einungis liggja fyrir gögn um viðbótarkostnað sem nemur 196.067 krónum.

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærandi fékk í hendur, að honum hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun. Að teknu tilliti til óvænts kostnaðar kæranda að fjárhæð 196.067 krónur og afskrifaðra leigutekna samkvæmt skattframtali að fjárhæð 1.580.000 krónur skortir á sparnað hans sem nemur 2.202.959 krónum.

Er það því mat kærunefndarinnar að kærandi hafi ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Hin kærða ákvörðun byggist einnig á því að kærandi hafi skaðað hagsmuni lánardrottna, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt frásögn kæranda tók hann lán hjá föður sínum að fjárhæð 1.000.000 króna áður en hann sótti um greiðsluaðlögun en hann kveðst hafa greitt ótilgreindan hluta þess til baka eftir að sótt var um greiðsluaðlögun. Samkvæmt lagaákvæðinu er það brot á skyldum skuldara við greiðsluaðlögun ef skuldari notar fjármuni sem safnast fyrir í greiðsluaðlögun til að greiða kröfuhöfum. Það er því mat kærunefndarinnar að kærandi hafi með því að greiða af framangreindu láni brotið gegn þeirri skyldu sem kveðið er á um í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til alls framangreinds fellst kærunefndin á það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a- og d-liði 12. gr. lge. er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum