Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2013

Fimmtudaginn 26. febrúar 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 4. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 17. desember 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 31. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. apríl 2013. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. maí 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 21. ágúst 2013. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1954. Hún er gift og býr ásamt eiginmanni sínum í eigin fasteign að B í sveitarfélaginu D sem er 236,3 fermetra einbýlishús. Húsið stendur á 58,4 hektara bújörð í eigu kæranda en á jörðinni er einnig hlaða, hesthús og fjós.

Kærandi starfar sem matráður við X. Mánaðarlegar nettótekjur hennar eru 171.241 króna.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 77.927.341 króna og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Ástæður skuldasöfnunar eru að mati kæranda einkum atvinnuleysi, tekjulækkun, hækkun á greiðslubyrði húsnæðislána og vankunnátta í fjármálum.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 26. október 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. desember 2012 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kærunni krefst kærandi þess sem íslenskur ríkisborgari að fá aðstoð eins og lög geri ráð fyrir. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist af hennar hálfu að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi hafnar því að hún hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt. Hún hafi fengið lán sem dæmd hafi verið ólögmæt. Lánveitandi hafi gert greiðslumat þegar hún hafi tekið tvö há lán. Á þeim tíma hafi greiðslubyrði lánanna verið 150.000 krónur á mánuði. Hafi hún staðið í skilum fram til hausts 2008 þegar kreppan skall á. Vitaskuld hafi hún ekki getað staðið skil á lánunum þegar greiðslubyrðin hækkaði um 100% eða meira. Kærandi geti ekki tekið hrun fjármálakerfisins á sínar herðar.

Kærandi skilji ekki útreikning umboðsmanns skuldara á tekjum eiginmanns hennar. Kveði umboðsmaður tekjurnar hafa verið 97.000 krónur á mánuði en samkvæmt skattframtölum hafi nettólaun hans verið 250.000 krónur til 300.000 krónur á mánuði.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Hér megi sjá í krónum greiðslustöðu kæranda á árinu 2006 samkvæmt skattframtali:

 

Tekjuár 2006
Árstekjur kæranda 2.950.565
Nettómeðaltekjur kæranda á mánuði 217.252
Framfærslukostnaður á mánuði* 108.147
Áætluð mánaðarleg greiðslubyrði af húsnæðislánum 177.655
Greiðslustaða eftir afborganir veðlána -68.550

*Áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara. Miðað er við helming framfærslukostnaðar hjóna með þrjú börn.

 

Í mars 2006 hafi kærandi tekið lán að fjárhæð 11.500.000 krónur hjá Landsbankanum. Hafi lánið verið tryggt með veði í eign hennar B. Gjalddagi fyrstu vaxtagreiðslu hafi verið í apríl 2006 og gjalddagi fyrstu afborgunar hafi verið í apríl 2008. Meðaltal vaxtagreiðslna fyrsta árið hafi verið 76.405 krónur. Hafi það komið til viðbótar afborgun af húsnæðisláni upphaflega að fjárhæð 22.500.000 krónur. Samtals hafi áætluð mánaðarleg greiðslubyrði af húsnæðislánum árið 2006 verið 177.655 krónur og greiðslustaða því neikvæð, sbr. töflu að ofan. Þessu til viðbótar hafi yfirdráttarheimild kæranda hækkað úr 450.000 krónum í 3.500.000 krónur á árinu 2006. Í greinargerð kæranda með umsókn um greiðsluaðlögun komi fram að yfirdráttarheimildin hafi verið vegna byggingar á sumarbústað sem kærandi hafi ætlað að reisa og selja síðan.

Þegar kærandi hafi stofnað til framangreindra skuldbindinga hafi skuld vegna bílaláns upphaflega að fjárhæð 1.459.590 krónur verið í vanskilum frá 1. janúar 2000 samkvæmt gögnum málsins.

Samkvæmt skattframtali ársins 2007 vegna tekna ársins 2006 hafi nettómánaðartekjur maka kæranda verið 91.840 krónur. Framfærslukostnaður hafi numið 108.147 krónum eins og að framan greini. Greiðslugeta maka hafi því verið neikvæð á þessum tíma og því ekki hægt að gera ráð fyrir að hann kæmi að frekari framfærslu heimilisins.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda bréf þar sem henni hafi verið gefinn kostur á að gera grein fyrir kröfu sem hafi verið í vanskilum frá árinu 2000 með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hafi kæranda verið boðið að leggja fram gögn er styddu það að hún hafi ekki á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni hafi framast verið unnt. Hafi verið óskað skýringar á því hvort kærandi hafi vísvitandi látið hjá líða að greiða af nefndu bílaláni þegar hún tók yfirdráttarlán til að byggja sumarbústað árið 2005 og hvers vegna ekki hafi verið greitt af bílaláninu með tilliti til þess að vanskil urðu ekki á öðrum skuldum kæranda fyrr en árið 2008. Í svörum kæranda hafi komið fram að annar maður hafi tekið bílalánið en kærandi hafi ábyrgst það. Lánið hafi verið tryggt með veði í bifreiðinni en hún hafi verið seld á uppboði. Uppboðsandvirðið hafi farið til greiðslu á viðgerðarkostnaði í stað þess að fara til lækkunar lánsins. Yfirdráttarlánið hafi ekki verið ætlað til greiðslu á bílaláni fyrr en sumarhúsið væri fullbúið og selt. Þetta hafi þó farið á annan veg því sumarhúsið hafi aðeins orðið fokhelt og einnig skemmst mikið í óveðri í nóvember 2009. Hafi það verið selt í því ásigkomulagi. Kaupverð hafi verið greitt með gömlum bíl og um 1.000.000 króna í reiðufé en féð hafi kærandi nýtt til framfærslu.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi umboðsmaður skuldara sent kæranda ábyrgðarbréf 14. nóvember 2012 þar sem henni hafi verið gefinn kostur á að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja með gögnum með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Þannig hafi henni verið gefið tækifæri til að sýna fram á að hún hafi ekki verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar eða tekið fjárhagslega áhættu þegar til þeirra hafi verið stofnað. Í svari kæranda hafi komið fram að hún hafi ætlað að skipta hluta af jörð sinni upp í 18 sumarhúsalóðir og selja þegar lagningu vega og vatnslagna væri lokið. Hafi þetta verið komið langt á veg þegar efnahagshrunið hafi orðið 2008. Kærandi óski eftir að lóðirnar verði notaðar sem grundvöllur samninga við kröfuhafa og biðji um aðstoð við það en lán kæranda hafi að hluta til verið tekin til að kosta vegagerð og hönnun.

Kærandi hafi gengist í talsverðar skuldbindingar á sama tíma og bílalán hafi verið fallið í gjalddaga. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi tekjur kæranda ekki getað staðið undir þeim skuldbindingum sem hún hafi tekist á hendur. Sama eigi við þótt tekjur maka séu lagðar til grundvallar. Svör kæranda við bréfum umboðsmanns skuldara hafi ekki verið studd öðrum gögnum en afstöðumynd af jörð kæranda, launaseðlum og útgefnum reikningum. Gögnin varpi ekki skýrari mynd á fjárhag kæranda á því tímabili sem um ræði.

Um framkvæmd b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála sé vísað til úrskurða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 11/2011, 17/2011, 23/2011 og 31/2011. Af þeim verði ráðið að taka beri tillit til samspils tekna og skulda á þeim tíma sem stofnað sé til skuldbindinga. Ef ljóst þyki að skuldarar hafi ekki getað staðið við skuldbindingarnar þegar til þeirra var stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar.

Með hliðsjón af þessu, eðli og fjárhæðum skulda kæranda og með vísan til b-, c- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge. sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-, c- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt f-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Samkvæmt skattframtölum var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2006 til 2010 í krónum:

 

  2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mán. (nettó)* 309.092 334.388 354.318 379.174 413.785
Eignir alls 5.388.000 5.823.200 6.436.381 6.682.539 6.690.737
· B (fasteignamat) 4.740.000 5.240.000 5.500.000 5.300.000 5.300.000
· Bifreiðir 648.000 583.200 524.880 1.272.392 1.145.153
· Bankainnstæður     411.501 110.147 245.584
Skuldir 22.494.599 21.067.059 40.989.025 55.662.875 44.572.338
Nettóeignastaða -17.106.599 -15.243.859 -34.552.644 -48.980.336 -37.881.601

*Samanlagðar ráðstöfunartekjur kæranda og maka.

 

Ljóst er þó að skattframtöl vegna ofangreindra tekjuára gefa ekki að öllu leyti rétta mynd af fjárhagsstöðu kæranda þar sem gera má ráð fyrir að fasteign hennar sé verðmeiri en fasteignamat gefur til kynna en um er að ræða einbýlishús, bújörð, hesthús, hlöðu og fjós. Endurstofnverð eignarinnar var 39.288.000 krónur árið 2013. Ekki liggur fyrir hvert endurstofnverðið var á árunum 2006 til 2010.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

 

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð
frá
SJ Eignarhaldsfélag** 1998 Bílalán 1.459.590 8.354.275 2000
Byr** 2002 Skuldabréf 2.180.000 3.271.337 2008
Landsbankinn* 2004 Erlent lán 22.500.000 34.151.877 2011
Landsbankinn* 2006 Yfirdráttur 3.500.000 5.886.369 2008
Landsbankinn* 2006 Veðskuldabréf 11.500.000 21.115.901 2009
Landsbankinn** 2006 Greiðslukort   1.518.946 2006
Landsbankinn* 2008 Yfirdráttur   1.010.692 2008
Ýmsir** 2008−2009 Reikningar 568.915 866.955 2008−2009
Söfnunarsj. lífeyrisréttinda** 2009 Iðgjöld 54.000 129.802 2009
Rangárþing eystra** 2009−2011 Fasteignagjöld 339.004 730.043 2009−2011
Tollstjóri** 2009−2011 Opinber gjöld 813.606 891.144 2009−2011
    Alls 42.915.115 77.927.341  

*Staða skuldar er frá árinu 2010.

**Staða skuldar er frá árinu 2011.

 

Það athugast að fyrirliggjandi gögn að því er varðar skuldastöðu kæranda eru frá árunum 2010 eða 2011. Umboðsmaður skuldara tók ákvörðun sína 17. desember 2012. Þar sem niðurstaða málsins hjá kærunefndinni er miðuð við þann tíma er stofnað var til skuldar hefur þessi ágalli á málinu þó ekki efnisleg áhrif á niðurstöðuna.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b-, c- og f-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Á árinu 2006 tók kærandi lán að fjárhæð 11.500.000 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði lánsins var í fyrstu 66.125 krónur. Á sama ári stofnaði kærandi til greiðslukortaskuldar og jók yfirdráttarskuld sína úr 450.000 krónum í 3.500.000 krónur. Þessar skuldir komu til viðbótar við skuldir kæranda á þeim tíma sem voru erlent lán frá 2004, skuldabréfalán frá 2002 og bílalán frá 1998. Mánaðarleg greiðslubyrði erlenda lánsins var á þessum tíma um 180.000 krónur á mánuði, mánaðarleg greiðslubyrði skuldabréfalánsins um 30.000 krónur á mánuði en bílalánið var allt gjaldfallið. Greiðslubyrði eldri lána kæranda var því alls um 210.000 krónur á mánuði. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda varð um 276.000 krónur eftir töku láns árið 2006. Á þessu sama ári höfðu kærandi og eiginmaður hennar að meðaltali 309.092 krónur til ráðstöfunar á mánuði en þar af voru tekjur kæranda einnar 217.252 krónur. Framfærslukostnaður heimilisins á mánuði miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara var að minnsta kosti 216.294 krónur eða 108.147 krónur á hvort hjóna. Þannig var greiðslugeta kæranda 109.105 krónur eftir greiðslu framfærslukostnaðar. Má af þessu ráða að á árinu 2006 hafi kærandi greinilega verið ófær um að standa við þær skuldbindingar sem hún stofnaði til þetta ár með tekjum sínum.

Ekki liggur fyrir hvert var verðmæti fasteignar kæranda á þessum tíma. Samkvæmt skattframtali 2007 vegna ársins 2006 var fasteignamat eignarinnar 4.740.000 krónur. Í ljósi endurstofnverðs fasteignarinnar árið 2013, sbr. það sem greinir að framan, verður að mati kærunefndarinnar að telja líklegt að fasteignin hafi verið verðmeiri en fasteignamatið. Telur kærunefndin því ekki unnt að slá því föstu að eignastaða kæranda hafi verið neikvæð eins og skattframtal gefur til kynna. Kærandi hefur á hinn bóginn ekki sýnt fram á það með gögnum að hún hafi átt eignir umfram skuldir og verður því að miða við að svo hafi ekki verið.

Í málinu liggur fyrir árangurslaust fjárnám á hendur kæranda frá árinu 2002. Einnig liggur fyrir að á árinu 2004 var árituð stefna á hendur kæranda. Loks kemur fram í umsókn kæranda um greiðsluaðlögun að fyrrnefnt erlent lán frá 2004 hafi hún fyrst og fremst tekið til að endurfjármagna kaupverð á fasteign sinni. Þar er einnig greint frá því að 11.500.000 króna lánið sem kærandi tók árið 2006 hafi verið tekið til að endurfjármagna skuldir kæranda og eiginmanns hennar. Þegar þetta er virt telur kærunefndin liggja fyrir að kærandi hafi þegar átt við greiðsluerfiðleika að etja um nokkurt skeið þegar hún tók títtnefnt lán árið 2006.

Í ofangreindu ljósi teljur kærunefndin að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. kemur fram að séu þær aðstæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. fyrir hendi geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika er hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það mat kærunefndarinnar að fjárhagsstaða kæranda hafi verið með þeim hætti að með því að takast á hendur fyrrnefndar skuldbindingar á árinu 2006 hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma. Er þá sérstaklega horft til þess að kærandi jók yfirdráttarskuldir sínar um 3.050.000 krónur á árinu 2006 að eigin sögn til þess að byggja sumarhús til endursölu á landi sínu. Verður að líta svo á að kærandi hafi gert ráð fyrir að greiða yfirdráttarlánið með söluhagnaði sem kynni að verða af byggingu sumarhússins. Kærunefndin telur samkvæmt þessu að með töku nefndrar yfirdráttarskuldar hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara telur að með því að takast á hendur nýjar skuldir á sama tíma og bílalán hennar var í vanskilum hafi kærandi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni framast var unnt. Gögn málsins sýna að umrætt bílalán hefur verið í vanskilum frá árinu 2000 en greitt var inn á skuldina á árunum 2000, 2001 og 2008. Í ljósi þess að gögn málsins benda til þess að fjárhagsstaða kæranda hafi verið erfið um nokkurt skeið, meðal annars með vísan til árangurslauss fjárnáms á hendur henni á árinu 2002, tekna kæranda, greiðslugetu og atvika málsins að öðru leyti telur kærunefndin að ekki sé hægt að líta svo á að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt með því að taka ný lán. Á f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. því að mati kærunefndarinnar ekki við í máli kæranda.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum