Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 210/2012

Fimmtudaginn 8. janúar 2015


A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 9. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. október 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

 

Með bréfi 12. nóvember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. desember 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 7. desember 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá kæranda með bréfi 16. janúar 2013.

Með bréfi 28. janúar 2013 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til bréfs kæranda. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd árið 1966 og býr ásamt tveimur dætrum sínum í eigin húsnæði að B götu nr. 4 í sveitarfélaginu D. Samkvæmt gögnum málsins eru ráðstöfunartekjur kæranda 171.748 krónur á mánuði. Heildarskuldir kæranda eru 32.496.588 krónur en eignir hennar eru taldar 21.247.372 krónur. Utan samnings um greiðsluaðlögun falla 4.156.130 krónur, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2012 (lge.), en um er að ræða sekt frá lögreglustjóra og skattsekt. Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru 3.428.478 krónur.

Ástæða fjárhagserfiðleika má að mati kæranda rekja til ársins 2009 þegar sambýlismaður hennar flutti af landi brott. Hún hafi setið eftir með ábyrgðarskuldbindingar vegna hans. Kærandi hafi misst starf sitt hjá X í janúar 2010 og hafi verið atvinnulaus síðan. Kærandi kveðst eiga við langvarandi veikindi að stríða og hafi sótt um endurhæfingarlífeyri til Tryggingastofnunar ríkisins.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 23. september 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. maí 2011 var kæranda synjað um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Með úrskurði kærunefndarinnar í máli nr. 22/2011 frá 26. janúar 2012 var ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi vegna annmarka á rannsókn málsins hjá embættinu.

Samkvæmt bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 31. janúar 2012 tók umboðsmaður skuldara umsókn kæranda aftur til meðferðar. Með tölvupósti 6. september 2012 óskaði embættið eftir upplýsingum og gögnum frá kæranda. Í bréfi umboðsmanns var meðal annars óskað eftir að kærandi og heimilismenn hennar undirrituðu samþykki um gagnaöflun og að kærandi veitti skýringar á lögreglusekt að fjárhæð 556.130 krónur, upplýsingar um tekjur heimilismanna, upplýsingar um skuldir og ábyrgðir í tengslum við atvinnurekstur fyrrum sambýlismanns og upplýsingar um ábyrgðarmenn skuldbindinga kæranda. Var kæranda veittur vikufrestur til að veita embættinu umbeðnar upplýsingar. Þann 17. september 2012 ítrekaði umboðsmaður skuldara beiðni um upplýsingar með bréfi og var kæranda þá veittur einnar viku viðbótarfrestur til að veita umbeðnar upplýsingar.

Kærandi leitaði til umboðsmanns skuldara 1. október 2012 og óskaði eftir aðstoð við að þýða og skilja fyrrnefnt bréf embættisins. Umboðsmaður skuldara kveðst hafa veitt umbeðna aðstoð.

Þann 12. október 2012 reyndi starfsmaður umboðsmanns skuldara án árangurs að ná tali af kæranda símleiðis til að minna á að frestur til að skila upplýsingum og gögnum væri útrunninn.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. október 2012 var umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar synjað á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru er farið fram á það að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og lagt verði fyrir embættið að taka mál kæranda aftur til meðferðar á grundvelli þeirra upplýsinga og gagna sem nú hafi verið afhent kærunefndinni.  

Kærandi kveðst hafa komist í alvarlega fjárhagsörðugleika vegna sambúðarslita og atvinnumissis. Hún hafi skuldað talsvert fé og ekki getað staðið í skilum. Hún hafi því sótt um greiðsluaðlögun 23. september 2010. Afgreiðsla umsóknar hafi tekið langan tíma en meðan á henni stóð hafi umboðsmaður skuldara sent kæranda bréf sem hún hafi ekki skilið vel því þau voru á íslensku. Kærandi hafi óskað eftir aðstoð embættisins til að fá ábyrgðarbréf, sem borist hafi í september, þýtt og leiðbeiningar. Leiðbeiningarnar hafi verið veittar á ensku sem sé ekki móðurmál kæranda og kveðst kærandi ekki hafa skilið það sem við hana var sagt. Umboðsmaður skuldara hafi svo hafnað umsókn kæranda með ákvörðun 18. október 2012.

Kærandi kveðst loks hafa fengið aðstoð við málið og komi nú umbeðnum upplýsingum og gögnum á framfæri.

Í kæru greini kærandi í fyrsta lagi frá tekjum heimilismanna. Í öðru lagi greini kærandi frá tilurð lögreglusekta. Í þriðja lagi tiltaki kærandi hve stór hluti skulda hennar séu tilkomnar vegna atvinnurekstrar. Í fjórða lagi komi fram hvaða ábyrgðarmenn séu á skuldbindingum hennar og í fimmta lagi greini kærandi frá því að með kæru fylgi undirrituð heimild til umboðsmanns skuldara til gagnaöflunar. Kærandi kveðist nú átta sig á því að þessum gögnum hafi hún átt að skila til umboðsmanns skuldara vorið 2012. Hún hafi hins vegar ekki skilið það á þeim tíma vegna tungumálaörðugleika sem hafi fyrst og fremst verið ástæðan fyrir því að kærandi hafi ekki skilað gögnum og upplýsingum sem umboðsmaður skuldara fór fram á.

Kærandi kveðst nú fá aðstoð frá lögfræðiráðgjöf Y og muni hún leita þangað berist erindi frá umboðsmanni skuldara vegna málsins. Þá muni hún afla nauðsynlegra gagna um leið og beiðnir um slíkt berist og veita allar þær upplýsingar sem þörf sé á.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar ef hann sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti, sbr. 2. lge. Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna.

Umboðsmaður skuldara greinir frá því að farið hafi verið yfir umsókn kæranda og meðfylgjandi gögn. Þann 6. september 2012 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um tekjur dætra kæranda sem búi á heimili hennar, upplýsingum um hversu mikið þær greiði heim, upplýsingum um tilurð lögreglusektar að fjárhæð 556.130 krónur, hversu mikið af skuldum kæranda sé vegna atvinnureksturs hennar eða fyrrum sambýlismanns hennar og upplýsingum um hverjir séu ábyrgðarmenn skuldbindinga kæranda. Auk þess hafi embættið óskað þess að kærandi og heimilismenn undirrituðu samþykki um gagnaöflun. Kærandi hafi ekki svarað þessari beiðni sem hafi verið ítrekuð með ábyrgðarbréfi sem kærandi hafi fengið afhent 24. september 2012.

Umboðsmaður skuldara greinir frá því að kærandi hafi leitað til embættisins 1. október 2012 og fengið aðstoð við þýðingu bréfsins vegna tungumálaerfiðleika hennar. Þann 12. október 2012 hafi embættið reynt án árangurs að ná tali af kæranda þar sem frestur til að skila gögnum hafi verið liðinn. Fyrirliggjandi gögn hafi ekki gefið nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og/eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Af þeim sökum hafi umsókn kæranda um greiðsluaðlögun verið synjað á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi hafi verið í reglulegum samskiptum við starfsmenn umboðsmanns skuldara sem hafi útskýrt beiðni embættisins á ensku fyrir kæranda. Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi haft mjög rúman frest til að bregðast við ósk embættisins. Umboðsmaður skuldara vísar til þess að í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 6/2011 frá 4. júlí 2011 hafi nefndin talið að kæranda hefði verið gefinn nægur tími til að skila gögnum í því máli. Um sé að ræða sams konar mál og hér sé til umfjöllunar.

Umboðsmaður skuldara áréttar að aðeins sé á færi kæranda sjálfs að leggja fram þau gögn sem óskað hafi verið eftir við vinnslu málsins, en samkvæmt 4. mgr. 4. gr. lge. beri skuldara að útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Hafi þetta meðal annars verið staðfest í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 5/2011 frá 21. júní 2011.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í ákvæðinu segir að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærandi sinnti ekki óskum umboðsmanns um framlagningu gagna sem voru til þess fallin að gefa gleggri og skýrari mynd af fjárhagsstöðu kæranda, en þetta voru upplýsingar sem kærandi einn gat látið í té að mati umboðsmanns skuldara.

Þau gögn sem umboðsmaður óskaði eftir voru meðal annars upplýsingar um tekjur, tilurð sekta, skuldir vegna atvinnurekstrar og upplýsingar um ábyrgðarmenn. Auk þess óskaði embættið þess að kærandi og heimilismenn undirrituðu samþykki vegna gagnaöflunar umboðsmanns skuldara.

Kæranda voru veittir ítrekaðir frestir til að skila upplýsingum og gögnum til umboðsmanns skuldara, en þennan drátt sem varð á því að koma upplýsingum og gögnum til skila segir kærandi mega rekja til tungumálaerfiðleika. Við meðferð málsins hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafa umbeðnar upplýsingar verið veittar og þeim gögnum sem óskað var eftir hefur verið skilað, en það var gert með greinargerð til kærunefndarinnar 16. janúar 2013. Því liggja fyrir þau gögn sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir og voru nauðsynleg að mati embættisins til að hægt væri að meta fjárhag kæranda.

Þar sem nú liggja fyrir þau gögn sem áður vantaði, verður eðli máls samkvæmt að fella ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum