Hoppa yfir valmynd
22. desember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 227/2012

Mánudaginn 22. desember 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 3. desember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. nóvember 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 7. desember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. janúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. janúar 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 13. mars 2013. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1962 og býr einn í leiguhúsnæði að B götu nr. 1 í sveitarfélaginu D.

Kærandi starfar við þýðingar og er með eigin rekstur. Hann hefur einnig laun fyrir stjórnarsetu. Ráðstöfunartekjur hans voru 227.549 krónur á mánuði að meðaltali árið 2011.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til margra samverkandi þátta. Hann hafi verið eigandi að eignarhluta í U ehf. sem var úrskurðað gjaldþrota árið 2007. Einnig hafi hann átt félagið V ehf. en skuldir þess félags hafi hækkað mjög mikið vegna tengingar við erlenda mynt og tryggingar hafi ekki dugað fyrir skuldunum. Þá sé hluti vanda kæranda vegna ábyrgða sem hann hafi tekist á hendur í tengslum við atvinnurekstur. Allur fjárhagsvandi kæranda hafi magnast við efnahagshrunið 2008.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 160.870.759 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærandi hefur einnig gengist í umtalsverðar sjálfskuldarábyrgðir fyrir einstaklinga og lögaðila.

Kærandi lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 14. febrúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. nóvember 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki eiginlegar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi telji að nægar tryggingar, aðrar en sjálfskuldarábyrgðir hans, hafi verið fyrir skuldbindingum hans. Honum hafi verið ljóst að viðskipti séu ekki áhættulaus en hann hafi ekki vitað af því fremur en aðrir að bankahrun myndi dynja yfir.

Kærandi kveðst hafa fjárfest í góðri trú um að viðskiptahættir væru eðlilegir. Hann hafi greitt af öllum lánum og hafi talið sig eiga eignir umfram þær skuldbindingar sem hann hafi tekist á hendur. Hann hafi meira að segja haldið áfram að greiða af lánum eftir hrunið. Á árinu 2010 hafi honum orðið ljóst að hann gæti ekki staðið í skilum þar sem tekjur hans höfðu lækkað. Einnig hafi orðið ljóst að viðræður við helstu lánardrottna vegna ábyrgða hans yrðu árangurslausar.

Mesti vandi kæranda sé vegna ábyrgðar á vélakaupum. Sú ábyrgð hafi í raun verið formsatriði þar sem vélarnar hefðu átt að vera nægileg trygging og ef illa færi hefði átt að vera hægt að selja þær á markaði. Slíkur markaður hafi ekki verið til eftir hrunið. Vélarnar hafi fallið um 70% til 90% í verði og skuldirnar hækkað.

Kærandi hafni því að hann hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu umfram það sem sé eðlilegt í viðskiptum. Fjárhagsvandi hans sé eingöngu vegna hrunsins. Einnig sé það mat kæranda að bankar og stjórnendur þeirra hafi á einhvern hátt gert sér grein fyrir áhættunni og hafi þeir því ekki átt rétt á að krefjast persónulegra ábyrgða vegna umræddra skulda.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í 1. gr. lge. komi fram að markmið laganna sé að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í greinargerð frumvarpsins er varð að lge. komi fram að ákvæði 6. gr. geti girt fyrir það að einstaklingur í atvinnurekstri fái greiðsluaðlögun hafi hann hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið á sig fjárskuldbindingar sem hann var greinilega ófær um að standa við þegar hann stofnaði til þeirra.

Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti séu 160.870.610 krónur. Af þeim séu 149.142.034 krónur, eða 92,7%, vegna atvinnurekstrar. Ábyrgðarskuldbindingar kæranda séu 366.864.170 krónur. Ef beinar skuldir kæranda og ábyrgðarskuldir hans séu lagðar saman sé heildarfjárhæð skuldbindinga kæranda 527.734.780 krónur. Þar af nemi skuldbindingar vegna rekstrar 97,78%.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda séu að mestu leyti vegna eftirtalinna félaga: U ehf., X ehf., Y ehf., Z ehf. og T ehf. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá gegni kærandi eða hafi gegnt stöðu stjórnarfomanns, framkvæmdastjóra og/eða prókúruhafa þessara félaga. Ábyrgðarskuldbindingar félaganna séu frá árunum 2004 til 2008 og þær sundurliðist svo í krónum:

 

Ár Félag Fjárhæð Ábyrgðarskuld-


ábyrgðarskuldb. bindingar alls
2004 U ehf. 5.000.000  
2004 X ehf. 18.880.299 23.880.299
2005 Y ehf. 17.500.000  
2005 P ehf. 2.000.000  
2005 X ehf. 22.047.961  
2005 T ehf. 6.027.500 71.455.760
2006 X ehf. 2.247.300  
2006 X ehf. 2.700.000  
2006 O 840.000 77.243.060
2007 Y ehf. 7.500.000  
2007 X ehf. 40.573.479  
2007 T ehf. 3.711.950  
2007 U ehf. 15.377.250 144.405.739
2008 Z ehf. 4.473.353 148.879.092

 

Fjárhagsstaða kæranda samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum hafi verið eftirfarandi árin 2005 til 2008 í krónum:

Tekjuár 2005 2006 2007 2008
Ráðstöfunartekjur kæranda á mánuði* 1.171.087 831.826 346.493 413.782
Eignir kæranda 137.022.875 84.665.784 33.340.020 8.385.087
Skuldir kæranda 81.681.317 73.688.606 60.617.902 117.775.643
Nettó eignastaða kæranda 55.341.558 10.977.178 -27.277.882 -109.390.556

*Meðaltekjur.

 

Á árinu 2007 hafi áætluð greiðslugeta kæranda verið neikvæð um 123.179 krónur á mánuði og árið 2008 hafi greiðslugetan verið neikvæð um 65.193 krónur á mánuði.

Til viðbótar við fyrrnefndar ábyrgðarskuldbindingar hafi kærandi tekið lán hjá Landsbankanum 2004 en lánið hafi upphaflega verið að fjárhæð 35.900.000 krónur. Kærandi hafi tekið annað lán hjá Landsbankanum árið 2007 en það hafi verið að fjárhæð 30.000.000 krónur.

Í greinargerð frumvarps til lge. sé tekið fram að lögunum sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisrekstrar einstaklinga en mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem séu með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri, til dæmis einyrkja, bænda og þeirra sem séu með atvinnurekstur á eigin kennitölu. Það sé þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vandræðum vegna atvinnurekstrar nýti sér greiðsluaðlögun. Sú takmörkun sem hafi verið að finna í upphaflegu frumvarpi að því er varði einstaklinga í atvinnurekstri hafi verið felld niður. Félags- og tryggingamálanefnd Alþingis hafi þar meðal annars horft til þess að ákvæði 6. gr. frumvarpsins myndu girða fyrir að einstaklingar í atvinnurekstri, sem hefðu hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu, fengju heimild til greiðsluaðlögunar. Í tilviki kæranda sé stærstur hluti skuldbindinga hans, að meðtöldum ábyrgðarskuldbindingum, vegna atvinnurekstrar sem ekki sé samofinn heimilisrekstri. Þrátt fyrir að eignastaða kæranda hafi verið jákvæð á árunum 2005 til 2007 sé ljóst af gögnum málsins að ábyrgðarskuldbindingar hans hafi ávallt numið töluvert hærri fjárhæð en nettó eignir. Að auki virtusttekjur kæranda árin 2007 og 2008 ekki hafa nægt bæði til framfærslu hans og afborgana af skuldum. Engu að síður hafi hann tekist á hendur miklar ábyrgðarskuldbindingar þessi ár.

Mikill meirihluti ábyrgðarskuldbindinga kæranda sé vegna félagsins X ehf. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 hafi skuldir þess verið rúmar 148.500.000 krónur og eignir tæpar 120.000.000 krónur. Félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota í október 2011. Samkvæmt auglýsingu í Lögbirtingablaði hafi lýstar kröfur í búið verið alls rúmar 213.000.000 krónur. Engar eignir hafi fundist í búinu.

Að því er varði d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. bendi umboðsmaður á 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt þessum ákvæðum geti meðal annars verið lögð refsing við því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda. Hafi ákvæðið verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi, sbr. úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Kærandi hafi gegnt stöðu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra og prókúruhafa hjá U ehf. Af gögnum málsins verði ráðið að á kæranda hvíli skattsekt skattrannsóknarstjóra ríkisins að fjárhæð 2.989.545 krónur. Skuldin sé vegna refsiverðrar háttsemi kæranda með því að standa ekki að fullu skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna U ehf. á árunum 2007 og 2008. Einnig með því að standa ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafi verið í rekstri félagsins árið 2007. Af gögnum málsins verði ráðið að félagið skuldi eftirtalin opinber gjöld í krónum:

 

Heildarskuld opinberra gjalda 151.401.951
Þar af virðisaukaskattur 10.938.690
Þar af staðgreiðsla launagreiðanda 27.610.430

 

Í málinu liggi einnig fyrir að verulegar skattskuldir hvíli á öðrum félögum þar sem kærandi hafi gegnt stöðu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra og prókúruhafa. Verulegur hluti skattskuldanna sé vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu launagreiðanda. Sé fjárhæð þessara skulda sem kærandi beri ábyrgð á samkvæmt framansögðu alls 40.202.209 krónur auk skattsekta að fjárhæð 2.989.545 krónur. Nemi því skuldbindingar sem kærandi hafi bakað sér með háttsemi sem refsing liggur við alls 43.191.754 krónum. Verði að telja þá fjárhæð umtalsverða hvort sem litið sé til heildarskuldbindinga kæranda eða sjálfstætt á þessa fjárhæð. Beri kærandi stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þessara vanskila.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi umboðsmaður skuldara sent kæranda ábyrgðarbréf 20. júlí 2012. Í svari kæranda 4. september 2012 komi fram að þær skuldbindingar sem kærandi ábyrgðist fyrir Z ehf. hafi einnig verið tryggðar með veði í vélum. Á þeim tíma hafi honum ekki verið ljóst að bankahrun væri yfirvofandi. Þrátt fyrir að bankinn hafi mátt vita í hvað stefndi nokkrum mánuðum fyrir hrun hafi hann ekki látið kæranda vita af því. Vélarnar sem settar hafi verið að veði hefðu átt að duga fyrir skuldunum en markaður fyrir þessar vélar hafi ekki verið til eftir hrunið. Kærandi hafni því að hafa hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varði d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kveðst kærandi persónulega hafa greitt um 7.000.000 króna vegna virðisaukaskattskuldar U ehf. eftir gjaldþrot félagsins. Kærandi greini frá því að U ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 2008, Z hafi verið teknir til gjaldþrotaskipta 2010 og X ehf. árið 2011. Kærandi kveðst ekki vera í forsvari fyrir Y ehf. en núverandi forsvarsmenn hafi gert samning við Tollstjóra.

Með vísan til þess sem komið hafi fram sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til b-, c- og d-liða.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Þær skuldbindingar sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru neðangreindar skuldir kæranda og félaga sem hann var í forsvari fyrir vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu launagreiðanda í krónum:

 

  Upphafleg fjárhæð Fjárhæð 2012
Skattsekt kæranda 2.900.000 2.989.545
     
U ehf.:    
 staðgreiðsla launagreiðanda 2007 9.641.680 21.852.498
staðgreiðsla launagreiðanda 2008 2.910.067 5.757.932
virðisaukaskattur 2007 2.041.751 3.225.418
virðisaukaskattur 2008 4.017.373 7.713.272
U ehf. alls: 18.610.871 38.549.120
     
Q ehf.:    
staðgreiðsla launagreiðanda 2011 52.000 66.426
virðisaukaskattur 2010 584.763 795.009
virðisaukaskattur 2011 637.500 791.654
Q ehf. alls: 1.274.263 1.653.089
     
Y ehf.:    
staðgreiðsla launagreiðanda 2012 101.320 101.320
Y ehf. alls: 101.320 101.320
     
Samtals: 22.886.454 43.293.074

 

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Fyrir liggur að kærandi skuldar skattsekt. Einnig liggur fyrir samkvæmt gögnum frá Hlutafélagaskrá að á þeim tíma er hér skiptir máli var kærandi framkvæmdastjóri og prókúruhafi félaganna U ehf., Q ehf. og Y ehf.og stjórnarmaður U ehf. og Q ehf. Hvíldi því á kæranda sú skylda fyrirsvarsmanns félags, sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög að því er varðar fjárreiður og eignir félags. Fyrirsvarsmaður félags skal hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem einn af fyrirvarsmönnum U ehf., Q ehf. og Y ehf.

Að því er varðar ofangreindar vörsluskattskuldir verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl.. Samkvæmt gögnum málsins hvílir á kæranda skattsekt skattrannsóknarstjóra ríkisins að fjárhæð 2.989.545 krónur vegna vanrækslu kæranda að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna U ehf. á árunum 2007 og 2008. Einnig með því að standa ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins árið 2007. Með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.  

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d–liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um liðlega 160.300.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins nema tekjur hans alls 227.549 krónum á mánuði. Skuldir sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi nema 43.293.074 krónum með vöxtum eða 26,9% af heildarskuldum kæranda. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f–lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í ofangreindu dómsmáli var skuldin vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili, enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum