Hoppa yfir valmynd
18. desember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 108/2014

Fimmtudaginn 18. desember 2014


A og B

gegn

skipuðum umsjónarmanni D hrl.

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 10. nóvember 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, D hrl., sem tilkynnt var með bréfi 30. október 2014, þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. apríl 2014 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Þann 27. maí 2014 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda. Umsjónarmaður sendi frumvarp til kröfuhafa 28. ágúst 2014. Athugasemdir bárust frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins en sjóðurinn andmælti ekki frumvarpinu. Íslandsbanki andmælti frumvarpinu og Landbankinn  hafnaði því alfarið að semja við kærendur á þeim grundvelli að kærendur hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Þann 16. október 2014 sendi umsjónarmaður kærendum upplýsingar um færar leiðir í kjölfar þess að samningum hefði verið hafnað. Þann 28. október 2014 lýstu kærendur því yfir að þau vildu leita nauðasamnings miðað við 100% niðurfellingu samningskrafna.

Umsjónarmaður tilkynnti kærendum með bréfi 30. október 2014 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar á grundvelli 18. gr. lge. með vísan til 6. gr. lge. og óvissu um framtíðartekjur kæranda A.

 

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. lge. skal umsjónarmaður taka rökstudda afstöðu til þess innan tveggja vikna hvort hann mæli með því að nauðasamningur komist á, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge. Samkvæmt ákvæðinu skal umsjónarmaður í fyrsta lagi líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar. Í öðru lagi hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags og framtíðarhorfa. Í þriðja lagi hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar. Í fjórða lagi hvort raunhæft sé að skuldari muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og í fimmta lagi hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa greiðsluaðlögunarumleitanir til sín taka.

Landsbankinn hafi haldið því fram að í öndverðu hafi ákveðin atriði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, nánar tiltekið að kærendur hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra þegar til skuldbindinganna var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Umsjónarmaður telur kærendur ekki hafa tekið verulega áhættu þegar til meginþorra skuldbindinga þeirra var stofnað á árunum 2005 til 2008, enda voru árstekjur þeirra á milli 9.360.000 krónur og 15.129.000 krónur á þeim tíma. Langtímaatvinnuleysi kæranda A hafi ekki verið fyrirsjáanlegt og nýrri skuldir kærenda séu smávægilegar í samanburði við hinar eldri.

Að mati umsjónarmanns ber honum að fara sjálfstætt yfir hvort önnur skilyrði greiðsluaðlögunar hafi verið uppfyllt frá öndverðu. Telur umsjónarmaður að skilyrði 2. gr. lge. um hverjir geti leitað greiðsluaðlögunar hafi verið uppfyllt. Kærendur hafi verið í verulegum fjárhagsvanda þegar sótt var um greiðsluaðlögun og séu enn. Ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að synja hefði átt um heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. lge. svo sem að fylgigögn umsóknar hafi verið ófullnægjandi, að kærendur hafi hagað sér óheiðarlega, veitt rangar upplýsingar eða þau hafi fengið samþykkta greiðsluaðlögun áður.

Þá hafi komið til skoðunar skilyrði 2. mgr. 6. gr. lge. Ljóst sé að ekki hafi verið stofnað til meginhluta skuldbindinga nýlega, heldur á árunum 2005 til 2008, sbr. a-lið ákvæðisins. Umsjónarmaður telji að í ljósi tekna kærenda á þeim árum hafi þau ekki verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar, sbr. b-lið ákvæðisins. Ekkert hafi bent til þess að d- eða e-liðir ákvæðisins hafi átt við þar sem engar skuldbindingar kærenda sé að rekja til refsiverðrar eða skaðabótaskyldrar háttsemi og þær ekki riftanlegar við gjaldþrotaskipti. Þá telur umsjónarmaður í ljósi framangreinds að kærendur hafi ekki á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða að skuldir þeirra séu þess eðlis að bersýnilega hafi verið ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar næði til þeirra, sbr. g-lið ákvæðisins.

Til sérstakrar skoðunar hafi þurft að taka c- og f-liði ákvæðisins um hvort kærendur hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt eða látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt. Af mótmælum Landsbanka hafi mátt ráða að kærendur hafi nýtt sér greiðsluerfiðleikaúrræði og frystingar í einhverjum mæli frá árinu 2008. Tekjur kæranda A hafi þó ekki dregist verulega saman fyrr en í apríl 2010 og ekki sé dregið í efa að aðstæður á íslenskum bankamarkaði hafi kallað á greiðsluerfiðleikaúrræði fyrr þar sem kærendur séu eigendur verðmætrar en mikið veðsettar fasteignar.

Árið 2010 hafi kærendur fengið leiðréttingu lána með 110% leiðinni og hafi niðurfelling þeirra verið 35.010.114 krónur miðað við verðmat á fasteign þeirra, þá 48.000.000 króna, en kærendur hafi ekki andmælt verðmatinu. Á árinu 2012 kveður Landsbankinn kærendur hafa aflað nýs verðmats fyrir fasteign sína en fjárhæð matsins hafi verið 61.000.000 króna og hafi bankinn í kjölfarið boðist til að leysa til sín fasteignina á því verði. Kærendur segi að Landsbankinn hafi aflað verðmatsins. Umsjónarmaður telur það ekki skipta öllu máli hvor aðilinn aflaði verðmatsins en ljóst sé að þess hafi verið aflað og það verðmat sé í samræmi við verðmat sem aflað hafi verið árið 2014 við vinnslu greiðsluaðlögunarmálsins, sem numið hafi 63.000.000 króna.

Árið 2012 höfðu kærendur verið í greiðsluvanda frá árinu 2008 og kærandi A með lágar tekjur frá árinu 2010. Kærendur hafi ekki lengur getað greitt af hæstu lánum sínum og 110% leiðin hafði ekki leyst greiðsluvanda þeirra. Samt hafi kærendur hafnað því að Landsbankinn leysti til sín fasteign þeirra á 61.000.000 króna á því ári og hafi staða þeirra því verið óbreytt til ársins 2014. Kærendur hafi leigt fasteignina út, fengið leigutekjur af henni en hafi ekki greitt af veðlánum, a.m.k. ekki af stærstum hluta þeirra. Með því telur umsjónarmaður að kærendur hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt.

Umsjónarmaður bendir á að kærendur telji fasteign sína mun verðmætari en fyrirliggjandi verðmöt segi til um en sú afstaða sé ekki studd verðmötum eða öðrum haldbærum gögnum. Þá sé afstaða kærenda jafnframt í andstöðu við fyrirliggjandi verðmöt.

Kærandi A hafi upplýst umsjónarmann um að hann hafi nýlega hafnað starfi hjá endurskoðunarstofu þar sem hann hafi nýlega hafið sitt annað framhaldsnám. Námið sé erlendis sem auki framfærslukostnað fjölskyldu kærenda. Þannig megi álykta að kærandi A hafi að þessu leyti að einhverju marki hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og ekki gert allt sem hann gat til að standa í skilum með stærstan hluta fjárskuldbindinga sinna.

Umsjónarmaður telur að kærendur leiti ekki eftirgjafar umfram það sem eðlilegt sé, sbr. 18. gr. lge., miðað við núverandi tekjur og stöðu. Þótt framtíðarhorfur kæranda A á atvinnumarkaði séu ágætar að mati umsjónarmanns, verði ekki framhjá því litið að atvinnuleysi hans hefði varað í fjögur og hálft ár og að fyrra nám hans hafi ekki leitt til þess að hann fengi starf. Greiðslugeta kærenda verði verulega neikvæð missi þau fasteign sína þar sem þau missi þá leigutekjur, en umsjónarmaður telur óumflýjanlegt að svo fari þar sem Landsbankinn vilji ekki semja við kærendur. Tekjur kærenda þurfi þá að vera mjög háar svo endar nái saman. Framhjá því verði ekki litið að óvissa sé um hverjar framtíðartekjur kæranda A verði og því erfitt að taka afstöðu til þess hve mikil eftirgjöf sé eðlileg. Menntun og reynsla kæranda A gefi þannig tilefni til að ætla að tekjur verði háar en langtímaatvinnuleysi gefi tilefni til að ætla hið gagnstæða.

Umsjónarmaður telur að kærendur hafi komið heiðarlega fram við umleitanir til greiðsluaðlögunar. Kærendur hafi ekki lagt fyrir fjármuni, sbr. skyldu a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þótt greiðslugeta þeirra samkvæmt útsendu frumvarpi hafi verið jákvæð um 107.595 krónur á mánuði. Umsjónarmaður hafi fallist á skýringar kærenda hvað þetta varði og sé það mat umsjónarmanns að ekki hafi orðið tjón vegna þess að kærendur hafi látið hjá líða að leggja fyrir og því valdi það eitt og sér ekki niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana.

Þó að krafa kærenda um nauðasamning, sem feli í sér algjöra niðurfellingu samningskrafna, nái fram að ganga myndi það ekki leysa greiðsluvanda kærenda, enda megi rekja meginþorra skuldavandans til fasteignar þeirra.

Niðurstaða umsjónarmanns er sú að ekki verði litið framhjá því að kærandi A hyggist ljúka MBA námi vorið 2015 og að algjör óvissa sé um framtíðartekjur hans. Því sé ekki hægt að taka afstöðu til þess hvort sú eftirgjöf sem leitað hafi verið eftir sé eðlileg í ljósi framtíðarhorfa hans. Það, auk þess að umsjónarmaður telur að kærendur hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt og þannig hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt, verði til þess að umsjónarmaður telji sér ekki fært að mæla með því að nauðasamningur komist á samkvæmt beiðni skuldara og gegn eindregnum andmælum kröfuhafa.

 

III. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að nauðasamningur komist á. Engar aðrar kröfur eru settar fram í málinu af þeirra hálfu en skilja verður málatilbúnað þeirra á þann veg að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umsjónarmanns verði felld úr gildi og mælt verði með nauðasamningi.

Kærendur vilja leiðrétta nokkur atriði í ákvörðun umsjónarmanns.

Í fyrsta lagi hafi Landsbankinn látið gera verðmat á fasteign kærenda sem hljóðað hafi upp á 63.000.000 króna. Kærendur telja að verðmatið hafi verið rangt og vísa til þess að þegar miðað sé við fermetraverð á sérbýli í sveitarfélaginu E samkvæmt Þjóðskrá Íslands í september 2014 eigi verðmæti eignarinnar að vera tæplega 70.000.000 króna. Með vísan til þess og annarra atriða sem kærendur telja að styðji hærra verðmat, hafi þau hafnað tilboði Landsbankans í fasteign þeirra sem hafi byggst á verðmatinu 63.000.000 króna.

Í öðru lagi mótmæla kærendur því sem haldið sé fram í ákvörðun umsjónarmanns að þau hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt. Kærendur kveðast samkvæmt samkomulagi við lögfræðideild Landsbankans hafa greitt 150.000 krónur á mánuði til bankans frá árslokum 2012 og til hausts 2013. Þegar því samkomulagi lauk hafi kærendur lagt til að þau myndu greiða til bankans það sem þau gætu meðan kærandi A væri að leita að starfi. Kærendur hafi meðal annars lagt til skilmálabreytingar á lánum og að bankinn innheimti leigutekjur af fasteign þeirra og ráðstafaði inn á greiðslur á þremur fasteignaveðlánum kærenda hjá bankanum. Þessum tillögum hafi Landsbankinn hafnað og hafi krafist þess að kærendur greiddu 330.000 krónur mánaðarlega til 1. mars 2014. Kærendur kveðast hafa greitt samkvæmt kröfu bankans.

Í mars 2014 hafi kærandi A ekki verið komin með starf og hafi bankinn þá ekki viljað semja frekar við kærendur. Því hafi þau talið fullreynt að semja við bankann. Kærendur hafi því ekki haft aðra kosti í stöðunni en að sækja um heimild til greiðsluaðlögunar hjá umboðsmanni skuldara. Kærendur benda á að aðrir kröfuhafar hafi sýnt aðstæðum þeirra mun meiri skilning og hafi kærendur ekki farið á vanskilaskrá fyrr en á árinu 2014.

Kærendur telja því að rangt sé að halda því fram að þau hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem framast var unnt.

Í þriðja lagi mótmæla kærendur fullyrðingum umsjónarmanns um að kærandi A hafi hafnað starfi hjá endurskoðunarstofu. Hið rétta sé að um hafi verið að ræða tímabundið íhlaupastarf en ekki fasta stöðu. Því hafi kærandi A ekki hafnað starfi með óeðlilegum hætti.

Í fjórða lagi benda kærendur á að kærandi A sé í framhaldsnámi sem hófst í september 2014 og ljúki vorið 2015. Ástæða þess að kærandi fór í framhaldsnám hafi verið til að auka líkur hans á því að fá starf. Eingöngu sé tekið lán fyrir skólagjöldum. Fái kærandi A starf í framhaldinu sé algjörlega óvisst hverjar launatekjur hans verði.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur óska þess að mælt verði með nauðasamningi. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 2. mgr. 18. gr. lge. Staðfesti nefndin ákvörðun umsjónarmanns lýkur greiðsluaðlögunarumleitunum þá þegar. Hrindi kærunefndin ákvörðun ber umsjónarmanni að útbúa og leggja fyrir kröfuhafa frumvarp til nauðsamnings til greiðsluaðlögunar og/eða frumvarp til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. 19. og 20. gr. lge. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála mæli með samningum. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli ákvörðun úr gildi fallist hún á kröfur kærenda í málinu. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að mæla verði gegn því að nauðasamningur komist á. Í fyrsta lagi vegna þess að óvissa sé um framtíðartekjur kæranda A og því ekki hægt að taka afstöðu til þess hvort kærendur leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags og framtíðarhorfa. Í öðru lagi mælir umsjónarmaður gegn því að nauðasamningur komist á vegna háttsemi kærenda sem teljist varða við f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og hefði í öndverðu átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar. Byggist þetta mat á því að á sama tíma og kærendur leigðu út fasteign sína greiddu þau ekki af veðlánum sem á henni hvíldu.

Í 18. gr. lge. kemur fram að umsjónarmaður skuli líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar. Að mati kærunefndarinnar er hér átt við að nýjar upplýsingar komi fram sem ekki lágu fyrir þegar umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um að heimila greiðsluaðlögun eða um sé að ræða atriði, sem hann tók ekki afstöðu til. Umboðsmanni skuldara er heimilt en ekki skylt að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli heildstæðs mats, með sérstöku tilliti til atriða sem tilgreind eru í stafliðum a-g í 2. mgr. 6. gr. lge. Niðurstaða þessa mats umboðsmanns skuldara getur ekki sætt endurskoðun umsjónarmanns um þau atriði sem umboðsmaður skuldara tók afstöðu til. Þær upplýsingar sem tilgreindar eru í hinni kærðu ákvörðun og umsjónarmaður taldi varða við 2. mgr. 6. gr. lge. lágu fyrir þegar umboðsmaður skuldara veitti kæranda heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt framangreindri túlkun á orðalagi 18. gr. lge. geta þær upplýsingar ekki leitt til þess að umsjónarmaður mæli gegn því að nauðasamningur komist á.

Ákvörðun umsjónarmanns byggist einnig á því að ekki sé hægt að taka afstöðu til þess hvort krafa kærenda um 100% eftirgjöf sé eðlileg, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge., þar sem óvissa sé um framtíðartekjur kæranda A.

Samkvæmt 18. gr. lge. ber umsjónarmanni að leggja mat á, með tilliti til fjárhags og framtíðarhorfa skuldara, hvort leitað sé eftirgjafar umfram það sem er eðlilegt. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að slá því föstu hverjar framtíðartekjur kæranda A verða, enda er hann í námi og óljóst hvort hann fái starf að því loknu við hæfi. Að mati kærunefndarinnar verður að meta þetta í samræmi við fjárhagsaðstæður kæranda samkvæmt gögnum málsins. Þær upplýsingar sem liggja fyrir um tekjur kæranda A eru frá árunum 2008-2013. Telur kærunefndin að miða beri við þær tekjur þegar hlutfall eftirgjafar er metið. Að mati kærunefndarinnar getur óvissa um framtíðartekjur við þessar aðstæður því ekki leitt til þess að mælt sé gegn nauðasamningi samkvæmt lagaákvæðinu.

Með vísan alls framangreinds er hin kærða ákvörðun umsjónarmanns felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, D hrl., um að mæla gegn því að nauðasamningur A og B komist á, er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum