Hoppa yfir valmynd
30. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 152/2013

Fimmtudaginn 30. október 2014

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 2. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 3. október 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. október 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 31. október 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1972. Hún býr ásamt sambýlismanni sínum og dóttur þeirra í leiguhúsnæði í sveitarfélaginu D. Kærandi er skráð eigandi að einbýlishúsi við B götu nr. 33 í sveitarfélaginu C sem hún leigir út. Mánaðarlegar tekjur kæranda eru 285.664 krónur miðað við launatekjur hennar á tímabilinu desember 2010 til febrúar 2011. Tekjur samanstanda af launagreiðslum, barnabótum, vaxtabótum og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu.

Að sögn kæranda má einkum rekja greiðsluerfiðleika hennar til fasteignakaupa árið 2007. Það ár hafi hún keypt húsnæði fyrir fjölskyldu sína að B götu nr. 33 í sveitarfélaginu C. Kærandi hafi staðist greiðslumat og fengið lán hjá Íbúðalánasjóði og skammtímalán hjá Sparisjóði Mýrarsýslu til að fjármagna kaupin. Jafnframt ráðstöfuðu kærandi og sambýlismaður hennar um 11.000.000 króna í reiðufé til kaupanna, sem og söluandvirði íbúðar þeirra að E götu nr. 25 í sveitarfélaginu F. Eftir undirritun kaupsamnings hafi komið í ljós viðamiklir gallar á fasteigninni. Kærandi og sambýlismaður hennar hafi þá höfðað dómsmál á heldur seljendum vegna gallanna og vanefnda þeirra á umsömdum viðgerðum. Málareksturinn tók langan tíma og tapaðist málið á endanum. Á meðan málið var rekið fyrir dómi voru skammtímalán á háum vöxtum þar sem kærandi fékk ekki útgefið afsal fyrir fasteigninni. Kærandi og sambýlismaður hennar hafi þurft að leggja út um 2.000.000 króna í málskostnað og skulda seljanda eignarinnar enn háar fjárhæðir þrátt fyrir galla. Þegar halla tók undan fæti ráðstöfuðu kærandi og sambýlismaður hennar séreignarsparnaði upp í skuldir. Við bættist að í febrúar 2009 missti sambýlismaður kæranda um 95% af tekjum sínum vegna uppsagnar á verktakasamningi. Hann hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum. Um svipað leyti greindist hann með sykursýki auk þess sem hann hafi þjáðst af þunglyndi og áfallastreitu. Þá hafi kærandi þurft að leita sér lækninga vegna kvíðaröskunar og áfallastreitu.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara eru 73.750.503 krónur. Skuld kæranda að fjárhæð 2.870.739 krónur vegna námsláns fellur utan samnings um greiðsluaðlögun.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. september 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þann 5. október 2011 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 11. desember 2012 tilkynnti umsjónarmaður með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge. að fram væru komnar ástæður fyrir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 15. gr. lge. Fram kemur í tilkynningu umsjónarmanns að kærandi hafi ekki stutt fullyrðingu sína um 1.000.000 króna sparnað neinum gögnum og ekki gert grein fyrir því hvers vegna ekki hafi verið hægt að leggja hærri fjárhæð til hliðar í greiðsluskjóli. Þá hafi kærandi mótmælt ákvörðun umsjónarmanns um sölu á fasteign hennar að B götu nr. 33 í sveitarfélaginu C. Kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðunina með ábyrgðarpósti 13. nóvember 2012 og hafi kærandi mótmælt ákvörðuninni með tölvupósti þann 23. nóvember 2012. Einnig hafi kærandi stofnað til skulda á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóra hafi kærandi ekki staðið skil á greiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 53.193 krónur á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 5. júlí 2013 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umboðsmanns skuldara er tekið fram að frekari gögn gætu verið reikningar, kvittanir eða aðrar upplýsingar sem fært gætu sönnur á nauðsynleg útgjöld á tímabilinu eða aðrar upplýsingar varðandi tekjur.

Með bréfi 18. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara verði snúið við og að umboðsmanni skuldara verði falið að hjálpa kæranda að finna lausn á fjárhagsvanda sínum í samræmi við lge. Jafnframt er þess krafist að málskostnaður verði greiddur samkvæmt mati kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.  

Kærandi kveðst gera alvarlegar og verulegar athugasemdir við ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Í fyrsta lagi gerir kærandi athugasemdir við fyrirhugaðrar sölu á fasteigninni að B götu nr. 33 sem skipaður umsjónarmaður hafi lagt til í samræmi við vilja tveggja kröfuhafa. Þessir kröfuhafar hafi verið Arion banki og sá einstaklingur sem seldi kæranda fasteigna. Kærandi kveðst ekki hafa hug á að láta þvinga sig til að selja fasteignina þar sem leigutekjur af eigninni standi undir afborgunum sem nemi verðmæti eignarinnar. Þá bendir kærandi á að í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé þess getið að verðmat löggilts fasteignasala á eigninni hafi verið lægra en fasteignamat. Virðist embættið hafa dregið þetta fram í þeim tilgangi að gera verðmat fasteignasalans ótrúverðugt. Þetta sé merkilegt þar sem umboðsmaður skuldara eða umsjónarmaður hefði getað gert athugasemdir við verðmatið á fyrri stigum eða jafnvel óskað eftir nýju verðmati. Kærandi kveður umrædda fasteign gallaða sem veldur því að verðmæti hennar sé minna en ella, enda þurfi að eyða umtalsverðum fjárhæðum til þess að lagfæra eignina.

Í öðru lagi gerir kærandi athugasemdir við fullyrðingar umboðsmanns skuldara um að engin gögn hafi verið lögð fram því til stuðnings að kærandi hafi lagt til hliðar 1.000.000 króna. Umboðsmaður skuldara sé opinber stofnun sem falið sé það hlutverk að gæta réttinda og hagsmuna skuldara. Í máli þessu hafi embættið beinlínis tekið þá afstöðu að efast um og rengja þær upplýsingar sem kærandi hafi lagt fram í málinu. Embættið hafi aldrei óskað staðfestingu á því að kærandi hafi lagt til hliðar 1.000.000 króna á tímabilinu, en gefi sér engu að síður að sú fjárhæð hafi ekki veið lögð til hliðar. Með þessu hafi embætti umboðsmanns skuldara ekki einungis brotið gegn hlutverki sínu, heldur einnig gegn andmæla- og meðalhófsreglum. Óskar kærandi þess að kærunefndin taki sérstaklega á þessum starfsháttum umboðsmanns skuldara.

Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemdir við skyldur samkvæmt 12. gr. lge. Kærandi kveðst hafa lagt til hliðar 1.000.000 króna á því tímabili sem fjallað sé um í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Á þessu tímabili hafi kærandi og maki glímt við erfið veikindi. Kærandi hafi veikst af vefjagigt auk þess sem skjaldkirtill hennar hafi orðið vanvirkur. Af þeim sökum hafi kærandi gengist undir miklar og kostnaðarsamar læknisrannsóknir og meðferðir ásamt lyfjameðferð. Veikindi kæranda séu streitutengd og séu að öllum líkindum afleiðingar af fjárhagslegum erfiðleikum undanfarinna ára. Auk þess hafi maki kæranda veikst af sykursýki á tímabilinu. Hann hafi til að mynda þurft að fara í aðgerð á og hafi veikst alvarlega af lungnabólgu. Þá hafi bifreið kæranda bilað á tímabilinu og að teknu tilliti til tjóns sem kærandi varð fyrir vegna bilunarinnar standi eftir 768.265 króna sparnaður sem hún hafi ekki gert grein fyrir.

Kærandi kveðst hafa orðið fyrir umtalsverðum kostnaði vegna eigin veikinda og veikinda fjölskyldu hennar. Kærandi kveðst geta gert nánari grein fyrir þeim kostnaði sé þess þörf. En hún hafi ekki sérstaklega verið að hugsa um að halda öllum slíkum reikningum til haga, heldur einfaldlega að ná sér og halda heilsu. Veikindi kæranda hafi gert henni erfitt fyrir og bæði orsakað vinnu- og tekjutap sem hafi haft áhrif á fjárhæð sparnaðar á tímabilinu. Það sé ósanngjarnt og jafnframt óeðlilegt að synja kæranda um greiðsluaðlögun á þeirri forsendu að samkvæmt viðmiði umboðsmanns skuldara haft hún átt að geta lagt fyrir ákveðna fjárhæð. Um sé að ræða viðmið sem sé einnig verulega lægra í krónum talið en viðmið velferðarráðuneytisins. Engar verklagsreglur liggi fyrir um notkun eða áhrif viðmiðsins.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að ef kærandi framfylgi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins er síðar varð að lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar umsækjanda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði umsækjanda sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem umsækjandi og fjölskyldu hans hæfir, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar, þyki honum ástæða til.

Helsta eign kæranda sé 258,4 fermetra fasteign að B götu nr. 33 í sveitarfélaginu C sem hún leigir út. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá ríkisins sé fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2013 alls 41.000.000 króna. Að sögn umsjónarmanns hafi eignin verið verðmetin af löggiltum fasteignasala undir rekstri málsins og hafi áætlað markaðsverðmæti hennar verið 38.000.000 króna, eða 3.000.000 króna lægra en fasteignamati. Samkvæmt mati umsjónarmanns hafi mánaðarleg greiðslubyrði veðlána innan matsverðs verið um 150.000 krónur.

Á eigninni hvíli eftirfarandi veðkröfur í krónum 23. nóvember 2012. Gerð er grein fyrir mánaðarlegri greiðslubyrði:

  Fjárhæð Greiðslubyrði
Íbúðalánasjóður 28.914.087 105.722
Arion banki hf. 15.777.948 79.349
Krafa afsalshafa 4.808.962  
     
Samtals 49.500.997 185.071

Samkvæmt upplýsingum frá kæranda séu leigutekjur af eigninni 225.000 krónur á mánuði. Að teknu tilliti til fjármagnstekjuskatts séu tekjur vegna útleigu 193.500 krónur. Miðað við framangreindar forsendur hafi umsjónarmaður áætlað að mánaðarleg greiðslugeta kæranda væri 311.572 krónur. Greiðslugeta kæranda án leigutekna væri 118.072 krónur. Þegar litið sé til greiðslugetu kæranda án tillits til leigutekna hafi kærandi ekki getu til að standa undir mánaðarlegum afborgunum veðlána innan matsverðs eignarinnar. Fyrir liggi að kærandi geti ekki samtímis leigt út fasteign sína og búið í henni. Þar af leiðandi verði, við mat á mánaðarlegri greiðslugetu kæranda, að miða við tekjur án tillits til leigutekna, samanborið við raunafborganir áhvílandi veðlána á fasteign hennar, þ.e. að greiðslugeta hennar nemi um 118.072 krónum á mánuði.

Umsjónarmaður veitti embætti umboðsmanns skuldara eftirfarandi skýringar og rökstuðning fyrir ákvörðun um að selja skyldi fasteign kæranda.

Í fyrsta lagi sé kærandi einungis kaupsamningshafi eignarinnar en ekki afsalshafi. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi keypt eignina með kaupsamningi á árinu 2007. Kærandi hafi ekki innt af hendi lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi þar sem hún hafi talið fasteignina gallaða. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. mars 2010 í máli nr. X hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki haft réttmæta ástæðu til að beita stöðvunarrétti vegna galla á fasteigninni. Umsjónarmaður hafi fundað með kæranda og afsalshafa með það að leiðarljósi að leysa ágreining aðila. Sáttaumleitanir hafi ekki borið árangur og hafi afsalshafi sérstaklega lýst yfir að hann væri ekki reiðubúin að gefa út afsal fyrir fasteigninni nema að hann fengi kröfu sína greidda að fullu.

Í öðru lagi hafi umsjónarmaður, í framhaldi af mótmælum kæranda, óskað eftir afstöðu kröfuhafa til sölu á fasteigninni í samræmi við fyrirmæli 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. lge. Bæði afsalshafi og Arion banki hafi verið sammála mati umsjónarmanns um að fasteign kæranda skyldi seld í greiðsluaðlögunarferlinu.

Í þriðja lagi hafi umsjónarmaður talið með hliðsjón af fjölskylduaðstæðum og öðrum högum kæranda að hún gæti verið án fasteignarinnar, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. lge. Í því samhengi hafi umsjónarmaður bent á að kærandi væri ekki búsett í fasteigninni og eignin væri í útleigu.

Með vísan til framangreindra röksemda hafi það verið mat umsjónarmanns að kveða þyrfti á um það í frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings að fasteign kæranda skyldi seld, sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Kærandi mótmælti ákvörðun umsjónarmanns og verði því að telja að kærandi hafi komið í veg fyrir sölu fasteignarinnar.

Þá hafi komið í ljós við skoðun málsins hjá umboðsmanni skuldara að kærandi hafi ekki lagt til hliðar fé í samræmi við greiðslugetu sína og þar með vanefnt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Frestun greiðslna hafi staðið yfir frá því 9. mars 2011, eða í rúmlega 26 mánuði sé miðað við tímabilið frá 1. apríl 2011 til 30. maí 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafði kærandi alls 8.100.883 krónur í tekjur á umræddu tímabili miðað við launatekjur hennar samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK, að viðbættum mánaðarlegum leigutekjum (nettó) vegna útleigu á B götu nr. 33 í sveitarfélaginu C. Að teknu tilliti til vaxtabóta, sérstakra vaxtabóta og barnabóta kæranda á tímabilinu, sem og álagðra gjalda til skattstjóra, nemi heildartekjur á tímabilinu 7.834.113 krónum eða um 311.572 krónum á mánuði að meðaltali.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi áætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 222.530 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum júnímánaðar 2013 fyrir sambúðarfólk, sem hafi rétt til samsköttunar, með eitt barn. Þá sé miðað við að kærandi greiði helming framfærslu fyrir tvo fullorðna einstaklinga á heimili. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Samkvæmt framansögðu hefði kærandi að öllu óbreyttu átt að hafa haft getu til að leggja fyrir 2.315.103 krónur.

Að sögn kæranda hafi hún lagt fyrir 1.000.000 króna á því tímabili sem frestun greiðslna hefur staðið yfir. Engin gögn hafi verið lögð fram til stuðnings þessu. Jafnvel þótt tekið yrði tillit til framburðar kæranda standi enn eftir 1.315.103 krónur sem kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar og óútskýrt sé hvernig hafi verið varið.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. og a-lið 1. mgr. 12. gr. sömu laga.

Umboðsmaður skuldara hafnar því að embættið hafi brotið gegn andmæla- og meðalhófsreglum stjórnsýslulaga. Embættið vísi til þess sem fram komi í bréfi embættisins frá 5. júlí 2013 um að kærandi hafi að eigin sögn lagt fyrir 1.000.000 króna en engin gögn hafi verið lögð fram þessu til stuðnings. Einnig hafi komið fram að jafnvel þótt tekið yrði tillit til framburðar kæranda sé enn óútskýrt hvernig 1.315.103 krónum, sem kærandi hefði átt geta lagt til hliðar, var varið.

Í niðurlagi framangreinds bréfs hafi kæranda verið veitt tækifæri til að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Hver sá sem leiti greiðsluaðlögunar skuli veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felist skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Þau gögn sem óskað hafi verið eftir voru ekki á færi annarra en kæranda að afla og sé það mat embættisins að þau gögn séu hvorki torsótt né óljós en þannig myndi yfirlit úr heimabanka vera fullnægjandi hvað þetta varðar.

Með kæru hafi verið lagður fram reikningur vegna bifreiðarinnar S sem stílaður sé á sambýlismann kæranda. Bifreiðin sé hvorki skráð eign kæranda né sambýlismanns hennar og hafi kærandi reitt fram fjárhæðir vegna hans, hefði því embættið þurft að meta hvort þær greiðslur hefðu brotið í bága við c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Á þetta reyndi ekki, þar sem gögnin hafi fyrst verið lögð fram með kæru og eftir að ákvörðun um niðurfellingu hafði verið tekin.

Með vísan til forsendna hinnar kærði ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kæru­nefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli ákvörðun úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju nái kröfur kæranda fram að ganga í málinu. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 5. mgr. 13. gr. lge. og a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærandi hafi komið í veg fyrir fyrirhugaða sölu eignar sinnar með því að mótmæla henni.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem hann telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. 13. gr. lge. kemur fram að framfylgi skuldari ekki ákvörðunum umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður getur þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verður að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði. Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Eins og fram kemur í 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni að skuldari geti verið án. Skal umsjónarmaður hafa hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum skuldara við mat á því hvort sanngjarnt sé að selja eign skuldara

Í ljósi þess að umrædd fasteign er ekki heimili kæranda og hún getur greinilega án hennar verið miðað við fjölskylduaðstæður er það mat kærunefndar að sanngjarnt sé að fasteignin verði seld. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur ekki greitt afsalshafa lokagreiðslu vegna kaupa á eigninni sem nemur 4.808.962 krónum. Kærandi hefur samkvæmt gögnum málsins ekki getu til að greiða þessa fjárhæð við lok greiðsluaðlögunartímabils.

Kærandi hefur hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eigninni, sbr. 1. mgr. 13. gr. lge. Við þessar aðstæður verður að telja að umsjónarmanni hafi borið að leggja til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge. Hin kærða kvörðun er byggð á því að skilyrði lagaákvæðanna séu fyrir hendi og ber með vísan til atvika málsins og þess sem hér að framan er rakið að staðfesta mat hans á því.

Í öðru lagi er ákvörðun umboðsmanns skuldara byggð á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem henni hafi verið unnt að leggja til hliðar á því rúmlega 26 mánaða tímabili sem frestun greiðslna hefur staðið yfir, og er þá miðað við tímabilið 1. apríl 2011 til 30. maí 2013.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun þann 9. mars 2011. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara.

Að mati umboðsmanns skuldara hefur kærandi átt að leggja til hliðar 2.315.103 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi að meðaltali verið 89.042 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Er þá miðað við heildartekjur kæranda 311.572 krónur og framfærslukostnað sem nemur 222.530 krónum.

Kærandi kveðst hafa lagt fyrir 1.000.000 króna í greiðsluskjóli en hefur ekki lagt fram gögn þessu til stuðnings, hvorki hjá embætti umboðsmanns skuldara eða kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þá liggja ekki fyrir skýringar kæranda um hvernig hún ráðstafaði 1.315.103 krónum sem áætlun umboðsmanns skuldara telur að hún hafi átt að geta lagt fyrir. Kærandi hefur lagt fram reikning fyrir viðgerð á bifreið sem nemur 528.850 krónum. Umboðsmaður skuldara hefur bent á að umrædd bifreið sé hvorki eign kæranda né sambýlismanns hennar. Af þeirri ástæðu og án frekari skýringa af hálfu kæranda hvers vegna greitt hafi verið fyrir viðgerð á bifreið sem er ekki í þeirra eigu getur kærunefndin ekki fallist á að umræddur kostnaður geti talist til framfærslukostnaðar kæranda og fjölskyldu hennar.

Til þess að umboðsmaður skuldara geti lagt mat á hvort undantekningar frá meginreglu eigi við um skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. verða að liggja fyrir viðeigandi gögn sem sýna fram á ráðstöfun fjármuna. Kærandi hefur hvorki lagt fram gögn sem sýna fram á sparnað sem nemur 1.000.000 króna né hefur hún skýrt skort á sparnaði sem nemur 1.315.103 krónum með viðhlítandi gögnum. Í ljósi þess verður að fallast á það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi brugðist skyldu sinni við greiðsluaðlögun samkvæmt greindu lagaákvæði.

Af framangreindum ástæðum verður því að líta svo á að fram séu komnar upplýsingar sem hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna og fellst kærunefndin því á niðurstöðu umboðsmanns skuldara um að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

Kröfu um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kæranda sem hefur komið fram fyrir hana gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðslu­aðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærandi verði sjálf að bera þann kostnað sem hún kann að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Beiðni kæranda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

Kærunefndin telur að meðferð málsins miðað við fyrirliggjandi gögn hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum