Hoppa yfir valmynd
30. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 154/2012

Fimmtudaginn 30. október 2014

 


 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 8. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. júlí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 13. ágúst 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. september 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. september 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust 6. nóvember 2012. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 9. nóvember 2012 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1973 og 1977. Þau eru gift og búa ásamt þremur börnum sínum í eigin fasteign að C götu nr. 23 í sveitarfélaginu D. Um er að ræða 135,3 fermetra íbúð ásamt 58 fermetra bílskúr.

Kærandi B er í hlutastarfi á tannlæknastofu og starfar einnig sem H. Kærandi A er bílasali. Áætlaðar mánaðarlegar nettótekjur þeirra eru 368.894 krónur að meðtöldum barnabótum.

Kærandi A afhenti umboðsmanni skuldara launaseðla frá X ehf. þar sem mánaðarlaun hans eru sögð 590.000 krónur. Ekki hefur verið sýnt fram á að staðgreiðsla sé greidd af þessum tekjum en þær koma ekki fram á staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Umboðsmaður skuldara leggur þessar tekjur því ekki til grundvallar í málinu.

Að sögn kærenda má helst rekja fjárhagserfiðleika þeirra til tekjulækkunar og ábyrgðarskuldbindinga. Kærandi A hafi starfað sem bílasali en einnig sjálfur stundað bílaviðskipti. Á árinu 2008 hafi markaður fyrir bíla verulega þyngst, honum hafi ekki tekist að selja bíla, vanskil hafi orðið á áhvílandi lánum og í framhaldinu hafi hann verið sviptur vörslum bílanna. Þrátt fyrir vörslusviptingar hafi hluti lánanna staðið eftir og kærendur hafi ekki getað staðið undir þeim.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 66.984.148 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2005 og 2007 til 2008.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. júlí 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að málið verði tekið upp og endurúrskurðað. Skilja verður beiðni þeirra á þann veg að þau óski eftir því að nefndin veiti þeim heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Í gegnum tíðina hafi kærandi A keypt og selt eignir og hafi ekki reiknað með að sitja uppi með lán vegna viðskiptanna. Finnist kærendum ekki tekið tillit til þess í ákvörðun umboðsmanns skuldara en þar sé einungis reiknað með að þetta hafi verið óraunhæf eignasöfnun og ekkert tillit tekið til þess að kærendur hafi verið í aðgerðum til að bæta fjárhagsstöðu sína.

Að sögn kærenda hafi viðskiptum þeirra á árinu 2008 verið ætlað að létta á skuldastöðu þeirra. Til dæmis hafi yfirtaka á bílasamningi vegna bifreiðarinnar S verið hluti af sölu á sumarhúsi sem kærandi A hafði gert upp til endursölu. Upp í söluverð sumarhússins hafi hann fengið tvo bíla og losnað við skuldir. Annar bíllinn hafi selst en S hafi ekki selst.

Kærendum þyki ekki rétt að miða greiðslubyrði þeirra við bíla sem kærandi A hafi verið að skipta með. Í öllum tilvikum hafi átt að vera um að ræða fjármögnun í skamman tíma, kærandi hafi aldrei ætlað að greiða af umræddum bílalánum. Í mörg ár hafi hann keypt bíla með lánum sem hafi verið afborgunarlaus í þrjá mánuði. Á þeim tíma hafi hann alltaf náð að selja bílana með áhvílandi láni og fengið auk þess peninga á milli. Á þessum tíma hafi heimilisbíllinn verið gömul Toyota með skrásetningarnúmer T og hafi sá bíll alveg verið skuldlaus.

Vissulega megi deila um þá ábyrgð sem kærendur hafi tekist á hendur fyrir Y ehf. þar sem þau hafi gefið veðheimild fyrir láni vegna kaupa á búnaði fyrir félagið. Á þeim tíma hafi verkefnið litið vel út en eftir á að hyggja hafi þetta verið veruleg áhætta sem kærendur hafi ekki átt að taka þátt í. Telji kærendur að miðað við aðstæður í þjóðfélaginu hafi ekki verið um offjárfestingu að ræða. Þar sem þessi skuldbinding sé langt umfram veðhlutfall eignarinnar muni það aldrei verða til þess að eignin verði boðin upp, þ.e. náist samkomulag við Arion banka um að fara 110% leiðina með íbúðarlán og aflýsa skuldbindingunni.

Að því er varði laun kæranda A telji hann ekki á sína ábyrgð að launagreiðandi hafi ekki staðið skil á staðgreiðslu launa. Hann geti sýnt fram á það með bankayfirliti að þessi laun hafi verið greidd til hans á umræddu tímabili. Sé ekki tekið tillit til þessara launa sé hann skiljanlega langt undir greiðslugetu.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtölum var fjárhagur kærenda eftirfarandi árin 2007 og 2008 í krónum:

Tekjuár 2007 2008
Tekjur alls á árinu* 4.462.325 3.748.580
Mánaðarlegar meðaltekjur 371.860 312.382
Mánaðarlegur framfærslukostnaður** 237.426 280.470
Meðalgreiðslugeta á mánuði 134.434 31.912
Fasteignalán 33.186.126  
Heildargreiðslur fasteignalána á árinu 1.539.000 2.002.989
Meðalgreiðslur fasteignlána á mánuði 128.250 166.916
Greiðslubyrði bílasamnings S   106.000
Greiðslugeta eftir greiðslu fasteignalána og bílasamnings 6.184 -241.004
Heildareignir 48.760.000 50.551.763
Heildarskuldir 51.983.358 59.744.931
Nettóeignastaða -3.223.358 -9.193.168

*Samanlagðar nettóárstekjur að meðtöldum barna- og vaxtabótum.

**Miðað við framfærslutölur í umsókn kærenda og neysluviðmið umboðsmanns skuldara fyrir hjón með tvö börn.

Samkvæmt því sem fram kemur í töflunni höfðu kærendur 6.184 krónur á mánuði til að mæta öðrum skuldbindingum sínum en fasteignalánum árið 2007. Kærendur vantaði á hinn bóginn 241.004 krónur á mánuði til að mæta öðrum skuldbindingum sínum en fasteigna- og bílalánum árið 2008.

Kærendur keyptu fasteign að C götu nr. 23 í mars 2007. Í lok ársins voru áhvílandi fasteignalán 33.186.126 krónur, sbr. ofangreinda töflu. Kærendur stóðu einnig í skuld vegna fjögurra bílalána í árslok 2007. Var fjárhæð bílalánanna í árslok 10.010.204 krónur. Önnur lán kærenda í lok árs 2007 voru samkvæmt skattframtali alls 8.787.031 króna.

Kærandi A gekkst einnig í neðangreindar sjálfskuldarábyrgðir árið 2007:

Skuldari Útgefið Tegund Upphafleg
      fjárhæð
Z ehf. 18.1.2007 Lán 8.545.000
Y ehf. 16.2.2007 Tryggingarbréf* 9.000.000
Y ehf. 23.2.2007 Bílasamningur 777.202
     Samtals 18.322.202

*Tryggingarbréf með veði í fasteign kærenda til tryggingar skuldabréfi.

Á árinu 2008 hafi kærendur keypt bifreið af gerðinni Range Rover með fastanúmerinu S með yfirtöku bílasamnings að fjárhæð 6.792.856 krónur. Skyldi hann greiðast með 64 mánaðarlegum greiðslum. Megi því áætla að mánaðarleg greiðslubyrði samningsins hafi ekki numið lægri fjárhæð en 106.000 krónum.

Greiðslugeta kærenda eftir greiðslu fasteignalána og bílasamnings hafi verið neikvæð um 241.013 krónur og þá sé ótalin greiðslubyrði vegna annarra lána sem í árslok 2008 hafi numið 14.382.141 krónu samkvæmt skattframtali.

Kærandi A gekkst í eftirtaldar sjálfskuldarábyrgðir árið 2008:

Skuldari Útgefið Tegund Upphafleg
      fjárhæð
Z ehf. 5.9.2008 Bílasamningar 6.165.450
Y ehf. 19.11.2008 Skuldabréf 2.100.000
    Samtals 8.265.450

Að auki hafi kærendur gefið út tryggingarbréf á árinu 2008 að fjárhæð 20.000.000 króna með veði í fasteign sinni til tryggingar greiðslu á öllum skuldum sínum við G.

Af öllu framangreindu sé ljóst að tekjur kærenda hafi ekki staðið undir greiðslubyrði lána á árunum 2007 og 2008.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kærendum bréf 31. maí 2012 þar sem farið hafi verið yfir málsgögn. Með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. hafi verið óskað eftir því að kærendur legðu fram gögn er sýndu fram á að þau hafi verið fær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar þegar til þeirra var stofnað, hafi ekki tekið fjárhagslega áhættu eða hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Hafi þeim verið veittur 15 daga frestur til að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja með gögnum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í svari kærenda komi fram að kærandi A hafi keypt og selt bíla í mörg ár. Hann hafi keypt bílana á hagstæðu verði, fengið lán fyrir hluta kaupverðs og selt bílana innan þriggja mánaða; áður en afborganir lána hæfust. Þannig hafi hann haft miklar tekjur áður fyrr. Bílasala hafi hrunið á árunum 2007 og 2008 og hann hafi setið uppi með marga bíla sem hann hafi ekki getað selt. Lánin sem hvíldu á bílunum hafi hækkað umfram verðmat. Samhliða hafi tekjur lækkað til muna. Þetta eigi við um öll bílalán sem hann hafi ábyrgst.

Að því er varði ábyrgðir fyrir Y ehf. kveðst kærandi A hafa gengist í ábyrgðir fyrir kaupum á búnaði fyrir félagið. Verkefnið hafi byrjað vel en efnahagshrunið 2008 hafi orðið til þess að helsti tekjustofn félagsins; auglýsingasala, hafi minnkað mjög. Forsendur fyrir rekstrinum hafi því brugðist og hann hafi setið eftir með skuldirnar.

Ofangreint svar kærenda hafi ekki verið stutt gögnum. Að mati umboðsmanns skuldara sé það ekki til þess fallið að varpa skýrari mynd á fjárhagslega stöðu kærenda á fyrrgreindu tímabili.

Eins og fram sé komið hafi kærendur gengist undir talsverðar skuldbindingar og ábyrgðarskuldbindingar á árunum 2007 og 2008. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi tekjur þeirra ekki staðið undir skuldbindingunum. Greiðslumat sem viðskiptabanki kærenda hafi gert 16. mars 2007 liggi fyrir í málinu. Niðurstaða þess sýni að áætluð greiðslugeta kærenda með væntanlegu láni hafi verið neikvæð um 114.631 krónu. Kærendum hafi því mátt vera ljós sú áhætta sem frekari skuldasöfnun hafði í för með sér.

Kærendur hafi því ráðist í umtalsverðar skuldbindingar vegna kaupa á fasteign og bifreiðum á árunum 2007 og 2008 þegar ljóst hafi verið að þau hafi litla sem enga möguleika haft til að greiða af skuldunum.

Kærendur hafi tekist á hendur allnokkrar ábyrgðarskuldbindingar. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011 sé vikið að ábyrgðarskuldbindingum kæranda. Þar segi að þótt ekki sé hægt að jafna ábyrgðarskuldbindingum fyrir þriðja aðila saman við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort veita eigi heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. þurfi sá sem gangist undir ábyrgðarskuldbindingar vissulega að gera ráð fyrir að kröfum vegna þeirra verði beint að honum. Að þessu virtu sé ljóst að kærendur hafi ekki haft burði til að mæta ábyrgðarskuldbindingum ef á þær reyndi.

Um framkvæmd b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála megi vísa til úrskurða kærunefndarinnar í málum nr. 11/2011, 17/2011 og 23/2011. Af þeim verði ráðið að taka beri tillit til samspils tekna og skulda á þeim tíma sem umsækjendur um greiðsluaðlögun stofni til skulda. Ef ljóst þyki að skuldarar hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar þegar til þeirra var stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar.

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. er það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Krafa kærenda verður skilin þannig að kærendur fari fram á að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði samþykktar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má sjá að fjárhagsstaða kærenda var eftirfarandi árin 2006 til 2011 í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010 2011
 Meðaltekjur nettó 359.384 370.808 304.384 366.205 185.546 466.364
Eignir alls 23.020.000 48.760.000 50.551.763 40.883.269 35.410.501 38.382.654
· C gata nr. 23   36.310.000 36.310.000 37.250.000 32.600.000 35.450.000
· E gata nr. 3 17.370.000          
· Ökutæki 4.600.000 11.400.000 12.790.000 1.900.000 1.900.000 1.900.000
· Hlutir í félögum 1.050.000 1.050.000 1.050.000 800.000 800.000 800.000
· Bankainnstæður     401.763 933.269 110.501 232.654
Skuldir 31.163.414 51.983.358 59.744.931 62.932.291 63.220.403 61.090.905
Nettóeignastaða -8.143.414 -3.223.358 -9.193.168 -22.049.022 -27.809.902 -22.708.251

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Íslandsbanki 1998 Veðskuldabréf 980.000 1.077.584 2011
Íslandsbanki 1998 Veðskuldabréf 837.500 886.295 2011
Arion banki 2005 Íbúðarlán 14.500.000 25.318.495 2010
Tryggingamiðstöðin 2007 Bílalán 2.031.830 546.303 2010
Tryggingamiðstöðin 2007 Bílalán 3.693.697 3.896.575 2009
Arion banki 2007 Íbúðarlán 16.450.000 23.336.221 2010
Arion banki 2008 Veðskuldabréf 1.200.000 1.399.306 2010
Landsbankinn 2008 Bílalán 6.040.639 5.740.865 2009
Tryggingamiðstöðin 2008‒2009 Tryggingar 117.387 334.830 2008‒2009
Íslandsbanki 2009 Skuldabréf 651.688 761.692  
Arion banki 2010 Yfirdráttur   2.826.552 2010
Arion banki 2010 Yfirdráttur   565.539 2010
Arion banki 2010 Kreditkort   248.033 2010
Arion banki 2010 Kreditkort   45.858 2010
    Alls kr. 46.502.741 66.984.148  

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru eftirtaldar:

Skuldari Útgefið Tegund Upphafleg
      fjárhæð
Z ehf. 2006 Skuldabréf 8.545.000
Y ehf. 2007 Bílasamningar 777.202
F 2008 Námslán 753.084
Z ehf. 2008 Bílasamningar 6.165.450
Y ehf. 2008 Skuldabréf 2.100.000
    Samtals: 18.340.736

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í því lagaákvæði eru taldar upp mögulegar ástæður synjunar sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Í framhaldinu eru í stafliðum a‒g rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Á meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til þeirra ákvæða.

Á árinu 2007 tókust kærendur á hendur nýjar skuldbindingar að fjárhæð 22.175.527 krónur en um var að ræða íbúðarlán að fjárhæð 16.450.000 krónur og bílalán að fjárhæð 5.725.527 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði íbúðarlánsins var samkvæmt skilmálum þess í upphafi um 102.000 krónur. Á þessum tíma var greiðslubyrði annarra lána kærenda um 110.000 krónur á mánuði. Var mánaðarleg greiðslubyrði kærenda því um 212.000 krónur ef frá eru skilin bílalánin. Greiðslugeta kærenda, þegar tekið hefur verið tillit til framfærslu, var 134.434 krónur á mánuði. Greiðslustaða þeirra var því alls neikvæð um 78.000 krónur á mánuði þó ekki sé tekið tillit til bílalánanna. Eignastaða kærenda í lok árs 2007 var neikvæð um ríflega 3.200.000 krónur. Telur kærunefndin því að á árinu 2007 hafi kærendur tekist á hendur skuldbindingar sem augljóslega voru umfram það sem greiðslugeta þeirra og eignastaða gaf tilefni til.

Á árinu 2008 tóku kærendur ný lán alls að fjárhæð 7.240.639 krónur. Var greiðslugeta kærenda, þegar tekið hefur verið tillit til framfærslu, 31.912 krónur á mánuði. Samkvæmt því liggur fyrir að kærendur voru ekki fær um að greiða af eldri lánum sínum, hvað þá nýjum lánum á árinu 2008. Í lok ársins var eignastaða þeirra neikvæð um tæplega 9.200.000 krónur samkvæmt skattframtali. Þrátt fyrir þetta tókust kærendur á hendur sjálfskuldarábyrgðir að fjárhæð um 9.000.000 króna sem augljóst var að þau gætu ekki staðið undir myndi á þær reyna. Með vísan til þessa telur kærunefndin því að kærendur hafi stofnað til skuldbindinga á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli leit Hæstiréttur meðal annars til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til ábyrgðarskuldbindinga var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Þegar hefur verið gerð grein fyrir tekjum og eignastöðu kærenda þegar þau stofnuðu til ábyrgðarskuldbindinga árið 2008. Þegar þetta er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærendur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verður einnig að líta til þess að næstum allar ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnu­rekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum