Hoppa yfir valmynd
30. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 122/2012

Fimmtudaginn 30. október 2014

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 4. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sem tilkynnt var með bréfi 21. júní 2012.

Með bréfi 17. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. júlí 2012. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 27. júlí 2012 þar sem honum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Athugasemdir kæranda bárust 8. ágúst 2012.

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. desember 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi 17. febrúar 2012 tilkynnti umsjónarmaður umboðsmanni skuldara að hann teldi að afstaða kæranda kæmi í veg fyrir fyrirhugaða sölu fasteignar hans samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. og að hann teldi rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 14. mars 2012 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Í bréfi 30. mars 2012 fullyrti kærandi að honum væri fært að halda fasteign sinni enda hefðu tekjur hans aukist um 74.000 krónur á mánuði vegna sölu bifreiðar og útleigu á herbergi í íbúð hans. Þá kvaðst kærandi vænta fjárhagslegrar aðstoðar bróður síns sem hygðist flytja til Íslands innan eins til tveggja ára.

Með ákvörðun 21. júní 2012 felldi umboðsmaður skuldara heimild kæranda til greiðsluaðlögunar niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. sömu laga.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru eru ekki settar fram sérstakar kröfur umfram ósk kæranda um að fá að halda fasteign sinni, en skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa selt bifreið sína og noti nú almenningssamgöngur. Hann hafi því 45.000 krónum meira til ráðstöfunar á mánuði sem hann geti notað til afborgana af fasteign sinni.  

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna. Komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Við mat á framfærslu kæranda sé gengið út frá því að hann hafi að jafnaði 191.487 krónur í mánaðartekjur. Að sögn kæranda reki hann ekki bifreið og verji um 4.000 krónum í samgöngur á mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé greiðslugeta kæranda aðeins um 70.053 krónur á mánuði að frátöldum húsnæðiskostnaði, sé miðað við almenna framfærsluþörf einhleyps einstaklings. Kærandi hafi ekki sýnt með haldbærum hætti fram á að ástæða sé til að víkja frá neysluviðmiðum þrátt fyrir yfirlýsingar hans um að hann geti greitt um 74.000 krónur mánaðarlega til kröfuhafa sinna.

Í sérstökum athugasemdum við 13. gr. lge. í frumvarpi til laganna segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði umsækjanda sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem umsækjanda og fjölskyldu hans hæfi, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun ljúki.

Þá segi í a-lið 1. mgr. 21. lge. að haldi skuldari eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíli á skuli hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum. Slíkar fastar mánaðargreiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en sem ætla megi samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi.

Að mati umsjónarmanns sé mánaðarleg greiðslubyrði af veðkröfum Íbúðalánasjóðs er hvíli á fasteigninni um 90.000 krónur. Þyki ljóst af gögnum málsins og þeim upplýsingum er liggi fyrir um tekjur kæranda að þær nægi ekki til greiðslu af veðlánum þeim sem á fasteign hans hvíli. Þá verði ekki talið að sérstakar eða tímabundnar aðstæður réttlæti að kærandi greiði lægri mánaðargreiðslur en a-liður 1. mgr. 21. gr. lge. mæli fyrir um.

Telja verði enn fremur að engar breytingar séu fyrirsjáanlegar á reglulegum tekjum kæranda þrátt fyrir yfirlýsingar hans um fjárhagsaðstoð frá bróður sínum á næstu árum. Taldi umboðsmaður því óhjákvæmilegt að fella niður heimild umsækjanda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. sömu laga.  

Í greinargerð umboðsmanns skuldara til kærunefndarinnar er ákvæði 1. mgr. 15. gr. lge. rakin. Segir í greinargerðinni að við greiðsluaðlögunarumleitanir sé fjárhagsstaða skuldara skoðuð og umsjónarmaður athugi hvort sala eigna geti verið nauðsynleg til þess að samningur um greiðsluaðlögun komist á. Af gögnum málsins verði hvorki séð að kærandi geti með nokkru móti staðið undir afborgunum af íbúðarlánum sínum né leiguverði af fasteigninni samkvæmt 21. gr. lge. Í bréfi sínu til umboðsmanns skuldara 17. febrúar 2012 hafi umsjónarmaður sagst telja að greiðslugeta kæranda væri um 40.000 krónur á mánuði. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara samkvæmt 15. gr. lge. hafi kæranda verið boðið að leggja fram skýringar og gögn. Ekki hafi þótt ástæða til annars en að byggja ákvörðun embættisins á því að greiðslugeta kæranda hefði aukist. Þrátt fyrir að miðað yrði við fullyrðingar kæranda um eigin greiðslugetu, í trássi við fyrirmæli 4. mgr. 16. gr. lge. um að miðað skuli við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara, myndi sú fjárhæð ekki nægja til greiðslu afborgana af fasteigninni samkvæmt 21. gr. laganna. Greiðslugeta kæranda að hans eigin sögn, þ.e. um 74.000 krónur á mánuði, sé umtalsvert lægri en ætla megi að leiguverð á sambærilegri eign væri. Ekki verði á því byggt, miðað við gögn málsins, að fyrir hendi séu sérstakar og tímabundnar ástæður sem mæli með því að kærandi greiði 60% af hæfilegu leiguverði.

Segir í greinargerðinni að ekki verði séð að í athugasemdum kæranda fyrir kærunefndinni hafi komið fram upplýsingar sem ekki lágu fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Þegar svo hátti til að skuldari hafi skýrlega gefið til kynna að hann muni ekki fallast á sölu eigna í tengslum við greiðsluaðlögunarumleitanir og umsjónarmaður telur að greiðsluaðlögun muni ekki komast á af þeim sökum verði að telja rétt að málinu verði beint í farveg samkvæmt 15. gr. lge. Ekki verði séð að það þjóni tilgangi að grípa til frekari aðgerða sem miði að sölu eignar þegar svo skýrlega liggi fyrir að skuldari vilji ekki að eignin verði seld og víst þykir að hann muni ekki veita atbeina sinn við tilraunir til sölu eignarinnar.

Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge. sé umsjónarmanni skylt að beina tilkynningu til umboðsmanns skuldara framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns eða standi hann í vegi fyrir fyrirhugaðri sölu. Að mati umboðsmanns skuldara útiloki ákvæðið ekki að umsjónarmanni sé jafnframt skylt að beina slíkri tilkynningu til embættisins telji hann að afstaða skuldara til sölu eignar sé fyrirfram með þeim hætti að hann muni með vissu hindra að greiðsluaðlögun komist á. Þegar atvik séu með þessum hætti verði að telja að sú staða sé komin upp sem lýst sé í 5. gr. 13. gr. lge. og umsjónarmanni sé þá skylt að beina tilkynningu til umboðsmanns skuldara samkvæmt ákvæðinu.

Á öllum stigum máls þessa hafi kæranda skýrlega verið gerð grein fyrir því að afstaða hans til sölu eignarinnar gæti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun kæmist á. Hafi kærandi ekki á neinu stigi talið sölu eignarinnar koma til greina fyrir sitt leyti. Þegar kærandi hafi með svo skýrum og ótvíræðum hætti tjáð afstöðu sína til nauðsynlegrar sölu eignar vitandi það að afstaða hans gæti leitt til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana sé bæði heimilt og skylt samkvæmt 15. gr. lge. að fella greiðsluaðlögunarumleitanir niður.

Ekkert hafi komið fram á síðari stigum málsins sem breytt geti þeim forsendum sem niðurfelling heimildar kæranda til greiðsluaðlögunar sé byggð á. Með vísan til þess sem að framan greinir og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda er byggð á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Ef umsjónarmanni þykir ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin. Framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara, í samræmi við 5. mgr. 13. gr. lge., að greiðsluaðlögunar­umleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunar­umleitana getur skuldari kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.

Í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils þykir rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt er, svo sem fram kemur í athugasemdum við 13. gr. lge. í frumvarpi til laganna. Í 13. gr. laganna er umsjónarmanni veitt heimild til þess, að vel athuguðu máli, að krefja skuldara um að afhenda til sölu þær eignir sem umsjónarmaður telur af sanngirnisástæðum, með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum, að skuldari geti verið án.  

Í athugasemdum við 13. gr. í frumvarpi til lge. segir að við mat á því hvort íbúð skuldara skuli seld skuli umsjónarmaður meðal annars líta til þess að hve miklu leyti íbúðin sé veðsett. Við þær aðstæður þar sem veðskuldir eru undir matsverði íbúðarinnar megi ætla að til álita komi að íbúðin verði seld, að því gefnu að tryggt sé að söluandvirðinu, að frádreginni greiðslu veðskulda, megi ráðstafa bæði til kaupa eða leigu á nýrri íbúð fyrir skuldara og til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Litið skal í þessu sambandi til fjölskylduhaga skuldara. Umsjónarmaður skal einnig líta til aðstæðna á húsnæðismarkaði hverju sinni og meta hvort af sölu íbúðar, og þar af leiðandi kaupum eða leigu á nýrri íbúð, geti orðið innan tímabils greiðsluaðlögunarumleitana. Megi ætla að sala eða kaup íbúðar muni dragast á langinn eða sé með öllu óvíst um hvaða söluverð fæst samþykkt skal umsjónarmaður síður kveða á um sölu íbúðar samkvæmt ákvæðinu.

Skuldarinn getur hins vegar verið í þeirri aðstöðu að íbúðarhúsnæði hans sé veðsett fyrir fullu verði eða jafnvel hærri fjárhæð. Undir þeim kringumstæðum hafa lánardrottnar almennt engan hag af því að húsnæðið sé selt og skal því almennt ekki gera ráð fyrir sölu þeirrar íbúðar. Þó skal litið til þess hvort íbúðarhúsnæðið sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfir auk þess sem miklar líkur þurfa að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur.

Samkvæmt skattframtali kæranda 2011 vegna tekjuársins 2010 var fasteign hans metin á 17.150.000 krónur á sama tíma og skuld hans við Íbúðalánasjóð stóð í 25.612.201 krónu. Er því ljóst að fasteignin var á þeim tímapunkti yfirveðsett. Ekki verður talið að fasteign kæranda sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfi. Hins vegar verður að telja mikinn vafa leika á um það að kærandi geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur.

Þá segir í a-lið 1. mgr. 21. lge. að haldi skuldari eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíli á skuli hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum. Slíkar fastar mánaðargreiðslur mega ekki nema lægri fjárhæð en sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi.

Í máli þessu er ekki er deilt um fjárhæð ráðstöfunartekna kæranda en gengið er út frá því að hann hafi að jafnaði 191.487 krónur í tekjur á mánuði, svo sem fram kemur í greiðsluáætlun þeirri er ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á. Samkvæmt greiðsluáætluninni rekur kærandi ekki bifreið en kostnaður hans vegna samgangna er áætlaður um 4.000 krónur á mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er greiðslugeta kæranda því um 70.000 krónur á mánuði að frátöldum húsnæðiskostnaði, sé miðað við almenna framfærsluþörf einhleyps einstaklings. Tekið er undir það með umboðsmanni skuldara að kærandi hafi ekki sýnt með haldbærum hætti fram á að ástæða sé til að víkja frá neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara.

Að mati umsjónarmanns er mánaðarleg greiðslubyrði af veðkröfum Íbúðalánasjóðs er hvíla á fasteigninni um 90.000 krónur. Þykir því ljóst af gögnum málsins að tekjur kæranda nægi ekki til greiðslu af veðlánum þeim sem á fasteign hans hvíla. Þá verður ekki talið að sérstakar eða tímabundnar aðstæður réttlæti að kærandi greiði lægri mánaðargreiðslur en a-liður 1. mgr. 21. gr. lge. mælir fyrir um.

Af gögnum málsins verður því hvorki séð að kærandi geti með nokkru móti staðið undir afborgunum af íbúðarlánum sínum né leiguverði af fasteigninni samkvæmt 21. gr. lge. Þrátt fyrir að miðað yrði við fullyrðingar kæranda um eigin greiðslugetu, í trássi við fyrirmæli 4. mgr. 16. gr. lge. um að miðað skuli við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara, myndi sú fjárhæð ekki nægja til greiðslu afborgana af fasteigninni samkvæmt 21. gr. laganna. Greiðslugeta kæranda að hans eigin sögn, þ.e. um 74.000 krónur á mánuði, er umtalsvert lægri en ætla má að leiguverð á sambærilegri eign væri. Ekki verður á því byggt, miðað við gögn málsins, að fyrir hendi séu sérstakar og tímabundnar ástæður sem mæli með því að kærandi greiði 60% af hæfilegu leiguverði.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum