Hoppa yfir valmynd
23. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 194/2012

Fimmtudaginn 23. október 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 19. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. október 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 4. desember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. janúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 28. janúar 2013 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1969 og býr í eigin húsnæði að B götu nr 45 í sveitarfélaginu D sem er 151,4 fermetra hæð í fjölbýlishúsi. Þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin var kærandi í sambúð og átti tvö börn með sambýliskonu sinni, sem fædd eru 2007 og 2010. Kærandi á þrjú börn úr fyrra hjónabandi, fædd árin 1991, 1994 og 1999.

Kærandi hefur verið öryrki frá árinu 2003 en hefur einnig rekið byggingarfélagið X ehf. frá 2005. Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 39.782.866 krónur og falla þær allar innan samnings samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga sinna árið 2006 þegar hann keypti eignarhlut fyrrverandi eiginkonu sinnar í B götu nr. 45. Ábyrgðarskuldbindingar umsækjanda eru að fjárhæð 32.941.371 króna og eru að mestu leyti vegna X ehf.

Í umsókn kæranda um greiðsluaðlögun kemur fram að fjárhagserfiðleika hans megi rekja til ársins 2007. Ástæður skuldasöfnunarinnar eru að mati kæranda þær að árið 2003 hafi hann fengið blóðtappa sem leiddi til þess að hann var metinn 75% öryrki. Árið 2007 hafi hann lent í alvarlegu bílslysi og hafi hann af þeim sökum verið rúmfastur um tíma og ekki getað sinnt rekstri fyrirtækis síns. Árið 2008 hafi byggingargeirinn dregist verulega saman og hafi forsendur fyrir rekstri félagsins brugðist. Einnig ber kærandi við að skilnaður hans og fyrrverandi eiginkonu hans árið 2005 hafi verið honum kostnaðarsamur.

Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 24. nóvember 2010. Umsóknin var samþykkt 14. júlí 2011 og var kæranda skipaður umsjónarmaður í kjölfarið.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 15. ágúst 2012 þar sem óskað var skýringa hans á þeim atriðum sem umsjónarmaður taldi að leitt gætu til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana. Umboðsmanni skuldara bárust hvorki svör við bréfinu né viðeigandi gögn um afstöðu og fyrirætlan kæranda. Með ákvörðun 3. október 2012 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru eru ekki settar fram neinar kröfur en skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að hann mótmæli ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunar-umleitunum hans og krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Kærandi segir að í nóvember 2012 hafi hann lagt til hliðar 870.000 krónur og muni gera betur ef hann fái tækifæri til þess, en hann vilji reyna að standa sig.

Þá segist hann ekki vera búsettur í Póllandi og hafi aldrei verið. Fyrrum sambýliskona hans sé pólsk og hafi þau stundum farið til Póllands tímabundið. Hann hafi haldið mest til í húsnæði foreldra sinna að E götu nr. 40 í sveitarfélaginu F.

Þá segir kærandi að bréf umsjónarmanns 3. júlí 2012 hafi ekki borist sér, hann hafi hvorki séð né tekið á móti því bréfi. Þá sé sömu sögu að segja um bréf umboðsmanns skuldara frá 15. ágúst 2012, það hafi hann ekki fengið.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kæranda hafi verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar 14. júlí 2011 og í kjölfarið hafi umsjónarmaður verið skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Þá segir að kærandi hafi, að sögn umsjónarmanns, ekki uppfyllt skyldu sína samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem hann hafi einungis lagt um 300.000 krónur til hliðar á því tímabili sem frestun greiðslna hafi staðið yfir eða allt frá 24. nóvember 2010. Telji umsjónarmaður að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir 1.493.740 krónur hið minnsta á meðan frestun greiðslna hafi staðið, sé tekið mið af greiðslugetu hans á tímabili frestunar greiðslna frá því í október 2010 til júlí 2012.

Þá liggi fyrir að lögheimili kæranda sé skráð að B götu nr. 45 í sveitarfélaginu D. Þó hafi hann verið búsettur í Póllandi þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Hann hafi ekki framvísað gögnum sem sýni fram á að umrædd búseta hafi verið tímabundin, svo sem vegna náms, starfa eða veikinda, í samræmi við ákvæði 4. mgr. 2. gr. lge.

Umsjónarmaður hafi tilkynnt umboðsmanni skuldara með bréfi 3. júlí 2012 að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja fjármuni til hliðar auk þess sem vafi leiki á að hann uppfylli almenn búsetuskilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. Því beri að fella greiðsluaðlögunarumleitanir niður samkvæmt 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda bréf 15. ágúst 2012 þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild til greiðsluaðlögunar. Umboðsmanni skuldara hafi ekki borist svar við bréfinu en 20. ágúst 2012 hafi bréfið hafi verið endursent þar sem viðtakandi hafi ekki fundist.

Í 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. segi að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í 6. gr. lge. séu tilgreindar þær aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. segi að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga til að leita greiðsluaðlögunar.

Í 4. mgr. 2. gr. lge. segi að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar sem eigi lögheimili og séu búsettir hér á landi. Víkja megi frá þessum skilyrðum ef undanþáguákvæði a- og b-liða 4. mgr. 2. mgr. eigi við, þ.e. ef umsækjandi er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur áður átt lögheimili og verði búsettur hér á landi í a.m.k. þrjú ár samfleytt, enda leiti hann greiðsluaðlögunar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili, sbr. a-lið 4. mgr. 2. gr. lge. Þá segi í b-lið sama ákvæðis að einnig megi víkja frá lögheimilisskilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. ef greiðsluaðlögun sé eingöngu ætlað að taka til veðkrafna sem hvíli á fasteign hér á landi.

Með tímabundinni búsetu í skilningi 4. mgr. 42. gr. lge. sé átt við að sýnt sé fram á, eða það gert líklegt, að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar umsækjandi flyst búferlum erlendis vegna starfa sinna verði að miða við að það starf sem um ræði sé tímabundið. Ekki verði litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing sé ekki studd haldbærum gögnum. Vísar umboðsmaður skuldara í úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 14/2011 hvað þetta atriði varðar.

Ljóst þyki af gögnum málsins að kærandi hafi dvalist í Póllandi um langt skeið eða síðan í mars 2012, þ.e. í sex mánuði hið minnsta. Kærandi hafi enn skráð lögheimili hér á landi. Þá liggi fyrir að kærandi hafi leigt út fasteign sína að B götu nr. 45 frá byrjun árs 2012. Ekki verði ráðið af bréfi umsjónarmanns að búseta kæranda í Póllandi sé tímabundin. Enn fremur verði að telja að fyrirliggjandi gögn gefi hvergi nærri nægilega glögga mynd af fjárhag hans á tímabili greiðsluaðlögunar og því óljóst hver raunveruleg greiðslugeta hans sé.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhag hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Þá segi í 1. mgr. 16. gr. lge. að frumvarp til greiðsluaðlögunar skuli samið í samráði við skuldara.

Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara hafi kærandi um 256.635 krónur í tekjur á mánuði, sé tekið mið af meðaltali launa á síðustu þremur mánuðum. Séu tekjur kæranda örorkubætur, greiðslur frá lífeyrissjóði auk barnalífeyris og barnabóta. Ekki liggi fyrir hvort kærandi hafi einhverjar tekjur í Póllandi. Þá séu upplýsingar um tekjur sambýliskonu kæranda ekki fyrirliggjandi.

Eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, verði að leggja þær skyldur á kæranda að hann sýni samstarfsvilja og leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við gerð þess. Megi þar nefna gögn sem umsjónarmaður geti ekki aflað sjálfur, svo sem yfirlit yfir bankareikninga og tekjur vegna verktakavinnu. Athafnaskylda kæranda að þessu leyti verði einnig leidd af ákvæði 1. mgr. 16. gr. laganna. Verði enn fremur að telja það til skyldna kæranda sjálfs að tilkynna embætti umboðsmanns skuldara um breytt heimilisfang sitt, sér í lagi þegar kærandi hafi flust búferlum til annars lands.

Framfærslukostnaður kæranda sé mjög á reiki og sé umsjónarmanni ókleift að sýna fram á raunhæfa framfærsluþörf kæranda með óyggjandi hætti. Samkvæmt því sem fram komi í bréfi umsjónarmanns 3. júlí 2012 hafi kærandi nýlega eignast sitt þriðja barn með núverandi sambýliskonu sinni og haldi þau heimili í Póllandi líkt og fyrr greinir. Þá ríki að sögn umsjónarmanns óvissa um afdrif bifreiðarinnar Y en kærandi hafi borið því við að henni hafi verið stolið í Póllandi í október 2009.

Kærandi hafi á mánuðunum fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar látið undir höfuð leggjast að veita umsjónarmanni nauðsynlegar upplýsingar til þess að unnt væri að ljúka drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings, líkt og umsjónarmaður hafi greint frá í bréfi sínu. Einnig hafi þótt nauðsynlegt að afla afstöðu kæranda vegna hugsanlegrar sölu fasteignar hans að B götu nr. 45 áður en greiðsluaðlögunarumleitunum yrði haldið áfram.

Umsjónarmaður meti það svo að fella beri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda á grundvelli þess sem rakið hafi verið. Verði að telja að þeir óvissuþættir sem séu fyrir hendi í máli kæranda séu slíkir að ekki sé mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu hans. Þá gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun á fjárhag hans á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Að lokum þyki liggja fyrir að kærandi geti ekki lengur talist vera búsettur hér á landi, þrátt fyrir að hann eigi enn skráð lögheimili að B götu nr. 45 í sveitarfélaginu D. Ljóst þyki að kærandi hafi dvalist í Póllandi um sex mánaða skeið hið minnsta. Hafi hvorki umsjónarmanni né umboðsmanni skuldara borist gögn sem gætu stutt það að búseta kæranda í Póllandi hafi eingöngu verið tímabundin. Kærandi segist nú vera búsettur á Íslandi og að einungis hafi verið um að ræða ferðalög. Hvernig sem því hafi verið háttað hafi kæranda verið í lófa lagið að skila inn gögnum því til stuðnings. Hvorki verði því talið að búseta kæranda erlendis sé tímabundin né takmarkist skuldir hans við veðkröfur vegna fasteignar hér á landi, sbr. a- og b- liði 4. mgr. 2. gr. lge.

Hafi umboðsmanni skuldara ekki borist gögn sem varpað geti nánara ljósi á þau atriði sem hafa verið rakin. Í ljósi þeirrar óvissu sem ríki um framfærslu kæranda þyki þó að mati umboðsmanns skuldara ótímabært að meta hvort kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a- og b-liði 1. mgr. 6. gr. lge.

Þá segir að ljóst hafi verið að athafnaleysi kæranda hafi orðið til þess að ekki hafi verið hægt að ljúka frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun í máli hans. Í kæru segist kærandi ekki hafa fengið bréf 15. ágúst 2012 frá umboðsmanni skuldara en það hafi komið endursent til embættisins 20. ágúst 2012 þar sem viðtakandi fannst ekki. Umrætt bréf hafi verið sent á lögheimili kæranda og verði að leggja þá skyldu á hann sjálfan að hann upplýsi embættið með fullnægjandi hætti um dvalarstað sinn, ef hann sé annar en lögheimili og um allar þær breytingar sem á högum hans verða og skipt geti máli við vinnslu málsins. Kærandi hafi fengið fjölda tækifæra til að afhenda umbeðin gögn og veita upplýsingar en hafi látið undir höfuð leggjast að verða við slíkum beiðnum.

Eins og rakið sé í hinni kærðu ákvörðun og greinargerð umsjónarmanns 3. júlí 2012 hafi kærandi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með fullnægjandi hætti. Kærandi hafi lagt fyrir 300.000 krónur á því tímabili sem frestun greiðslna náði yfir en samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hafi um 1.500.000 krónur átt að hafa safnast á umræddu tímabili.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fari umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge., með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 6. gr. lge.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum. Í skýringum við frumvarp til laga nr. 101/2010 segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili.

Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður að líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum.

Kærandi er skráður með lögheimili að B götunr. 45. Það er ljóst af gögnum málsins að kærandi leigði út fyrrnefnda fasteign sína að B götu nr. 45 frá 1. janúar 2012 til 1. janúar 2013 samkvæmt bréfi umsjónarmanns 3. júlí 2012. Samkvæmt upplýsingum umsjónarmanns frestaði kærandi ítrekað heimkomu sinni frá Póllandi þar sem hann dvaldi ásamt þáverandi sambýliskonu sinni, sem er frá Póllandi, og börnum. Þann 28. janúar 2013 sendi kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæranda bréf sem var endursent nefndinni. Þann 5. febrúar 2013 sendi kærunefndin kæranda tölvupóst þar sem spurst var fyrir um hvert senda skyldi bréfið. Óskaði kærandi eftir því í svari sínu 7. febrúar 2013 að bréfið yrði sent á E götu nr. 40 í sveitarfélaginu F, en þar búa foreldrar kæranda. Í kæru segir kærandi að hann sé ekki búsettur í Póllandi og hafi aldrei verið, en hann hafi farið þangað tímabundið þar sem fyrrum sambýliskona hans sé pólsk. Samkvæmt gögnum málsins má því ráða að kærandi hafi ekki verið búsettur hér á landi þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin. Samkvæmt gögnum þeim sem liggja fyrir kærunefndinni, en það eru meðal annars tölvupóstsamskipti við kæranda, er kærandi nú búsettur á Íslandi. Verður því að telja að fyrir liggi að hann uppfylli skilyrði a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. til að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 101/2010 er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum með 4. gr. lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlegri þróun hennar til framtíðar.

Þær upplýsingar um tekjur og hagi kæranda sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir voru að mati kærunefndarinnar nauðsynlegar til þess að fá skýra mynd af framfærsluþörf kæranda. Er nauðsynlegt að þessar upplýsingar liggi fyrir þannig að umsjónarmaður geti gert drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings. Það var mat umsjónarmanns að kærandi hefði getað lagt til hliðar um það bil fimmfalt hærri fjárhæð en hann gerði á því tímabili sem frestun greiðslna stóð yfir, eða allt frá 24. nóvember 2010. Það er mat kærunefndarinnar að ekki sé hægt að leggja mat á það hvort kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þegar óljóst er hver framfærslukostnaður kæranda er. Kærandi hefur ekki svarað beiðnum umsjónarmanns eða umboðsmanns skuldara um upplýsingar og gögn er varða meðal annars framfærsluþörf hans. Fyrir liggur að ekki eru í gögnum málsins upplýsingar um tekjur þáverandi sambýliskonu kæranda eða hvort hann hafi haft einhverjar tekjur á meðan dvöl hans í Póllandi stóð. Kærandi hefur engan reka gert að því fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að skýra þau atriði sem ofan greinir.

Að öllu ofangreindu virtu er það því mat kærunefndarinnar að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þrátt fyrir áskoranir til kæranda um að leggja fram frekari gögn. Verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum