Hoppa yfir valmynd
23. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 199/2012

Fimmtudaginn 23. október 2014


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 23. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. október 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 24. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 31. janúar 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 7. febrúar 2013 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 25. febrúar 2013.

Með bréfi 19. febrúar 2013 var óskað eftir athugasemdum umboðsmanns skuldara. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru bæði fædd 1977 og búa ásamt tveimur börnum sínum í 70 fermetra íbúð í D í Noregi. Útborguð laun kærenda samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara eru 50.000 norskar krónur sem jafngildir 977.085 krónum á mánuði.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 17.744.890 krónur og þar af falla 17.404.648 krónur innan samnings, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga stofnuðu kærendur á árunum 2006 og 2009.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til þess að kærendur störfuðu bæði við rekstur eigin fyrirtækja sem hafi orðið gjaldþrota og sitji kærendur uppi með skuldir vegna þess. Kærendur taka fram að þau hafi eftir fremsta megni reynt að greiða af skuldum sínum síðan. Þau hafi þannig meðal annars ráðstafað bótagreiðslu vegna alvarlegs bílslyss til niðurgreiðslu skulda. Íbúðarhús þeirra hafi að auki verið selt nauðungarsölu. Þrátt fyrir þetta hafi kærendum vegna lágra tekna reynst ómögulegt að standa skil á skuldbindingum sínum auk þess að greiða framfærslukostnað. Fluttu þau af þeim sökum til Noregs þar sem þau búa nú í þeim tilgangi að auka tekjur sínar.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 24. nóvember 2010. Umsóknin var samþykkt 19. ágúst 2011 og var kærendum skipaður umsjónarmaður í kjölfarið. Að sögn umsjónarmanns hafa kærendur ekki lagt fram nauðsynleg gögn og upplýsingar vegna frumvarpsgerðar. Fram kemur að hann hafi ítrekað kallað eftir gögnum um núverandi tekjur og upplýsingum um framtíðaráform kærenda en án árangurs. Vísaði umsjónarmaður til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. um nauðsyn þess að fyrirliggjandi gögn gæfu nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara auk a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldu skuldara til að leggja til hliðar fé á meðan greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Loks vísar umsjónarmaður til 16. gr. lge. þar sem segi að frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun skuli samið í samráði við skuldara.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 30. maí 2012 þar sem þeim var boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Umboðsmanni skuldara barst svar við bréfinu 8. júní 2012 þar sem kærendur báru því við að þau hefðu staðið frammi fyrir verulegum útgjöldum í tengslum við búferlaflutninga þeirra til Noregs. Einnig gerðu kærendur athugasemdir við drög umsjónarmanns að greiðsluáætlun og útreikning á greiðslugetu þeirra.

Kærendum var veitt færi á að koma gögnum og upplýsingum til umboðsmanns skuldara 12. júní 2012 og var sú beiðni ítrekuð 14. júní 2012. Lögðu kærendur ekki fram haldbær gögn sem sýnt gætu fram á þau útgjöld sem þau þurftu að eigin sögn að standa undir í tengslum við búferlaflutninga, svo sem kaup á búslóð og bifreið. Þá kom fram í tölvupósti kærenda 14. júní 2012 að þau hygðust ekki flytja til Íslands um fyrirsjáanlega framtíð. Þá barst umboðsmanni skuldara 19. júní sama ár mat kærenda sjálfra á mánaðarlegum útgjöldum sínum í Noregi en áætlunin var ekki studd haldbærum gögnum. Áætluðu kærendur greiðslugetu sína 3.000 norskar krónur á mánuði. Með ákvörðun 8. október 2012 var heimild kærenda til greiðsluaðlögunar felld niður.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur telja sig ekki hafa fengið réttláta málsmeðferð. Þeim hafi verið skipaður umsjónarmaður sem hafi krafið þau um að greiða meira en þau hafi getað staðið undir. Ítrekað hafi þau beðið um nýjan umsjónarmannmann en því verið hafnað. Á þeim hafi verið brotið við tilurð skulda þeirra en þau hafi þó ávallt verið tilbúin til þess að semja.

Þau óski þess að máli þeirra verði úthlutað til umsjónarmanns sem ekki tengist innheimtu eins og fyrri umsjónarmaður hafi gert og málið verði unnið að nýju.

Í kæru óska kærendur í fyrsta lagi eftir upplýsingum um það hversu margir lögmenn sem taka að sér störf umsjónarmanna starfi einnig við innheimtu. Þá óska þau í öðru lagi eftir rökstuðningi fyrir því hvers vegna umboðsmaður skuldara hafi talið umsjónarmann þeirra hæfan til að stýra samningsumleitunum á meðan hann starfi við innheimtu og reki fyrirtæki utan um slíka starfsemi.

Kærendur telja umboðsmann skuldara fara með rangt mál í greinargerð sinni. Kærendur hafi sent alla pappíra sem beðið hafi verið um og gefið allar upplýsingar sem óskað hafi verið eftir.

Þau skilji ekki hvers vegna þau séu ítrekað borin röngum sökum. Það geti að hluta til stafað af því að þegar beiðnir um upplýsingar og gögn sem búið var að senda umboðsmanni skuldara voru ítrekaðar af embættinu hafi þeim beiðnum verið svarað á þann veg að embættið hafi verið beðið um að nota fyrirliggjandi gögn. Ef það væri ekki hægt hafi kærendur verið tilbúin til að senda gögnin aftur.

Kærendur hafi ítrekað tjáð umsjónarmanni að þau hafi ekki haft tök á að spara neitt, þrátt fyrir það sem umsjónarmaður haldi fram. Þau hafi flutt til Noregs og þurft að byggja heimili upp frá grunni. Þau viti ekki hvernig þau geti sannað það að ekkert hafi verið hægt að leggja til hliðar. Þau kveða umsjónarmann hafa sakað þau um að ætla að gerast lögbrjótar með því að mismuna kröfuhöfum því þau hafi tjáð honum að burtséð frá öllum samningum þyrftu þau alltaf að greiða lífeyrissjóðslán að fullu til þess að hindra að það félli á skyldmenni sem hafi lánað þeim veð í eignum sínum. Stundum geti sjálfsagt verið auðvelt að reikna út tölur og áætlanir en það þýði ekki endilega að það sé í samræmi við raunveruleika fólks.

Kærendur segja ástæðu að baki kæru þeirra til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála vera þá að umsjónarmaður þeirra hafi ætlað þeim að greiða 220.000 krónur á mánuði í þrjú ár og 6.000.000 króna þar á eftir. Hafi þau ítrekað sagt umsjónarmanni að þau gætu það ekki, þau einfaldlega hefðu ekki það háar tekjur en hann hafi verið ósammála því. Hafi þau þá beðið um nýjan umsjónarmann og óskað eftir umsjónarmanni sem ekki starfaði við innheimtu í öðrum störfum sínum þar sem þau telji slíka umsjónarmann vanhæfan í máli þeirra vegna tengsla sinna við ýmsa kröfuhafa. Einnig hafi þau óskað eftir rökstuðningi frá umboðsmanni skuldara ef embættið teldi umsjónarmann þeirra hæfan til að fara með mál þeirra. Þau hafi hvorugt fengið.

Kærendur telji að þau hafi haft rétt fyrir sér um að þau hefðu ekki getu til að greiða 220.000 krónur á mánuði. Þau hefðu ekki getað greitt þá fjárhæð að fullu síðasta hálfa árið hið minnsta og sennilega aldrei. Greiðslufall myndi hafa átt sér stað hjá þeim frá því í september 2012 til febrúar 2013.

Kærendur hafi ávallt haldið því fram að þau skuldi ekki þessar fjárhæðir. Þau hafi átt eignir en eigi ekkert núna. Það hafi allt verið tekið af þeim en þau geti ekki samþykkt að þau eigi að bera skaðann af því að missa allt og samhliða því að bæta öðrum eitthvað.

Þeim þyki ekki réttlátt að þurfa að sitja undir röngum sakargiftum og ásökunum af hálfu umboðsmanns skuldara og umsjónarmanns. Fari þau því fram á að umboðsmaður skuldara og umsjónarmaður sanni ásakanir sínar í garð þeirra. Einnig fara þau fram á að kærunefndin taki ekki tillit til þeirra ásakana um vanefndir sem ekki séu sannaðar með gögnum þegar komi að úrskurði kærunefndarinnar. Ef kærunefndin taki tillit til þessara ásakana án sannana óski þau eftir því að fá rökstuðning fyrir því. Þá fara þau að lokum fram á að þeim verði skipaður nýr umsjónarmaður sem ekki sinnir innheimtustörfum samhliða.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kærendum hafi verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar 19. ágúst 2011 og í kjölfarið hafi umsjónarmaður verið skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Krefst umboðsmaður skuldara þess að ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði staðfest.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í 6. gr. lge. séu tilgreindar þær aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. segi að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segi að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar sem eigi lögheimili og séu búsettir hér á landi. Víkja megi frá þessum skilyrðum ef undanþáguákvæði a- og b-liða 4. mgr. 2. gr. eigi við, þ.e. ef umsækjandi sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi áður átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í a.m.k. þrjú ár samfleytt, enda leiti hann hennar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili, sbr. a-lið 4. mgr. 2. gr. lge. Þá segi í b-lið sama ákvæðis að einnig megi víkja frá lögheimilisskilyrði 2. mgr. 4. gr. lge. ef greiðsluaðlögun sé eingöngu ætlað að taka til veðkrafna sem hvíli á fasteign hér á landi.

Af gögnum málsins sé ljóst að kærendur eigi lögheimili og stundi atvinnu í Noregi. Í svari sínu til umboðsmanns skuldara 14. júní 2012 hafi kærendur sagt að þau myndu einungis flytja til Íslands að nýju yrði frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun samþykkt af hálfu kröfuhafa. Kærendur hafi nú búið í Noregi síðan þau lögðu inn umsókn sína um greiðsluaðlögun, eða í tæp tvö ár. Þá hafi kærendur lýst því yfir í tölvupósti til umboðsmanns skuldara 14. júní 2012 að þau ætli að búa í Noregi um fyrirsjáanlega framtíð.

Með tímabundinni búsetu í skilningi a-liðar [4. mgr. 2. gr.] lge. sé átt við að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Líkt og fram komi í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 14/2011 ráði það ekki úrslitum hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt til annars lands. Verði ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing sé ekki studd neinum gögnum og sé ekki fullnægjandi að kærendur lýsi því yfir að þau vilji flytja aftur til Íslands í framtíðinni við breyttar aðstæður sem óvíst sé hvort og þá hvenær verði. Loks verði ekki talið að undanþáguákvæði b-liðar [4. mgr. 2. gr.] lge. eigi við í málinu.

Í hinni kærðu ákvörðun segi að í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Þá segi í 1. mgr. 16. gr. lge. að frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun skuli samið í samráði við skuldara.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, verði að leggja þær skyldur á kærendur að þau leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við gerð þess. Enn fremur sé þörf á að afla sömu gagna þegar komi að mati umboðsmanns skuldara á því hvort fella skuli niður greiðsluaðlögunarumleitanir samkvæmt 15. gr. lge. Það eigi við um gögn sem umsjónarmaður geti ekki aflað sjálfur, svo sem yfirlit yfir bankareikninga og tekjur vegna verktakavinnu. Athafnaskylda kærenda að þessu leyti verði einnig leidd af ákvæði 1. mgr. 16. gr. laganna.

Kærendur hafi í samskiptum sínum við embætti umboðsmanns skuldara lýst aðstæðum sínum með almennum hætti og þeim útgjöldum sem þau hafi staðið frammi fyrir á liðnum misserum vegna búferlaflutninga til Noregs. Þá hafi kærendur að eigin sögn haft mikil útgjöld vegna tannviðgerða og vegna kaupa á bifreið. Við gerð frumvarps til greiðsluaðlögunar verði umsækjendur alla jafna að sýna fram á útgjöld sín með sannanlegum hætti, svo sem með framvísun greiðslukvittana eða reikninga vegna keyptrar þjónustu eða hluta. Framfærsla kærenda sé enn mjög á reiki. Telja verði að umsjónarmanni hafi ekki verið unnt að sýna fram á raunhæfa framfærsluþörf þeirra með rökstuddum hætti. Kærendur hafi látið undir höfuð leggjast að veita umsjónarmanni nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að ljúka drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings. Hafi kærendur ekki heldur lagt fram slík gögn til umboðsmanns skuldara þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þess efnis. Fyrirliggjandi tölvupóstssamskipti beri með sér að kærendum hafi ítrekað verið gerð grein fyrir hvaða gögn skorti sem og mikilvægi þess að slík gögn lægju fyrir.

Umsjónarmaður meti það svo að fella beri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli þess sem rakið hafi verið. Verði að telja að þeir óvissuþættir sem séu fyrir hendi í máli kærenda séu slíkir að hvorki sé hægt að fá heildarmynd af fjárhag né greiðslugetu þeirra. Þá gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Kærendur teljist ekki lengur vera búsett hér á landi. Hvorki verði talið að búseta kærenda erlendis sé tímabundin né takmarkist skuldir þeirra við veðkröfur vegna fasteignar hér á landi, sbr. a- og b-liði 4. mgr. 2. gr. lge. Telja verði að fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að kærendur uppfylli skilyrði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga til að leita greiðsluaðlögunar.

Í ljósi þeirrar óvissu sem ríki um framfærslu kærenda ytra þyki að mati umboðsmanns skuldara ótímabært að gera heildstætt mat á því hvort kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fé af launum sínum og öðrum tekjum á meðan greiðsluaðlögunarumleitunum hafi staðið.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki þótt hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge. með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé umboðsmanni skuldara skylt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé umboðsmanni skuldara skylt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Skylda kærenda til gagnaframlagningar sé rakin í hinni kærðu ákvörðun og hafi kærendur ekki sýnt fram á aukin útgjöld með sannanlegum hætti. Kærendur hafi einnig látið undir höfuð leggjast að afhenda gögn varðandi framfærslu sem sé því að miklu leyti á reiki. Hafi embættið því ekki átt kost á að meta hvort rétt væri að fella niður mál þeirra á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur hafi kveðið útgjöld heimilisins almennt hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara en það hafi þó ekki verið stutt með fullnægjandi gögnum, þrátt fyrir að kærendur hafi ítrekað verið hvött til þess. Þrátt fyrir heimildir umboðsmanns skuldara til að afla gagna beri umsækjendum að jafnaði sjálfum að útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara, sbr. 4. mgr. 4. gr. lge. Óvissuþættir vegna skorts á gögnum hafi leitt til þess að ekki sé mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kærenda. Fyrirliggjandi gögn gefi því ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Um skyldu skuldara til að skila nauðsynlegum gögnum og beitingu 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., megi vísa til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 26. júlí 2012 í máli nr. 30/2012.

Óraunhæft verði að teljast að samningur um greiðsluaðlögun komist á nema að upplýsingar um réttan framfærslukostnað og tekjur skuldara liggi fyrir. Þá séu upplýsingarnar nauðsynlegar til að unnt sé að meta hvort kærendur hafi lagt fyrir fé í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ekki verði séð að krafa um þátttöku kærenda í gagnaöflun geti talist ósanngjörn.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 6. gr. laganna.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum og á við þegar fram koma upplýsingar við greiðsluaðlögunarumleitanir sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna. Í skýringum við frumvarp til þeirra segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili.

Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum og er ekki fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tímann í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.

Í máli kærenda liggur fyrir að þau eru búsett og starfa í Noregi og hefur svo verið allar götur síðan umsókn þeirra lá fyrir fullbúin. Kærandi A hefur verið skráður með lögheimili Noregi síðan 6. apríl 2010 og kærandi B hefur verið skráð með lögheimili í Noregi síðan 6. júlí sama ár. Þá er í gögnum málsins að finna tölvupóst frá kærendum til starfsmanns umboðsmanns skuldara þar sem kærendur greina frá því að þau muni aðeins flytja til Íslands að nýju ef þau geta „gengið frá sínum málum“. Verður að skilja það svo að ekki standi til hjá þeim að flytja til Íslands nema frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun verði samþykkt af hálfu kröfuhafa þeirra.

Af ofangreindu er því ljóst að kærendur uppfylla ekki skilyrði um lögheimili eða eru búsettir hér á landi, sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Þá er einnig ljóst að búseta þeirra í Noregi getur ekki talist tímabundin í skilningi a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge. Það er því mat kærunefndarinnar að kærendur geta ekki talist uppfylla skilyrði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. sömu laga staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum