Hoppa yfir valmynd
9. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 162/2012

Fimmtudaginn 9. október 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. júlí 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 27. ágúst 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 14. september 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 19. september 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 25. október 2012. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1981, er einhleypur og barnlaus. Hann býr einn í eigin 126 fermetra íbúð að B götu nr. 31 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er atvinnulaus og fær greiðslur frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Útborgaðar tekjur hans eru 137.613 krónur á mánuði. Einnig fær hann 33.333 krónur í vaxtabætur og 13.404 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til ársins 2006 en þá keypti hann illa farið endaraðhús fyrir 38.000.000 króna. Af kaupverðinu hafi hann greitt 11.000.000 króna í peningum og tekið lán fyrir 27.000.000 króna. Kærandi hafi gert húsnæðið upp og selt það árið 2008. Hann hafi fengið greiðslu með íbúð að B götu nr. 31, bifreið og reiðufé, sem hann hafi notað til að greiða skuldir sínar. Á árunum 2007 til 2009 hafi kærandi rekið sportbar í félaginu X ehf. Hafi félagið orðið gjaldþrota eftir efnahagshrunið 2008. Kærandi hafi verið atvinnulaus frá þeim tíma. Hafi þetta allt tekið mjög á kæranda og hafi hann meðal annars glímt við þunglyndi af þessum sökum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 68.215.132 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), nema kröfur að fjárhæð 1.289.647 krónur. Kærandi hefur einnig gengist í ábyrgðir fyrir kröfum samtals að fjárhæð 20.120.151 króna.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. júlí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns liggur fyrir að kærandi hefur ekki nægilega greiðslugetu til að standa undir mánaðarlegum afborgunum fasteignaveðlána. Umsjónarmaður telji að kærandi geti ekki greitt fasta mánaðargreiðslu sem samsvari hæfilegri leigu eða tímabundna mánaðargreiðslu sem svari til 60% af hæfilegri leigu.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 5. mars 2012 tilkynnti umsjónarmaður að kærandi hefði ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignar hans að B götu nr. 31 í sveitarfélaginu C samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. Þá telji umsjónarmaður að samskiptum kæranda við sig hefði verið verulega áfátt, sbr. 1. mgr. 16. gr. lge., þar sem kærandi hefði ekki haft samband við umsjónarmann þrátt fyrir að umsjónarmaður hefði ítrekað reynt að ná í kæranda. Telji umsjónarmaður því rétt að greiðslu­aðlögunarumleitanir kæranda verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 9. maí 2012 þar sem fram kemur að kæranda hafi verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Umboðsmanni hafi ekki borist svar við bréfinu.

Umboðsmanni skuldara hafi borist tilkynning húsfélagsins Y 2. júlí 2012 þar sem fram hafi komið að kærandi væri í miklum vanskilum vegna ógreiddra húsfélagsgjalda. Hefði kærandi látið undir höfuð leggjast að greiða húsfélagsgjöld frá árinu 2009. Staðfesti framlagt yfirlit þetta en frestun greiðslna, eða svokallað greiðsluskjól, hafi hafist haustið 2010.

Með bréfi til kæranda 5. júlí 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður ákvörðun sína frá 27. júlí 2011 um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fallist verði á umsókn hans um greiðsluaðlögun. Jafnframt er þess krafist að kærandi fái greiddan málskostnað samkvæmt mati kærunefndarinnar.

Aðstæður kæranda séu afar erfiðar. Hann hafi dvalið langtímum í meðferð undanfarna mánuði og verið að reyna að koma lífi sínu á réttan kjöl. Af þessum sökum hafi hann haft afar lágar tekjur. Það ástand sé tímabundið enda reikni kærandi með því að ná sér á strik og fá atvinnu. Af þessum sökum hafi kærandi leitað eftir aðstoð umboðsmanns skuldara.

Fram hafi komið í málinu að kærandi hafi ekki haft nægar tekjur til að greiða fasteignagjöld. Það sé því einkar óvægið og ófaglegt af hálfu umboðsmanns að setja málið fram með þeim hætti að kærandi hafi með vanrækslu sinni skaðað hagsmuni kröfuhafa. Kærandi telji það ekki vanrækslu af hans hálfu að kaupa frekar í matinn en greiða fasteignagjöld.

Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 hafi verið sett til að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft væri að skuldari gæti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð.

Í þessu máli sé það fyrirséð að ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem meðal annars byggist á því að kærandi hafi ekki nægilega háar tekjur til að greiða af íbúð sinni, leysi á engan hátt fjárhagsvanda kæranda. Ákvörðun umboðsmanns skuldara taki á engan hátt tillit til núverandi aðstæðna kæranda.

Í meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga felist að þegar stjórnvald taki matskennda ákvörðun sé í fyrsta lagi gerð krafa um að efni ákvörðunar sé til þess fallið að ná því markmiði sem stefnt sé að en í þessu tilviki sé markmiðið að laga greiðslubyrði kæranda að greiðslugetu hans. Í öðru lagi skuli velja vægasta úrræðið sem völ sé á og í þriðja lagi sé gerð krafa um hóf í beitingu þess úrræðis sem fyrir valinu verði.

Ekki verði með neinu móti séð að synjun umboðsmanns skuldara sé vægasta úrræðið sem þjóni því markmiði sem að sé stefnt. Enda verði ekki með nokkru móti séð að umboðsmaður skuldara hafi gert tilraun til að semja við kröfuhafa. Í tilviki kæranda sé efni ákvörðunar umboðsmanns skuldara ekki til þess fallið að laga skuldir hans að greiðslugetu. Því megi færa rök fyrir því að kærandi standi verr en áður.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er tekið fram að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segi að við mat á því hvort mælt sé með sölu fasteignar umsækjanda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði umsækjanda sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem umsækjanda og fjölskyldu hans hæfi auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur.

Ef skuldari heldur eftir eign skuli hann samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignarinnar á tímabili greiðsluaðlögunar. Þessar greiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem umsjónarmaður ætli að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varði nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Ljóst sé að kærandi sé atvinnulaus og þiggi fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sé greiðslugeta hans aðeins 7.489 krónur á mánuði sé miðað við almenna framfærsluþörf einhleypings. Hafi þá ekki verið gert ráð fyrir húsnæðiskostnaði. Að mati umsjónarmanns sé því ekki unnt að gera ráð fyrir því í frumvarpi að greiðsluaðlögunarsamningi að kærandi haldi fasteign sinni. Hafi umsjónarmaður því lagt til að eignin verði seld.

Fyrir liggi að fasteign kæranda að B götu nr. 31 sé 126 fermetrar að stærð. Fasteignamat eignarinnar vegna ársins 2013 sé áætlað 41.850.000 krónur. Að mati umboðsmanns skuldara verði að ætla að þetta íbúðarhúsnæði sé verulega umfram þá stærð sem hæfi þörfum kæranda en hann sé einhleypur og barnlaus.

Af gögnum málsins og þeim upplýsingum sem liggi fyrir um tekjur kæranda þyki ljóst að núverandi tekjur hans dugi ekki til að greiða af fasteignaveðlánum þeim sem á fasteign hans hvíli. Kærandi hafi ekki sýnt fram á fyrirsjáanlegar breytingar á reglulegum tekjum sínum. Þrátt fyrir það hafi hann lagst gegn ákvörðun umsjónarmanns um að fasteign hans verði seld samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge.

Við greiðsluaðlögunarumleitanir sé fjárhagsstaða skuldara skoðuð og umsjónarmaður kanni hvort sala eigna samkvæmt 13. gr. lge. sé nauðsynleg til þess að samningur um greiðsluaðlögun komist á. Af gögnum málsins verði ekki séð að greiðslugeta kæranda sé slík að hann geti staðið undir afborgunum af íbúðarlánum eða leigugreiðslum samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Þannig verði að telja að umsjónarmanni hafi borið að leita eftir því að eign kæranda yrði seld til að greiða fyrir því að heimilt yrði að koma á greiðsluaðlögunarsamningi miðað við fyrirliggjandi forsendur um framfærslukostnað. Í framkvæmd hafi kröfuhafar ekki fallist á greiðsluaðlögunar­samninga sem feli í sér meiri ívilnanir vegna fasteignaveðkrafna en mælt sé fyrir um í a-lið 1. mgr. 21. gr. Umboðsmaður skuldara eða umsjónarmaður í umboði hans geti ekki gengið lengra í þessum efnum en löggjafinn hafi mælt fyrir um.

Af gögnum málsins verði ráðið að kærandi hafi ekki fallist á sölu fasteignarinnar að B götu nr. 31, þrátt fyrir það mat umsjónarmanns að greiðsluaðlögunarsamningur myndi ekki komast á nema eignin yrði seld. Að svo komnu hafi umsjónarmanni borið að beina því til umboðsmanns skuldara að fella niður heimild til að leita samnings um greiðsluaðlögun.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna standi yfir. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbindingar sem stofnað sé til séu nauðsynlegar til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Fyrir liggi að kærandi hafi lengi vanrækt greiðslu lögveðskrafna vegna húsfélagsgjalda. Samkvæmt meðfylgjandi gögnum séu samtals 2.203.386 krónur í innheimtu vegna ógreiddra húsfélagsgjalda en 775.457 krónur hafi fallið í gjalddaga frá því að frestun greiðslna hófst í október 2010. Verði ekki hjá því komist að telja að með hátterni sínu hafi kærandi stofnað til nýrra skulda sem skaðað hafi hagsmuni kröfuhafa samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærandi lýsi aðstæðum sínum í greinargerð. Hafa beri í huga að kærandi hafi ekki nýtt það tækifæri sem honum hafi verið veitt til að láta álit sitt í ljós áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Ekki verði séð að þau atriði sem kærandi nefni hefðu getað haft áhrif á niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar þótt þau hefðu komið fram áður en hún var tekin. Ákvæði 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 15. gr. lge. beri að skýra til samræmis hvort við annað. Þar sem ljóst þyki að kærandi geti ekki staðið undir afborgunum samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. en fallist ekki á sölu fasteignar sinnar samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. verði að telja rétt að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 IV. Niðurstaða

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kæru­nefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju nái kröfur kæranda fram að ganga í málinu. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri meðalgreiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að ef skuldari framfylgi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna á meðan frestun greiðslna stendur yfir. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í máli þessu telur umsjónarmaður ekki forsendur til þess að kærandi geti haldið fasteign sinni þar sem greiðslugeta hans er aðeins 7.489 krónur á mánuði. Umsjónarmaður lagði því til að eignin yrði seld en á það féllst kærandi ekki. Af þessum ástæðum beindi umsjónarmaður því til umboðsmanns skuldara með bréfi 5. mars 2012 að rétt væri að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður og gerði umboðsmaður það með ákvörðun 5. júlí 2012.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður getur þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt er. Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum eins og því sem hér um ræðir að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði kæranda vegna fasteignaveðkrafna, enda ljóst að kærandi getur ekki staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði. Í ljósi fjölskylduaðstæðna kæranda, greiðslugetu hans og stærðar húsnæðis er það mat kærunefndarinnar að það verði ekki talið ósanngjarnt að gera kröfu um að fasteign kæranda verði seld.

Eins og áður segir byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara einnig á því að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda vegna vanskila á húsfélagsgjöldum í greiðsluskjóli en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hefur ekki staðið skil á þeim húsfélagsgjöldum sem til féllu eftir að heimild til greiðsluaðlögunar var veitt, en slík frestun nær ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Hefur kærandi því að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Kröfuna um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kæranda sem hefur komið fram fyrir hann gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðslu­aðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærandi verði sjálfur að bera þann kostnað sem hann kann að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Beiðni kæranda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum