Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 136/2012

Mánudaginn 25. ágúst 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 18. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. júlí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 25. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. ágúst 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 24. ágúst 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 7. september 2012. Voru athugasemdir kæranda sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 11. september 2012 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 27. september 2012. Var hún send kæranda með bréfi 2. október 2012 og honum boðið að gera athugasemdir. Bárust athugasemdir kæranda við framhaldsgreinargerðina með bréfi 15. nóvember 2012. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 16. nóvember 2012 og var afstöðu embættisins óskað. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1968. Hann býr ásamt sambýliskonu sinni í eigin húsnæði að B götu nr. 18 í sveitarfélaginu C en um er að ræða 166,3 fermetra hús með bílskúr.

Kærandi starfar hjá X ehf. Mánaðarlegar tekjur hans eru 256.879 krónur. Einnig fær hann sérstaka vaxtaniðurgreiðslu að fjárhæð 7.984 krónur á mánuði. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda eru því 264.863 krónur.

Að sögn kæranda má einkum rekja fjárhagserfiðleika hans til ársins 2007 þegar hann skuldbreytti verðtryggðum lánum í erlent lán sem hafi hækkað umtalsvert. Einnig hafi hann keypt hlutabréf í Saga Capital fjárfestingarbanka hf. en tryggingarbréf vegna þeirra kaupa sé með veði í fasteign hans. Að mati kæranda hafi gengishrun krónunnar og hrun á fjármálamörkuðum leitt til þess að hann geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 212.997.631 króna. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Sjálfskuldarábyrgðir kæranda eru 9.647.321 króna en af þeirri fjárhæð eru 311.087 krónur í vanskilum.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. júlí 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá sanngjarna málsmeðferð og að ákvörðun umboðsmanns skuldara sé tekin út frá réttum forsendum. Þá fer hann fram á að greiðsluaðlögun hans verði samþykkt.

Kærandi kveður umboðsmann skuldara hafa vanmetið eignir hans við úrlausn málsins og því hafi ákvörðun í máli hans ekki verið tekin út frá réttum fjárhagslegum staðreyndum. Umboðsmaður leyfi sér að halda því fram að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu umfram það sem talist geti samrýmanlegt fjárhagsstöðu hans en á sama tíma hunsi umboðsmaður markaðsverðmæti eigna kæranda á þeim tíma er nefnd ákvörðun var tekin. Umboðsmaður miði við að fasteignamat sé hið sama og markaðsverðmæti fasteignar kæranda. Á þessum tíma hafi markaðsverðmæti fasteigna verið mun hærra en fasteignamat. Miðað við verð á fermetra á þessum tíma á þeim stað sem fasteign kæranda sé, hafi varlega áætlað fermetraverð verið um 325.000 krónur. Miðað við það hafi verðmæti fasteignar kæranda verið 54.000.000 króna en ekki 35.770.000 krónur eins og umboðsmaður gangi út frá. Orðrétt segi umboðsmaður „...enda er ógerningur að afla verðmats eigna aftur í tímann“. Kærandi lýsir undrun sinni á því hvernig umboðsmaður geti leyft sér að halda þessu fram þegar auðvelt sé að fá upplýsingar um kaupsamninga fasteigna aftur í tímann og þar með söluverðmæti á fermetra á umræddum tíma í mismunandi hverfum.

Einnig vanmeti umboðsmaður verðmæti hlutabréfaeignar kæranda og telji hlutabréf hans í X ehf. 250.000 króna virði. Kærandi telji að á þessum tíma hafi verðmæti bréfanna verið nær 10.000.000 króna. Auðvelt ætti að vera að verðmeta hlutabréf X ehf. með því einu að skoða ársreikninga þess félags ásamt undirrituðum samningum sem skapi tekjuflæði til framtíðar. Það verði að telja forkastanleg vinnubrögð hjá umboðsmanni skuldara að geta ekki verðmetið slík hlutabréf aftur í tímann út frá opinberum ársreikningum félagsins. Einfalt dæmi sem útskýri hversu fáránlegt sé að verðmeta slík hlutabréf á nafnverði sé þegar hlutafé félags sé 500.000 krónur, óráðstafað eigið fé 100.000.000 króna og skuldir engar. Í slíku tilviki geti verðmæti félags varla talist 500.000 krónur. Því sé það lágmarkskrafa að umboðsmaður skuldara sinni störfum sínum með faglegum hætti og meti raunverulegt markaðsvirði eigna kæranda á þeim tíma er hann tókst á hendur skuld til hlutabréfakaupa. Annað sé ábyrgðarleysi og vinni gegn því hlutverki sem embættinu sé ætlað að sinna.

Í allt vanmeti umboðsmaður skuldara eignir kæranda um liðlega 30.000.000 króna. Þar með sé ekki hægt að segja að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt.

Kærandi mótmælir því að umboðsmaður skuldara taki ekki tillit til fjármagnstekna en þær hafi verið stöðugar og reglulegar undanfarin ár vegna eignarhluta kæranda í X ehf. Í þeim útreikningum umboðsmanns skuldara sem byggðir séu á neysluviðmiði og tekjum til framfærslu séu vantaldar reglulegar fjármagnstekjur til fjölda ára vegna eignarhluta kæranda í X ehf. Um sé að ræða tekjur að fjárhæð 38.000.000 króna frá árinu 2006 til ársins 2011. Greiðslugeta kæranda sé þannig verulega vanmetin.

Kærandi telur enn fremur að umboðsmaður tilgreini fjárhæðir veðkrafna ekki rétt þar sem raunverulegar veðkröfur séu á grundvelli tryggingarbréfa sem tryggi mun lægri fjárhæðir. Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara séu veðkröfur á hendur kæranda 206.296.042 krónur en þessi fjárhæð sé víðs fjarri raunverulegum kröfum sem hvíli á fasteign kæranda. Upphafleg fjárhæð veðkrafna á fasteign kæranda hafi numið 52.800.000 krónum eftir lántökur á árinu 2007. Hafi þessar kröfur hækkað eitthvað vegna vísitölu en ómögulegt sé að þær nemi nú 206.296.042 krónum. Kærandi greinir einnig frá því í athugasemdum við framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara að nú hafi skuldir hans verið færðar niður um tæpar 90.000.000 króna og enn eigi eftir að lækka skuldirnar. Embætti umboðsmanns skuldara greini ekki einu sinni frá slíkum hlutum. Hljóti þetta að vera mjög mikilvægar upplýsingar og staðreyndir en embætti umboðsmanns virðist ekki eða vilji ekki sjá þær. Nú þegar lækkanir lána hafi átt sér stað telji kærandi sig getað unnið sig út úr greiðsluvanda sínum. Vilji hann leggja mjög hart að sér til að komast hjá gjaldþroti en það verði þó ekki gert án þess að umboðsmaður skuldara heimili honum meðferð greiðsluaðlögunar.

Kærandi taki það einnig fram að væntanlegar tekjur hans og maka hans séu langt umfram þær tekjur sem þau hafi haft undanfarin ár. Hlutabréfaeign kæranda og maka hans í X ehf. séu mun verðmætari árið 2012 en þegar kærandi stofnaði til skulda árið 2007. Nýlega hafi félagið gert samninga til þriggja ára við sveitarfélagið C en þessir samningar tryggi tekjur upp á hundruð milljónir.

Fram kemur að kærandi sé afar ósáttur við þá meðferð sem mál hans hafi hlotið hjá embætti umboðsmanns skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi tekið tvö lán hjá Sparisjóði Kópavogs árið 2007 til kaupa á hlutabréfum í Saga Capital fjárfestingarbanka hf. Upphafleg heildarfjárhæð þessara lána hafi verið 50.500.000 krónur. Lánin hafi verið í erlendum gjaldmiðli og með einum gjalddaga árið 2012. Skuldin nemi nú 149.248.694 krónum en geti lækkað þar sem beðið sé endurútreiknings. Til tryggingar á greiðslu lánanna hafi verið tekið veð í fasteign kæranda og handveð í hlutabréfunum.

Á árinu 2007 þegar kærandi réðist í ofangreinda lántöku hafi fjárhagur hans verið með eftirfarandi hætti í krónum samkvæmt skattframtali:

  2007
Meðaltekjur á mánuði* 464.580
Meðaltekjur maka á mánuði 102.334
Samanlagðar meðaltekjur á mánuði 566.914
Eignir kæranda samtals 35.770.000
· Fasteign 33.770.000
· Ökutæki 1.750.000
· Hlutabréf í X hf. 250.000
Skuldir alls** 31.193.463

* Launa- og fjármagnstekjur.

** Fyrir utan lán til hlutabréfakaupa.

Ofangreindar eigna- og skuldatölur séu fyrir utan lán sem kærandi hafi tekið til hlutabréfakaupanna og verðmæti hlutabréfanna.

Umboðsmaður hafi sent kæranda bréf 27. apríl 2012 þar sem honum hafi verið bent á að til skoðunar væri hvort hann hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hefði verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í svarbréfi kæranda 20. maí 2012 komi fram að tilgangurinn með hlutabréfakaupunum hafi verið að tryggja fjárhagslegan styrk kæranda og fjölskyldu hans. Kærandi hafi bent á að hann hafi verið fjárhagslega stöndugur á þeim tíma er hann tók lán til hlutabréfakaupa og vísi til tekna og arðgreiðslna samkvæmt skattskýrslum fyrir árin 2007 til 2010. Einnig hafi kærandi mótmælt heildarfjárhæðum skulda sinna og bent á að erlend lán hans ætti eftir að endurreikna.

Telja verði að fjárfestingu í hlutabréfum fylgi ávallt fjárhagsleg áhætta. Það sé matsatriði hverju sinni hvort sú áhætta eigi að girða fyrir heimild til að leita samninga um greiðsluaðlögun. Einnig verði að telja að lántaka í erlendri mynt sé almennt áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum. Erlendum lánum fylgi töluverð gengisáhætta og geti höfuðstóll slíkra lána hækkað umtalsvert ef miklar breytingar verði á gengi viðkomandi gjaldmiðils.

Í máli þessu sé ljóst að greiðsluerfiðleika kæranda megi að mestu leyti rekja til hlutabréfakaupa hans. Hlutabréfakaup sem að öllu leyti séu fjármögnuð með lántöku í erlendri mynt feli í sér ýmiss konar áhættu, svo sem eftir atvikum vegna sveiflna á hlutabréfamörkuðum, gengislækkunar hlutabréfanna og hækkunar lána vegna gengisbreytinga. Telja verði að kaupandi hlutabréfa geti almennt ekki gengið út frá því að ekki verði tap á slíkri fjárfestingu og því síður að hún skili hagnaði. Þegar fjárhagsstaða kæranda árið 2007 sé virt þyki ljóst að hann hafi tekið áhættu á því að arðsemi hlutabréfanna yrði nægileg til að standa undir fjármagnskostnaði vegna þeirra lána sem hann hafi tekið. Kærandi telur sig hafa verið fjárhagslega stöndugan þegar hann hafi tekið umrædd lán. Eins og sjá megi af framangreindu hafi eignir hans numið 35.770.000 krónum en skuldir 31.193.463 krónum. Hvorki verði séð að eignastaða kæranda né tekjur hafi veitt honum svigrúm til verulegra viðbótaskuldbindinga. Upphafleg fjárhæð þeirra lána sem kærandi hafi tekið hafi verið 50.500.000 krónur. Telji umboðsmaður skuldara því að kærandi hafi skuldsett sig langt umfram það sem fjárhagur hans hafi leyft og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á árinu 2007.

Kærandi haldi því fram að umboðsmaður skuldara hefði vanmetið eignastöðu hans. Það byggi hann  meðal annars á því að mið hafi verið tekið af fasteignamati en ekki markaðsverði fasteignar hans. Við vinnslu mála hjá umboðsmanni skuldara verði að taka mið af opinberum gögnum og við mat á verðmæti fasteigna hafi ávallt verið stuðst við fasteignamat enda ógjörningur að afla verðmats á eignum aftur í tímann.

Þá telji kærandi að umboðsmaður skuldara hefði vanmetið verulega verðmæti hluta hans í X ehf. með því að telja hlutinn 250.000 króna virði. Umboðsmaður telji að þar sem félagið hafi ekki verið skráð á markað hafi ekki verið um annað að ræða en að taka mið af nafnverði bréfanna á hverjum tíma og skráningu þeirra á skattframtali. Kærandi hafi einnig gert þær athugasemdir að við mat á tekjum hans hafi ekki verið tekið tillit til fjármagnstekna sem hafi verið reglulegar síðustu ár. Umboðsmaður vísar til þess að hann hafi talið fjármagnstekjur kæranda með tekjum hans á árinu 2007. Ógerningur sé þó að reikna með fjármagnstekjum í framtíðartekjum kæranda enda ekki unnt að segja til um fjárhæð þeirra þar sem þær hafi verið óreglulegar síðustu ár.

Kærandi hafi einnig bent á að fjárhæð heildarskulda hans í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé ekki rétt þar sem enn eigi eftir að endurútreikna erlend lán. Rétt sé að hafa í huga að við synjun á umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið tekið mið af þeim tíma er kærandi hafi gengist í skuldbindingar vegna hlutabréfakaupa og því ráði núverandi fjárhæð skuldanna ekki úrslitum um það að umsókn kæranda hafi verið synjað. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011 segi að „[s]taða kæranda nú og í framtíðinni hefur ekki þýðingu við mat á því hvort ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við, enda er þar miðað við háttsemi og stöðu einstaklings á þeim tíma er til skuldanna var stofnað. Núverandi staða breytir engu um það að vandi kæranda verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hún verður sjálf talin bera ábyrgð á með framgöngu sinni.“

Með vísan til þess sem komið hefur fram er það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að greiðsluaðlögun hans verði samþykkt. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðslu­aðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skal taka sérstakt tillit til atriða sem talin eru upp í stafliðum a–g. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Í málinu deila aðilar um hvort kærandi hafi hagað fjármálum sínum á óforsvaranlegan hátt með því að taka erlend lán að fjárhæð 50.500.000 króna til hlutabréfakaupa á árinu 2007 en hlutabréfakaupin voru að öllu leyti fjármögnuð með lánsfé.

Umboðsmaður skuldara miðar útreikning á fjárhagsstöðu kæranda við upplýsingar úr skattframtali. Samkvæmt skattframtali kæranda fyrir árið 2007 var fjárhagsstaða hans eftirfarandi í krónum áður en hann réðst í hlutabréfakaupin og tilheyrandi lántöku:

TEKJUR 2007
Launatekjur kæranda á árinu 2007 3.960.000
Launatekjur maka kæranda á árinu 2007 1.267.200
Fjármagnstekjur á árinu 2007 2.800.138
Samtals tekjur á árinu 2007 8.027.338
   
Ráðstöfunartekjur kæranda á mánuði (meðaltal) 243.550
Ráðstöfunartekjur maka kæranda á mánuði (meðaltal) 91.314
Fjármagnstekjur á mánuði (meðaltal) 210.010
Vaxtabætur á mánuði (meðaltal) 22.039
Samanlagðar ráðstöfunartekjur á mán. (meðaltal) 566.913
   
EIGNIR  
· Fasteign (fasteignamat) 33.770.000
· Ökutæki 1.750.000
· Hlutir í X ehf. (nafnverð) 250.000
Eignir kæranda og maka samtals 35.770.000
   
SKULDIR  
Skuldir án lána sem tekin voru til hlutabréfakaupa 31.193.463
   
Nettóeignastaða fyrir hlutabréfakaup 4.576.537

Kærandi telur umboðsmann skuldara hafi vanmetið eignir sínar þar sem umboðsmaður byggi ákvörðun sína ekki á markaðsvirði eigna kæranda. Ef miðað er við álit kæranda sjálfs á verðmæti eigna sinna var nettóeignastaða hans þannig áður en hann tók erlent lán að fjárhæð 50.500.000 krónur til hlutabréfakaupa:

EIGNIR  
· Fasteign 54.000.000
· Ökutæki 1.750.000
· Hlutabréf í X hf. 10.000.000
Eignir kæranda og maka samtals 65.750.000
   
SKULDIR  
Skuldir án lána sem tekin voru til hlutabréfakaupa 31.193.463
   
Nettóeignastaða fyrir hlutabréfakaup 34.556.537

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Þau atriði sem talin eru upp í 2. mgr. 6. gr. grundvallast öll á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Á meðal þeirra er c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Eins og áður hefur komið fram keypti kærandi hlutabréf í Saga Capital fjárfestingarbanka hf. á árinu 2007 og fjármagnaði kaupin að öllu leyti með erlendum lánum. Voru lánin sem hér segir í krónum:

Dags. Tegund Fjárhæð Endurgreiðsla Vaxtagjalddagar Trygging
31.5.2007 Erlendur 30.000.000 Einn gjalddagi Á 12 mánaða Tryggingarbréf í fasteign kæranda.
  lánasamningur   1.6.2012 fresti Handveð í hlutabréfum
30.7.2007 Erlendur 20.500.000 Einn gjalddagi Á 12 mánaða Tryggingarbréf í fasteign kæranda.
  lánasamningur   1.8.2012 fresti Handveð í hlutabréfum
  Samtals 50.500.000  
 

Vextir skyldu greiddir árlega af lánunum og má af lánasamningunum ráða að þeir hafi að minnsta kosti verið 2.000.000 króna fyrsta árið eða að meðaltali um 166.000 krónur á mánuði.

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn er styðja fullyrðingar hans um verðmæti eigna en í máli hans hefur komið fram að hann telji það hlutverk umboðsmanns skuldara að afla upplýsinga um markaðsvirði eigna hans, þar með talið verðmæti eignarhluta hans í einkahlutafélagi. Þótt umboðsmanni skuldara beri skylda til að afla frekari upplýsinga eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram samkvæmt 5. gr. lge. verður einnig að líta til þess að skuldara ber að taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við vinnslu máls. Með bréfi umboðsmanns skuldara 27. apríl 2012 var kærandi beðinn um að sýna fram á það með skriflegum hætti og styðja það gögnum að hann hefði hvorki tekið fjárhagslega áhættu né hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í svarbréfi kæranda 20. maí 2012 kemur meðal annars fram að hann hafi verið fjárhagslega stöndugur er hann tók nefnd lán til hlutabréfakaupa. Kærandi hvorki rökstyður þessa fullyrðingu né leggur fram gögn henni til staðfestingar. Verður með engu móti fallist á að það sé hlutverk umboðsmanns skuldara að verðmeta eignir umsækjanda um greiðsluaðlögun á þann hátt sem kærandi krefst enda samrýmist það ekki því hlutverki sem embættinu er ætlað að hafa að lögum. Með vísan til alls þessa telur kærunefndin að kæranda hafi sjálfum borið að sýna fram á verðmæti eigna sinna hafi hann talið þær verðmeiri en skattframtal ársins 2007 gaf til kynna.

Hvað sem líður mögulegri óvissu um nettóeignastöðu kæranda þegar hann tók nefnd lán til hlutabréfakaupa er það mat kærunefndarinnar að með því að fjármagna hlutabréfakaupin með erlendum lánum að fjárhæð 50.500.000 krónur og veðsetja fasteign sína að auki til tryggingar lánunum, hafi hann tekið umtalsverða fjárhagsáhættu enda um afar háa fjárhæð að ræða hvort sem miðað er við tekjur kæranda eða eignastöðu hans. Er þá meðal annars litið til þess að hlutabréf eru í eðli sínu áhættufjárfesting, að hlutabréfin voru að öllu leyti fjármögnuð með lánsfé, að vaxtagreiðslur hinna erlendu lána hafi að minnsta kosti verið 2.000.000 króna fyrsta árið og kærandi þurfti að auki að standa skil á afborgunum vegna annarra skulda sem voru að fjárhæð ríflega 31.000.000 króna. Virðist kærandi þannig hafa gengið út frá því sem vísu að arður af hlutabréfunum stæði undir fjármagnskostnaði en ekki verður séð að hann hafi getað greitt vaxtagjalddaga erlendu lánanna með öðrum tekjum sínum.

Samkvæmt framangreindu telur kærunefndin að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c- liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum