Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 105/2012

Mánudaginn 25. ágúst 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 8. júní 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. maí 2012 þar sem felld var niður fyrri ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 15. nóvember 2010 um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 14. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. júní 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 20. júlí 2012. Athugasemdir kærenda við greinargerðina bárust með bréfi 6. ágúst 2012.

Með bréfi 14. ágúst 2012 voru athugasemdir kærenda sendar umboðsmanni skuldara til kynningar. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 21. ágúst 2012.  

Framhaldsgreinargerð var send kærendum til kynningar með bréfi 24. ágúst 2012. Athugasemdir kærenda við greinargerðina bárust með bréfi 5. september 2012.

Með bréfi 11. september 2012 voru athugasemdir kærenda sendar umboðsmanni skuldara. Frekari athugasemdir bárust ekki frá umboðsmanni skuldara.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1958 og 1967. Saman eiga þau þrjú börn. Kærendur búa að C götu nr. 6 í sveitarfélaginu D, og er það lögheimili þeirra beggja. Kærandi A starfar sem framkvæmdastjóri en kærandi B starfar sem leiðbeinandi við leikskólann í sveitarfélaginu E.

Ráðstöfunartekjur kærenda eftir skatta að meðtöldum bótum eru samkvæmt greiðsluáætlunum umboðsmanns skuldara 10. maí 2012 og 27. júní 2012 samtals 574.388 krónur á mánuði.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 72.593.772 krónur. Utan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) fellur námslán sem nemur 10.234.449 krónum.

Að sögn kærenda má rekja greiðsluerfiðleika þeirra til ársins 2005 þegar kærandi A missti starf sitt. Tekjutapið hafi leitt til þess að þau hafi hvorki getað borgað af lánum né staðið undir reglulegum heimilisútgjöldum. Eftir þetta hafi kærandi A sinnt ýmsum störfum en eftir hrunið, haustið 2008, hafi hann verið atvinnulaus um tíma. Kærendur séu með þrjú börn á sínu framfæri og hafi það umtalsverðan kostnað í för með sér. Kærendur hafi reynt að bregðast við tekjutapi með því að selja hluta landeignar sinnar en það hafi ekki tekist.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. nóvember 2010 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi umsjónarmanns 22. febrúar 2012 var lagt til við umboðsmann skuldara að heimild kærenda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður á grundvelli 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. sömu laga með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna stóð yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að í þá 16 mánuði sem málið hafi verið í vinnslu hafi kærendur enga fjármuni lagt fyrir. Greiðslugeta þeirra hafi þó verið jákvæð um 98.280 krónur á mánuði, auk þess sem kærendur hafi fengið greiddar vaxtabætur í ágúst 2011.  

Með bréfi umboðsmanns skuldara 8. mars 2012 voru kærendur upplýst um afstöðu umsjónarmanns. Var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir.

Umboðsmanni skuldara bárust skýringar kærenda með tölvupósti 22. mars 2012. Þar greindu kærendur frá því að frá þeim tíma er þau fengu heimild til greiðsluaðlögunar og fram til þess tíma að frumvarp til greiðsluaðlögunar lá fyrir 11. september 2011 hafi verið óvissa um hversu mikið hafi átt að leggja fyrir. Kærendur höfnuðu því að greiðslugeta þeirra hafi á tímabilinu fram að 11. september 2011 verið eins og umsjónarmaður tilgreini í frumvarpi sínu. Þá hafi kostnaður vegna uppihalds fjölskyldu kærenda á tveimur stöðum vegna vinnu kæranda A valdið því að framfærslukostnaður hafi verið mun hærri en ella. Að mati kærenda hafi ekki verið tekið tillit til þeirra gagna eða upplýsinga sem þau hafi lagt fram. Kærendur hafi því ekki brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge.

Með tölvupóstum 26. apríl 2011, 7. maí 2011 og 11. maí 2011 óskaði umboðsmaður skuldara frekari skýringa kærenda. Kærendur svöruðu með tölvupóstum 29. apríl 2011, 8. maí 2011 og 16. maí 2011.

Með bréfi til kærenda 23. maí 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður ákvörðun sína frá 16. nóvember 2010 um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Málatilbúnað kærenda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði felld úr gildi.

Í kæru kemur fram kærendur telji sig ekki hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. eins og haldið sé fram í hinni kærðu ákvörðun. Þau hafi eftir fremsta megni reynt að framfleyta sér innan þeirra marka sem þeim hafi verið sett með lge. og ekki lagt í kostnað umfram það allra nauðsynlegasta. Á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana hafi börn kærenda varla getað tekið þátt í eðlilegu íþrótta- og félagslífi. Þá hafi kærendur næstum algjörlega hætt þátttöku í félagslífi. Kærandi A hafi einnig þurft að hætta í fjarnámi haustið 2009 þar sem hann hefði að öðrum kosti misst rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Kærendur telja að hvorki hafi verið tekið nægilegt tillit til aðstæðna þeirra né hafi umboðsmaður skuldara skoðað málið nægilega vel. Kærendur hafi margsinnis bent bæði umsjónarmanni og umboðsmanni skuldara á að þau hafi þurft að reka heimili og húsnæði á tveimur stöðum í rúm tvö ár. Ferða- og matarkostnaður hafi verið meiri vegna þess. Þá hafi kærendur greitt rekstrarkostnað af tveimur húsum og þar til í mars 2012 hafi kærendur verið að greiða af láni sem þau tóku til bifreiðakaupa.

Kærendur greina frá því að frá mars 2006 til febrúar 2010 hafi kærandi A haft lágar eða engar tekjur. Hann hafi misst vinnu sína í sveitarfélaginu E og fengist við tilfallandi störf á tímabilinu. Kærendur og börn þeirra hafi búið í sveitarfélaginu E og átt lögheimili þar. Frá febrúar 2010 hafi kærandi A starfað í sveitarfélaginu D, en fjölskyldan hafi áfram verið búsett í sveitarfélaginu E þar til í september 2011, þar sem yngsta barn kærenda var í skóla og kærandi B starfaði. Í um það bil eitt og hálft ár hafi ferðakostnaður verið mikill vegna ferðalaga á milli þessara staða, auk þess sem á tímabilinu hafi þurft að standa undir kostnaði við heimilisrekstur á tveimur stöðum. Í september 2011 hafi fjölskyldan flust til sveitarfélgsins D og hafi kostnaður við það verið nokkur. Þrátt fyrir að hús í sveitarfélaginu E hafi staðið autt hafi áfram þurft að greiða hita, rafmagn og fasteignagjöld af því. Húsið hafi selst í lok apríl 2012 með yfirtöku áhvílandi skulda. Kærendur séu nú búsett í húsnæði sem sé í eigu dánarbús föður kæranda A í sveitarfélaginu D. Kærendur hafi greitt rekstrarkostnað af fasteigninni og telji eðlilegt að aðrir erfingjar greiði ekki kostnað vegna búsetu kærenda í húsinu.

Kærendur telja að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til kostnaðar þeirra í útreikningum umboðsmanns.

Í fyrsta lagi hafi ferðakostnaður þeirra frá febrúar 2010 til september 2011 vegna tvöfaldrar búsetu verið vanreiknaður. Miðað við akstur einu sinni í viku fram og til baka frá sveitarfélaginu E til sveitarfélagsins D og eldsneytisverð á þeim tíma hafi mátt áætla eldsneytiskostnað kærenda um 500.000 krónur umfram það sem annars gæti talist til eðlilegs aksturs.

Í öðru lagi hafi rekstrarkostnaður af tveimur húsum, frá september 2011 til aprílloka 2012, verið vanreiknaður. Kærendur hafi alls þurft að greiða fasteignagjöld að fjárhæð 468.772 krónur fyrir árið 2012 af báðum fasteignunum. Að auki hafi verið greiddar 20.000 krónur á mánuði vegna hitaveitu.

Í þriðja lagi hafi rekstrarkostnaður vegna heimilishalds á tveimur stöðum á tímabilinu verið vanreiknaður. Kærendur kveðast eiga erfitt með að segja til um þennan kostnað en augljóst sé að um viðbótarkostnað hafi verið að ræða. Um haustið 2008 hafi sonur kærenda hafið nám við framhaldsskóla í sveitarfélaginu D og haustið 2010 hóf annar sonur þeirra nám í sveitarfélaginu D. Því hafi fjölskyldan verið skipt virka daga, milli seitarfélagsins E og sveitarfélagsins D

Í fjórða lagi hafi ekki verið tekið tillit til kostnaðar vegna ökukennslu og ökuprófa tveggja sona kærenda árin 2010 og 2011. Alls hafi kærendur greitt um 170.000 krónur vegna ökunáms þeirra.

Í fimmta lagi hafi ekki verið tekið tillit til fasteignagjalda sem greidd hafi verið árið 2011. Þau hafi numið 301.300 krónum auk vaxtakostnaðar að fjárhæð 8.430 krónur.

Í sjötta lagi hafi ekki verið tekið tillit til bifreiðakostnaðar kærenda á tímabilinu febrúar 2010 til ágústloka 2011. Kærendur hafi greitt rekstrarkostnað af bifreið föður kæranda A sem nauðsynlegt hafi verið vegna starfa hans í sveitarfélaginu D. Eftir að fjölskyldan flutti öll til sveitarfélagsins D og andlát föður kæranda A hafi sú bifreið verið seld.

Í sjöunda lagi hafi ekki verið tekið tillit til afborgana af bifreiðinni O sem hafi staðið fram í mars 2012. Fram að þeim tíma hafi kærendur greitt um 20.000–22.000 krónur á mánuði í kaupleigu af bifreiðinni.

Í áttunda lagi hafi ekki verið tekið tillit til þess vanda sem hafi safnast upp vegna tekjuskerðingar kæranda A, en tekjur hans hafi verið lágar eða engar í um fjögur ár, eða frá febrúar 2006 til febrúar 2010.

Varðandi málsmeðferðina hafi kærendum ekki verið kynnt frumvarp til greiðsluaðlögunar fyrr en í september 2011, þótt greiðsluskjól hafi verið veitt í nóvember 2010. Því sé ekki raunhæft að gera kröfu um að kærendur hafi lagt til hliðar hámarksfjárhæð allt tímabilið frá nóvember 2010 eins og gert sé ráð fyrir í frumvarpinu sem kynnt var kærendum í september 2011.

Álitamál sé hvort greiðsluviðmið umboðsmanns skuldara standist verðlagsþróun. Þegar verðlagsvísitala hafi verið 118,6 í janúar 2010 hafi greiðsluviðmið fyrir hjón/sambýlisfólk með þrjú börn verið 180.100 krónur. Í september 2011, þegar greiðsluætlun var kynnt, hafði vísitalan hækkað í 135,8 stig eða um 13,6% en framfærsluvísitala umboðsmanns skuldara í 191.200 krónur eða um 6,2%.

Í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar komi fram að umboðsmanni skuldara sé óheimilt að nota önnur viðmið en greiðsluviðmið embættisins. Þrátt fyrir þetta komi fram í 1. gr. lge. að markmið laganna sé að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Enn fremur komi fram í 16. gr. lge. að frumvarp um greiðsluaðlögun skuli vera á þann veg að framfærsla skuldara og fjölskyldu hans sé tryggð.

Telja kærendur að frá upphafi samskipta við starfsmann umboðsmanns skuldara, eftir að umsjónarmaður hafi sent málið til embættisins með bréfi 22. febrúar 2012, megi leiða líkur að því að starfsmaðurinn hafi þegar gert upp huga sinn til málsins.

Í greinargerð kærenda 6. ágúst 2012 er vakin athygli á nokkrum atriðum sem kærendur telja ábótavant.

Kærendur telja að þau hafi farið eftir þeim fyrirmælum og veitt þær upplýsingar sem þau hafi talið réttar og óskað var eftir. Þau hafi boðist til þess að leggja fram ítarlegri upplýsingar væri þess óskað eða þörf talin á. Umboðsmaður hafi talið upplýsingaöflun lokið, en segi samt að upplýsingar séu ófullnægjandi. Kærendur telja sig hafa sýnt fram á ráðstöfun þess fjár sem þau höfðu til umráða og lagt fram gögn um gjöld umfram framfærsluviðmið umboðsmanns. Þá hafi þau ekki verið spurð út í nema hluta þeirra „umframgjalda“ sem um ræði.

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 5. gr. lge. Í greinargerð umboðsmanns um eignastöðu kærenda séu taldar upp eignir sem kærendur hafi ekki ráðstöfunarrétt yfir. Meðal annars sé tiltekinn bankareikningur með um 570.000 króna inneign en reikningurinn sé bundinn vegna láns sem tekið hafi verið árið 2008. Þá hafi umboðsmaður ekki nýtt heimild í 2. mgr. 5. gr. lge. um að kalla kærendur til fundar til að fara yfir stöðu mála.

Að mati kærenda uppfylli umboðsmaður skuldara ekki upplýsingaskyldu sína þar sem embættið gefi út framfærsluviðmið sem hvorki séu uppfærð miðað við vísitölu né rökstudd. Hvergi sé að finna upplýsingar um hvað liggi að baki framfærsluviðmiðinu.

Þá telja kærendur að niðurstaða umboðsmanns skuldara hafi verið fengin út frá þröngri túlkun og einhliða skilgreiningu á efni a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. en ekki öðrum ákvæðum laganna. Krafa um sparnað að fjárhæð samtals um 1.500.000 krónur sé gerð eftir á, án þess þó að kærendur hafi vitað fyrr en seint og um síðir hver hin mánaðarlega sparnaðarkrafa hafi verið. Sú fjárhæð hafi komið frá kröfuhafa þegar frumvarp hafi legið fyrir.

Kærendum hafi hvorki verið birtar skriflega ástæður þess að lánardrottnar höfnuðu framkomnu frumvarpi, sbr. 3. mgr. 17. gr., né hafi umsjónarmaður leitast við að fá viðkomandi kröfuhafa til að endurskoða afstöðu sína. Þá hafi engar ástæður samkvæmt 6. gr. lge. verið tilgreindar sem komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Þá hafi kærendum ekki verið gerð grein fyrir því að þau hefðu rétt til að leita nauðasamninga, sbr. 18. gr. lge.

Í framhaldsgreinargerð kærenda 5. september 2012 kemur fram að umkvörtunarefni þeirra í hnotskurn sé að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni þegar ákvörðun var tekin um að vísa kærendum úr greiðsluaðlögun á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Einnig að starfsmaður umboðsmanns hafi þegar verið búinn að taka ákvörðun í málinu áður en gagnaöflun hófst hjá embættinu. Þetta sé í raun viðurkennt með vísan til greinargerðar umsjónarmanns þegar hann hafi vísað málinu frá sér. Kærendur hafi aldrei séð þá greinargerð en til hennar sé vísað í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara. Í málflutningi umboðsmanns sé eingöngu horft til eins málsliðar einnar greinar lge. af tæknilegum ástæðum, en ekki til almenns markmiðs laganna eða ákvæða í öðrum lögum, til dæmis ákvæða stjórnsýslulaga um upplýsingaöflun og upplýsingaskyldu embættisins. Að lokum séu ákveðnar vísbendingar um að vegna skilyrða í umhverfi umboðsmanns hafi málinu verið þrýst út af borðinu áður en komist hafi verið til botns í því.

Kærendur hafi lagt fram gögn um hver staða þeirra hafi verið og hvernig tekjum þeirra hafi verið ráðstafað árið 2011, en það tímabil virðist hafa verið grundvöllur frumvarps til greiðsluaðlögunar. Gögn um útgjöld kærenda hafi verið kynnt umsjónarmanni við umræðu um frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Hann hafi ekki óskað eftir nánari skýringum á kostnaði kærenda. Þetta hafi verið í byrjun árs 2012. Umboðsmaður skuldara hafi ekki kallað eftir skýringum um hvernig þessi útgjöld hafi verið tilkomin eftir að málið var sent þangað til meðferðar, ef frá sé talin fyrirspurn um kostnað vegna ökunáms sona kærenda. Reyndar hafi verið spurt um rekstrarkostnað vegna tveggja bifreiða sem embættið hafi talið að kærendur ættu en það hafi verið misskilningur af hálfu embættisins. Kærendur hafi margboðist til að leggja fram frekari gögn um kostnað og reynt að rökstyðja hvers vegna kostnaður þeirra hafi reynst meiri en talið hafi verið eðlilegur kostnaður af hálfu embættisins. Einnig hafi kærendur margboðist til að hitta fulltrúa umboðsmanns skuldara til að skýra einstök efnisatriði ef með þyrfti. Ætla verði að stjórnvald þurfi að fara eftir ákvæðum um upplýsingaskyldu stjórnsýslulaga og geti sértæk ákvæði annarra laga ekki leyst embættismenn undan skyldum stjórnsýslulaga.

Kærendur fullyrða að þeim hafi aldrei verið birt viðmið um framfærslukostnað fyrr en óbeint með frumvarpi til greiðsluaðlögunar sem lagt hafi verið fram til kynningar. Í leiðbeiningum sem fylgdu bréfi, þar sem greint var frá því að umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt, komi fram að kærendur ættu að leggja til hliðar til greiðslu skulda. Engin fjárhæð hafi verið tilgreind eða nánari leiðbeiningar um hversu mikill þessi sparnaður hefði átt að vera, eins og embættið viðurkenni í greinargerð frá 21. ágúst 2012. Hver framfærsluviðmið væru, hafi ekki heldur verið upplýst fyrr en ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar hafi legið fyrir. Vafasamt sé að mati kærenda að það standist 7. gr. stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda að kærendur eigi að afla þessara upplýsinga sjálfir.

Að mati kærenda hafi það ekki verið fyrr en Landsbankinn hafnaði frumvarpi umsjónarmanns í ársbyrjun 2012 að fram hafi komið afturvirk krafa frá embætti umboðsmanns skuldara um sparnað. Hvorki embættið sjálft né umsjónarmaður virtust hafa gert þessa kröfu sjálfstætt eða tekið afstöðu til sparnaðar fyrr en Landsbankinn hafi gert kröfu um sparnað sem skilyrði fyrir samþykki fyrirliggjandi samnings.

Í 1. gr. lge. komi fram að markmið laganna sé að gefa einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Kærendum hafi tekist að selja íbúðarhús sitt í sveitarfélaginu E og leigi um stundarsakir húsnæði í Reykjavík sveitarfélaginu D. Með sölu hússins í sveitarfélaginu E hafi kærendum tekist að ná áfanga í lækkun skulda. Þar með hafi Landsbankinn að mestu leyti fengið uppfyllta kröfu sína um sparnað, þar sem allur sá sparnaður kærenda sem hafi farið í húsnæðið hafi nú farið til greiðslu á þeim skuldum sem hvíldu á húsinu. Því séu ekki lengur fyrir hendi ástæður til frávísunar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Embætti umboðsmanns skuldara ætti þar af leiðandi að geta tekið málið til meðferðar á ný og gert kærendum kleift að koma á því jafnvægi skulda og greiðslugetu sem 1. gr. lge. kveði á um.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Með ákvörðun umboðsmanna skuldara 15. nóvember 2010 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður var í kjölfarið skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Þann 22. febrúar 2012 barst embættinu bréf umsjónarmanns þar sem lagt var til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. þar sem kærendur hefðu ekki rækt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna stendur yfir. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem notið hafi frestunar greiðslna hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið skyldur samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar sé einnig að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda 15. nóvember 2010 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Kærendum hafi því mátt vera vel ljóst að þau skyldu halda þeim fjármunum, sem þau áttu aflögu í lok hvers mánaðar, til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Frestun greiðslna í máli kærenda hafi staðið yfir frá því í október 2010, eða í 19 mánuði. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara hafi greiðslugeta kærenda að jafnaði verið um 98.250 krónur á mánuði hið minnsta. Hafi þá verið tekið tillit til greiðslna til Avant, síðar Ergo, vegna bifreiðarinnar O og annarra framfærsluliða sem kærendur sjálfir hafi lagt til grundvallar.

Kærendur hafi staðhæft að þau hafi þurft að standa straum af kostnaði við viðgerðir á heimili þeirra að C götu nr. 6. Jafnvel þó unnt sé að telja þann kostnað til hefðbundins heimilisreksturs hafi kærendur ekki sýnt fram á kostnað við viðgerðir með reikningum eða öðrum haldbærum gögn innan hæfilegs tíma. Fyrir liggi að kærendur eigi samtals um 612.590 krónur á bankareikningum. Kærendur hafi sýnt fram á að þau hafi þurft að greiða uppsöfnuð vanskil vegna fasteignagjalda ársins 2011 að fjárhæð 309.765 krónur. Sé því ljóst að kærendum hefði átt að vera unnt að leggja fyrir sem nemi um 1.557.555 krónum frá því frestun greiðslna hófst að teknu tilliti til framfærslu, þar með töldum greiðslum vanskila vegna uppsafnaðra fasteignagjalda auk kostnaðar vegna ferða milli vinnustaðar kæranda A og heimilis kærenda. Kærendur hafi því ekki lagt fyrir nægilegt fé af tekjum sínum og öðrum launum á meðan frestun greiðslna stóð yfir.

Kærendur hafi borið því við að heimiliskostnaður þeirra hafi almennt verið hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara, en hafi að eigin sögn ekki getað stutt slíkar staðhæfingar með gögnum innan hæfilegs tíma. Umboðsmaður skuldara vísar til þess að leggja skuli til grundvallar að umsjónarmaður eigi ávallt að notast við það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við aðra og hærri framfærslu en þá sem reiknuð hafi verið fyrir umsækjendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. 

Líta verði til þess að umboðsmaður skuldara hafi tekið ríkt tillit til sjónarmiða kærenda þegar skoðað var hversu háa fjárhæð ætlast hefði mátt til að þau legðu fyrir samkvæmt 12. gr. lge. Hefði eingöngu verið miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara frá maí 2012 hefði mátt búast við að kærendur hafi getað lagt til hliðar 189.886 krónur á mánuði, sem á 19 mánuðum hefði numið 3.607.454 krónum. Að frádregnum vanskilum fasteignagjalda ársins 2011 hefðu kærendur þá átt að geta lagt fyrir 3.297.689 krónur. Vegna sérstakra aðstæðna kærenda hafi verið miðað við upplýsingar um útgjöld sem kærendur hafi sjálf gefið upp. Hefðu kærendur þar með átt að geta lagt fyrir 1.557.555 krónur eftir frádrátt vanskila vegna fasteignagjalda. Við töku ákvörðunar hafi kærendum því verið veitt mikið svigrúm vegna aukinna útgjalda. Kærendur hafi aðeins getað sýnt fram á bankainnstæður að fjárhæð 612.590 krónur. Embættið hafi þá talið liggja fyrir að kærendur hefðu ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og því hafi heimild til greiðsluaðlögunar verið felld niður með vísan til 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara áréttar að almennt sé ekki miðað við útgjöld sem séu hærri en framfærsluviðmið embættisins þegar áætlað er hversu mikið umsækjendur um greiðsluaðlögun eigi að hafa lagt til hliðar samkvæmt 12. gr. Í máli kærenda hafi þó ekki verið tilefni til annars en að leggja til grundvallar upplýsingar frá kærendum sjálfum þrátt fyrir að þær gæfu til kynna umtalsvert hærri útgjöld en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir og almennt skuli miða við í tengslum við greiðsluaðlögunarumleitanir, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge. Að mati umboðsmanns skuldara hafi embættið því upplýst málið nægilega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að teknu tilliti til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið talin ástæða til að draga það að taka ákvörðun í málinu.

Í tilefni af rökstuðningi kærenda með kæru tekur embættið fram að birt hafi verið ný framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara sem byggð séu á lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Þessi viðmið séu í flestum tilvikum umtalsvert hærri en bráðabirgðaviðmið umboðsmanns skuldara sem notast hafi verið við fyrir tilkomu framfærsluviðmiðanna. Þannig hafi bráðabirgðaneysluviðmið fyrir hjón með tvö börn verið 167.000 krónur á mánuði í mars 2012. Hið nýja framfærsluviðmið fyrir sams konar fjölskyldu hafi í maí 2012 gert ráð fyrir 278.220 krónum á mánuði. Umfjöllun kærenda um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara eigi þó ekki við í málinu þar sem fyrst og fremst sé byggt á upplýsingum um útgjöld frá kærendum sjálfum.

Þá gefi kærendur í skyn að starfsmaður umboðsmanns skuldara hafi fyrirfram gefið sér málalok við meðferð málsins. Af tilvitnun úr tölvubréfi starfsmanns sem kærendur vísi til sé ljóst að starfsmaðurinn lýsi stöðu málsins eins og hún hafi verið miðað við fyrirliggjandi gögn. Í kjölfarið hafi kærendum verið veitt tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og leggja fram gögn. Umboðsmaður skuldara hafni því að með þessu hafi starfsmaður embættisins tekið ákvörðun eða verið búinn að gefa sér niðurstöðu málsins fyrirfram, áður en rannsókn þess hafi verið lokið.

Varðandi þá eign sem kærendur telji sig ekki hafa ráðstöfunarrétt yfir sé það mat umboðsmanns skuldara að þrátt fyrir að kærendur geti ekki tekið fjármuni af hinum bundna bankareikningi séu þeir fjármunir samt sem áður eign þeirra. Eign þessi vegi upp á móti skuldum kærenda líkt og aðrar eignir þeirra. Af skýringum kærenda verði ráðið að þessum reikningi sé ætlað að vega upp á móti tiltekinni skuld við Landsbankann.

Þá vísi kærendur til þeirrar heimildar umboðsmanns skuldara að kalla skuldara á fund í tengslum við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 5. gr. lge. Heimildin varði meðferð máls þegar tekin sé ákvörðun um hvort heimild til greiðsluaðlögunar verði veitt. Heimildin taki ekki til meðferðar þegar fjallað sé um hugsanlega niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar. Hins vegar sé umboðsmanni skuldara ekki óheimilt að kalla skuldara á fund til þess að varpa ljósi á mál meðan fjallað sé um hugsanlega niðurfellingu heimildar til greiðsluaðlögunar. Í þessu tilviki verði þó ekki séð að það hefði varpað frekara ljósi á málið að fá kærendur á fund, enda hafi kærendur ekki tilgreint hvað hefði átt að koma fram á slíkum fundi sem ekki hafi komið fram við meðferð málsins.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari við greiðsluaðlögun leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fyrr greinir lagði umsjónarmaður það til með bréfi 22. febrúar 2012 til umboðsmanns skuldara að heimild kærenda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður þar sem kærendur hefðu að hans mati brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna stóð yfir.

Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur enga fjármuni lagt til hliðar frá því frestun greiðslna hófst í október 2010. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hefur greiðslugeta kærenda verið um 98.280 krónur á mánuði að meðaltali að teknu tilliti til framfærslu. Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærendum því átt að vera mögulegt að leggja til hliðar 1.867.320 krónur á 19 mánaða tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Að teknu tilliti til uppsafnaðra vanskila fasteignagjalda ársins 2011 sem námu 309.765 krónum hafi kærendum átt að vera mögulegt að leggja til hliðar 1.557.555 krónur í samræmi við skyldur þeirra samkvæmt a-lið 12. gr. lge. þar til ákvörðun umboðsmanns skuldara lá fyrir.

Í kæru kemur fram að framfærsla fjölskyldu kærenda hafi í raun verið 421.541 króna á mánuði en ekki 316.444 krónur eins og fram komi í endanlegu yfirliti um framfærslu og útgjöld í frumvarpi umsjónarmanns en umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana á því.

Til þess að umboðsmaður skuldara geti lagt mat á hvort undantekningar frá meginreglu eigi við um skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. verða að liggja fyrir viðeigandi gögn sem sýna fram á að fjármunum hafi í raun verið ráðstafað með þeim hætti sem haldið er fram. Kærendur hafa ekki lagt fram viðhlítandi gögn til stuðnings skýringum sínum um framfærslukostnað, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Er það mat kærunefndarinnar að jafnvel þó kærendum væri eftirlátið meira svigrúm til framfærslu en útreikningar umsjónarmanns miða við hafa kærendur ekki sýnt fram á að staða þeirra hafi verið þannig að þau hafi enga fjármuni getað lagt fyrir á 19 mánaða tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Í ljósi þess verður að fallast á það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi brugðist skyldu sinni við greiðsluaðlögun samkvæmt greindu lagaákvæði.

Í ljósi alls þessa verður því að líta svo á að fram séu komnar upplýsingar sem hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna og er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda því staðfest.

Þá er það mat kærunefndar að málið hafi verið nægilega rannsakað af hálfu umboðsmanns skuldara, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 5. gr. lge., enda hafi allar nauðsynlegar upplýsingar um hagi kærenda legið fyrir í gögnum málsins þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Kærunefndin telur að meðferð málsins miðað við fyrirliggjandi gögn hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum