Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 131/2012

Fimmtudaginn 7. ágúst 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 13. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 21. júní 2012 þar sem heimild til greiðsluaðlögunar var felld úr gildi.

Með bréfi 25. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. ágúst 2012. Greinargerð umboðsmanns var send kærendum með bréfi 14. ágúst 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum þeirra.

Umsjónarmaðurinn hélt fund með kæranda A 6. október 2011. Í kjölfar fundarins greindu kærendur frá því að tekjur kæranda B væru ekki í samræmi við gögn málsins. Benti umsjónarmaðurinn kærendum á að skila inn nýjum launaseðlum. Annar fundur var haldinn með kærendum 24. október 2011 þar sem farið var yfir drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunar. Í tölvupósti 27. október 2011 lýstu kærendur óánægju með kröfu umsjónarmanns um afhendingu nýrra launaseðla og gáfu til kynna að þau hefðu í hyggju að hætta greiðsluaðlögunarumleitunum. Umsjónarmaður sendi kærendum nýtt frumvarp til yfirlestrar 9. nóvember 2011, byggt á fyrirliggjandi gögnum. Svar barst frá kærendum 15. nóvember 2011 þar sem þau kváðust vilja hætta greiðsluaðlögunarumleitunum. Til stóð að kærendur hittu umsjónarmann í desember 2011 til þess að skrifa undir yfirlýsingu um afturköllun umsóknar um greiðsluaðlögun. Kærendur mættu ekki til þess fundar við umsjónarmann og svöruðu ekki tölvupósti hans í kjölfarið.

Með bréfi 14. febrúar 2012 tilkynnti umsjónarmaðurinn umboðsmanni skuldara að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Væri það mat umsjónarmanns að fella bæri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 29. febrúar 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir skyldu felldar niður. Í símasamtölum við starfsmann umboðsmanns skuldara í kjölfarið lýstu kærendur óánægju með störf umsjónarmannsins og greindu frá vilja sínum til þess að draga sig út úr greiðsluaðlögunarferlinu. Við bréfi umboðsmanns bárust hvorki formleg svör né gögn.

 

II. Sjónarmið kærenda

Málatilbúnað kærenda má skilja svo að gerð sé krafa um að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveðast óánægð með umsjónarmann þann sem þeim var skipaður og hafi þau verið búin að bíða eftir því að þeim yrði skipaður nýr umsjónarmaður. Þetta hafi eitthvað misskilist, bæði af hálfu kærenda og hjá embætti umboðsmanns skuldara. Kærendum hafi verið tjáð að þau gætu fengið annan umsjónarmann en ekkert hafi enn gerst.

Kærendum hafi verið skipaður umsjónarmaður í október 2011 og hafi þau farið yfir málin með honum. Fyrst hafi útreikningar umsjónarmannsins verið á þá leið að kærendur greiddu 530.000 krónur á mánuði en það hafi ekki komið til greina af hálfu kærenda. Í næsta skipti sem kærendur hafi hitt umsjónarmanninn hafi fjárhæðin verið komin í u.þ.b. 270.000 krónur og hafi kærendur verið jákvæðari gagnvart því. Umsjónarmaðurinn hafi verið með gögn frá kærendum og launaseðla en svo þegar þau hafi verið búin að samþykkja þessa fjárhæð, u.þ.b. 275.000 krónur, hafi umsjónarmaðurinn gert þá kröfu að þau leggðu fram nýja launaseðla til þess að kanna hvort kærendur gætu greitt hærri fjárhæð á mánuði.

Segir í kærunni að þótt kærandi B sé á sjó og með góðar tekjur muni kærendur ekki greiða svo háa fjárhæð á mánuði fyrir utan það að óvíst sé hversu lengi kærandi B geti unnið á sjó þar sem hann sé slæmur í baki, hné og öxl. Kærandi A sé öryrki og þau eigi langveikt barn. Ekkert af þessu virðist skipta máli. Hafi kærendum ekki þótt umsjónarmaðurinn gera nægilega miklar kröfur um niðurfellingu skulda en auk þess hafi kærendum verið gert að greiða bíl sem þau hafi átt en hafi verið tekinn og hann seldur aftur. Þá hafi kærendur átt fellihýsi sem tekið hafi verið haustið 2009 en kærendum sé engu að síður gert að borga. Kærendur séu búin að sætta sig við að „verða gerð upp“. Kærendur hafi beðið í hátt í tvö ár eftir niðurstöðu greiðsluaðlögunarumleitana en þau séu ekki vongóð um að ferlið verði til þess að hjálpa þeim. Þá kveðast kærendur reiðubúin að leggja fram nýja launaseðla ef þess gerist þörf og fái þau nýjan umsjónarmann með greiðsluaðlögunarumleitunum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er rakið að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 1. mgr. 16. gr. lge. sé kveðið á um að umsjónarmaður skuli, eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara.

Umsjónarmaður meti það svo að fella beri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli þess sem rakið hafi verið. Verði að leggja þær skyldur á kærendur að þau sýni samstarfsvilja og leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipta máli svo unnt sé að ljúka greiðsluaðlögunarumleitunum. Þá skuli leggja það til grundvallar ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana að umsækjendur hafi í tölvupósti til umsjónarmanns 15. nóvember 2011 lýst því yfir að þau vilji ekki halda umsókn sinni um greiðsluaðlögun til streitu. Telji umsjónarmaður því að kærendur uppfylli ekki skilyrði laga um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og fari fram á niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 15. gr. lge. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. 1. mgr. 16. gr. sömu laga.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara fyrir kærunefndinni er gerð ítrekuð grein fyrir ákvæðum 15. og 16. gr. lge. Segir í greinargerðinni að leggja verði áherslu á, svo sem gert sé í hinni kærðu ákvörðun, að á umsækjendum um greiðsluaðlögun hvíli skylda til að leggja fram nauðsynleg gögn um tekjur sínar undir meðferð máls þeirra sé þess óskað. Þá beri umsækjendum að bregðast eins fljótt við slíkri beiðni og unnt sé. Ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem breytt geti þeim forsendum sem synjun um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar sé byggð á.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að ákvörðunin verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 1. mgr. 16. gr. laganna þar sem rakið er ferlið við gerð frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skal umsjónarmaður, eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skal frumvarpið samið í samráði við skuldara. Er þannig gert ráð fyrir að skuldari hafi aðkomu að gerð frumvarpsins og láti að minnsta kosti í té þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til vinnslu þess.

Í 6. gr. lge. eru tilgreindar ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 101/2010 er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.

Svo sem rakið hefur verið hafa kærendur ekki orðið við ítrekaðri beiðni umsjónarmanns og síðar umboðsmanns skuldara um gögn, þ.e. launaseðla er sýna fram á raunverulegar ráðstöfunartekjur kærenda. Tilefni beiðni umsjónarmanns um afhendingu gagnanna eru yfirlýsingar kærenda sjálfra um að fyrirliggjandi launaseðlar gefi ekki rétta mynd af tekjum kærenda, en upplýsingar um tekjur kærenda verða að teljast nauðsynlegar til þess að greiðsluaðlögunarumleitunum verði fram haldið. Þá lýstu kærendur því ítrekað yfir undir meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara að þau vildu hætta greiðsluaðlögunarumleitunum en mættu svo ekki til viðtals við umsjónarmann til þess að undirrita yfirlýsingu þess efnis.

Í kæru segjast kærendur vilja halda greiðsluaðlögunarumleitunum áfram og að þau séu reiðubúin að leggja fram gögn verði þeim skipaður annar umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitununum. Það er ekki á færi kærunefndarinnar að skipa kærendum nýjan umsjónarmann og umbeðin gögn hafa ekki verið lögð fram undir meðferð málsins fyrir kærunefndinni. Hafa forsendur hinnar kærðu ákvörðunar því ekki breyst undir meðferð málsins hjá kærunefndinni en telja verður að kærendum hafi verið gefinn nægjanlegur kostur á að leggja fram hin umbeðnu gögn.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að fram séu komnar upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 15. gr. lge., og er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum