Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 184/2012

Mánudaginn 11. ágúst 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 28. september 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. september 2012 þar sem umsókn þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var hafnað. Rökstuðningur kærenda við kæru barst nefndinni 10. apríl 2013.

Með bréfi 10. apríl 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. maí 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 8. maí 2013 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust kærunefndinni 14. júní 2013. Með bréfi 30. september 2013 var kærendum tilkynnt með vísan til 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að afgreiðsla málsins myndi tefjast.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1963 og 1968, eru gift og búa ásamt fjórum börnum sínum í leiguíbúð að C götu nr. 45 í sveitarfélaginu D. Að mati kærenda má rekja greiðsluerfiðleika þeirra til þess að útgerðarfyrirtæki þeirra, X ehf., varð gjaldþrota. Eftir það hafi þau í mörg ár barist við að borga skuldir sínar og verið langt komin með það þegar KB banki hafi óskað eftir gjaldþrotaskiptum hjá þeim. Þá hafi þau misst húsnæði sitt að E götu nr. 50 í sveitarfélaginu D í september 2010. Auk þessa hafi kærandi A slasast árið 2006 og verið frá vinnu um nokkurra mánaða skeið. Tryggingar kærenda hafi verið það lélegar að hann hafi verið nánast launalaus á þeim tíma. Þá hafi kærandi B veikst af hjartasjúkdómi haustið 2010 og þurft að lækka starfshlutfall sitt um 50%.

Kærendur lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011. Við meðferð málsins kom í ljós að atvik er vörðuðu fjárhag kærenda þótti nauðsynlegt að skýra betur að mati umboðsmanns skuldara. Því var kærendum sent ábyrgðarbréf 28. febrúar 2012 þar sem þeim var boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að óskað hafi verið eftir upplýsingum um lán hjá Gildi lífeyrissjóði og frekari upplýsingum um lán hjá Z ehf. Hafi kærendum verið veittur ítrekaður frestur til skýringa og framlagningar frekari gagna, en umbeðin gögn og upplýsingar hafi ekki borist. Með ákvörðun 12. september 2012 var kærendum synjað um greiðsluaðlögun með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.)

 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru eru ekki settar fram neinar sérstakar kröfur, en skilja verður málatilbúnað kærenda þannig að þau krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í kæru sinni rekja kærendur að lánið hjá Z ehf. hafi verið skuldbreyting á eldra láni. Lán þetta hafi verið „tekið út“ og muni verða fellt niður ef til greiðsluaðlögunar komi. Þá hafi lánið hjá Gildi lífeyrissjóði verið tekið vegna kaupa á íbúðarhúsnæði sem kærendur hafi ætlað að flytja í. Húsnæði þetta hafi verið í sveitarfélaginu F, en fyrirtæki sem kærendur hefðu fengið vinnu hjá hafi farið á hausinn. Þá séu ógreiddir skattar sem á þeim hvíli í leiðréttingu og fyrir liggi samningur við Innheimtustofnun sveitarfélaga um greiðslu á barnameðlagi sem kærandi A skuldi.

Í athugasemdum við greinargerð umboðsmanns skuldara ítreka kærendur framkomin sjónarmið og bæta því við að heimili þeirra hafi orðið fyrir gríðarlegum áföllum og það sé þeirra mat að ekki hafi verið stofnað til skuldbindinga umfram það sem komi að heimilisrekstri og að vanda þeirra megi rekja að hluta til atvinnumissis kæranda A.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara fer fram á að ákvörðun um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar frá 12. september 2012 verði staðfest.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara segir að við mat á umsókn beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. greinarinnar komi fram að skylt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun með vísan til þeirra aðstæðna sem þar séu tilgreindar.

Í 4. gr. laganna séu raktar þær upplýsingar og þau gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til greiðsluaðlögunar. Þá segi í 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna að umsókn skuli fylgja lýsing skuldara á því hvað hafi valdið skuldastöðu hans, í 3. tölul. sömu greinar komi fram að skuldari skuli meðal annars gefa upp sundurliðaðar upplýsingar um fjárhæð skulda og í 5. tölul. hve stór hluti skulda stafi frá atvinnurekstri. Í 5. gr. laganna sé síðan kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti hann, ef þörf krefji, krafist þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.

Í greinargerð frumvarps til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga komi fram í athugasemdum við 4. gr. laganna að upptalning greinarinnar sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu. Einnig komi fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd.

Á umsækjendum um greiðsluaðlögun hvíli sú skylda að afla nauðsynlegra gagna, sérstaklega þeirra sem ekki sé á færi annarra en þeirra sjálfra að afla. Þá sé gerð sú krafa af hálfu embættisins að umsækjendur bregðist eins fljótt við og kostur sé í ljósi þess að þeir njóti sérstakrar verndar gegn ráðstöfunum kröfuhafa á meðan umsókn þeirra sé til meðferðar.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að óskað hafi verið eftir upplýsingum er vörðuðu fjárskuldbindingar kærenda. Gögn þau er embættið hafði undir höndum hafi þótt bera með sér að kærendur hefðu hugsanlega stofnað til skulda þegar þau voru greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge., þótt ekki hafi mátt ráða af gögnum málsins hvers eðlis umræddar skuldbindingar voru og hvort um skuldbreytingar hafi verið að ræða o.s.frv.

Í bréfi 28. febrúar 2012 hafi kærendum verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós á mati embættisins á aðstæðum þeirra sem þóttu geta leitt til synjunar á grundvelli b- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Þann 11. apríl 2012 hafi kærendur haft samband við embættið með tölvupósti og óskað eftir fresti til 10. maí 2012 til að koma frekari gögnum áleiðis, en þau hafi greint stuttlega frá því að skattamál þeirra væru í leiðréttingu hjá skattyfirvöldum. Þann 10. maí hafi þeim verið gefinn frekari frestur eða til 22. maí 2012 til að skila gögnum. Þann 22. maí 2012 hafi þau óskað eftir frekari fresti vegna alvarlegra veikinda dóttur þeirra og hafi þeim í kjölfarið verið veittur frestur til 25. júní. Hafi embættinu síðan borist svör 27. júní 2012 þar sem staða kærenda gagnvart tollstjóra vegna leiðréttinga var ítrekuð en einnig hafi þau gert stuttlega grein fyrir að aðrar skuldir væru tilkomnar vegna útgerðarfélags. Þann 22. ágúst 2012 hafi kærendum verið sendur tölvupóstur þar sem frekari upplýsinga hafi verið óskað með tilliti til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en áður hafi starfsmaður embættisins ítrekað reynt að hafa samband við þau símleiðis. Engin svör hafi borist við síðustu beiðni embættisins, þrátt fyrir að kærendur hafi verið upplýst um það að umsókn þeirra yrði synjað bærust engin svör á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. um óglögga mynd af fjárhag þeirra. Í ljósi þess dráttar sem þá þegar hafði orðið vegna ítrekaðra fresta vegna framlagningar gagna sem einungis hafi verið á færi kærenda að leggja fram, hafi kærendum verið synjað á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. enda hafi fyrirliggjandi gögn ekki gefið nægilega glögga mynd af fjárhag þeirra.

Þau gögn sem kærendur hafi lagt fram hjá kærunefnd gefi að mati umboðsmanns skuldara ekki tilefni til að hnika hinni kærðu ákvörðun, enda séu skýringar þeirra órökstuddar og almennar. Þá verði heldur ekki séð að kærendur hefðu átt í erfiðleikum með að koma umræddum upplýsingum áleiðis til umboðsmanns skuldara á meðan mál þeirra var til meðferðar hjá stofnuninni, en þessar upplýsingar, þó ófullnægjandi séu, hefðu hrint frekari vinnslu í framkvæmd af hálfu stofnunarinnar sem hefði þá leiðbeint þeim ítarlegar um efni þeirra gagna sem nauðsynlegt hafi verið að fá. Ekkert af þessu hafi hins vegar farið fram, enda hafi kærendur ekki hlutast til um að svara embættinu þegar eftir því hafi verið kallað. Kærendur hafi verið upplýst um að skortur á þessum upplýsingum myndi leiða til synjunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Með vísan til þess og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fari umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærendur sinntu ekki ítrekuðum óskum umboðsmanns skuldara um svör og gögn þrátt fyrir ítrekaða fresti sem þeim voru gefnir til þess.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Umboðsmaður skuldara óskaði eftir gögnum og/eða upplýsingum sem vörðuðu lán kærenda annars vegar hjá Z ehf. og hins vegar Gildi lífeyrissjóði. Þá fór embættið fram á upplýsingar er vörðuðu skattskuldir kæranda A og óskaði jafnframt eftir upplýsingum um vangreitt meðlag af hans hálfu.

Kærendur halda því fram í kæru og athugasemdum sínum við greinargerð umboðsmanns skuldara að fyrir liggi að lán þeirra hjá Z ehf. muni verða fellt niður ef til greiðsluaðlögunar komi. Þá halda kærendur því jafnframt fram að um skuldbreytingu á eldra láni hafi verið að ræða. Í gögnum málsins er ekki að finna nein gögn eða aðra yfirlýsingu en kærenda þessu til stuðnings. Þá halda þau því fram að skattskuldir kæranda A verði leiðréttar án þess að þær fullyrðingar séu studdar neinum gögnum. Einnig segja þau samning við Innheimtustofnun sveitarfélaga liggja fyrir vegna vangreidds meðlags, en ekkert er að finna í gögnum málsins sem rennir stoðum undir það. Þessar skýringar kærenda eru almennar og ekki fullnægjandi að mati kærunefndarinnar enda ekki studdar neinum gögnum. Hafa kærendur haft langan tíma og fengið ítrekaða fresti til þess að fullnægja skyldum sínum til að veita þessar upplýsingar sem nauðsynlegar verða að teljast til að greina megi fjárhagsstöðu þeirra til fulls.

Að öllu ofangreindu virtu er það mat kærunefndarinnar að á skorti að kærendur hafi sinnt óskum umboðsmanns skuldara um nauðsynlegar upplýsingar og gögn til að fyrir liggi glögg mynd af fjárhag þeirra eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur.

Að þessu virtu verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum